Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 12/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 12/2016


Ár 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 1/2016; kæra dánarbús A, dags. 5. október 2015, móttekin hjá úrskurðarnefnd 4. janúar 2016. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 6. júní 2014. Kærandi lést þann 20. október 2014. Erfingjar dánarbúsins voru börn hins látna, öll yfir 18 ára aldri. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð dánarbúsins var samtals 1.397.115 kr. og var sú fjárhæð birt umboðsmanni kæranda 2. júlí 2015. Sama dag var tilkynnt um að fjárhæðin myndaði sérstakan persónuafslátt hjá dánarbúinu.

Umboðsmaður erfingja dánarbúsins gerði athugasemd til ríkisskattstjóra þann 31. júlí 2015. Þar kom fram að í kjölfar andláts hins látna hafi erfingjar dánarbúsins kannað hvernig leiðréttingarmálum yrði háttað. Svör ríkisskattstjóra til þeirra hafi öll verið á einn veg, þ.e. að engin leiðrétting yrði gerð þar sem umsækjandi hafi verið látinn og hafi hvorki látið eftir sig eftirlifandi maka eða börn undir 18 ára aldri. Var m.a. vísað til svars nánar tilgreinds starfsmanns ríkisskattstjóra sem sent var í tölvupósti þann 5. janúar 2015. Í ljósi þessara svara kváðust erfingjar dánarbúsins hafa selt fasteign þess og gert upp áhvílandi lán. Síðan hafi komið í ljós að dánarbúið hafi átt rétt á leiðréttingarfjárhæð og sé hún óumdeild. Þessi fyrri svör hafi þó haft í för með sér að áður en það hafi legið fyrir hafi verið gengið frá afsali vegna fasteignar dánarbúsins og uppgjöri lána. Því hafi engin lán verið til staðar og dánarbúinu ákvarðaður persónuafsláttur til nýtingar á gjaldárunum 2015 til 2018, en hann nýtist því þá aðeins að mjög takmörkuðu leyti. Orsakir þess séu marg ítrekaðar yfirlýsingar ríkisskattstjóra um að ekki yrði um leiðréttingu að ræða. Vísað er til þess að ríkisskattstjóri hljóti að vera bótaskyldur vegna þessara röngu upplýsingagjafar og nokkrar leiðir virðist vera færar til að lágmarka tjón vegna hennar. Í athugasemdinni eru gerðar þrjár tillögur um úrlausn. Í fyrsta lagi að greiða leiðréttingarfjárhæð beint til erfingja hins látna. Í öðru lagi að greiða leiðréttingarfjárhæðina til lánveitanda eins og umrædd lán væru enn til staðar. Þeir gætu þá greitt erfingjum leiðréttingarfjárhæðina. Í þriðja lagi að ákvarða dánarbúinu leiðréttingarfjárhæðina alla sem sérstakan persónuafslátt en útborganlegan í einu lagi gjaldárið 2015. Þann 8. október 2015 synjaði ríkisskattstjóri erindi erfingja dánarbúsins.

Með erindi til fjármála og efnahagsráðuneytisins, dags. 5. október 2015, lýsir B, f.h. erfingja dánarbúsins málavöxtum á sama hátt og í upphaflegu erindi þeirra til ríkisskattstjóra. Síðan segir að þar sem umrætt tjón dánarbúsins stafi af misvísandi afstöðu embættis ríkisskattstjóra, undirstofnunar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, liggi beint við að gera kröfu um að embætti ríkisskattstjóra eða ráðuneytið f.h. þess, hlutist til um að tjónið verði bætt dánarbúinu, þannig að það verði eigi lakar sett en það hefði verið ef í upphafi hefði legið fyrir að um höfuðstólsleiðréttingu yrði að ræða. Þá hefði sala íbúðar hins látna að sjálfsögðu verið látin bíða uns leiðréttingin væri í höfn.

Þann 4. janúar 2016 áframsendi fjármála- og efnahagsráðuneytið erindi dánarbúsins frá 5. október og 31. júlí 2015, til úrskurðarnefndarinnar með vísan til þess að erindið varðaði framkvæmd leiðréttingar sem sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

Úrskurðarnefndin óskaði þann 8. janúar 2016 eftir gögnum málsins frá ríkisskattstjóra. Þann 18. janúar 2015 bárust upplýsingar frá ríkisskattstjóra. Fram kom að túlkun ríkisskattstjóra, að höfðu samráði við fjármála - og efnahagsráðuneytið, hafi verið sú í upphafi að engin dánarbú ættu rétt á leiðréttingu, þ.e. ef að umsækjandi væri látinn þegar að birtingu leiðréttingarfjárhæðar kæmi yrði að vera til staðar eftirlifandi maki eða barn undir 18 ára aldri sem uppfyllti undanþáguskilyrði 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014. Síðari skoðun hafi leitt til þess að þeirri túlkun hafi verið breytt á þann veg að hefði umsækjandi sótt um í lifanda lífi en látist áður en leiðréttingarfjárhæð var samþykkt gæti einstaklingur sem fengið hafi leyfi til setu í óskiptu búi, fengið leyfi til einkaskipta eða verið skipaður skiptastjóri, væri um opinber skipti að ræða, samþykkt leiðréttingarfjárhæðina sem þá ráðstafist skv. 11. og 12. gr. laga nr. 35/2014. Ljóst sé að framangreind breyting á túlkun ákvæðisins hafi leitt til óhagræðis fyrir ofangreindan umsækjanda hvað ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar varðar. Ekki verði þó annað ráðið af lögum nr. 35/2014, en að ákvæði 11. og 12. gr. þeirra varðandi ráðstöfun leiðréttingarfjárhæð séu ótvíræð og því telji ríkisskattstjóri að ekki sé unnt að verða við beiðni erfingja dánarbúsins um að leiðréttingarfjárhæð hans verði ráðstafað með öðrum hætti sbr. niðurstöðu ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2015, við athugasemd.

 

II.

 

Hluti af ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á skuldar dánarbúið ekki fasteignaveðlán.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar er fjallað um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán er glatað hafa veðtryggingu sinni. Í 2. mgr. 11. gr. kemur síðan fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. sé hærri en 200.000 kr. skuli leiðrétting fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt lagagreininni. Að öðrum kosti fari um framkvæmd leiðréttingar samkvæmt 12. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að leiðréttingarfjárhæð sem ekki verður ráðstafað skv. 11. gr. myndi sérstakan persónuafslátt. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að sérstakur persónuafsláttur komi sem viðbót við almennan persónuafslátt við álagningu opinberra gjalda samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 66. gr., sbr. A-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þó þannig að hann skuli deilast jafnt niður á fjögur ár án vísitöluhækkunar. Þegar sérstakur persónuafsláttur hefur verið nýttur á móti reiknuðum tekjuskatti, útsvari og fjármagnstekjuskatti skuli sá hluti staðgreiðslu sem nemur eftirstöðvum sérstaka persónuafsláttarins greiddur út án álags samkvæmt 122. gr. laga nr. 90/2003, og að teknu tilliti til ákvæða 112. gr. sömu laga. Sá hluti sérstaka persónuafsláttarins sem ónýttur kann að vera yfirfærist á milli ára þar til hann er fullnýttur eða ráðstöfunartímabilið útrunnið. Ónýttur sérstakur persónuafsláttur millifærist á milli hjóna og samskattaðs sambýlisfólks við álagningu.

Ekki er byggt á því af hálfu dánarbúsins að ágreiningur sé um útreiknaða leiðréttingarfjárhæð. Ágreiningurinn takmarkast við framkvæmd leiðréttingar, nánar tiltekið það að leiðréttingin myndi sérstakan persónuafslátt hjá dánarbúinu. Ekki er til staðar lagagrundvöllur fyrir útgreiðslu leiðréttingarfjárhæðar, ráðstöfunar til fyrrverandi kröfuhafa eða því að persónuafsláttur komi til afgreiðslu á einu ári, s.s. krafist er af hálfu dánarbúsins. Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar á þá leið að hún myndi sérstakan persónuafslátt er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að leiðréttingarfjárhæð, 1.397.115 kr., myndi sérstakan persónuafslátt hjá kæranda, er deilist jafnt niður á fjögur nánar tilgreint ár, verður ekki hnekkt.

Umfjöllun um kröfur erfingja dánarbúsins um bætur vegna tjóns sem þau telja dánarbúið hafa orðið fyrir er utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, eins og það er afmarkað í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Kröfu um skaðabætur er því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar er staðfest. Kröfu um skaðabætur er vísað frá úrskurðarnefndinni.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta