Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 141/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. september 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 141/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 12. október 2011 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði frá leikskólanum B. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með degi ákvörðunar þann 12. október 2011 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 18. október 2011. Auk þess sendi kærandi aðra kæru til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 6. desember 2011, eftir að Vinnumálastofnun hafði tekið mál hennar á ný til meðferðar samkvæmt beiðni kæranda og tilkynnt henni með bréfi, dags. 6. desember 2011, að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem ekki var séð að fyrri ákvörðun frá 12. október 2011 hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 3. september 2010. Þann 23. ágúst 2011 var ferilskrá kæranda send Reykjavíkurborg. Sama dag barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá leikskólanum B. Kærandi hafði verið boðuð í starfsviðtal hjá leikskólanum en hún var ekki reiðubúin að taka starfi.

Með bréfi, dags. 1. september 2011, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á umræddu starfsviðtali. Kæranda var veittur frestur í sjö virka daga til að koma að athugasemdum sínum. Þann 11. september 2011 barst skýringarbréf frá kæranda þar sem hún gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Segir meðal annars í bréfi kæranda að hún hafi ekki verið boðuð formlega í atvinnuviðtal en hringt hafi verið í hana. Hún hafi talið starfið of erfitt og að hún hefði önnur störf í sigtinu. Þá segir í bréfi kæranda: „Auk þess veit ég að konur yfir fimmtugu eru ekki ráðnar í vinnu í leikskóla. Starfið þykir of strembið fyrir þann aldurshóp. Þar að auki er ég offitusjúklingur með þunglyndi og kvíðaraskanir. Ég vonast til að ég verði ekki fyrir hrekkjum af þessu tagi í framtíðinni.“

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi úthlutunarnefndar Atvinnuleysistryggingasjóðs þann 12. október 2011. Með bréfi, dags. 14. október 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda ákvörðun nefndarinnar um að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það var mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á höfnun atvinnutilboðs gætu ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 24. nóvember 2011 barst Vinnumálastofnun læknisvottorð C heimilislæknis, dags. 18. október 2011, vegna kæranda. Í því kemur fram að kærandi hafi „átt við slitgigt í hnjám að stríða auk kvíða og þunglyndisraskana“. Enn fremur segir að útilokað sé að kærandi geti sinnt starfi á leikskóla. Kæranda var með bréfi, dags. 6. nóvember 2011, tilkynnt að stofnunin hefði yfirfarið ný gögn í máli hennar en að fyrri ákvörðun stofnunar skyldi standa.

Í fyrri kæru, dags. 18. október 2011, koma fram athugasemdir kæranda við umrætt atvinnutilboð. Kærandi bendir á að um sé að ræða misskilning. Kærandi hafi fengið símtal frá leikskólanum B og verið tjáð að þar vantaði starfskraft til áramóta kl. 13–17. Kærandi kveðst ekki hafa fengið upplýsingar um að við rökstuddu afsvari væru viðurlög og bendir á að krefjandi leiksólastarf sé ekki á allra færi.

Kærandi sé að leita að raunæfu framtíðarstarfi en ekki tímabundnu starfi, en hún sé með nokkur störf í sigtinu. Kærandi hafi verið í tilfallandi vinnu við leiðsögn í maí–október.  

Það sé því einlæg ósk kæranda að hún fái að vera á atvinnuleysisbótum og fái það andrými, ráðrúm og svigrúm sem hún þurfi á að halda til að geta fundið sér vinnu við sitt hæfi.

Í seinni kæru, dags. 6. desember 2011, bendir kærandi meðal annars á að hún hafi ekki getað mætt á fund sem hún hafi aldrei verið boðuð á. Þá hafi hvorki leikskólakennarinn sem hringdi í kæranda frá B né Vinnumálastofnun veitt henni þær upplýsingar að viðurlög væru við því að hafna starfi. Kærandi hafi af augljósum ástæðum sem fram komi í læknisvottorði ekki getað sent tilkynningu þess efnis að leikskólastarf henti ekki.  

Þá beri að virða kæranda mikinn vinnuvilja hennar. Hún hafi þegið öll störf í sínu fagi og allir vinnuveitendur hennar hafi sýnt því skilning að hún geti ekki sinnt erfiðum verkefnum.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. janúar 2012, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Sé fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir séu samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Sá tími hafi verið liðinn er kærandi hafi hafnað umræddu atvinnutilboði. Þá segi að heimilt sé að taka tillit til skertrar vinnufærni atvinnuleitanda við mat á því hvort ástæður séu gildar. Sjaldan muni þó reyna á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að atvinnuleitanda verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna. Svo segir: „Komi slíkar upplýsingar upp fyrst þegar starfið er í boði kann að koma til viðurlaga skv. 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína.“

Þegar kærandi hafi verið boðuð í atvinnuviðtal hjá leikskólanum B hafi Vinnumálastofnun ekki verið kunnugt um skerta vinnufærni hennar. Í umsókn um atvinnuleysisbætur sé ekki minnst á sjúkdóm kæranda eða að það gæti skert möguleika hennar á að taka almennum störfum.  

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal umsækjandi um atvinnuleysisbætur taka fram í umsókn sinni allar þær upplýsingar sem varða vinnufærni sína. Þá skal sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Enn fremur segir í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi meðal annars að kveða þurfi á um „skyldu hins tryggða til að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar með umsókn um atvinnuleysisbætur, svo sem hvort hann geti ekki unnið tiltekin störf vegna heilsu sinnar ásamt vottorði sérfræðilæknis því til stuðnings, sbr. 4. mgr., til að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa viðkomandi kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum þegar í upphafi“. Enn fremur segir að „láti hinn tryggði hjá líða að upplýsa stofnunina um atriði er skipt geta máli um tækifæri hans til að verða aftur virkur á vinnumarkaði getur það varðað tímabundnum missi atvinnuleysisbóta, sbr. 59. gr. frumvarpsins“. Mikilvægt sé að réttar upplýsingar liggi fyrir um starfshæfni atvinnuleitanda, meðal annars svo unnt sé í samræmi við vinnufærni hins tryggða að bjóða honum vinnumarkaðsaðgerðir og starfstengd úrræði við hæfi. Einnig vísar Vinnumálastofnun til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.  

Kærandi hafði ekki upplýst um skerta vinnufærni sína og var Vinnumálastofnun fyrst ljóst um framangreind atriði eftir að kærandi hafnaði atvinnuviðtali hjá leikskólanum B. Læknisvottorð það sem kærandi lagði fram sé gefið út eftir að hún hafnaði atvinnuviðtali og óskað var eftir skýringum frá henni. Þar sem Vinnumálastofnun hafði ekki verið upplýst um skerta vinnufærni kæranda og þar sem ekkert var skráð í umsóknum hennar sem gaf annað til kynna en að hún væri fullfær til vinnu, verði ekki lagt til grundvallar að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali sökum skertrar vinnufærni enda upplýsingar þess efnis of seint fram komnar. Vinnumálastofnun telur því að ástæður fyrir höfnun á atvinnuviðtali séu ekki gildar í skilningi 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 59. gr. laganna.

Af hálfu Vinnumálastofnunar sé ljóst að óskað hafi verið eftir að kærandi færi í atvinnuviðtal hjá leikskólanum B. Vinnuveitandi segi kæranda ekki hafa verið tilbúna til að taka starfi. Fyrsta málsgrein 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinnir ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga er að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi er boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf lítur Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. janúar 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. febrúar sama ár. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 20. janúar 2012, og auk þess bárust viðbótargögn 17. apríl 2012. Kærandi ítrekar fyrri sjónarmið sín í bréfum sínum. Hún bendir á að það hafi komið skýrt fram að hún hafi sótt um bætur haustið 2010 og þá verið tjáð að hún geti verið óáreitt á bótum í 38 mánuði.

Símhringingin frá leikskólanum B hafi verið undarleg þar sem kæranda hafi hvorki verið boðin starfslýsing né upplýst um launakjör. Tilboðið hafi komið flatt upp á kæranda og hún hafi sagt að hún hefði önnur áform. Þar með hafi samskiptum þeirra lokið og kærandi hafi aldrei verið boðuð í atvinnuviðtal. Kærandi telur að eðlilegra hefði verið að Vinnumálastofnun hefði boðað kæranda á sinn fund og kynnt henni hvað væri í boði og hvaða kosti hún hefði um að velja.

Kærandi hafi ekki vitað af því að henni bæri að senda Vinnumálastofnun óumbeðið læknisvottorð sem gefi til kynna að starf á leikskóla sé starf sem henti ekki viðkomandi. Þá hafi kæranda verið borið á brýn að hafa ekki mætt á námskeið um vinnumarkaðsúrræði, en það eigi ekki við rök að styðjast.

Kærandi sé nú í tímabundinni ráðningu í láglaunastarfi sem hún hafi fundið á eigin spýtur.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar eru tilgreindar ástæður sem geta komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. kemur fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Fjallað er um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir séu samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Sá tími var liðinn er kærandi hafnaði umræddu atvinnutilboði. Þá segir að heimilt sé að taka tillit til skertrar vinnufærni atvinnuleitanda við mat á því hvort ástæður séu gildar. Sjaldan muni þó reyna á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að atvinnuleitanda verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna. Loks segir um 57. gr. í greinargerðinni að komi slíkar upplýsingar upp fyrst þegar starfið er í boði kann að koma til viðurlaga skv. 59. gr. þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína.

Kærandi var boðuð í atvinnuviðtal hjá leikskólanum B og á þeim tíma var Vinnumálastofnun ekki kunnugt um skerta vinnufærni hennar sem hún upplýsti ekki um fyrr en með læknisvottorði, dags. 18. október 2011, eftir að hún hafnaði starfinu. Greiðslur atvinnuleysisbóta voru því felldar niður í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistrygginga.  

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að ástæðurnar fyrir höfnun hennar á starfinu hafi meðal annars verið þær að hún hafi verið að leita að framtíðarstarfi, starfið á leikskólanum hafi ekki hentað henni vegna andlegs og líkamlegs heilsufars hennar og að leikskólinn hafi verið langt frá heimili hennar.  

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hennar á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, enda lá hvorki fyrir læknisvottorð þegar Vinnumálastofnun tók ákvörðun í máli þessu né var það tekið fram í umsókn um atvinnuleysisbætur að kærandi stríddi við skerta vinnufærni. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. desember 2011 um staðfestingu á fyrri ákvörðun frá 12. október 2011 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta