Hoppa yfir valmynd

Nr. 518/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 518/2018

í stjórnsýslumálum nr. KNU18110024

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 25. október 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. ágúst 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 29. október 2018. Þann 5. nóvember 2018 barst kærunefnd tölvupóstur frá umboðsmanni kæranda með ósk um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar. Með tölvupósti, dags. 7. nóvember 2018, veitti kærunefnd kæranda frest til 14. nóvember 2018 til þess að skila inn greinargerð. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 14. nóvember 2018. Af greinargerð kæranda mátti ráða að þar væri óskað eftir endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupósti til kærunefndar þann sama dag staðfesti umboðsmaður kæranda að óskað væri eftir endurupptöku málsins.

II.            Málsástæður og rök kærenda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í beiðni kæranda kemur m.a. fram að kærandi hafi ekki verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendinga en hann telji sig engu að síður vera í slíkri stöðu. Kærandi hafi leitað sér sérfræðihjálpar utan Göngudeildar sóttvarna og hafi verið í vikulegri meðferð hjá sálfræðing. Hefur kærandi lagt fram gögn, þ. á m. vottorð sálfræðings, þess efnis. Í greinargerð sinni reifar kærandi einnig ástæður flótta frá heimaríki. Þá bendir kærandi á að hann sé af þjóðflokki hasara, sem sé ofsóttur minnihlutahópur í Afganistan og að kærandi sé á dauðalista Talibana þar í landi. Loks bendir kærandi á að hann sé kristinnar trúar en honum hafi verið hótað af einstaklingi af Pashtúna-þjóðflokki í Svíþjóð.

Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Stofnunin hafi ekki aflað almennilegra gagna um heilsu kæranda, m.t.t. mats á því hvort hann sé í viðkvæmri stöðu og búi við sérstakar ástæður. Kærandi bendir á að hann hafi ítrekað leitað eftir læknismeðferð vegna þvagfæravandamála hérlendis en ekki fengið, auk þess sem hann sé í strangri sálfræðimeðferð vegna áfallastreituröskunar sem ekki sé forsvaranlegt að rjúfa að svo stöddu.

Þá telur kærandi að hvorki Útlendingastofnun né kærunefnd útlendingamála geti haldið því fram að hann muni fá réttláta málsmeðferð í Svíþjóð öðru sinni, en hann hafi fengið lokasynjun þar í landi og því bíði hans einungis endursending til Afganistans. Þar sé hann í lífshættu vegna kynþáttar síns og trúar. Kærandi mótmæli því sem fram komi í úrskurði kærunefndar, að í Svíþjóð sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem einstaklingar eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), og vísar kærandi til ýmissa heimilda í því sambandi.

Kærandi bendir jafnframt á að hann hafi stofnað til sérstakra tengsla við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 32. gr. b reglugerðar um útlendinga. Hann tali fjögur tungumál en þrjú þessara tungumála komi mikið við sögu í starfi Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála. Hann hafi m.a. túlkað samtal við lækni fyrir annan umsækjenda um alþjóðlega vernd, en sá hafi átt að fara í aðgerð. Margir umsækjendur um alþjóðlega vernd séu verulega einangraðir hérlendis vegna ólæsis og tungumálaörðugleika, og sé kærandi reiðubúinn að aðstoða íslensk stjórnvöld við að koma upplýsingum á milli manna. Loks hafi kærandi ekki notið sálfræðimeðferðar í Svíþjóð og muni því eiga erfitt uppdráttar við endursendingu þangað.

Meðfylgjandi beiðni kæranda um endurupptöku er bréf, dags. 2. október 2018, þar sem fram kemur lýsing kæranda á ævi hans, aðstæðum í heimaríki og ástæðum flótta hans þaðan. Meðal fylgigagna með beiðni kæranda er einnig skimunarpróf sem metur einkenni áfallastreituröskunar (e. Impact of Event Scale-Revised) þar sem fram kemur að niðurstöður prófsins gefi til kynna að hann sé haldinn áfallastreituröskun. Þá fylgir beiðni kæranda einnig bréf frá sálfræðingi, sem staðfestir að kærandi hafi hitt sálfræðing í nokkur skipti á tímabilinu 2. október til 13. nóvember 2018. Með beiðni kæranda fylgja enn fremur komunótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. 2. maí til 22. október 2018. Loks fylgir beiðni kæranda bréf frá sálfræðingi og sérfræðingi í klínískri sálfræði, dags. 6. nóvember 2018, þar sem fram komi að engin klínísk sálfræði- eða geðlæknisaðstoð hafi verið í boði fyrir kæranda fyrr en hann hafi komið hingað til lands. Ef senda eigi kæranda til Svíþjóðar þá sé nauðsynlegt að tryggja honum viðeigandi þjónustu þar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar nr. 447/2018, dags. 25. október 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Svíþjóðar bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærunefnd mat stöðu kæranda ekki þess eðlis að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku annars vegar á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og hins vegar á því að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi verið í vikulegri meðferð hjá sálfræðingi, auk þess sem sérfræðingur í klínískri sálfræði hafi greint kæranda með áfallastreituröskun. Byggir kærandi á því að ekki sé forsvaranlegt að rjúfa þá meðferð sem hann sé nú í. Í greinargerð sinni lýsir kærandi því einnig að frá því að málsmeðferð umsóknar hans hafi hafist á vormánuðum 2018 hafi kærandi myndað sérstök tengsl við landið. Hann telji því að ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með síðari breytingum, eigi við í máli hans. Kærandi vísar til túlka- og tungumálakunnáttu sinnar sem myndi nýtast öðrum umsækjendum um alþjóðlega vernd. Þá bendir kærandi enn fremur á að honum sé kunnugt um að nýjar upplýsingar um heilsufar o.fl. hafi áður leitt til endurupptöku í stjórnsýslumáli sem sé sambærilegt máli kæranda og sökum jafnræðissjónarmiða óski kærandi eftir því að mál hans hljóti sambærilega meðferð hjá kærunefnd. Loks ítrekar kærandi að endursending hans til Svíþjóðar fari í bága við non-refoulement regluna.

Hvað varðar þá málsástæðu kæranda að hann muni ekki fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð né réttláta málsmeðferð þar í landi vísar kærunefnd til umfjöllunar um aðstæður og málsmeðferð í Svíþjóð framangreindum úrskurði, sem kærandi hefur óskað endurupptöku á. Kærunefnd telur að þær skýrslur og heimildir sem kærandi vísar til í greinargerð sinni með endurupptökubeiðninni séu ekki þess eðlis að líta verði svo á að áðurnefndur úrskurður nefndarinnar hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Vísar kærunefnd í því sambandi einkum til umfjöllunar nefndarinnar um aðgang kæranda að heilbrigðisþjónustu og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd, þ.m.t. viðbótarumsókna eftir að upphaflegri umsókn hefur verið synjað, í Svíþjóð.

Með hliðsjón af framangreindu ítrekar kærunefnd það sem fram kemur í fyrrgreindum úrskurði um að nefndin telji ekki hættu á að endursending kæranda til Svíþjóðar brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi áréttar kærunefnd jafnframt að Svíþjóð, eins og Ísland, er bundið af mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. 3. gr. sáttmálans og að þau réttarúrræði sem til staðar eru í Svíþjóð séu til þess fallinn að tryggja réttindi umsækjenda til raunhæfra réttarúrræða, sbr. 13. gr. sáttmálans. Þá tekur kærunefnd fram að athugun á málinu hefur ekki leitt í ljós að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Að mati kærunefndar breyta hin nýju gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi ævi hans og heilsufar ekki grundvelli máls kæranda hjá kærunefnd. Í fyrrgreindum úrskurði kærunefndar lá fyrir að kærandi hafði leitað til sálfræðings sem lagt hafði sjálfsmatskvarða fyrir kæranda, en niðurstaða hans gæfi til kynna að kærandi sýndi mikil einkenni áfallastreituröskunar. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, í áðurnefndum úrskurði kærunefndar frá 25. október 2018. Verður ekki séð að framangreindur úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfum kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Árni Helgason                                                                                  Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta