Hoppa yfir valmynd

Nr. 268/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 268/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040011

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. apríl 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Líbanon (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. febrúar 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. október 2016. Með ákvörðun, dags. 12. desember s.á., komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi endursendur til Svíþjóðar á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 3. janúar 2017. Kærunefnd felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði nefndarinnar nr. 139/2017, dags. 14. mars 2017, og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 24. ágúst 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 9. febrúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 4. apríl 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 17. apríl 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að líf hans sé í hættu í heimaríki vegna ofsókna Hezbollah samtakanna og að hann geti ekki leitað ásjár lögreglu eða yfirvalda þar í landi. Þá geti hann ekki fengið fullnægjandi læknisaðstoð í heimaríki sínu vegna hjartaveikinda.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr., sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Framkvæmd frávísunar var frestað, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga þar til umsækjandi hefur verið metinn hæfur til millilandaflugs. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Fram kemur í greinargerð kæranda að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að helstu ástæðurnar fyrir flótta hans frá Líbanon séu annars vegar ofsóknir í hans garð af hálfu hryðjuverkasamtakanna Hezbollah og hins vegar alvarleg veikindi hans, en kærandi sé m.a. alvarlega hjartveikur. Kærandi hefur kveðið að hann sé fæddur og uppalinn í höfuðborginni Beirút í Líbanon. Hann sé súnní-múslimi og sem slíkur tilheyri hann minnihlutahópi gagnvart sjía-múslimum en meðlimir Hezbollah séu sjía-múslimar.

Í greinargerð kæranda kemur fram að árið 2008 hafi kærandi ferðast frá Líbanon til Kaíró í Egyptalandi og hitt þar einstaklinga sem hafi haft áhuga á samstarfi með honum en hann sé tónskáld. Þegar kærandi hafi snúið aftur til Líbanon hafi hann verið handtekinn á flugvellinum, tveir vopnaðir menn hafi bundið fyrir augun á honum og hann hafi verið færður í leigubíl á svæði innan flugvallarins sem tilheyri Hezbollah. Kærandi hafi verið yfirheyrður og spurður út í ferð sína til Kaíró. Samtökin hafi frétt að kærandi hygðist vinna með gyðingum en slíkt samstarf og flæði peninga til gyðinga sé samtökunum ekki þóknanlegt. Sími kæranda hafi verið tekinn af honum og hann skoðaður og síðan hafi pyndingar á kæranda hafist sem hafi m.a. falist í því að hönd og fótur kæranda hafi verið brotin. Kærandi hafi verið í haldi samtakanna í 10 daga og brotin hafi verið látin standa opin allan þann tíma. Í kjölfar frelsissviptingarinnar hafi kærandi farið að glíma við veikindi í hjarta. Aðspurður hvort Hezbollah hafi haldið áfram að fylgjast með kæranda eftir að hann hafi verið látinn laus úr haldi, kvaðst hann vera viss um að svo hafi verið. Hann óttist um líf sitt í Líbanon vegna Hezbollah þar sem það sem samtökin hafi sakað kæranda um sé alvarlegt í augum þeirra. Þá hafi kærandi greint frá því að Hezbollah hafi hótað honum því að næst yrði það ekki aðeins hönd hans og fótur sem þeir myndu brjóta, heldur yrði hann hálshöggvinn. Kærandi kveður að hann hafi leitað til lögreglu og óskað eftir því að leggja fram kæru á hendur Hezbollah samtökunum. Lögreglan hafi hins vegar neitað að hlusta á kæranda og ekki tekið við kærunni. Þá hafi kærandi leitað til hersins sem hafi ekki viljað aðstoða hann og ekki heldur aðrar lögreglustöðvar í landinu. Að sögn kæranda getur hann ekki búið annars staðar í heimaríki þar sem Hezbollah fylgist með öllum þeim sem komi inn í landið í gegnum flugvelli þess. Þá séu aðilar í ríkisstjórn landsins og háttsettir aðilar í hernum innan raða Hezbollah og jafnframt séu samtökin með tengsl við forseta landsins.

Fram kemur í greinargerð kæranda að hann hafi flúið Beirút og farið til fjalla eftir að hafa verið í haldi Hezbollah. Þar hafi hann verið andlega niðurbrotinn og við mjög slæma líkamlega heilsu en virkni hjartans hafi á þessum tíma verið í kringum 25%. Að sögn kæranda þurfi hann að fá gangráð eða hjartaígræðslu til þess að auka lífslíkur sínar. Kærandi kvað að hann hafi fengið einhver lyf í Líbanon en ekki þau réttu. Veikindin hafi versnað og að endingu hafi virkni hjartans farið úr 30% í 10%. Kærandi kveður að hann geti ekki fengið fullnægjandi læknishjálp eða hjartaígræðslu í heimríki. Þá þurfi kærandi jafnframt að fara í aðgerð vegna skaða í hryggjarliðum fjögur og fimm og gera þurfi aðgerð á hönd hans og fót eftir pyndingar Hezbollah. Þá sé hann með sykursýki og taki insúlín við því.

Í greinargerð kæranda er finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála í Líbanon. Helstu vandamál tengd mannréttindum í Líbanon séu pyndingar og misnotkun af hendi öryggissveita, slæmar og oft lífshættulegar aðstæður í fangelsum og takmarkanir á ferðafrelsi palestínskra og sýrlenskra flóttamanna. Hezbollah séu hernaðar- og stjórnmálasamtök og samtökin séu jafnvel með sterkari her en líbanska ríkið. Samtökin séu áhrifamikil og spili stórt hlutverk í stjórnmálum landsins, en á líbanska þinginu sitji 12 þingmenn frá samtökunum og tveir nefndarmenn frá samtökunum eigi sæti í 24 sæta ráðherranefnd þingsins. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum starfræki Hezbollah óopinbert öryggisfangelsi og stundi ólöglegar handtökur og varðhald. Einnig stundi samtökin persónunjósnir. Þá er að finna í greinargerð umfjöllun um ástand mála í heilbrigðiskerfi Líbanons. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni frá árinu 2015 megi rekja 47% dauðsfalla vegna langvinnra sjúkdóma í Líbanon til hjarta- og æðasjúkdóma. Há tíðni langvinnra sjúkdóma í landinu hafi á undanförnum árum lagst þungt á heilbrigðiskerfi landsins sem og fjárhag þess. Gríðarlegur fjöldi flóttamanna frá Palestínu og Sýrlandi hafi enn fremur þrengt verulega að heilbrigðiskerfi landsins og takmarkað aðgang að því.

Aðalkrafa kæranda er að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til stuðnings þeirri kröfu er m.a. vísað í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB frá 29. apríl 2004 um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Kærandi hafi lýst því að hafa verið frelsissviptur af vopnuðum meðlimum hryðjuverkasamtakanna Hezbollah árið 2008 og sætt pyndingum. Hann hafi greint frá því að hann hafi óttast um líf sitt í Líbanon vegna samtakanna og hafi ítrekað leitað til yfirvalda eftir hjálp en hvergi fengið aðstoð. Kærandi sé því í raunverulegri hættu verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis síns, sbr. 4. mgr. 4. gr. framangreindrar tilskipunnar. Þá geti kærandi ekki leitað til yfirvalda enda séu Hezbollah með umtalsverð völd í landinu. Með því að senda kæranda til Líbanon sé brotið gegn meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Með vísan til þess sem að framan greinir telji kærandi að veita skuli honum viðbótarvernd hér á landi enda séu skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er gerð sú krafa til vara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt, í þeim tilvikum þegar útlendingur er staddur hér á landi og getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, að veita viðkomandi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til greinargerðar með frumvarpi til laganna en þar komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans s.s. almennra aðstæðna í heimaríki, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Heildarmat skuli fara fram á öllum þáttum máls áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Til stuðnings framangreindri kröfu er vísað til þess að kærandi sé ekki, vegna alvarlegra veikinda í hjarta og hrakandi heilsufars, hæfur til millilandaflugs, og því ljóst að kærandi muni gangast undir aðgerð á hjarta hér á landi vegna alvarleika veikindanna. Af hálfu kæranda er áréttað það sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 11. janúar 2018, sem lagt hafi verið fram hjá Útlendingastofnun. Þar komi fram að hjartastarfsemi hans hafi versnað töluvert og einkenni hafi farið hægt og bítandi versnandi. Mikil hætta sé á hjartastoppi við þessar aðstæður. Þá bendir kærandi á að þótt hann fari í aðgerð hér á landi verði að líta til félagslegra aðstæðna hans og batahorfa. Heilsu kæranda hafi hrakað allverulega og ljóst sé að hann þurfi að vera undir ströngu eftirliti lækna en ákveðnir annmarkar séu á heilbrigðiskerfinu í Líbanon. Kærandi muni því að líkindum ekki hljóta þá áframhaldandi heilbrigðisaðstoð í heimaríki sem honum sé lífsnauðsynleg vegna þeirra alvarlegu veikinda sem hann glími við.

Til þrautavara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga enda uppfylli hann skilyrði a-d liðar 2. mgr. 74. gr. auk þess sem ekkert af ákvæðum a-d liðar 3. mgr. 74. gr. eigi við í máli hans. Í ákvæðinu komi fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. Fram kemur í greinargerð að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd þann 18. október 2016 og því séu liðnir 18 mánuðir frá umsóknardegi þann 18. apríl 2018.

Varðandi flutning innanlands kemur fram í greinargerð kæranda að við mat á því hvort einstaklingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta upprunalands þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum viðkomandi og þeim aðstæðum sem séu í landinu. Þá komi fram í athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta heimaríkis sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf og að einstaklingur sem sæti ofsóknum þurfi ekki að hafa útilokað alla möguleika í heimaríki sínu áður en hann sæki um alþjóðlega vernd í öðru landi. Beiting ákvæðisins geti aðeins komið til sem hluti af mati á því hvort viðkomandi einstaklingur teljist flóttamaður. Fram kemur í greinargerð að kærandi hafi greint frá því að Hezbollah hafi sterk ítök alls staðar í landinu, samtökin séu með tengsl inn í stjórnkerfi landsins og við forsetann. Samtökin fylgist auk þess vel með för fólks inn í landið á flugvöllum. Með hliðsjón af atvikum í máli kæranda sé því krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn fyrir hann.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til að sanna á sér deili. Kærandi fór því í tungumála- og staðháttapróf á vegum Útlendingastofnunar þann 23. nóvember 2017. Niðurstöður prófsins bárust stofnuninni þann 5. desember 2017 þar sem staðfest var að kærandi væri frá Líbanon og talaði mállýsku sem væri töluð í Beirút. Að teknu tilliti til niðurstöðu prófsins og ágætrar þekkingar kæranda á Líbanon lagði Útlendingastofnun til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi væri frá Líbanon. Við málsmeðferð sína hjá kærunefnd hefur kærandi lagt fram afrit af líbönskum persónuskilríkjum og ökuskírteini. Leggur kærunefnd til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé líbanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Líbanon m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Country Reports on Human Rights Practices - Lebanon (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);

  • World Report 2018 – Lebanon (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Lebanon (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • 2016 International Religous Freedom Report – Lebanon (U.S. Department of State, 15. ágúst 2017);
  • Country Reports on Terrorism 2016 – Lebanon (U.S. Department of State, 19. júlí 2017);
  • Country Reports on Terrorism 2016 – Foreign Terrorist Organizations: Hizballah (United States Department of State, 19. júlí 2017);
  • Freedom in the World 2017 – Lebanon (Freedom House, 12. júlí 2017);
  • Annual Report 2016 - Lebanon (International Committee of the Red Cross, 23. maí 2017);
  • Hizbollah‘s Syria Conundrum. Middle East Report N°175 (International Crisis Group, 14. mars 2017);
  • Health profile 2015. Lebanon (World Health Organization, 2016);
  • Lebanon: Rectruitment practices of Hezbollah, including forced recruitment, such as Shi‘te youth; consequences for those that refuse to join; availability of state protection; regions controlled by Hezbollah, including ability to locate a person wanted by the group who returns to Lebanon; presence of Hezbollah spies or informers in areas outside the organization‘s control; whether Lebanese Shi‘ite students returning from international study are considered spies upon returning to the country (2013-October 2015) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 29. október 2015);
  • Lebanon: Health System Profile. Key health system indicators (World Health Organization, 2013) og
  • National Health Statistics Report in Lebanon (The Institute of Health Management and Social Protection at Saint-Joseph University, 2012).

 

Samkvæmt framangreindum gögnum er Líbanon lýðræðisríki með rúmlega sex milljónir íbúa. Rúmlega helmingur íbúa landsins eru múslimar, þar af eru 28,5% súnní-múslimar og 28,3% sjía-múslimar. Þá eru tæplega 37% íbúa landsins kristnir. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi þann 3. nóvember 1972 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 5. október 2000.

Af framangreindum gögnum má ráða að nokkuð skorti á réttindavernd tiltekinna minnihlutahópa í Líbanon, þ. á m. fatlaðs fólks og hinsegin fólks, auk þess sem mismunun gagnvart konum er viðvarandi í landinu. Alvarlegustu mannréttindabrotin í Líbanon eru handahófskenndar og ólöglegar aftökur og ofbeldi og pyndingar af hálfu öryggissveita landsins. Þá sé aðbúnaður í fangelsum og varðhaldi slæmur og takmarkanir á ferðafrelsi flóttamanna. Auk þess fyrirfinnst spilling víða á vettvangi hins opinbera og takmarkanir á borgaralegum réttindum, s.s. tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs.

Líbanska þingið er skipað 128 þingmönnum og er kjörið á fjögurra ára fresti. Þingið kýs forseta landsins á sex ára fresti. Töluverð ólga hefur ríkt í líbönskum stjórnmálum á síðustu árum og af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að spilling sé nokkuð ríkjandi innan stjórnkerfisins og ýmislegt varðandi stjórn landsins er ábótavant. Líkt og áður segir eiga þingkosningar að fara fram á fjögurra ára fresti en síðustu kosningar voru haldnar árið 2009 þar sem þingið hefur framlengt kjörtímabil sitt í þrígang. Boðað hefur verið til kosninga í maí 2018. Síðustu kosningar voru úrskurðaðar friðsamlegar, frjálsar og sanngjarnar en með minniháttar annmörkum s.s. kaupum á atkvæðum. Í október 2016 var Michel Aoun kjörinn forseti landsins og þar með lauk tveggja ára pólitískri pattstöðu en á tímabilinu tókst engum frambjóðanda að ná tilætluðum fjölda atkvæða.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að líbönsk yfirvöld hafa stjórn yfir hersveitum og öryggissveitum landsins. Hins vegar eru palestínskar hersveitir, Hezbollah samtökin og aðrir öfgahópar starfandi í Líbanon sem yfirvöld hafa ekki stjórn yfir. Hezbollah samtökin eru hernaðar- og stjórnmálasamtök og urðu til í kjölfar árásar Ísraels inn í Líbanon árið 1982. Meðlimir Hezbollah eru sjía-múslimar og njóta stuðnings fjölmargra sjía-múslima auk þess sem þeir njóta stuðnings frá hluta af kristnum íbúum landsins. Samtökin hafa töluverð ítök í Líbanon og taka virkan þátt í stjórnmálum landsins en samtökin eiga t.a.m. nokkra fulltrúa á líbanska þinginu. Hezbollah eiga jafnframt í nánu sambandi við írönsk og sýrlensk yfirvöld og hafa aðstoðað sýrlenska herinn m.a. með því að lána þeim mannskap. Þá stunda samtökin ólöglegar handtökur og varðhald og hafa auk þess lýst yfir ábyrgð á mörgum umfangsmiklum hryðjuverkaárásum. Yfirvöld í Líbanon hafa ekki ráðist í neinar aðgerðir á síðustu árum til þess að takmarka eða útrýma starfsemi Hezbollah í landinu. Varnir landsins gegn öðrum öfgahópum hafa þó verið efldar á síðustu árum s.s. með auknu eftirliti á landamærum og flugvöllum. Þá hafa líbönsk yfirvöld lagt aukna áherslu á að draga úr peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, þ. á m. af hálfu Hezbollah.   

Heilbrigðiskerfið í Líbanon samanstendur af einkareknum og opinberum heilbrigðisstofnunum en einkareksturinn er þó stærri. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að ástand heilbrigðismála í Líbanon hefur batnað til muna á síðustu árum, eftir að borgarastyrjöldinni lauk árið 1990. Verulega hefur dregið úr ungbarnadauða, lífslíkur batnað og fjöldi lækna í landinu aukist. Um helmingur íbúa í Líbanon er með heilbrigðistryggingu en þeir sem eru ótryggðir eiga kost á því að fá fjárhagslega aðstoð frá heilbrigðisráðuneytinu. Ráðuneytið greiðir 85% af sjúkrahúskostnaði ótryggðra og allan lyfjakostnað vegna krónískra sjúkdóma og hættulegra sjúkdóma. Önnur heilbrigðisþjónusta er að mestu leyti tryggð fyrir þann hóp sem er án sjúkratrygginga en þó eru dæmi um að einstaklingar eigi í vandræðum með að fá almenna þjónustu á heilsugæslustöðvum auk þess sem aðgengi að fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónusta er í sumum tilfellum ábótavant.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Krafa kæranda er byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu eftir að hafa verið í haldi Hezbollah samtakanna, árið 2008, þar sem hann hafi sætt pyndingum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. ágúst 2017 greindi kærandi frá því að ástæða frelsissviptingarinnar hafi verið sú að hann hafi hitt evrópska einstaklinga í Kaíró og ákveðið að vinna með þeim að tónlist. Að sögn kæranda hafi yfirvöld í Líbanon ekki viljað aðstoða hann vegna ótta þeirra við samtökin. Kærunefnd telur frásögn kæranda af því ofbeldi sem hann var beittur af hálfu Hezbollah samtakanna vera trúverðuga og er því byggt á henni í þessum úrskurði.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má má ráða að Hezbollah samtökin hafa töluverð ítök í Líbanon og stunda m.a. ólögmætar handtökur og frelsissviptingar. Yfirvöld í Líbanon hafa ekki stjórn yfir samtökunum og hafa ekki gert tilraunir á síðustu árum til að berjast gegn samtökunum eða takmarka umsvif þeirra í landinu.

Af framburði kæranda hjá Útlendingastofnun má ráða að eftir umrætt atvik hafi Hezbollah samtökin látið kæranda lausan og hann hafi í kjölfarið flutt sig um set innan Líbanon og búið í landinu í þrjú ár án nokkurra afskipta af hálfu samtakanna. Að sögn kæranda hafi hvorki hann sjálfur né fjölskylda hans orðið fyrir hótunum eða ofbeldi af hálfu Hezbollah síðan kærandi yfirgaf Líbanon árið 2011. Þá hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn sem styðja þá fullyrðingu hans að hann sé í hættu í heimaríki. Þó kærandi kunni að hafa óttast um velferð sína í Líbanon eftir umrædda árás sem átti sér stað árið 2008 er ekkert sem bendir til þess að kærandi sé enn í hættu á því að verða fyrir ofsóknum af hendi Hezbollah snúi hann aftur til heimaríkis.

Með vísan til framburðar kæranda, framangreindra skýrslna og þess langa tíma sem er liðinn frá þeim tíma er kærandi kveður að hann hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu Hezbollah er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið varðandi þá hættu sem kæranda kunni nú að stafa af Hezbollah samtökunum og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hafi hann sótt um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga segir að um sé að ræða endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum. Þá sé ekki gert að skilyrði að útlendingur hafi fengið útgefið bráðabirgðadvalarleyfi skv. 77. gr. laganna.

Málsmeðferð kæranda hjá stjórnvöldum hér á landi hefur þegar verið rakin en fyrir liggur að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 18. október 2016. Málsmeðferð stjórnvalda vegna umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd hefur því samanlagt tekið tæpa 20 mánuði. Því telst skilyrði 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga, um að kærandi hafi ekki fengið niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða frá því að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd, uppfyllt.

Það er jafnframt mat kærunefndar að kærandi uppfylli skilyrði a. til d. liðar 2. mgr. 74. gr. útlendingalaga. Þá kemur til skoðunar 3. mgr. 74. gr. laganna. Þar segir að ákvæði 2. mgr. gildi ekki um útlending sem eitt eða fleira af eftirfarandi eigi við um:

  1. útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd,
  2. útlendingur hefur dvalist á ókunnum stað í meira en tvær vikur eða hefur yfirgefið landið án leyfis,
  3. útlendingur hefur veitt rangar upplýsingar um fyrri dvöl í ríki sem tekur þátt í Dyflinnarsamstarfinu eða í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns án þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði fengið fullnægjandi skoðun,
  4. útlendingur á sjálfur þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.

Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur til kynna að ákvæði 2. mgr. 74. gr. gildi ekki um kæranda af ástæðum sem raktar eru í a. til d. lið 3. mgr. 74. gr.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndarinnar að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar hvað varðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda er varðar umsókn hans um alþjóðlega vernd er staðfestur. Sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar er varðar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er felldur úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga.

 

The part of the decision of the Directorate of Immigration related to appellant’s application for international protection is affirmed. The part of the decision of the Directorate of Immigration in the case of the appellant related to residence permits on humanitarian grounds is vacated. The Directorate is instructed to issue residence permit for the appellant based on Article 74 of the Act on Foreigners.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta