Mál nr. 15/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 2. júlí 2019
í máli nr. 15/2018:
Fastus ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Landspítala
og Medor ehf.
Með kæru 8. september 2018 kærði Fastus ehf. útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala nr. 20678 um blóðflögutæki („Automated continuous microbal detection system and consumables for detecting the presence or absence of microorganisms in blood and sterile body fluids“). Kærandi gerir aðallega þá kröfu að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Ríkiskaupa og Landspítala (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um að velja tilboð Medor ehf. í hinu kærða útboði og lagt verði fyrir varnaraðila að velja tilboð að nýju. Til vara gerir kærandi þá kröfu að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá er einnig gerð sú krafa að varnaraðila verði gert að greiða kæranda málskostnað. Varnaraðilum var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Greinargerðir varnaraðila bárust kærunefnd útboðsmála 24. og 25. september 2018 þar sem þess var krafist að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og kæranda gert að greiða málskostnað. Kærunefndin óskaði eftir viðbótarskýringum um mat tilboða frá varnaraðila og bárust þær 30. október 2018. Kærandi sendi athugasemdir vegna greinargerða varnaraðila 20. desember 2018.
Með ákvörðun 9. nóvember 2018 var aflétt stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala, við Medor ehf. í kjölfar hins kærða útboðs.
I
Í mars 2018 auglýstu varnaraðilar útboð nr. 206768 „Automated continuous microbal detection system and consumables for detecting the presence or absence of microorganisms in blood and sterile body fluids“ þar sem óskað var eftir tilboðum í blóðræktunartæki. Samkvæmt grein 2.3 í útboðsgögnum skyldi val tilboða byggja á stigamatskerfi þar sem verð vóg 85% en tæknilegar og klínískar kröfur 15%. Í grein 6.1.5 í útboðsgögnum kom fram óundanþæg krafa um að boðið tæki skyldi nota svonefnt HL-7 samskiptaform. Í fyrirspurnum á útboðstíma var spurt hvort fullnægjandi væri að nota svonefnt ASTM samskiptaform og var þeirri spurningu svarað játandi.
Í fylgiskjali 14 með útboðsgögnum voru einnig settar fram lágmarkskröfur og valforsendur útboðsins. Í grein 3.2a kom fram óundanþæg krafa um að boðið tæki skyldi vera nýjasta „lína“ eða „útgáfa“ framleiðanda. Skilmálinn hljóðaði upprunalega svo: „The system tendered SHALL be the Manufacturer´s newest line, comprising the latest technology in the field. Á útboðstímanum var orðalagi kröfunnar breytt í kjölfar spurningar. Endanlegt orðalag kröfunnar var eftirfarandi: „The system tendered SHALL be the manufacturers latest version of the offered system.“
Í grein 4.7a í fylgiskjalinu var gerð lágmarkskrafa um að hægt væri að hlaða 600 glösum í tækið í standandi stöðu („standing position“). Samkvæmt grein 4.7b skyldi þetta skilyrði svo einnig metið til stiga við val tilboða þannig að tæki þar sem hægt væri að hlaða öllum glösum í standandi stöðu fengju 5 stig, tæki þar sem hægt væri að hlaða að minnsta kosti 700 glösum fengju 3 stig en tæki þar sem unnt væri að hlaða færri en 700 glösum fengju 1 stig. Þá kom fram í grein 4.9b að tilboð fengju 5 stig ef starfsfólk með litla reynslu („minimal training (not biomedical scientists)“) gæti hlaðið tækið. Í grein 4.11b kom fram að 5 stig fengjust ef sýni gætu verið eins lítil og mögulegt væri og samkvæmt 7.5b fengjust 5 stig ef „niðritími“ eða „óvirknitími“ („downtime“) vegna viðgerða væri í lágmarki.
Opnunartími tilboða var 2. maí 2018 og kærandi skilaði tveimur tilboðum. Varnaraðilar vísuðu öðru þeirra frá þar sem þeir töldu að hið boðna tæki uppfyllti ekki lágmarkskröfu um að hægt væri að hlaða að minnsta kosti 600 glösum í tækið í standandi stöðu. Hitt tilboðið fékk 96 stig af 100 mögulegum samkvæmt stigamatskerfi en tilboð Medor ehf. fékk 97,9 stig. Tilboð kæranda var lægra að fjárhæð en tilboð Medor ehf. en síðarnefnda tilboðið fékk aftur á móti 13 af 15 mögulegum stigum fyrir klínískar og tæknilegar kröfur en tilboð kæranda fékk 11 stig í þeim hluta. Varnaraðilar tilkynntu 29. ágúst 2018 að tilboð Medor ehf. hefði verið valið.
II
Kærandi telur að varnaraðilar hafi ranglega vísað öðru tilboðinu frá enda hafi verið óljóst hvað átt hafi verið við með lágmarkskröfunni um að hægt væri að hlaða tækið „standandi“. Ekki sé um að ræða hlutlægt viðmið en varnaraðilum hefði verið rétt að tilgreina forsenduna með nákvæmum, hlutlægum hætti. Þá telur kærandi að ekki hafi verið gerð nein nánari grein fyrir forsendunni í útboðsgögnum svo sem með því að ekki mætti þurfa að beygja hné eða bak.
Kærandi telur að mat varnaraðila á stigum tilboðanna hafi verið rangt en rétt mat hefði leitt til þess að tilboð kæranda fengi fleiri stig í klínískum og tæknilegum kröfum. Telur kærandi einkum að tilboð hans hafi fengið of fá stig fyrir það hversu mörgum glösum hafi verið hægt að hlaða í tækið standandi. Neðsta röðin í tæki kæranda, sem fylla þurfi til að hlaða 700 glösum, sé í 65 cm hæð og því sé engum vandkvæðum bundið að vinna við hana í standandi stöðu. Eftir opnun tilboða hafi kærandi auk þess boðist til þess að hækka tækin upp eftir þörfum varnaraðila. Auk framangreindra athugasemda við mat á tilboði sínu telur kærandi að tilboð Medor ehf. hafi fengið of mörg stig við mat á þeim forsendum sem fram komu í matsliðum 4.9b, 4.11b og 7.5b. Kærandi telur að nota þurfi sérstakan skanna áður en glas sé sett í tækið sem Medor ehf. hafi boðið og því uppfylli tækið ekki forsenduna í matslið 4.9b sem hafi gefið stig fyrir að starfsfólk með litla reynslu gæti hlaðið tækið. Kærandi segir að það tæki sem hann bauð geti notað sérstakt efni og þannig framkvæmt rannsóknir þótt blóðmagn í sýni sé minna en 0,5 ml en þetta efni sé ekki til fyrir það tæki sem Medor ehf. hafi boðið. Þegar blóðmagn í sýni sé minna en 0,5 ml sé því hætta á að tæki Medor ehf. gefi ranga niðurstöðu en það sé ekki í samræmi við matslið 4.11b sem hafi gefið stig fyrir að sýni gætu verið lítil. Að lokum telur kærandi að engin þörf sé á að slökkva á tæki hans og því sé enginn óvirknitími í tækinu en aftur á móti sé slíkur tími í tækinu sem Medor ehf. bauð. Af þessum sökum telur kærandi að tæki hans hefði átt að fá fleiri stig en tæki Medor ehf. í matslið 7.5b sem hafi gefið stig fyrir sem minnstan óvirknitíma.
Að lokum telur kærandi að tilboð Medor ehf. hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur útboðsins og þar með hafi það verið ógilt og varnaraðilar átt að vísa því frá. Kærandi telur að tæki Medor ehf. uppfylli ekki skilyrði greinar 6.1.5 í útboðsgögnum um svokallað HL-7 samskiptaform þar sem tækið notist við svokallað ASTM samskiptaform. Þá hafi Medor ehf. boðið tvö tæki í útboðinu, annars vegar „BACT/ALERT Virtuo“ en hins vegar „BACT/ALERT 3D“ og hafi síðarnefnda tækið verið valið. Samkvæmt heimasíðu framleiðanda sé BACT/ALERT Virtuo nýjasta tæki framleiðandans og því sé það tæki sem valið var eldra. Þetta sé í ósamræmi við það óundanþæga skilyrði greinar 3.2a í útboðsgögnum um að boðið tæki sé nýjasta útgáfa framleiðanda af tækinu („...the manufacturers latest version of the offered system“).
III
Varnaraðilar telja að rétt hafi verið staðið að mati á lágmarkskröfum og stigum í samræmi við endanlegar forsendur útboðsins. Varnaraðili bendir á að í skýringum aftan við ákvæði 4.7 á fylgiskjali 14 með útboðsgögnum hafi verið gerð nánari grein fyrir því hvað fælist í „standing position“. Þar hafi komið fram að átt væri við að unnt væri að athafna sig við alla vinnu við tæki án þess að beygja hné eða bak. Kærandi hafi ekki boðist til þess að aðlaga tækið að þörfum varnaraðila fyrr en eftir opnun tilboða og eftir að varnaraðilar höfðu beint fyrirspurn til kæranda um það hvernig ætti að hlaða tæki standandi. Varnaraðilar telja að sér hafi ekki verið heimilt að taka mið af slíku boði kæranda eftir opnun tilboða. Af þessum sökum hafi verið óhjákvæmilegt að vísa öðru tilboði kæranda frá sem ógildu og að stigagjöf hins tilboðsins tæki mið af því að nauðsynlegt væri að beygja hné eða bak við hleðslu í tækið.
Varnaraðili segir að fullyrðingar í tilboðum kæranda og Medor ehf. hafi verið sambærilegar um það hvernig boðin tæki uppfylltu matslið 4.9b. Í báðum tilboðum hafi komið fram að tækin væru með þeim hætti að nægjanlegt væri að opna skúffu og setja glas í hana. Það sama eigi við um svör við matslið 4.11b þar sem bæði kærandi og Medor ehf. hafi tekið fram að hægt væri að framkvæma mælingar á sýnum sem væru undir 0,5 ml með því að bæta við aukaefnum. Þá hafi bæði kærandi og Medor ehf. fullyrt í matslið 7.5b að viðhald á tækjunum gæti farið fram án þess að það hefði áhrif á notkun tækjanna og því væri enginn óvirknitími á tækjunum.
Varnaraðilar taka fram að í útboðsgögnum hafi verið kveðið á um að tæki skyldi notast við HL-7 samskiptaform en í svari við fyrirspurn á útboðstíma hafi verið heimilað að styðjast mætti við ASTM samskiptaform. Þá hafi upphaflegri kröfu í lið 3.2a í fylgiskjala 14 verið breytt og þetta hafi veitt Medor ehf. svigrúm til þess að bjóða það tæki sem valið var.
IV
Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér útboðsgögn og önnur gögn málsins. Þótt æskilegt hefði verið að orða forsenduna um „standing position“ með hlutlægari og nákvæmari hætti telur nefndin engu að síður að kæranda hafi mátt vera ljóst af útboðsgögnum að forsendan vísaði til þess að ekki þyrfti að beygja hné og/eða bak þegar unnið væri við tækið. Auk þess leiðir sá skilningur af venjulegri orðskýringu. Eins og gögnum málsins er háttað telur nefndin ótvírætt að leggja verði til grundvallar að tækið í því tilboði kæranda, sem vísað var frá, hafi ekki uppfyllt framangreint skilyrði. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi boðist til að útfæra tækið eftir þörfum varnaraðila en það boð barst ekki fyrr en eftir opnun tilboða. Var varnaraðilum því óheimilt að líta til þess við mat á tilboðum enda hefði slík breyting á tilboðinu falið í sér brot gegn jafnræði bjóðenda. Telur nefndin því að ekki hafi verið brotið gegn lögum um opinber innkaup þegar umræddu tilboði kæranda var vísað frá þar sem það uppfyllti ekki lágmarkskröfu að því er varðar standandi stöðu.
Helstu röksemdir kæranda fyrir því að mat á hinu tilboði hans hafi verið ólögmætt byggja einnig á þeim skilningi kæranda að hægt hafi verið að hlaða öll glös standandi við tækið og tilboðið hefði því átt að fá fleiri stig. Á sama grunni og að framan greinir telur nefndin að mat á hinu boðna tæki hafi verið rétt að þessu leyti enda verður að telja ótvírætt að beygja þurfi hné og/eða bak til þess að hlaða það tæki sem kærandi bauð.
Aðrar athugasemdir kæranda við mat varnaraðila á tilboðum byggja á því að ekki hafi verið sýnt fram á að hið boðna tæki Medor ehf. uppfylli þau atriði sem metin voru til stiga. Af gögnum málsins verður ráðið að mat varnaraðila hafi einungis byggt á svörum bjóðenda og þar með hafi ekki verið gerð krafa um að bjóðendur styddu svör sín með gögnum við framlagningu tilboða. Telur kærunefnd útboðsmála að ekkert sé fram komið um að fullyrðingar Medor ehf. um eiginleika boðinna tækja séu rangar eða að tilboðið hafi verið í ósamræmi við þær kröfur sem fram komu í útboðsgögnum. Af gögnum málsins er einnig ljóst að varnaraðilar breyttu þeirri kröfu útboðsgagna að boðin tæki þyrftu að vera að vera nýjasta „lína“ framleiðanda þannig að bjóða mætti önnur tæki en nýjustu tæki hlutaðeigandi framleiðanda. Þá heimiluðu varnaraðilar að styðjast mætti við ASTM samskiptaform í stað HL-7 samskiptaformsins. Telur nefndin því ekkert fram komið um að óheimilt hafi verið að taka tilboði Medor ehf. af þeim sökum að það hafi ekki fullnægt útboðsskilmálum svo breyttum. Þá hefur kærandi ekki fært haldbær rök að því að með öðrum hætti hafi verið staðið að mati á tilboðum í hinu kærða útboði í andstöðu við útboðsskilmála eða lög nr. 120/2016 um opinber innkaup.
Með vísan til alls framangreinds telur nefndin að ekki hafi verið brotið gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildis ákvörðunar varnaraðila um val á tilboði Medor ehf. Af sömu ástæðu getur ekki komið til álits nefndarinnar um skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda. Rétt er að málskostnaður falli niður.
Úrskurðarorð:
Öllum kröfum kæranda, Fastus ehf., vegna útboðs varnaraðila, Ríkiskaupa fyrir hönd Landspítala, nr. 20678 „Automated continuous microbal detection system and consumables for detecting the presence or absence of microorganisms in blood and sterile body fluids“, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Reykjavík, 2. júlí 2019.
Eiríkur Jónsson
Auður Finnbogadóttir
Sandra Baldvinsdóttir