Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 8/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 8/2016


Ár 2016, föstudaginn 8. janúar, er tekið fyrir mál nr. 650/2015; kæra A og B, dags. 14. desember 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 3. júlí 2014. Útreikningur ríkisskattstjóra á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda var birtur þeim 11. nóvember 2014 og grundvallaðist hann á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2008 og 2009, nánar tiltekið lánum Lífeyrissjóðs X nr. 1 að 100% hluta og láni nr. 2 að 83% hluta. Kærendur gátu samþykkt leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar frá og með 23. mars 2015.

Með erindi til ríkisskattstjóra, dags. 26. febrúar 2015, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, óskuðu kærendur eftir breytingum á skattframtölum þeirra vegna tekjuáranna 2008 til 2009, nánar tiltekið því að lán Lífeyrissjóðs X nr. 3 (síðar nr. 4) yrði skráð í reit 5.2. á skattframtali þeirra þar sem það hafi verið tekið vegna endurbóta á fasteign þeirra. Þann 25. apríl 2015 var erindi kærenda hafnað. Þann 14. maí 2015 var kærendum tilkynnt að frestur þeirra til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar rynni út 20. maí 2015, sem og frestur þeirra til að kæra til úrskurðarnefndarinnar. Þann 20. maí sendu kærendur aðra samkynja athugasemd til ríkisskattstjóra og var henni einnig hafnað 10. desember sama ár. Þann 12. desember 2015 var kærendum tilkynnt að frestur þeirra til að samþykkja leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar rynni út 14. desember 2015, sem og frestur þeirra til að kæra til úrskurðarnefndarinnar.

Með kæru, dags. 14. desember 2015, er kærð endurupptaka leiðréttingar, sbr. 13. gr. laga nr. 35/2014, en í raun snýr kæran að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laganna. Kært er að því hafi verið hafnað að leggja lán nr. 3 til grundvallar útreiknings leiðréttingarinnar. Í kæru kemur fram að höfnunin hafi verið á þeim forsendum að ekki hafi verið talið sýnt fram á að lánið hafi sannanlega verið nýtt til fjármögnunar endurbóta á íbúðarhúsnæði kærenda. Enginn frekari rökstuðningur hafi fylgt höfnun ríkisskattstjóra og kærendur hafi engin tækifæri fengið til að skýra mál sitt betur frá því þau hafi skilað síðast gögnum þann 17. júlí 2015, þrátt fyrir að þau hafi ýtt við málinu í október og aftur í nóvember. Kærendur taka fram að það blasi við að höfnunin byggist á því að þau hafi ekki náð að leggja fram kvittanir sem séu eldri en svo að „skattskyldum aðilum“ beri að eiga þær í fórum sínum samkvæmt skattalögum. Vísa kærendur þar til svokallaðrar 7 ára reglu.

Kærendur krefjast þess að að lán nr. 3 verði tekið til grundvallar útreiknings leiðréttingarinnar enda telja þau að fullnægjandi skýringar séu til staðar með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014. Kærendur segja málsatvik vera þau að á árunum 2005-2007 hafi þau byggt 20 fm viðbyggingu og framkvæmt töluverðar endurbætur á einbýlishúsi sínu að M-götu. Nánar tiltekið hafi framkvæmdirnar verið þær að húsið hafi verið stækkað, lagfæring verið framkvæmd á þaki, skipt hafi verið um bílskúrshurðir, húsið málað, nýjar innréttingar settar í eldhús og þvottaherbergi, endurbætur unnar á rafmagni og pípulögnum, skipt um gólfefni í hluta hússins o.fl. Heildarkostnaður endurbóta hafi verið u.þ.b. 10.500.000 kr. og verið fjármagnaður með lausaskuldum á framkvæmdatíma og síðar með lífeyrissjóðsláni nr. 3. Það lán hafi sjálfkrafa verið fært í reit 5.5 (aðrar skuldir og vaxtagjöld) á skattframtali kærenda en ekki í reit 5.2 (vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota). Samkvæmt þeim upplýsingum sem kærendur hafi aflað voru á því tímabili sem um ræðir eingöngu endurbótalán frá Íbúðalánasjóði færð sjálfkrafa í reit 5.2. Kærendur segjast lítið hafa velt þessu fyrir sér og ekki hirt um að krefjast leiðréttingar, enda skipti það kærendur engu máli á þessum tíma. Jafnframt hafi kærendur litið svo á að þetta hlyti að vera rétt fyrst ríkisskattstjóri hafi fært lánið á þennan hátt. Kærendur segja framkvæmdir hafa verið kostaðar með ýmis konar skammtímafjármögnun á meðan þeim stóð en í lokin verið tekið lífeyrissjóðslán nr. 3 til að greiða upp framkvæmdakostnaðinn. Lánið hafi allt verið nýtt til endurbóta á fasteigninni. Það lán hafi síðar fengið nýtt númer, 4, er kærendur hafi fengið skilmálabreytingu vegna greiðsluerfiðleika þann 10. desember 2012.

Kærendur segja að þann 20. maí hafi þau gert athugasemd til ríkisskattstjóra þar sem óskað hafi verið eftir því að lán nr. 3 yrði tekið með að fullu við útreikning leiðréttingarfjárhæðar. Þann 3. júlí sl. hafi ríkisskattstjóri beðið um afrit af uppgreiðsluseðlum þeirra lausaskulda sem voru notaðar hafi verið til að fjármagna endurbæturnar. Þar sé um er að ræða 8-10 ára gömul skjöl og þar sem viðskiptabanki kærenda, Sparisjóður Y, sé ekki lengur ofan jarðar hafi það reynst þrautinni þyngra. Engu að síður hafi kærendum tekist að finna tvö reikningsyfirlit sem þau telji að sýni fram á að málflutningur þeirra sé réttur. Jafnframt hafi þau lagt fram staðfestingu frá Lífeyrissjóði X á uppgreiðslu lífeyrissjóðsláns sem sannanlega var tekið vegna húsnæðiskaupa árið 1992 og verið í reit 5.2 á skattframtali. Þeim skjölum hafi verið skilað inn 17. júlí 2015. Einnig hafi kærendur þá vísað í skattframtöl sem þau hefðu talið duga sem staðfesting á umræddum greiðslum.

Niðurstaða í máli kærenda hafi komið í tölvupósti kl. 21.30 að kvöldi þann 10. desember 2015 með þeim orðum að samþykkja hefði þurft fjárhæð og framkvæmd leiðréttingar 9. desember, eða sólarhring áður en niðurstaðan barst kærendum. Kærendur telja þetta hafa verið hroðvirknisleg vinnubrögð viðkomandi starfsmanns og efast um að beiðni þeirra hafi fengið eðlilega og sanngjarna málsmeðferð.

Varðandi rökstuðning vísa kærendur til þess að þau telja kröfu um afrit af uppgreiðsluseðlum lausaskulda ekki eiga sér lagastoð. Í raun skipti slík gögn engu máli í sönnunarfærslunni því skattframtöl kærenda sýni allt svart á hvítu, fyrir þá sem vilja sjá. Skattframtölin séu opinber skjöl, byggð á sönnum upplýsingum hvers tíma og hljóti því að teljast fullnægjandi upplýsingar sem beri að viðurkenna. Á vef ríkisskattstjóra komi eftirfarandi fram: „Skattskyldum aðilum ber að geyma bókhald sitt, bókhaldsfylgiskjöl og önnur bókhaldsgögn, þ.m.t. gögn sem varðveitt eru á tölvutæku formi, á örfilmu eða á annan sambærilegan hátt, í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs.“ Hvort einstaklingar skilgreinist með „skattskyldum aðilum“ skv. þessari grein viti kærendur ekki en árin sjö nái a.m.k. ekki til þessara ára sem hér sé fjallað um. Þess vegna geti ríkisskattstjóri ekki fellt umsókn kærenda á þeim forsendum að þau hafi ekki lagt fram afrit af uppgreiðsluseðlum þeirra lausaskulda sem voru notaðar til að fjármagna endurbæturnar. Alkunna sé að venjulegir Íslendingar fjármagna iðulega framkvæmdir við heimili sín með lausaskuldum og taki síðan langtímalán í verklok (enda hafi þeir sjaldnast þekkingu til að gera raunhæfar kostnaðaráætlanir áður en framkvæmdir hefjast – að undanskildum þeim sem hafi sérmenntun eða starfsþekkingu). Hæpið sé að krefjast þess að einstaklingar starfi eins og fyrirtæki eða fjármálastofnanir. Skattframtöl kærenda séu fullgild sönnun að lánið var tekið vegna endurbóta enda sýni þau eftirfarandi: Skuldir skv. lið 5.2 lækka að raungildi á byggingartímanum, þ.e. milli áranna 2005 og 2007, eða um 364.026 kr. á verðlagi ársins 2005. Þær lækka einnig á milli áranna 2007 og 2008 eftir uppgreiðslu. Á sama tíma og verðlagi hafi liður 5.5. hækkað um 9.994.726 kr. eða nánast um sömu upphæð og fjárhæð láns nr. 3. Kærendur taka fram að til að ná raunsannri og heiðarlegri niðurstöðu hafi þau dregið frá skuldir vegna ökutækja í lið 5.2 þar sem þær séu óskyldar og sjálfstæðar fjárskuldbindingar. Greinilegt sé að heildarskuld kærenda hækki nánast um framkvæmdaupphæðina og því hefði verið eðlilegra að títtnefnt lán félli undir lið 5.2 en ekki lið 5.5 á skattframtali kærenda. Ofangreint telji kærendur fullgilda sönnun þess að umrætt lán hafi verið tekið til endurbóta á húsnæði kærenda og eigi því að koma til grundvallar útreiknings leiðréttingarinnar með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014. Kæru fylgdi skuldayfirlit sem kærendur höfðu unnið.

