Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 191/2012

Fimmtudaginn 4. september 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. september 2012 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 19. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. desember 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. desember 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 13. mars 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 I. Málsatvik

Kærandi eru fæddur 1952 og býr í eigin 204 fermetra einbýlishúsi að B götu í sveitarfélaginu C. Hann er öryrki og nema mánaðarlegar nettótekjur hans 196.310 krónum. Tekjur hans samanstanda af lífeyrisgreiðslum frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Tryggingastofnun ríkisins.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema heildarskuldir kæranda 35.793.205 krónum, en þar af falla 27.555.929 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings eru vegna virðisaukaskatts, bifreiðagjalda og ofgreiddra bóta. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 til 2009.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til veikinda og sambúðarslita. Hann kveðst hafa byrjað ungur að vinna og stofnað fjölskyldu. Kærandi eigi þrjú börn með fyrri sambýliskonu sinni en hún átti tvö börn fyrir. Þau skildu árið 1996. Árið 1998 hóf kærandi sambúð með konu en hún átti fimm börn. Erfiðleikar vegna barna hafi orðið til þess að þau slitu samvistum árið 2005. Kærandi kveðst einnig hafa lent í slysi við störf sín á sama ári og verið með skerta starfsorku síðan.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 17. mars 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. september 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru eru ekki settar fram sérstakar kröfur, en skilja verður málatilbúnað kæranda þannig að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst óska eftir skýringum vegna synjunar á umsókn hans. Þá óski hann eftir því að mál sitt verði endurskoðað þar sem forsendur hafi breyst mikið, svo sem áætlun skatta. Hann sé byrjaður að stunda vinnu eins og kostur sé.

 III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. 

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé þeim aðstæðum lýst að skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 segi meðal annars að afhendi skattskyldur maður eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt eða honum hafi borið að innheimta skuli hann greiða fésekt. Samkvæmt því sé brot fullframið um leið og lögmæltur skilafrestur sé liðinn án þess að sá aðili sem beri ábyrgð á skilum, skili virðisaukaskatti til tollstjóra eða eftir atvikum sýslumanns.

Af gögnum málsins liggi fyrir að kærandi hafi bakað sér skuldbindingar sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu en hann sé í vanskilum með virðisaukaskatt frá árunum 2006 til 2012 samtals að fjárhæð 6.970.571 króna. Alls nemi kröfur byggðar á álagningu ríkisskattstjóra 2.574.495 krónum og kröfur byggðar á áætlun 4.396.076 krónum.

2006 1.101.769 krónur Álagning
2007 629.089 krónur Álagning
2008 1.923.888 krónur Áætlun
2009 1.103.129 krónur Álagning
2010 843.641 króna Álagning
2011 935.673 krónur Áætlun
2012 433.386 krónur Áætlun
Samtals: 6.970.571 króna  

Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja umsókn ef óhæfilegt þyki að veita hana hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Kærandi sé í vanskilum með ýmis opinber gjöld. Gjaldfallnar kröfur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda nemi samtals 2.783.780 krónum og þá séu gjaldfallnar kröfur vegna bifreiðagjalda, gjalda vegna óskoðaðra ökutækja, dómsekta og sakarkostnaðar, fasteignarskrárgjalda og staðgreiðslu tryggingagjalda samtals að fjárhæð 1.419.214 krónur.

Af skuldayfirliti og greinargerð kæranda verði ráðið að fjárhagur hans sé mjög erfiður. Heildarskuldir hans nemi samtals 35.793.205 krónum. Eignir kæranda séu fasteign að B götu í sveitarfélaginu C að verðmæti 15.750.000 krónur samkvæmt fasteignamati, D refahús að verðmæti 1.020.000 krónur samkvæmt fasteignamati, bifreið með skrásetningarnúmerið R að verðmæti 500.000 krónur samkvæmt skattframtali 2011 og hengivagn með skrásetningarnúmerið S að verðmæti 15.000 krónur samkvæmt skattframtali 2011. Aðrar eignir kæranda séu tvær afskráðar bifreiðar en samkvæmt skattframtali 2011 séu þær verðlausar. Telja verði að eignir kæranda séu óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi 6. janúar 2012 að á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. væri umboðsmanni heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að óska eftir endurákvörðun ríkisskattstjóra vegna virðisaukaskatts og honum leiðbeint um að leita til ríkisskattstjóra, skila virðisaukaskattskýrslum og eftir atvikum öðrum gögnum sem hann kynni að óska eftir við endurákvörðunina. Hafi kæranda verið veittur 15 daga frestur til að tjá sig um efni máls áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um synjum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Þann 23. janúar hafi kærandi haft samband við embættið og tjáð starfsmönnum að hann hygðist fá umrædda virðisaukaskattskuld leiðrétta. Hafi verið óskað eftir að hann útvegaði staðfestingu þess efnis. Þann 16. mars 2012 hafi verið hringt í kæranda þar sem staðfesting hafði ekki enn borist embættinu. Hann hafi talið að endurskoðandi sinn hafi sent staðfestinguna og ætlaði að hafa samband við hann vegna málsins. Þann 8. maí 2012 hafi aftur verið haft samband við kæranda þar sem ekki hafi enn verið farið fram á leiðréttingu virðisaukaskatts hjá ríkisskattstjóra. Kærandi hafi talið endurskoðanda sinn hafa óskað leiðréttingarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafði enn ekki verið óskað eftir leiðréttingu á umræddum skatti 7. september 2012 og því verði ákvörðun byggð á fyrirliggjandi gögnum.

Þrátt fyrir erfiða félagslega stöðu kæranda verði ekki hjá því komist að líta til þeirrar skyldu sem hvílt hafi á honum að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem vanskil þeirra gátu haft í för með sér. Kæranda hafi verið veittur mjög rúmur frestur til að óska eftir leiðréttingu á umræddum virðisaukaskattskuldum en hann hafi enn ekki orðið við því.

Það sé því mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þá sé það mat umboðsmanns skuldara að eðli skuldbindinga kæranda og fjárhæðir þeirra sé þannig að óhæfilegt þyki að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með sérstakri vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá kemur fram í greinargerð umboðsmanns að í kæru fari kærandi fram á skýringar á því hvers vegna umsókn hans um greiðsluaðlögun hafi verið synjað. Óski hann endurskoðunar vegna breyttra forsendna, en ekki komi fram hvort og þá hvernig ríkisskattstjóri hafi tekið endurákvörðun um skuldir hans á virðisaukaskatti. Í öðrum athugasemdum með kæru segi kærandi að hann þurfi að fá endurskoðanda sinn til að fara yfir málið.

Við ákvörðunartöku hjá umboðsmanni skuldara beri að taka mið af opinberum gögnum, svo sem skattframtölum og staðgreiðsluskrá. Hafi þetta verið brýnt fyrir kæranda og hafi honum verið í lófa lagið að leita leiðréttinga hjá ríkisskattstjóra.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á d- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í d-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru skuldir vegna virðisaukaskatts samtals að fjárhæð 6.970.571 króna frá árunum 2006 til 2012.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.

Það svigrúm sem kærunefndin hefur til mats í máli þessu að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er hvort fjárhæð skattsektar nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Af gögnum málsins má ráða að heildarskuldir kæranda séu rétt tæplega 36.000.000 króna en virðisaukaskattskuld kæranda sem byggð er á álagningu ríkisskattstjóra nemur 2.574.495 krónum og samtals nema kröfur byggðar á áætlun 4.396.076 krónum. Því eru virðisaukaskattskuldir kæranda 6.970.571 króna sem er rétt rúmlega 19% af heildarskuldum hans.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Í kæru segir kærandi að hann óski eftir að gögn hans verði endurskoðuð þar sem forsendur hafi breyst mikið. Óljóst er hvað kærandi á við með því, en kærunefndinni hafa ekki borist nein ný gögn um skuldastöðu kæranda hjá Tollstjóra sem renna stoðum undir þessa fullyrðingu.

Kærunefndin óskaði eftir upplýsingum frá embætti Tollstjóra um skuldastöðu kæranda hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Í svari við fyrirspurn kærunefndarinnar 18. júlí 2014 kemur fram að þing- og sveitarsjóðsgjöld fyrir árin 2012 og 2013 séu byggð á áætlunum og það sama eigi við um virðisaukaskatt frá 2011 til 2014 en skýrslum hafi ekki verið skilað. Það er því ljóst að ekki hefur enn verið óskað eftir endurákvörðun ríkisskattstjóra af hálfu kæranda vegna virðisaukaskatts.

Er það því mat kærunefndarinnar með tilliti til þess sem rakið hefur verið og vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu sem rakið hefur verið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kæra ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta