Nr. 534/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 6. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 534/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050064
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 30. maí 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. maí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr., 75. gr. og 76. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. eða 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. september 2016. Með ákvörðun dags. 14. febrúar 2017 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Svíþjóðar á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 11. júlí 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og stofnuninni gert að taka mál kæranda til efnismeðferðar.
Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 14. desember 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. maí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, jafnframt sem kæranda var synjað um dvalarleyfi á grundvelli mansals eða gruns þar um. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 30. maí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 21. júní 2018. Þann 11. september 2018 bárust kærunefndinni viðbótargögn frá Útlendingastofnun. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 20. september 2018 ásamt talsmanni sínum og túlki.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann búi við ofsóknir í heimaríki sínu af hálfu einstaklinga sem selt hafi kæranda í mansal til Evrópu. Kærandi tilheyri því tilteknum þjóðfélagshópi sem þolandi mansals.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna mansals eða gruns þar um skv. 74. gr., 75. gr. og 76. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum rakin. Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í bænum […] í […] ættbálkahéraði í […] og tilheyri hann […] ættbálkinum jafnframt sem hann sé […]. Í héraðinu hafi tvær fylkingar […] verið virkar við öflun nýliða og hafi annar hópurinn lagt hart að föður kæranda að kærandi gengi til liðs við þá. Vegna ótta hafi fjölskylda kæranda flutt til […] þar sem faðir kæranda hafi hafið störf hjá bandarísku fyrirtæki að nafni […], en faðir kæranda hafi áður starfað sem héraðslögreglumaður. Hafi faðir hans fengið vitneskju um að einstaklingar sem vinni fyrir bandarísk fyrirtæki séu skotmark hryðjuverkasamtaka og af þeim sökum hafi fjölskyldan flutt til […] eftir nokkurra mánaða dvöl í […]. Á tímabilinu 2012-2013 hafi fjölskyldan síðan dvalið í […], en þar hafi maður sem tilheyri stjórnmálaflokknum […] gengið á milli húsa til að afla nýliða í flokkinn. Maðurinn hafi sýnt kæranda áhuga og ítrekað hvatt hann til að ganga til liðs við […] flokkinn. Hafi fjölskyldan því ákveðið að flytja í úthverfi […].
Eftir nokkra mánaða dvöl í […] hafi maður sem hafi verið kunningi foreldra kæranda komið á heimili kæranda og hvatt hann til að yfirgefa landið. Maðurinn hafi boðist til að aðstoða kæranda við förina og hafi hann útvegað kæranda ferðagögn jafnframt sem hann hafi skipulagt brottförina. Kærandi kvaðst ekki hafa viljað fara með manninum en hafi látið tilleiðast og farið ásamt hópi fólks til Ítalíu árið 2013. Í hópnum hafi verið þrír til fjórir fullorðnir einstaklingar sem hafi hver um sig annast þrjá einstaklinga. Hópnum hafi verið komið fyrir í litlu þorpi á Ítalíu þar sem þeim hafi verið útveguð vinna hjá vínframleiðanda þorpsins. Þegar kærandi hafi lýst yfir óánægju sinni og kvartað undan aðstæðum hafi maðurinn löðrungað hann.