            Þann 15. desember 2015 staðfesti úrskurðarnefndin móttöku á kæru og tók fram að af kæru mætti ráða að kærendur hygðust ekki leggja fram frekari gögn. Ef þau vildu gera það var þeim gefinn kostur á því og tekið fram að þau gögn gætu verið kvittanir og reikningar vegna endurbóta á fasteign kærenda á framkvæmdatíma, gögn er sýndu fram á skammtímafjármögnun á þeim tíma fyrir framkvæmdunum og gögn sem sýndu hvernig lánsfjárhæð hins umdeilda lífeyrissjóðsláns hafi verið nýtt til að greiða upp skammtímalánin. Tekið var fram að bærust engin gögn yrði málið tekið til meðferðar úrskurðarnefndarinnar eins og það lægi fyrir. Kærendur skiluðu viðbótargögnum 21. desember 2015. Var um að ræða ljósmyndir og teikningar frá framkvæmdatíma en engin fjárhagsleg gögn.

 

II.

 

Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að vaxtagjöld af því láni hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða hluta, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Krafa kærenda felur því í raun í sér kröfu um að tiltekið lán þeirra nr. 3 (síðar nr. 4)  hjá Lífeyrissjóði X verði talið hafa uppfyllt skilyrði um ákvörðun vaxtabóta, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að því er snertir skilyrði, í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um að lán hafi verið viðurkennt sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, skal tekið fram að ríkisskattstjóri ákveður vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda ár hvert. Ákvæðið verður ekki túlkað með þeim hætti að í því felist heimild til að taka tillit til lána sem kunna að uppfylla skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 án þess að skattframtölum áranna 2009 og 2010 hafi verið sérstaklega breytt til samræmis.

Af framangreindu leiðir að krafa kærenda, eins og hún er orðuð, fellur ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 35/2014 og úrskurðarnefndin starfar samkvæmt. Af kæru er jafnframt ljóst að krafa um að lán verði viðurkennt sem grundvöllur vaxtabóta hefur fengið úrlausn og verið hafnað hjá ríkisskattstjóra. Samkvæmt framansögðu er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kærenda varðandi breytingu lána í lið 5.2 í skattframtölum þeirra.

Í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að þrátt fyrir að einstaklingur hafi fært verðtryggt fasteignaveðlán með þeim lánum á skattframtölum 2009 og 2010 sem ekki veittu rétt til vaxtabóta af vaxtagjöldum sé engu síður heimilt að óska eftir því að slík lán verði lögð til grundvallar útreikningi leiðréttingar, enda hafi lán þessi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði á því tímabili sem leiðrétting samkvæmt lögum þessum tekur til.

Kærendur hafa byggt á því að lán nr. 3 hjá Lífeyrissjóði X hafi alfarið verið nýtt vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði þeirra árin 2005 til 2007. Fyrir liggur að lánið var tekið á árinu 2007 og að það var skráð í reit 5.5. í skattframtali kærenda. Þrátt fyrir að kærendur hafi lagt fram gögn og ekki sé dregið í efa að þau hafi ráðist í endurbætur á íbúðarhúsnæði sínu verður ekki fram hjá því litið að þau hafa engin gögn lagt fram um skammtímafjármögnun framkvæmdanna á framkvæmdatíma, reikninga eða gögn vegna kostnaðar við framkvæmdina og síðan um ráðstöfun lánsfjárhæðar hins umdeilda lífeyrissjóðsláns til uppgreiðslu skammtímalána tengdum framkvæmdinni í heild eða að hluta. Engin gögn hafa því verið lögð fram um það að lán Lífeyrissjóðs X nr. 3 (síðar nr. 4) hafi sannanlega verið nýtt til endurbóta á íbúðarhúsnæði, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 35/2014. Sönnunarbyrði þar um hvílir á kærendum og hefur hún ekki tekist. Skiptir þar ekki máli þótt gögn þar að baki kunni að vera eldri en 7 ára gömul. Ákvörðun ríkisskattstjóra verður því ekki hnekkt. Kröfu kærenda er hafnað.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kröfu kærenda er hafnað.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta