Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 13/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 13/2016


Ár 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 2/2016; kæra A, dags. 7. janúar 2016. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.


Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 18. ágúst 2014. Sama dag sendi kærandi athugasemd til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í athugasemdinni kom fram að kærandi væri búinn að senda inn til ríkisskattstjóra beiðni um leiðréttingu á skattframtölum 2009 og 2010. Um væri að ræða lán frá lífeyrissjóðnum X nr. 1 að eftirstöðvum 24.695.179 kr. í árslok 2008 og 27.103.348 kr. í árslok 2009.

Athugasemdinni var svarað þann 24. maí 2015. Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að með úrskurði ríkisskattstjóra dags. 21. ágúst hafi ekki verið fallist á að lán nr. 1 uppfyllti skilyrði laga nr. 35/2014 um að vera skráð í kafla 5.2 á skattframtölum kæranda vegna áranna 2008 og 2009. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014 taki leiðrétting samkvæmt lögunum til verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá segi í 1. mgr. 3. gr. laganna að skilyrði sé að lánin hafi verið nýtt, að hluta eða að öllu leyti, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota á Íslandi og að þau hafi verið til staðar í heild eða að hluta, á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Vaxtagjöld af sömu lánum skuli jafnframt hafa verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Ennfremur sé gert að skilyrði að lánin hafi verið tekin hjá lánveitendum sem falla undir 1. mgr. 2. gr. tilvitnaðra laga. Að framangreindu virtu hafi vaxtagjöld láns nr. 0526-64-664214 ekki verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta vegna áranna 2008 og 2009 og uppfylli lánið því ekki framangreind skilyrði laga nr. 35/2014. Umsókn kæranda var því hafnað.

Í kæru til úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2016, kemur fram að kærð sé ákvörðun ríkisskattstjóra vegna skuldaleiðréttingar fasteignaveðláns kæranda nr. 1 hjá lífeyrissjóði X. Kærandi kveðst gera þá kröfu að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi og beiðni um leiðréttingu verði samþykkt. Kærandi segir að kært sé til nefndarinnar á grundvelli laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Með ákvörðun ríkisskattstjóra hafi ekki fylgt neinar leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti eða hvert ætti að beina kæru vegna málsins. Með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kæruheimild því fyrir hendi.

Kærandi kveðst hafa sótt um leiðréttingu á verðtryggðu fasteignaveðláni og fengið niðurstöðu 13. júlí 2015 þar sem umleitan hans hafi verið hafnað. Við þá niðurstöðu sé hann alls ekki sáttur og leggi því fram ítarlegri gögn í máli sínu kröfum sínum til stuðnings. Kærandi kveður málavexti vera þá að umrætt lán hafi verið tekið 9. desember 2005 og skuldari á láninu verið þáverandi eiginkona hans. Þau hjónin hafi keypt fasteign að M-götu, þann 28. ágúst 2003. Viðkomandi lán hafi verið tekið hjá lífeyrissjóði og notað til að fjármagna kaupin og greiða upp óhagstæð eldri lán sem hafi hvílt á eigninni. Kærandi sagði að þangað til 23. febrúar 2012 hafi hjónin opinberlega verið greiðendur að láninu en með skuldskeytingu 23. febrúar 2012 hafi kærandi einn orðið  greiðandi að því við lögskilnað hans og fyrrverandi eiginkonu hans. Kærandi segir að hann og fyrrverandi eiginkona hans hafi búið óslitið að M-götu, fyrst bæði en síðan kærandi einn frá samvistarslitum árið 2010. Kærandi upplýsir að fasteigninni hafi þann 24. júní 2005 verið afsalað til félagsins Y ehf., sem hafi verið í eigu kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans. Það breyti því ekki að veðandlag lánsins hafi verið íbúðin að M-götu og kærandi og fyrrverandi eiginkona hans skuldarar og greiðendur að láni lífeyrissjóðs X. Kærandi vísar til ástæðna þess að ákveðið hafi verið að færa fasteignina á nafn Y ehf., en þær hafi verið lögskipti kæranda og seljanda og meintar vanefndir tengdar kaupum á fasteigninni að M-götu.

Kærandi vísar til þess að í 3. gr. laga nr. 35/2014 komi fram að leiðréttingin taki til verðtryggðra fasteignaveðlána sem veitt hafi verið einstaklingum af lögaðilum á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Skilyrði sé að lánin hafi verið nýtt, í heild eða að hluta, til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hér á landi og að þau hafi verið til staðar einhvern hluta af sama tímabili.  Ljóst sé að framangreind skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt.  Kærandi segir að af hálfu ríkisskattstjóra hafi beiðni hans verið hafnað á þeim grundvelli að hann ætti ekki rétt á vaxtabótum á þeim tíma sem leiðréttingin taki til. Í 3. gr. laga nr. 35/2014 komi fram að vaxtagjöld af lánum skuli hafa verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða að hluta, á sama tilgreindu tímabili.  Kærandi segir að ástæða þess að ekki hafi verið greiddar vaxtabætur á umræddu tímabili hafi verið mistök við framtal eignar í skattskýrslu og að ekki hafi verið sótt um vaxtabætur fyrir tímabilið. Að leiðbeiningum endurskoðanda hafi það verið leiðrétt stuttu eftir umrætt tímabil og kærandi fengið vaxtabætur frá þeim tíma. Þó skattstjóri hafi ekki samþykkt að greiða kæranda vaxtabætur vegna þess að mistök hafi verið gerð við framtal eignarinnar, á umræddu tímabili, og kærandi og fyrrverandi eiginkona hans ekki sótt um vaxtabætur,  hafi þau hins vegar átt rétt á þeim. Kærandi byggir á því að vaxtagjöld af umræddu láni hefðu verið viðurkennd sem grundvöllur útreikninga á vaxtabótum, ef skráning eignar hefði verið með réttum hætti í skattskýrslu. Ríkisskattstjóri hafi þegar viðurkennt að umrædd vaxtagjöld séu grundvöllur vaxtabóta eftir umrætt tímabil, þegar skráning í framtali var leiðrétt. Verði það að teljast bæði ósanngjarnt og brot á meðalhófsreglu að leggjast gegn leiðréttingu lánsins á þeim grundvelli. Með framkvæmd sinni hafi ríkisskattstjóri í raun viðurkennt að skilyrði ákvæðisins hafi í raun verið fyrir hendi, en hafi eingöngu synjað um að það verði leiðrétt afturvirkt. Því krefjist kærandi þess að ákvörðun ríkisskattstjóra um að hafna leiðréttingu verði ógilt en til vara að ríkisskattstjóra verði gert að endurskoða ákvörðunina. Kærandi sendi afrit ýmissa gagna með kæru sinni.

 

II.

           

Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að vaxtagjöld af því láni hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða hluta, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Krafa kæranda felur því í raun í sér kröfu um að lán lífeyrissjóðs X verði talið hafa uppfyllt skilyrði um ákvörðun vaxtabóta, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að því er snertir skilyrði, í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um að lán hafi verið viðurkennt sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, skal tekið fram að ríkisskattstjóri ákveður vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda ár hvert. Ákvæðið verður ekki túlkað með þeim hætti að í því felist heimild til að taka tillit til lána sem kunna að uppfylla skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 án þess að skattframtölum áranna 2009 og 2010 hafi verið sérstaklega breytt til samræmis. Af framangreindu leiðir að krafa kærenda á ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 35/2014 og úrskurðarnefnd starfar samkvæmt. Kröfu um að lán verði viðurkennt sem grundvöllur vaxtabóta ber því í tilviki kærenda að beina til ríkisskattstjóra, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Af málatilbúnaði kæranda má ráða að það hafi þegar verið gert og erindi kæranda hafnað þar.

Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði úrskurðarnefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi breytingu lána í lið 5.2 í skattframtali hans og er kærunni af þeim sökum vísað frá.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta