Nr. 327/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 15. júlí 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 327/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21050007
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 7. maí 2021 kærði maður sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisfangslaus (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. apríl 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Önnur varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd vegna ríkisfangsleysis með vísan til 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga. Þriðja varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Fjórða varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Fimmta varakrafa er að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti upphaflega um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 15. september 2017. Útlendingastofnun ákvað hinn 22. janúar 2018 að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur til Belgíu. Var ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 131/2018 hinn 20. mars 2018. Kærandi sótti í annað sinn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 7. ágúst 2018. Kærunefnd staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. desember 2018, um að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur að nýju til Belgíu með úrskurði nefndarinnar nr. 59/2019, dags. 12. febrúar 2019.
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi í þriðja sinn hinn 18. september 2019. Með úrskurði nr. 100/2020, dags. 22. apríl 2020, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. nóvember 2019, um að taka umsókn kæranda ekki til efnismeðferðar hér á landi og að hann skyldi endursendur til Belgíu. Hinn 28. apríl 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar sem var synjað af kærunefnd hinn 6. maí 2020. Hinn 15. október 2020 féllst kærunefnd á beiðni kæranda um endurupptöku, dags. 22. september 2020, með vísan til þess að meira en 12 mánuðir væru liðnir frá því að hann sótti síðast um alþjóðlega vernd hér á landi og að tafir á málinu yrðu ekki raktar til hans, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda var felld úr gildi og lagt var fyrir stofnunina að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun að nýju hinn 30. nóvember 2020 og 8. apríl 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. apríl 2021, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun birt fyrir kæranda og talsmanni hans hinn sama dag og kærð til kærunefndar útlendingamála hinn 7. maí 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda hinn 21. maí 2021 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem hann hafi neitað að sinna herkvaðningu árið 1999 og vegna stríðsástands þar í landi.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi vísar til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar, dags. 16. desember 2020, hvað varðar upplýsingar um almennt ástand í Aserbaísjan. Í greinargerð eru gerðar ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar. Athugasemdirnar lúta einkum að því að frásögn kæranda af herkvaðningu í heimaríki þegar hann hafi verið 18 ára að aldri hafi ekki verið talin trúverðug og því ekki lögð til grundvallar í málinu. Kærandi telur, m.a. með vísan til framlagðra gagna og stöðugs framburðar síns, að ekkert hafi verið ótrúverðugt við þann hluta frásagnar sinnar. Þá mótmælir kærandi þeirri framsetningu Útlendingastofnunar að hann hafi vísvitandi skýrt ranglega frá í viðtali hjá belgískum stjórnvöldum. Þá fær kærandi ekki séð hvers vegna ætti að gera þá kröfu til hans að hann hafi yfir ríkri þekkingu að ráða varðandi hvernig herþjónustu sé háttað í Aserbaísjan og hvaða viðurlög liggi við því að koma sér undan herkvaðningu. Kærandi telji ósanngjarnt að trúverðugleiki hans skuli dreginn í efa vegna þess að frásögn hans af því hver refsiramminn sé fyrir að koma sér undan herkvaðningu sé ekki í samræmi við landaupplýsingar. Ótti kæranda sé ástæðuríkur eftir sem áður og sé það ekki lengd refsingar sem hann óttist heldur aðstæður í aserskum fangelsum.
Kærandi byggir á því, með vísan til ótta hans við herþjónustu og að sæta óhóflegri refsingu fyrir að koma sér undan herkvaðningu, að hann tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi skv. skilgreiningu 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Trúverðugt sé að hann hafi verið kvaddur í herinn þegar hann varð 18 ára, enda kveði lög í Aserbaísjan á um herskyldu á þeim aldri. Ekki sé gert ráð fyrir þeim möguleika að hægt sé að sinna annars konar samfélagslegri þjónustu í stað herþjónustu og enn þann dag í dag séu ákveðnir hópar ofsóttir þrátt fyrir að trúarsannfæring þeirra banni þeim að taka upp vopn. Hætta sé á frekari átökum í Nagorno-Karabakh héraði í Aserbaísjan og telji kærandi því að ótti hans við að þurfa að taka þátt í átökum sé ástæðuríkur. Þá séu fjölmargar heimildir um refsingar þeirra sem hafi synjað því að gegna herþjónustu í Aserbaísjan. Kærandi telji, með vísan til framburðar síns og landaupplýsinga, að raunveruleg hætta sé á því að hans bíði óhófleg fangelsisrefsing í heimaríki fyrir að hafa komið sér undan herkvaðningu. Í því sambandi vísar kærandi m.a. til ítarlegrar umfjöllunar í framangreindri greinargerð til Útlendingastofnunar um bágbornar aðstæður í aserskum fangelsum.
Varðandi kröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, mótmælir kærandi því að hann hafi engin gögn lagt fram sem staðfest geta auðkenni hans. Í máli hans liggi fyrir mikið magn af málsskjölum frá fyrri málsmeðferðum, bæði hér á landi og í öðrum löndum, og sé hvergi í þeim gögnum að finna misræmi um nafn, fæðingardag eða annað sem auðkenni kæranda. Þá hafi kærandi lagt fram nokkurn fjölda skjala, þ. á m. afrit af fæðingarvottorði frá Sovétríkjunum og af asersku nafnskírteini, sem renni öll stoðum undir auðkenni hans. Kærandi telur því að leggja beri til grundvallar að ekki leiki vafi á því hver hann sé. Þá telur kærandi ljóst að hann uppfylli önnur skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Varakrafa kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar byggir á því að stofnunin hafi gerst brotleg við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að stofnunin hafi ekki kynnt sér þau gögn sem hann hafi lagt fram með fullnægjandi hætti.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það hafi verið mat stofnunarinnar að frásögn kæranda um herkvaðningu sem hann hafi vikist undan árið 1999 hafi verið ónákvæm og yfirborðskennd. Í því sambandi er vísað til þess að framburður kæranda hafi ekki gefið til kynna að hann hefði yfir ríkri þekkingu að ráða varðandi hvernig herþjónustu væri háttað í Aserbaísjan. Þá hafi ósamræmi verið í frásögn hans milli viðtala hjá íslenskum og belgískum yfirvöldum. Til að mynda hafi kærandi greint belgískum yfirvöldum frá því í viðtali hinn 18. janúar 2012 að hann ætti á hættu að sæta fimm ára fangelsisvist fyrir að hafa vikist undan skyldubundinni herþjónustu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 30. nóvember 2020 hafi hann hins vegar borið því við að fjórtán ára fangelsisrefsing bíði sín í heimaríki fyrir umrætt athæfi. Þá hafi gætt ósamræmis um önnur atriði, s.s. hvernig flótta hans frá heimaríki hafi borið að og hvort hann hafi neitað að undirgangast læknisskoðun í undanfara meintrar herkvaðningar. Var það mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda um að hafa sætt herkvaðningu sem hafi leitt til flótta hans frá heimaríki hafi verið ótrúverðug í öllum meginatriðum. Þá tók stofnunin fram að í öllu falli yrði ekki talið að kæranda biði fangelsisrefsing í heimaríki sem mætti telja óhóflega þunga.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að upplýsingar í gögnum frá belgískum yfirvöldum vegna umsókna kæranda um alþjóðlega vernd þar í landi vógu þungt í mati Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar hans. Í ljósi þess sendi kærunefnd fyrirspurnir á Útlendingastofnun hinn 14. júní 2020 um hvort umrædd gögn hefðu verið send í þýðingu og hvernig tryggt hefði verið að upplýsingarnar í þeim sem byggt var á væru réttar. Fram kom í svörum Útlendingastofnunar, dags. 14. og 15. júní 2021, að gögnin hefðu ekki verið send til þýðingar. Fulltrúi stofnunarinnar hefði stutt sig við þýðingarþjónustu Google (e. Google Translate) og þýtt þau orð sem hann hefði ekki skilið frá hollensku (flæmsku) yfir á ensku.
Kærunefnd telur ekki athugavert að Útlendingastofnun styðjist almennt við þýðingarþjónustu á borð við Google Translate við yfirferð málsgagna. Hins vegar telur kærunefnd athugavert að stofnunin þýði gögn, sem lögð séu til grundvallar við meðferð stjórnsýslumáls og hafi vægi við úrlausn þess, með slíkum hætti. Í máli kæranda liggur fyrir að upplýsingar í umræddum gögn frá Belgíu höfðu áhrif á mat Útlendingastofnunar á trúverðugleika frásagnar hans og voru honum í óhag. Kærunefnd telur ekki útilokað að formleg þýðing á gögnunum hefði getað haft áhrif á efnislegt mat Útlendingastofnunar í máli kæranda. Að mati kærunefndar bar Útlendingastofnun því að hlutast til um að gögnin yrðu þýdd með formlegum hætti og hefði það talist til vandaðra og góðra stjórnsýsluhátta.
Þá er það mat kærunefndar að tilefni hafi verið til af hálfu Útlendingastofnunar að rannsaka með ítarlegri hætti refsingar sem bíði þeirra sem komi sér, eða hafi komið sér, undan herkvaðningu í Aserbaísjan og með tilliti til þess hafi jafnframt verið tilefni til að rannsaka aðstæður í aserskum fangelsum. Telur kærunefnd að framangreindar upplýsingar verði að liggja fyrir svo unnt sé að taka fullnægjandi afstöðu til þess hvort kærandi eigi á hættu að sæta fangelsisrefsingu í heimaríki sem geti talist óhófleg í skilningi c-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Markmið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga er að tryggja að ákvarðanir stjórnvalda verði bæði löglegar og réttar. Kærunefnd telur að með framangreindum annmörkum á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun hafi stofnunin ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur þá annmarka verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.
Tómas Hrafn Sveinsson
Þorbjörg I. Jónsdóttir Bjarnveig Eiríksdóttir