Næst hafi maðurinn frá […] farið með kæranda til Svíþjóðar þar sem kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Í Svíþjóð hafi kærandi hitt konu sem hafi þekkt manninn frá […]. Hún hafi sagt kæranda hvað hann ætti að segja við sænsk stjórnvöld jafnframt sem hún hafi hótað kæranda lífláti ef hann myndi óhlýðnast. Kærandi hafi því farið í viðtal hjá sænskum stjórnvöldum og einungis sagt það sem honum hafi verið sagt að segja. Maðurinn hafi síðan farið aftur með kæranda til Ítalíu þar sem kærandi hafi þurft að vinna erfiðisvinnu. Dag einn hafi annar maður komið og valið kæranda úr hópnum til að koma með sér. Kærandi hafi spurt manninn frá […] hvað væri um að vera og hafi maðurinn tjáð kæranda að þetta sneri að kynlífsþjónustu. Kærandi hafi þverneitað að veita manninum kynlífsþjónustu og hafi kæranda í kjölfarið verið misþyrmt af manninum frá […]. Eftir að kærandi hafi verið búinn að jafna sig hafi maðurinn frá […] farið með kæranda til Finnlands þar sem hann hafi verið látinn sækja um alþjóðlega vernd, honum hafi verið lagðar línurnar um hvað hann ætti að gera. Sama fyrirkomulag hafi verið í Finnlandi og í Svíþjóð þó með minniháttar breytingum. Hafi kærandi dvalið í um tvo til þrjá mánuði í Finnlandi. Þaðan hafi hann svo farið til Spánar og þaðan til Belgíu. Kærandi hafi svo farið aftur til Spánar þar sem maðurinn frá […] hafi afhent honum vegabréf og farseðil og tjáð honum að hann ætti að fara til Íslands þar sem maður myndi taka á móti honum. Við komu sína til Íslands hafi kærandi gefið sig fram við öryggisvörð sem hafi farið með hann til lögreglunnar.
Kærandi hefur greint frá því að hann óttist um líf sitt jafnframt sem hann óttist að verða beittur ofbeldi verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi kveðst ekki treysta lögreglunni í heimaríki. Þá kveðst kærandi ekki hafa verið í sambandi við fjölskyldu sína í […] og einnig telji kærandi að stjúpmóðir hans hafi verið með í ráðum þegar kærandi hafi verið seldur í mansal. Yfirvöld í […] muni ekki veita kæranda aðstoð við heimkomu jafnframt sem kærandi verði neyddur til að ganga til liðs við einhvern [...] í […].
Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda. Þar er m.a. vísað í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 þar sem fram komi að alvarlegustu mannréttindabrotin í […] séu ólögmæt og skipulögð manndráp, mannshvörf, pyndingar og skortur á skilvirkni réttarríkisins. Meðal annarra alvarlegra mannréttindabrota séu veikt réttarkerfi og skortur á sjálfstæði dómstóla. Þá ríki spilling innan ríkisstjórnarinnar og lögreglunnar, en lögregluvernd sé afar ólík á milli héraða og afar veik þar sem ástandið sé verst. Þá eigi þvinguð mannshvörf og mannrán sér stað víðsvegar um landið og beinist gegn einstaklingum úr öllum stigum samfélagsins. Samkvæmt skýrslu breska innanríkisráðuneytisins sé skortur á eftirfylgni yfirvalda við refsingar í slíkum málum og þrífist mannshvörf í skjóli refsileysis þar sem rannsóknir málanna af hálfu yfirvalda séu ófullnægjandi.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem megi rekja til aðildar kæranda að tilteknum þjóðfélagshópi skv. skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að kærandi tilheyri hópi einstaklinga sem séu þolendur mansals og hafi kærandi ástæðu til að óttast hefndaraðgerðir mansala, tengsl stjúpmóður hans við mansala og að verða fyrir endurteknu mansali verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.
Kærandi heldur því fram í greinargerð að hann sé sur place flóttamaður, en samkvæmt skilningi Flóttamannasamningsins geta þeir sem ekki eru flóttamenn þegar þeir yfirgefa heimaríki orðið það síðar. Kærandi hafi yfirgefið heimaríki sitt gegn vilja sínum þegar stjúpmóðir hans hafi falið ókunnugum manni að fara með kæranda úr landi, í kjölfarið hafi kærandi verið hnepptur í mansal. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi í alþjóðlega samninga sem íslenska ríkið hefur gengist undir í þeim tilgangi að berjast gegn mansali. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum í heimaríki verði hann endursendur. Í greinargerð kemur fram að almennt öryggisástand í […] sé mjög ótryggt og að yfirvöld þ.m.t. herinn, beiti pyndingum og brjóti á mannréttindum, auk þess að stjórnvöld eigi í erfiðleikum með að tryggja borgurum vernd undan brotum óopinberra aðila. Þá þrífist handahófskennt ofbeldi og morð af hálfu stríðandi fylkinga í […], einkum í […] héraðinu þaðan sem kærandi kemur, hvort tveggja á milli stjórnmálahreyfinga og á milli þjóðarbrota. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis eigi hann á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem yfirvöld veiti honum ekki nægilega vernd gegn.
Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum um útlendinga komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans, s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað í að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Til þrautaþrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. september 2016. Frá þeim tíma séu liðnir um 22 mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi heldur því fram að skilyrðin séu uppfyllt í tilviki hans. Kærandi heldur því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál hans. Komist kærunefnd að þeirri niðurstöðu að eitt af skilyrðum a- til d-liðar 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi við sé nefndinni ekki annað fært en að víkja frá ákvæðinu vegna sérstakra aðstæðna í máli þessu. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að víkja frá 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þegar sérstaklega standi á.
Kærandi gerir athugasemdir við hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi telur kærandi að fyrirmælum sem beint hafi verið til Útlendingastofnunar í úrskurði kærunefndar, dags. 11. júlí 2017, hafi ekki verið fylgt auk þess sem stofnunin hafi horfið frá fyrra mati sínu, m.a. viðkvæmri stöðu kæranda og trúverðugleika án fullnægjandi rökstuðnings. Fram komi í fyrrnefndum úrskurði kærunefndar að frekari gögn þurfi að liggja fyrir svo hægt sé að leggja mat á frásögn kæranda varðandi heilsufar hans og hvort hann sé þolandi mansals. Útlendingastofnun hafi í kjölfarið talið nauðsynlegt að kærandi gengist undir sálfræðimat. Í sálfræðimati, dags. 10. febrúar 2018, komi fram að kærandi hafi hitt sálfræðing tvisvar sinnum í byrjun árs 2018. Þá kemur m.a. fram að kærandi hafi svarað DASS spurningalista sem meti alvarleika einkenna þunglyndis, kvíða og streitu. Niðurstöðurnar hafi sýnt alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða, en miðlungs streitu. Kærandi heldur því fram í greinargerð að niðurstöður umrædds sálfræðimats hafi ekki verið teknar til greina við mat stofnunarinnar á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þá hafi stofnunin ekki lagt mat á stöðu kæranda út frá niðurstöðum sálfræðimatsins og svo virðist sem sálfræðivottorðið hafi ekki haft þýðingu við úrlausn málsins hjá stofnuninni.
Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að töf hafi verið á máli kæranda hjá stofnuninni vegna öflunar gagna. Kærandi heldur því fram að vegna mistaka hjá Útlendingastofnun hafi annar umsækjandi um alþjóðlega vernd, sem heiti sama nafni og kærandi, verið boðaður til sálfræðingsins. Af þeim sökum hafi meðferð málsins tafist töluvert hjá stofnuninni og mótmælir kærandi því að hann hafi sjálfur valdið töfum á málsmeðferð umsóknar sinnar. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar en stofnunin hafi metið frásögn kæranda varðandi aðstæður hans í […] ótrúverðuga. Þá hafi Útlendingastofnun talið bæði ótrúverðugt að kærandi hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi og að hann væri þolandi mansals. Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemd við aldursgreiningu kæranda og fjallar ítarlega um ónákvæmni röntgenrannsókna á tönnum til ákvörðunar á aldri. Að lokum heldur kærandi því fram að Útlendingastofnun hafi gerst brotleg við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hvorki kæranda né talsmanni hans hafi verið send tiltekin gögn sem lögð hafi verið til grundvallar ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað […] persónuskilríki og vegabréfi. Niðurstaða Útlendingastofnunar var að kærandi hefði sannað hver hann væri með fullnægjandi hætti.
Í málinu liggja fyrir gögn sem kærandi lagði fram til stuðnings auðkenni sínu hjá stjórnvöldum í Svíþjóð sem synjuðu umsókn hans um alþjóðlega vernd árið 2015. Samkvæmt ákvörðun sænskra stjórnvalda lagði kærandi fram handskrifuð gögn um auðkenni sitt, þ.m.t. fæðingarvottorð, og handskrifuð gögn um auðkenni einstaklinga sem hann kveður vera foreldra sína, þ.m.t. afrit af persónuskilríkjum, sem sænsk stjórnvöld mátu ekki trúverðug. Það var niðurstaða sænskra stjórnvalda að kærandi hefði ekki gert auðkenni sitt líklegt með framlögðum gögnum.
Til viðbótar við gögn sem lágu fyrir sænskum stjórnvöldum hefur kærandi m.a. lagt fram vegabréf, nr. […], með gildistíma frá […] til […]. Samkvæmt rannsókn vegabréfarannsóknarstofu lögreglustjórans á Suðurnesjum á vegabréfi sem kærandi hefur lagt fram er engin sjáanleg fölsun á gagninu. Aftur á móti hafi lögreglustjóranum borist upplýsingar frá tengilið lögreglu í […] sem bendi til þess að vegabréfið sé mögulega gefið út á ólögmætan hátt eða á grundvelli annars skilríkis sem gefið hafi verið út á ólöglegan hátt. Í umsókn komi t.d. fram að umsækjandinn sé sonur […] en frekari upplýsingar skorti til að sannreyna hver aðilinn er sem venjulega komi fram í umsóknum um vegabréf.
Að mati kærunefndar er niðurstaða vegabréfarannsóknar lögreglustjórans á Suðurnesjum ekki ótvíræð um að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram sanni auðkenni hans. Af gögnum málsins liggur fyrir að vegabréfið hafði verið gefið út þegar kærandi sótti um alþjóðlega vernd í Svíþjóð en að hann lagði það ekki fram við meðferð máls hans þar. Þá liggur fyrir að fæðingardagur kæranda í umræddu vegabréfi er skráður […] en samkvæmt upplýsingum frá sænskum stjórnvöldum gaf kærandi upp fæðingardaginn […] og lagði m.a. fram fæðingarvottorð hjá sænskum stjórnvöldum til sönnunar um þann fæðingardag. Jafnframt liggur fyrir að hjá sænskum stjórnvöldum kvað kærandi að faðir hans væri maður að nafni […]. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi lagt fram gögn hjá sænskum og íslenskum stjórnvöldum með mismunandi fæðingardögum og nöfnum föður. Að mati kærunefndar draga þessar upplýsingar enn frekar úr trúverðugleika vegabréfsins sem sönnun um auðkenni kæranda.
Að mati kærunefndar eru þessar upplýsingar þess eðlis að ekki verið litið svo á að kærandi hafi sýnt fram á auðkenni sitt. Kærunefnd telur þó ekki tilefni til að draga í efa að kærandi sé […] ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
[…]
Í ofangreindum gögnum kemur fram að þrátt fyrir að […] löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í […], en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um ætlaða glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri […] skýrslu. […] skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. […] skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda ætluðum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í […]. Þá hafi lögreglan í […] sett upp rafrænt kvörtunarkerfi til þess að taka á móti kvörtunum almennra borgara sem telji lögregluna ekki hafa sinnt skyldum sínum.
Þrátt fyrir að […] lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi, réttláta málsmeðferð og að enginn skuli sviptur lífi, eignum eða frelsi án dóms og laga þá hafi dómskerfið verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla, þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum einkum á sviði trúar- eða stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í […] þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. […] hafi heimild samkvæmt lögum að halda einstaklingum í 15 daga án þess að ákæra og mögulegt sé að framlengja varðhaldið með samþykki dómstóla. Synja megi einstaklingnum um leyfi til að ráðfæra sig við lögmann á meðan rannsókn standi. Þá sé ekki unnt að greiða tryggingu til að losna úr varðhaldi heldur sé það einungis háð ákvörðun formanns […].
Til að ganga úr skugga um að stjórnvöld taki ábyrgð á gjörðum sínum og ákvörðunum hafi sérstökum stofnunum verið komið á fót víðs vegar um landið og sé umboðsmaðurinn í […] dæmi um slíka stofnun. Á vefsíðu stofnunarinnar kemur fram að í […] sé starfandi umboðsmaður sem hafi það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna og koma í veg fyrir spillingu. Umboðsmaðurinn geti tekið til skoðunar öll ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins að undanskildum ætluðum brotum æðsta dómstólsins (e. High Court) og dómstóla sem vinni undir yfirstjórn hans.
Samkvæmt skýrslu stofnunar sem veiti ráðgjöf varðandi flóttafólk (e. Asylum Research Consultancy) er […] hérað á milli […] héraðs sem sé átakasvæði og […] héraðs sem sé talið eitt af öruggustu héruðum landsins ásamt […]. Í skýrslunni kemur einnig fram að ofbeldisbrotum hafi fækkað um helming í […] héraði milli áranna 2016 og 2017 sem hafi leitt til þess að héraðið hafi verið með lægsta hlutfall dauðsfalla í landinu.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Af greinargerð kæranda má ráða að ástæða flótta hans hafi verið ótti við hefndaraðgerðir mansala og að verða fyrir endurteknu mansali verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá kemur þar jafnframt fram að hann óttist samband mansalans við stjúpmóður hans. Samkvæmt greinargerðinni óttist kærandi um líf sitt verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá kvaðst kærandi ekki treysta lögreglunni í heimaríki sínu. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi ekki óttast ofsóknir í heimaríki en ástæða þess að hann vilji ekki fara þangað aftur sé að hann telji lífsgæði sín vera verulega minni þar en hér á landi. Hér hafi hann möguleika á að byggja upp líf sitt og verða nýtur þjóðfélagsþegn. Ljóst er því að frásögn kæranda hefur að þessu leyti í grundvallaratriðum breyst frá fyrri stigum máls hans hér á landi.
Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Þann 11. september 2018 bárust kærunefndinni gögn frá Útlendingastofnun, þ.e. ákvörðun sænsku útlendingastofnunar þar sem kæranda var synjað um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, skilríki foreldra kæranda og fæðingarvottorð kæranda.
Eins og að framan greinir var frásögn kæranda í viðtali í ósamræmi við þær ástæður flótta sem lýst var í greinargerð fyrir hans hönd hjá kærunefnd og frásögn hans á fyrri stigum málsins hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá er ósamræmi á milli þess sem kærandi bar fyrir sig þegar hann sótti um alþjóðlega vernd í Svíþjóð og þeirri frásögn sem hann ber fyrir sig hér á landi en umsókn hans um alþjóðlega vernd var einkum byggð á ótta við […]. Ennfremur er misræmi á milli þess aldurs sem kærandi gaf upp hér og í Svíþjóð. Þá er ósamræmi á milli frásagnar kæranda um þau tengsl sem kærandi kveður að séu á milli hans og konu sem hann segir nú vera ættleidda systur sína. Misræmi er á milli útskýringa kæranda á tengslum sínum við tiltekna menn sem kærandi taldi í Svíþjóð vera bræður sína en bar fyrir stjórnvöldum hér á landi að séu faðir sinn og frændi. Þá kvaðst kærandi í Svíþjóð að faðir hans hafi horfið eftir sprengingu í […] árið 2011 en hér bar hann fyrir sig að faðir hans hafi flust til baka til fyrra heimilis þeirra, sennilega árið 2013. Framburður kæranda um hvenær móðir hans hafi látist var einnig á reiki en hann nefndi í því sambandi árin 2008, 2010 og 2012 í viðtali hjá kærunefnd. Þá var misræmi á milli frásagna kæranda hér á landi og í Svíþjóð um þátttöku kæranda í starfsemi […]. Að auki er ekki fullt samræmi í frásögnum kæranda af aðstæðum sínum eftir að hann fór frá heimaríki. Vegna tilvísunar til málsástæðna kæranda hjá sænskum stjórnvöldum telur kærunefnd jafnframt rétt að halda til haga að niðurstaða sænskra stjórnvalda var að frásögn kæranda væri óljós. Þá væri innra ósamræmi í frásögninni auk þess sem hún væri ekki í samræmi við upplýsingar um aðstæður í heimaríki kæranda.
Þó svo að líta megi til þeirra útskýringa kæranda að misræmið í frásögn hans sem lýst er að framan kunni að vera til komið vegna hótana frá einstaklingum sem hann segist hafa óttast í Svíþjóð telur kærunefnd að það geti aðeins útskýrt hluta þess innra misræmis sem frásögn kæranda einkennist af. Í ljósi þess verður ekki komist hjá því að telja framburð kæranda ótrúverðugan að verulegu eða öllu leyti og verður því ekki byggt á honum í þessu máli, að frátöldum framburði kæranda af ástæðum flótta í viðtali hjá kærunefnd, þ.e.a.s. að hann óttist ekki ofsóknir í heimaríki heldur hafi farið þaðan í leit að betra lífi.
Efnahagslegar aðstæður teljast almennt ekki til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með vísan til skýrslna um heimaríki kæranda og mats á trúverðugleika framburðar kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið, þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda og mats kærunefndar á trúverðugleika hans telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, m.t.t. mats kærunefndar á trúverðugleika kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 4. september 2016. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 6. desember 2018, eru liðnir rúmir 27 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Eins og að framan greinir hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að auðkenni kæranda sé ekki upplýst. Að mati kærunefndar hefur kærandi jafnframt ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins m.a. þar sem hann hefur ekki veitt viðhlítandi upplýsingar og skýringar á auðkenni sínu og uppruna. Að mati kærunefndar eru skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki fyrir hendi. Kærunefnd hefur af framan fjallað um frásögn kæranda og metið trúverðugleika hennar. Með vísan til þess telur kærunefnd að kærandi hafi ekki veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls í skilningi d-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru rakin nokkur viðbótarskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. Athugasemdir við frumvarp til laga um útlendinga sem varð að lögum nr. 80/2016 má skilja á þann veg að mistök kunni að hafa verið gerð við setningu laganna og að undanþáguheimildin í 4. mgr. 74. gr. hafi átt að ná til 2. mgr. greinarinnar. Engu að síður verður ekki litið fram hjá því að texti laganna er skýr um það að undanþáguheimildin nær eingöngu til 3. mgr. og engin heimild er til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna. Kærunefnd telur því ljóst að þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði d-liðar 2. mgr. 74. gr. laganna sé ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefur tekið.
Í ljósi framangreinds er ekki ástæða til að fjalla um hvort kærandi hafi framvísað fölsuðum skilríkum til stuðnings umsóknar sinnar eða hvort hann hafi að öðru leyti en því sem að framan greinir átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengið innan tímamarka, sbr. a og d-lið 3. mgr. 74. gr.
Dvalarleyfi fyrir fórnarlamb mansals eða gruns þar um skv. 75. og 76. gr. laga um útlendinga
Í 75. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi í allt að níu mánuði leiki grunur á að viðkomandi sé þolandi mansals þrátt fyrir að skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. fyrrgreindra laga sé ekki fullnægt. Sama gildir um barn viðkomandi ef það er statt hérlendis með foreldri.
Í 76. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita þolanda mansals og barni viðkomandi sem statt er hér á landi endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar sérstaklega stendur á, þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sé ekki fullnægt, þegar það telst nauðsynlegt ýmist vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi eða að mati lögreglu vegna samvinnu viðkomandi við yfirvöld vegna rannsóknar og meðferð sakamáls. Í ljósi þess að kærunefnd hefur metið framburð kæranda ótrúverðugan að verulegu eða öllu leyti sem og þeirrar staðreyndar að lögreglan hafi ekki séð ástæðu til að rannsaka frekar meint mansal kæranda þá verður ekki byggt á því að kærandi sé þolandi mansals. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda séu ekki með þeim hætti að veita beri honum dvalarleyfi fyrir þolendur mansals eða gruns þar um, sbr. 75. og 76. gr. laga um útlendinga.
Athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Líkt og áður segir telur kærandi að fyrirmælum sem beint hafi verið til Útlendingastofnunar í úrskurði kærunefndar, dags. 11. júlí 2017, hafi ekki verið fylgt auk þess sem stofnunin hafi horfið frá fyrra mati sínu, m.a. viðkvæmri stöðu kæranda og trúverðugleika án fullnægjandi rökstuðnings. Þá gerir kærandi athugasemd við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar sem og það mat Útlendingastofnunar að töf hafi verið á máli kæranda hjá stofnuninni vegna öflunar gagna. Kærandi gerir einnig athugasemd við aldursgreiningu kæranda og fjallar ítarlega um ónákvæmni röntgenrannsókna á tönnum til ákvörðunar á aldri. Að lokum heldur kærandi því fram að Útlendingastofnun hafi gerst brotleg við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en hvorki kæranda né talsmanni hans hafi verið send tiltekin gögn sem lögð hafi verið til grundvallar ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda. Má því af greinargerð ráða að kærandi telji að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rökstuðningsreglu 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, andmælareglu 13. gr. og rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga við meðferð máls hans.
Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Samkvæmt 22. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun þess byggir á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skal í rökstuðningnum vísað til þeirra meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi aflað nýrra gagna í máli kæranda í þeim tilgangi að rannsaka mál hans betur. Kærandi hafi verið látinn ganga undir sálfræðimat og hafi niðurstaða matsins legið fyrir hjá Útlendingastofnun þann 22. febrúar 2018. Þá liggur fyrir í gögnum málsins að Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi ekki séð ástæðu til að hefja rannsókn á því hvort kærandi sé þolandi mansals með tilliti til frásagnar hans.
Kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, læknisfræðileg gögn í máli kæranda og gögn um heimaríki hans, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun hvað varðar trúverðugleika og mat á stöðu kæranda. Verður því ekki fallist á það með kæranda að skort hafi á rannsókn eða rökstuðning Útlendingastofnunar þegar stofnunin hafi horfið frá fyrra mati sínu, m.a. viðkvæmri stöðu kæranda og trúverðugleika.
Hvað varðar athugasemdir kæranda við aldursgreiningu hans þá bendir kærunefnd á að þó kærandi mótmæli niðurstöðum Útlendingastofnunar um aldur kæranda, þ.m.t. forsendum líkamsrannsóknar á tönnum kæranda, þá hafi kærandi samkvæmt vegabréfi sínu nú náð 18 ára aldri. Af því leiði að ekki sé hægt að leggja annað til grundvallar í máli kæranda en að hann sé fullorðinn einstaklingur. Er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þennan þátt málsins.
Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi, eins og hér stendur á, verið í nægilegu samræmi við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga sem og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.
Varðandi þá staðhæfingu kæranda að Útlendingastofnun hafi gerst brotleg við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá eru í IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 lögfestar meginreglur um andmælarétt. Þeim er einkum ætlað að tryggja að aðili máls geti gætt hagsmuna sinna með því að koma afstöðu sinni til málsins á framfæri við stjórnvöld. Kærandi telur að með því að hafa ekki verið kynnt gögn frá sænskum stjórnvöldum sem Útlendingastofnun hafi byggt á við ákvörðun í máli hans hafi stofnunin brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur að Útlendingastofnun hafi borið að bjóða kæranda að taka afstöðu til þeirra gagna sem stofnunin aflaði frá innflytjendayfirvöldum í Svíþjóð enda liggur fyrir að kæranda var ekki kunnugt um að gögnin hefðu bæst við mál hans, þau voru honum í óhag og höfðu verulega þýðingu fyrir úrlausn þess. Að því leyti hafi málsmeðferð stofnunarinnar ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Fyrir liggur að kærandi fékk aðgang að umræddum gögnum skömmu eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar var birt og hefur nú fengið tækifæri til að koma andmælum vegna þeirra gagna til kærunefndar útlendingamála. Þá hefur kærandi lagt fram greinargerð þar sem afstaða hans til gagnanna er skýrð og þess misræmis sem gætti á milli frásagna kæranda hér á landi og í Svíþjóð. Þá tók kærunefnd viðtal við kæranda og spurði hann um efni gagnanna frá sænskum stjórnvöldum. Eftir að hafa farið yfir gögnin og afstöðu kæranda til þeirra telur kærunefnd að ljóst sé að sá annmarki sem var á málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. Af framangreindum ástæðum er því ekki ástæða til að fella ákvörðun stofnunarinnar út gildi af þessum sökum.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir