Nr. 371/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 371/2018
Miðvikudaginn 7. nóvember 2018
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 15. október 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. nóvember 2017 um að stöðva greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda frá 1. janúar 2018.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. nóvember 2017, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun greiðslna uppbótar vegna reksturs bifreiðar og tekjutryggingar þann 1. janúar 2018 vegna flutnings lögheimilis hans til B. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2018, sendi kærandi kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna framangreindrar ákvörðunar. Í svari umboðsmanns Alþingis, dags. 10. október 2018, kemur fram að umboðsmaður geti ekki fjallað um kvörtun hans að svo stöddu þar sem að ákvörðunin hafi ekki verið kærð til æðra stjórnvalds.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. október 2018.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir þá kröfu að stöðvun Tryggingastofnunar á greiðslum til hans verði dregin til baka og honum endurgreidd umrædd skerðing.
Í kæru greinir kærandi frá því að umboðsmaður Alþingis hafi leiðbeint honum um að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 16. nóvember 2017, þar sem að lífeyrir hans hafi verið lækkaður vegna flutnings hans frá Íslandi til B. Ákvörðun Tryggingastofnunar hafi ekki borist kæranda fyrr en í byrjun desember 2017. Kærandi sé […] og þar sem hann hafi verið án tölvubúnaðar hafi hann ekki getað svarað bréfinu. [...] hafi lesið bréfið […]. Tíminn hafi liðið hratt og hann hafi ekki fundið tíma til að svara bréfi Tryggingastofnunar þar sem þau hafi verið koma sér fyrir í nýju húsi.
Þegar kærandi hafi loksins hringt í Tryggingastofnun hafi tíminn verið útrunninn til að senda kvörtun beint til þeirra. Í millitíðinni hafði kærandi haft samband við umboðsmann Alþingis sem hafi ekki viljað fjalla um málið fyrr en hann væri búinn hafa samband við úrskurðarnefnd velferðarmála.
Með aðstoð C hafi kærandi einnig haft samband við lögfræðinga og hafi honum verið sagt að með ákvörðun Tryggingastofnunar sé verið að mismuna honum fyrir að vera ekki búsettur hér á landi. Kærandi telji að um sé að ræða grófa mismunun að greiða honum ekki sama og öðrum lífeyrisþegum sem séu búsettir á Íslandi. Hann greiði ennþá skatta á Íslandi, útsvar og fasteignaskatt.
Þá segir í frekari rökstuðningi fyrir kæru:
„Frjáls fólksflutningur er einn af grundvallarreglum ESB sáttmálans. Það felur í sér rétt til að flytja og búa frjálslega innan yfirráðasvæðis aðildarríkjanna. Þessi réttur var fyrst viðurkenndur í 21. gr. Í Lissabon-sáttmálanum. Þessi réttur er viðurkenndur í tilskipun 2004/38 / EB. Þar að auki, þar sem fólk getur flutt frjálslega á milli aðildarríkja, er meginreglan um jafnræði á grundvelli þjóðernis mikilvægur þáttur í hreyfanleika. Aðildarríkin eru skylt að fjarlægja allar hindranir til að tryggja rétt til frjálsra fólksflutninga.
Í 1. mgr. 24. gr. Tilskipunar 2004/38 / EB er rétt að jafna meðferð borgara ESB og fjölskyldumeðlima og ríkisborgara gistiaðildarríkis. Mismunun á grundvelli ríkisborgararéttar brýtur gegn þessu ákvæði. Þessar reglur gilda bæði fyrir opinbera geirann og ríkisstofnanir.
Ef reglurnar áttu ekki við um alla stofnanir væri mikil hindrun fyrir rétti frjálsrar fólksflutninga. Að auki getur höfnunin byggð á staðsetningu brotið gegn 14. gr. samningsins um vernd mannréttinda og grundvallar frelsis.“
Samkvæmt þessum lögum, sem tóku gildi 1. janúar 1994, sé ekki heimilt að mismuna einstaklingum eftir búsetu innan EU svæðisins. Kærandi sé skattskyldur á Íslandi, hann greiði fjármagnstekjuskatt, útsvar og skatt af sínum lífeyri.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda vegna flutnings hans til B.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins liðu 11 mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. nóvember 2018, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. október 2018. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 16. nóvember 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki fengið kærða ákvörðun fyrr en í desember 2017 vegna flutninga hans til B. Þá kemur fram að þar sem kærandi sé […] þá hafi [...] lesið ákvörðun Tryggingastofnunar […] en vegna anna við að koma sér fyrir í nýju landi hafi ekki gefist tími til að kæra ákvörðunina. Einnig er greint frá því að kærandi hafi að lokum sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem hafi vísað honum til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þá sendi kærandi umrædda kvörtun til umboðsmanns Alþingis með bréfi, dags. 30. ágúst 2018, og lauk umboðsmaður málinu með bréfi, dags. 10. október 2018. Af framangreindu verður ráðið að […] kæranda sé ekki orsök þess að kæra barst svo seint heldur annir vegna flutninga. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er framangreind ástæða ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr.
Í kærðri ákvörðun kemur fram að auk stöðvunar á uppbót til reksturs bifreiðar hafi verið áætlað að stöðva greiðslu tekjutryggingar til kæranda einnig. Úrskurðarnefnd hafði samband við Tryggingastofnun ríkisins vegna þess og fengust þau svör að um mistök hafi verið að ræða sem hafi verið leiðrétt, þ.e. eingöngu hafi verið stöðvuð uppbót vegna rekstrar bifreiðar. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir