Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 186/2002

Miðvikudaginn 6. nóvember 2002

186/2002

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir, og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru dags. 20. september 2002 kærir B, hrl. f.h. A synjun Trygginga­stofnunar ríkisins um slysabætur vegna vinnuslyss.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir að með tilkynningu um slys til Tryggingastofnunar dags. 11. júní 2002 tilkynnti kærandi um slys sem hann hefði orðið fyrir þann 20. maí 2002 við vinnu.  Nánari lýsing í tilkynningu er svohljóðandi:

„ Slasaði vann við að setja í gler þegar slysið átti sér stað. Var að lyfta upp glerrúðu þegar eitthvað virtist gefa sig í vinstri handlegg með tilheyrandi brestum og síðan fann viðkomandi hvernig vöðvi í upphandleggnum skrapp upp handlegginn.  Í kjölfarið varð  handleggurinn máttlítill og fann slasaði til verkja þegar komið var við hann.  Ákveðið var að fara upp á slysadeild þar sem úrskurðað var að vöðvafesting hefði gefið sig og slasaði þyrfti að gangast  undir uppskurð og vera í gifsi næstu 6-8 vikurnar og síðan í framhaldi af því að fara í einhverja endurhæfingu til að ná upp styrk.  Ekki var hægt að segja til um hvort um fullan styrk yrði að ræða.”

Í læknisvottorði dags. 19. júlí 2002 segir:

„ Rétthentur smiður.  Var við vinnu sína við að bera rúður og hafði flutt nokkrar.  Ætlaði síðan að lyfta enn þyngri rúðu er það small skyndilega í olnboganum.

   …..

   Klinisk skoðun staðfesti slit á biceps sinafestunni við olnboga með  kraftleysi við flexio og supinatio og “slyttislegan” vöðva.  Var strax tekinn til aðgerðar þar sem gerð var reinsertio á sinafestunni að hætti Boyed og Andersson. Við eftirlit í dag líta skurðir vel út og eru saumar teknir og hann fær nýtt gips.  Á erfitt með að beygja fjærliði þumals og vísifingurs og er með nálardofa á svæði n. medianus.”

Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 21. ágúst 2002.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„ Andsvör kæranda við þessu eru þau, að með ákvæðum þessarar 22. greinar er verið að greina slys frá sjúkdómi, en eins og vitað spretta þeir upp án utanaðkomandi atburðar og án vilja þess sem á í hlut. Frekari skerping felst í þessu ákvæði, að bótaskylda er ekki fyrir hendi, ef tjón­þoli er sjálfur valdur að tjóninu.

   Í þessu sambandi er vísað til fordæmisgefandi úrskurðar úrskurðarnefndar í málinu nr. 164/2001.

   Þar voru atvik þannig, að kærandi var að lyfta 160kg í bekkpressu á Íslandsmóti, er eitthvað gaf sig í öxlinni með þeim afleiðingum að sinar slitnuðu við axlarlið, sin í upphandleggsvöðva o.fl.

   Þetta tilvik var að áliti úrskurðarnefndarinnar talið flokkast sem slys. Fallist var á að um skyndilagan atburð væri að ræða í þeirri merkingu að hann sé óvæntur og utanaðkomandi þannig að tjón viðkomandi verði ekki aðeins rakið til atvika er varða tjónþolann sjálfan, heldur til þess að kærandi var að lyfta þungum lóðum sem orsakaði meiðslin. Í úrskurðinum er ennfremur eftirfarandi umfjöllun, sem vísað er til:

   "Við túlkun á ákvæðum almannatryggingalaga verður að líta til félagslegs eðlis löggjafarinnar. Skýra verður lögin þannig að tilgangi þeirra með tryggingavernd verði náð. Með þetta í huga telur nefndin að túlka verði hugtakið slys rúmum skilningi þannig að tjón kæranda verði rakið til slyss í skilningi laganna. Nefndin lítur svo á að þyngd lóðanna sé orsök slyssins. Eðli málsins samkvæmt er í lyftingum eins og mörgum öðrum íþóttum falin áhætta á meiðslum. Þungi lóðanna getur valdið slysi jafnvel þó að tekist sé á við þyngdir sem eru innan þess ramma sem viðkomandi íþróttamaður ræður almennt við. Að mati nefndarinnar hefur ekki verið sýnt fram á að meiðsl kæranda verði rakin til álagsmeiðsla."

   Á sama hátt og í þessu tilfelli var þyngd rúðunnar og hún sjálf það óvænta og utanaðkomandi, sem olli slysinu, en ekki sjúkdómur eða aðför tjónþolans sjálfs að sér.”

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 25. september 2002 eftir greinargerð Tryggingastofnunar.  Greinargerðin er dags. 11. október 2002.  Þar segir:

„ Í 22. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 kemur fram að slysatryggingar taka til slysa sem verða við vinnu. Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans, sbr. 2. málsl. l. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga, sbr. 9. gr. laga nr. 74/2002. Launþegar eru því ekki tryggðir vegna allra atvika, óhappa eða meiðsla sem geta átt sér stað við vinnu heldur einungis ef um slys er að ræða.

   Í greinargerð með 9. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 74/2002 kemur fram að í þágildandi lögum um almannatryggingar hafi ekki verið að finna skilgreiningu á hugtakinu slys. Tryggingastofnun ríkisins hafi hins vegar um áratuga skeið stuðst við þá skilgreiningu sem lagt var til að sett yrði í lögin og að hún sé í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð er í vátryggingarrétti og í dönskum lögum um slysatryggingar.

   Ákvæði þetta var sett inn í almannatryggingalögin í framhaldi af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2516/1998 frá 31. ágúst 2000 er varðaði slysahugtakið og úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga er fylgdu í kjölfarið. Þar hafði verið beitt víðtækari skilgreiningu á slysahugtakinu en áður, á þeim forsendum að hugtakið hafi ekki verið skilgreint sérstaklega í almannatryggingalögunum. Með lögum nr. 74/2002 var hins vegar fyrri framkvæmd staðfest.

Eitt af skilyrðum þess að um slys sé að ræða er að utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað í tengslum við hinn tryggða, þ.e. eitthvað verður að hafa gerst utan líkama hins tryggða. Það verður að hafa gerst eitthvað sem veldur tjóni á líkama hans og sem áhorfandi getur áttað sig á að hafi gerst. Þetta getur verið vandasamt að meta þegar skyndileg meiðsli eiga sér stað, eins og til dæmis vöðvaslit og tognun. Meginreglan er þó í raun alveg skýr: Svo framarlega sem aðstæður eru á þann veg sem hinn tryggði bjóst við, þ.e. ekki verða frávik frá þeirra atburðarás sem búast mátti við og engar óvæntar aðstæður koma upp, er ekki um slys að ræða. Ef meiðsli verða við að lyfta þungum hlut er um að ræða „innra” tjón sem ekki veitir rétt til bóta. Til að atvik teljist vera slys verður eitthvað óvænt að hafa gerst, t.d. það að hinn tryggði rennur til á hálu gólfi er hann lyftir hlut og fær þannig óvæntan slynk á bakið.

   A var að lyfta þungri rúðu er vöðvafesting í upphandlegg slitnaði. Það var ekki um neitt óvænt utanaðkomandi atvik að ræða, engin frávik urðu frá venjulegri atburðarás við að lyfta rúðunni. Fráleitt er að halda því fram að rúðan sé hið utanaðkomandi atvik. Það að vöðvafesting hafi gefið sig er innri atburður en ekki utanaðkomandi.

   Í greinargerð lögmanns kæranda er vísað til kærumáls nr. 164/2001 sem fordæmis. Í því sambandi verður að líta til þess að úrskurður í því máli var kveðinn upp fyrir gildistöku laga nr. 74/2002 og hefur því ekkert fordæmisgildi að því er varðar skilgreiningu slysahugtaksins.

   Í ljósi framangreinds var umsókn A um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga synjað.”

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 15. október 2002 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt hefur ekki borist.

Álit úrskurðarnefndar:

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi hafi þann 20. maí 2002 orðið fyrir bótaskyldu slysi  samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar ásamt síðari breytingum, en tilkynning um slys til Tryggingastofnunar er dags. 11. júní 2002.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir að með 22. grein laga nr. 117/1993 sé verið að greina slys frá sjúkdómi. Til frekari áréttingar þessari  túlkun segi í greininni að bótaskylda sé ekki fyrir hendi ef tjónþoli sé sjálfur valdur að tjóninu. Þá er í rökstuðningi kæranda  vísað til fordæmisgildis úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 164/2001 og sagt að þyngd rúðunnar sem kærandi lyfti  hafi valdið slysi því sem hann varð fyrir en ekki sjúkdómur eða aðför hans að sjálfum sér.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til 9. gr. laga nr. 74/2002 sem tekið höfðu gildi fyrir 20. maí 2002.  Samkvæmt þeim sé með slysi skv. 22. gr. laga nr. 117/1993 átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.  Launþegar séu því ekki tryggðir vegna allra atvika, óhappa eða meiðsla sem geti átt sér stað við vinnu heldur einungis ef um slys sé að ræða.  Þá segir að úrskurður nr. 164/2001 hafi verið kveðinn upp fyrir gildistöku laganna og hafi því ekki fordæmisgildi.

Í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar ásamt síðari breytingum segir:

,, Slysatryggingar taka til slysa við vinnu, iðnnám, björgunarstörf, hvers konar íþróttaæfingar, íþróttasýningar og íþróttakeppni, enda sé sá sem fyrir slysi verður tryggður samkvæmt ákvæðum 24. eða 25. gr.  Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.”   

Með lögum nr. 74/2002 var gerð breyting á almannatryggingalögum nr. 117/1993.  Í 9. gr. er slysatryggingaákvæði 22. gr. breytt þannig að upp í lögin er tekin sú skilgreining að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð.  Lögin tóku gildi áður en það slys varð sem mál þetta varðar.

Fyrir lagabreytinguna hafði umboðsmaður Alþingis gefið álit í málinu 2516/1998 dags. 31. ágúst 2000 þar sem slysahugtakið er skilgreint með rýmri hætti en áður hafði tíðkast af hálfu stjórnvalda.  Í kjölfar álits umboðsmanns fylgdu nokkrir úrskurðir úrskurðarnefndar almannatrygginga sem einnig byggðust á víðari skilningi m.a. með vísan til þess að slysahugtakið var ekki skilgreint í lagaákvæðinu sjálfu.  Með gildistöku laga nr. 74/2002 er fyrri og þá þrengri túlkun fest í sessi og verður ákvæðið nú skýrt í samræmi við orðanna hljóðan og það gert að skilyrði að sá atburður sem slysinu veldur sé utanaðkomandi og skyndilegur.

Í athugasemdum með 9. gr. frumvarps með breytingu á lögunum er sérstaklega vísað til skilgreiningar á slysahugtakinu í vátryggingarétti og dönskum rétti og verður réttarframkvæmd á þessum sviðum því höfð til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.  Úrskurður nr. 164/2001 hefur ekki lengur fordæmisgildi þar sem hann var kveðinn upp fyrir gildistöku laga nr. 74/2002.

Við úrlausn máls  þessa ber að líta til þess að eitt af skilyrðum þess að um slys sé að ræða er að utanaðkomandi atburður hafi átt sér stað í tengslum við hinn tryggða.  Eitthvað verður að hafa gerst sem veldur tjóni á líkama hans og áhorfandi getur áttað sig á að hafi gerst.  Meginreglan er sú að verði ekki frávik frá þeirri atburðarrás sem búast mátti við og engar óvæntar aðstæður koma upp, er ekki um slys að ræða.  Til að atvik teljist slys verður eitthvað óvænt að hafa gerst.

Kærandi var að lyfta þungri rúðu þegar vöðvafesting slitnaði.  Vandasamt getur verið að meta þegar skyndileg meiðsli verða svo sem vöðvaslit og tognun.  Líta ber til þess að ekki var um að ræða neitt óvænt utanaðkomandi atvik, þ.e.a.s. ekki voru tilgreind nein frávik frá venjulegri atburðarás við að lyfta rúðunni.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á að rúðan sé hið utanaðkomandi atvik.  Það að vöðvafesting gaf sig er innri atburður en ekki utanaðkomandi.  Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að skilyrði 2. málsliðs 1. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 ásamt síðari breytingum  varðandi slys sé ekki uppfyllt og bótaskyldu hafnað. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun  Tryggingastofnunar  frá 21. ágúst 2002 á umsókn um slysabætur vegna A er staðfest.

 

F.h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­­Friðjón Örn Friðjónsson, formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta