Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 163/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 163/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17020031

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. febrúar 2017 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...], (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Finnlands.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests sbr. sama ákvæði.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 18. nóvember 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann sama dag, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Finnlandi. Þann 25. nóvember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Finnlandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 28. nóvember 2016 barst svar frá finnskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 8. febrúar 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Finnlands. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 14. febrúar 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 27. febrúar 2017.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Finnlands. Lagt var til grundvallar að Finnland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Finnlands ekki í sér brot gegn 33. gr. flóttamannasamningsins, 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 42. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Var kærandi ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Enn fremur var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Finnlands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að á meðan dvöl hans hafi staðið í Finnlandi hafi hann fengið fæði, húsnæði og dagpeninga frá finnskum stjórnvöldum. Hann hafi hins vegar ekki notið lögfræðilegrar aðstoðar við komu til landsins né á meðan umsóknarferlinu hafi staðið. Hann hafi beðið um aðstoð lögfræðings en ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni fyrr en hann hafi átt kost á því að kæra málið. Í viðtalinu hafi kærandi jafnframt gert athugasemdir við málsmeðferð finnskra stjórnvalda. Niðurstaða þeirra í máli hans hafi ekki átt við rök að styðjast og hafi byggst á því að [...] séu öruggir staðir og því hafi honum verið synjað um vernd og gert að snúa þangað aftur. Þá sé kærandi ekki frá [...]. Kærandi hafi því flúið og muni þess vegna verða drepinn af samtökunum verði honum gert að snúa aftur til [...]. Finnsk stjórnvöld hafi viðurkennt þá hættu sem hann standi frammi fyrir í heimalandi sínu en hafi ekki tekið tillit til þess við ákvörðunartöku í málinu.

Kærandi byggir á því í greinargerð sinni að finnsk stjórnvöld hafi sett sér stefnu í hælismálum sem hafi leitt til þess að mál hans hafi ekki verið skoðað á einstaklingsgrundvelli. Enn fremur að málsmeðferð finnskra stjórnvalda hafi verið haldin annmörkum sem leitt hafi til rangrar niðurstöðu í máli kæranda. Framangreindar fullyrðingar kæranda séu studdar opinberum og áreiðanlegum heimildum en þannig hafi innanríkisáðherra Finnlands meðal annars gefið frá sér yfirlýsingu um að finnsk yfirvöld hafi tekið ákvörðun um að feta í fótspor sænskra stjórnvalda um hertar kröfur vegna umsókna um alþjóðlega vernd. Þó synjunarhlutfall slíkra umsókna hafi verið hátt hafi finnsk stjórnvöld tekið ákvörðun um að herða skilyrði fyrir alþjóðlegri vernd enn frekar og [...]. Í maí 2016 hafi verið gerðar breytingar á útlendingalöggjöf í Finnlandi og beri þar helst að nefna að nú séu mannúðarleyfi ekki veitt til frambúðar en [...]. Í kjölfar þessa hafi finnska útlendingastofnunin gefið út nýjar viðmiðunarreglur við vinnslu umsókna um alþjóðlega vernd sem hafi falið í sér að [...]. Líti finnsk stjórnvöld svo á að framfarir hafi átt sér stað á þessum svæðum og að núverandi ástand í framangreindum löndum geri umsækjendum um alþjóðlega vernd kleift að snúa aftur til síns heima án þess að leggja líf sitt í hættu.

Þessa afstöðu finnskra stjórnvalda hafi Evrópska ráðið um flóttamenn (e. European Council on Refugees and Exiles) gagnrýnt og gefið það út að mat þeirra sé ekki í samræmi við raunveruleikann heldur séu þau einungis að fylgja framkvæmd sænskra stjórnvalda í blindni. Enn fremur hafi finnski Rauði krossinn gefið frá sér yfirlýsingu vegna lagabreytinganna og nýju viðmiðunarreglnanna og leggi áherslu á það að finnsk stjórnvöld líti ekki einungis til uppruna umsækjenda heldur afgreiði hverja umsókn að loknu einstaklingsbundnu mati og að þess sé gætt að endursending brjóti ekki gegn grundvallarreglunni um non-refoulement.

Jafnframt kemur fram í greinargerð kæranda að finnska útlendingastofnunin hafi [...]. Finnska útlendingastofnunin og finnski stjórnsýsludómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að [...]. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi hins vegar opinberlega hvatt ríki til að snúa ekki nokkrum einstaklingi gegn vilja sínum til svæða í [...] .

Enn fremur vísar kærandi til skýrslu umboðsmanns finnska þingsins frá 2015 en þar hafi komið fram að kvartanir hafi borist vegna málefna umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Þær lúti helst að ófullnægjandi ákvörðunum og að umsóknarferlið taki of langan tíma. Þá séu dæmi um að umsækjendur hafi orðið fyrir alvarlegum hatursglæpum og kynþáttafordómum. Reynsla kæranda af umsóknarferlinu í Finnlandi sé sú að ferlið hafi tekið langan tíma og að niðurstaðan hafi einungis verið byggð á því að kærandi geti flust innanlands [...] og verið öruggur þar. Notkun finnskra stjórnvalda á hugtakinu „örugg svæði“ beri ýmis sömu einkenni og notkun ríkja á listum yfir „örugg ríki“ en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi gagnrýnt notkun slíkra lista. Fari stjórnvöld þá leið að meta umsóknir eingöngu út frá slíkum hlutlægum viðmiðum geti það leitt til ómálefnalegrar málsmeðferðar þar sem ekki sé tryggt að hver umsókn sé metin sjálfstætt út frá aðstæðum hvers og eins. Einstaklingsbundið mat á aðstæðum hverju sinni sé kjarni flóttamannahugtaksins auk þess sem slíkt mat sé nauðsynlegt til að unnt sé að virða grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Synjunarhlutfall umsókna um alþjóðlega vernd frá [...]. Veki þetta upp áhyggjur af því að umsóknir einstaklinga frá [...] hljóti ekki nægilega skoðun í Finnlandi.

Kærandi vísar til skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá [...]. Þar komi fram að [...]. Megi því vera ljóst að ákvörðun finnskra stjórnvalda um að synja kæranda um alþjóðlega vernd og það mat þeirra að óhætt sé að endursenda hann til [...] sé í trássi við grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann telji ljóst að hann njóti verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Sérstaklega njóti kærandi verndar 2. mgr. 42. gr. laganna sem kveði á um bann við sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem mælt sé fyrir um í 1. mgr. ákvæðisins. Ákvæðið feli því bæði í sér bann við beinni endursendingu einstaklings til ríkis þar sem líf hans og frelsi kunni að vera í hættu og jafnframt bann við endursendingu til þriðja ríkis ef ekki sé tryggt að það ríki muni ekki senda hann áfram í slíka hættu. Með endursendingu kæranda til Finnlands muni Ísland gerast brotlegt gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, 42. gr. laga um útlendinga, 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að finnsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Finnlands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Finnlandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· 2016 Country Reports on Human Rights Practices – Finland (United States Department of State, 3. mars 2017),

· 2015 Country Reports on Human Rights Practices – Finland (United States Department of State, 13. apríl 2016),

· Comments by the UNCHR Regional Representation for Northern Europe on the draft Law Proposal of 15 April 2016 amending the Aliens Act of the Republic of Finland (UN High Commissioner for Refugees, maí 2016),

· Report to the Finnish Government on the visit to Finland carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 22 September to 2 October 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 20. ágúst 2015),

· Response of the Finnish Government to the report of the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) on its visit to Finland from 22 September to 2 October 2014 (Council of Europe: Committee for the Prevention of Torture, 6. október 2015),

· Amnesty International Report 2016/17 – Finland (Amnesty International, 22. febrúar 2017),

· Freedom in the World – Finland (Freedom House, 25. ágúst 2016),

· Upplýsingar af heimasíðu finnsku útlendingastofnunarinnar, www.migri.fi,

· Upplýsingar af heimasíðu Refugee Adivce Centre, www.pakolaisneuvonta.fi og

· Upplýsingar af heimasíðu Rauða krossins í Finnlandi, www.redcross.fi.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun Finnlands geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá stjórnsýsludómstólnum eiga þeir möguleika á því að kæra þá niðurstöðu til æðri stjórnsýsludómstóls að fengnu leyfi þess dómstóls. Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá hinum æðri stjórnsýsludómstól eða að ekki fékkst leyfi til að fara með umsóknina fyrir æðri stjórnsýsludómstólinn eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Þá er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ljóst að finnsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á lögfræðiþjónustu við meðferð máls síns hjá finnsku útlendingastofnuninni og á kærustigi. Umsækjendur eiga að sama skapi rétt á þjónustu löglærðra talsmanna í viðtölum sínum hjá útlendingastofnuninni en slík þjónusta er þó ekki endurgjaldslaus nema sérstaklega ríkar ástæður liggi að baki umsókn þeirra eða ef viðkomandi umsækjandi er fylgdarlaust barn.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins það með sér að stjórnvöld í Finnlandi veiti fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað (non-refoulement). Er þá sérstaklega litið til þess að þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að málsmeðferð finnskra yfirvalda sé nægilega vönduð og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að leita réttar síns auk þess að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendir til þess að [...] umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Finnlandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli. Vegna athugasemda í greinargerð tekur kærunefnd sérstaklega fram að þótt öryggisástand í [...]. Að mati kærunefndar er ekkert í þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram varðandi mál sitt hjá finnskum stjórnvöldum sem bendir til annars en að í Finnlandi hafi farið fram einstaklingsbundið mat á þeim aðstæðum sem bíða hans [...].

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Finnlandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Finnlands brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Finnlandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Finnlands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi, sem er ungur karlmaður, hefur greint frá því að hann sé [...]. Ekkert í gögnum málsins bendir því til þess að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að sérstakar ástæður mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 17. janúar 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 18. nóvember 2016.

Í máli þessu hafa finnsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Finnlands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta