Mál nr. 143/2012
Fimmtudaginn 4. september 2014
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Hinn 23. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. ágúst 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 28. ágúst 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 24. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur 1981. Hann býr ásamt unnustu sinni í íbúð í hennar eigu að B götu nr. 1 í sveitarfélaginu C.
Kærandi hefur verið atvinnulaus síðan í desember 2011. Til ráðstöfunar hefur hann að meðaltali 125.181 krónu á mánuði.
Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hans til tekjulækkunar í kjölfar atvinnuleysis og hækkunar lána eftir bankahrunið 2008.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 55.326.845 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2007 þegar kærandi keypti iðnaðarhúsnæði.
Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 26. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. júlí 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að umsókn hans um greiðsluaðlögun verði samþykkt.
Kærandi mótmælir sérstaklega því mati umboðsmanns skuldara að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skulda var stofnað í upphafi árs 2007. Á þeim tíma hafi kærandi átt fasteign sem hafi verið í útleigu. Leigutekjur árið 2006 hafi verið 1.920.000 krónur, áhvílandi lán 15.500.000 krónur og mánaðarleg greiðslubyrði lána um 100.000 krónur. Kærandi hafi selt eignina fyrir 32.000.000 króna og keypt nýja fasteign sem hafi verið tilbúin undir tréverk. Hann hafi sjálfur unnið við að standsetja nýju eignina fram eftir árinu 2007. Hafi hann verið mjög ákveðinn í að fara ekki of geyst og hafi því einungis tekið lán að fjárhæð 14.400.000 krónur. Vegna eindreginna ráðlegginga bankans hafi hann tekið gengisbundið lán. Sölumat á hinni nýju eign hafi verið um 30.000.000 króna og því hafi áhvílandi lán einungis verið um 50% af markaðsverði eignarinnar. Greiðslubyrði lánsins hafi verið um 100.000 krónur á mánuði og rekstrarkostnaður um 30.000 krónur á mánuði. Fyrir hafi legið að leigutekjur af eigninni yrðu að minnsta kosti 160.000 krónur á mánuði. Á árinu 2008 hafi aðstæður breyst varðandi útleigu eignarinnar, erfitt hafi verið að fá atvinnu og fasteignalánið hafi verið komið yfir 33.000.000 króna í lok ársins. Allar forsendur fyrir upphaflegum áætlunum hafi því verið brostnar vegna ytri aðstæðna.
Kærandi hafi tekið bílalán að fjárhæð 3.024.480 krónur hjá SP fjármögnun vegna kaupa á bifreiðum sem hann hafi ætlað að lagfæra og selja síðan með hagnaði, en kærandi sé menntaður bifvélavirki. Bifreiðarnar hafi ekki selst og samkomulag hafi ekki tekist við SP fjármögnun.
Skuldir kæranda við U, V og T séu vegna ábyrgða fyrir þriðja aðila sem nú sé látinn en dánarbúið hafi verið eignalaust.
Kærandi telur sig hafa farið varlega í töku ákvarðana en það hafi fyrst og fremst verið utanaðkomandi aðstæður sem hafi valdið fjárhagsvanda hans.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.
Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Ráða megi af gögnum málsins að skuldir kæranda hafi aukist verulega á árunum 2007 og 2008 en þá hafi fjárhagur kæranda verið eftirfarandi í krónum:
Ár | 2007 | 2008 |
Ráðstöfunartekjur* | 43.007 | 126.702 |
Nýjar skuldir á árinu | 15.456.923 | |
Skuld umfram eign í atvinnurekstri | 13.649.989 | |
Framfærslukostnaður** | 42.300 | 44.500 |
*Meðalráðstöfunartekjur á mánuði samkvæmt skattframtali.
**Samkvæmt bráðabirgðaneysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir einstakling. Ekki hefur verið tekið tillit til greiðslu húsaleigu eða afborgana af öðrum skuldbindingum.
Sjá megi að á árinu 2007 hafi greiðslugeta kæranda eingöngu nægt til að standa undir lágmarksframfærslu en hvorki til afborgana lána né annarra skuldbindinga. Á árinu 2008 hafi greiðslugeta kæranda á hinn bóginn verið jákvæð um 82.202 krónur.
Gögn málsins beri með sér að skuldasöfnun kæranda hafi aukist verulega á árunum 2007 og 2008. Hann hafi tekið tvö lán hjá Byr samtals að fjárhæð 14.600.000 krónur. Einnig hafi hann gert tvo bílasamninga við SP fjármögnun alls að fjárhæð 3.881.403 krónur. Beri gögn málsins með sér að kærandi hafi haft stopular tekjur þegar hann tókst á hendur þessar skuldbindingar.
Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi embættið sent kæranda ábyrgðarbréf 12. apríl 2012 þar sem honum hafi verið tilkynnt að umboðsmanni skuldara væri heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar eða skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinga var stofnað. Hafi kæranda verið veittur frestur til 10. maí 2012 til að sýna fram á að hann hafi ekki hagað fjármálum sínum með ofangreindum hætti þrátt fyrir að tekjur hans hafi ekki nægt til að standa við fyrri skuldbindingar. Kærandi hafi svarað með bréfi 9. maí 2012 þar sem hann hafi greint frá áætlunum sínum með fasteign og bifreiðar sem hann keypti og hvernig þær áætlanir hefðu brugðist. Kærandi hafi ekki gefið skýringar á tekjum sínum eða hvort hann hafi haft hærri tekjur en gögn málsins bæru með sér og þannig getað staðið við skuldbindingar sínar en ljóst sé að þegar kærandi hafi stofnað til skuldanna hafi tekjur hans ekki staðið undir skuldum. Kærandi hafi ekki látið umboðsmanni skuldara í té gögn sem væru til þess fallin að varpa skýrari mynd á fjárhag hans á umræddu tímabili.
Í kæru sinni greini kærandi frá því að hann hafi að eigin mati farið varlega í fjárfestingar. Þegar hann hafi tekið lán vegna kaupa sinna á iðnaðarhúsnæði hafi banki hans eindregið ráðlagt honum að taka lánið í erlendri mynt. Sölumat fasteignarinnar hafi verið 30.000.000 króna en kærandi hafi einungis tekið 14.400.000 krónur að láni. Kærandi hafi sjálfur komið eigninni í leiguhæft ástand en allar forsendur hafi brostið við bankahrunið 2008. Kærandi greini einnig frá því að skuldir hans við T, V og U séu vegna ábyrgða fyrir þriðja aðila sem nú sé látinn en dánarbúið hafi verið eignalaust. Vegna þessara fullyrðinga kæranda telji umboðsmaður rétt að benda á að tillit sé tekið til fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skulda vegna atvinnuhúsnæðis og bíla hafi verið stofnað og því hafi staða hans nú og í framtíðinni ekki áhrif á það mat sem fram fari þegar ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. séu til skoðunar, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011.
Einnig sé rétt að benda á að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., sé umboðsmanni skuldara lögskylt að horfa til þeirra sjónarmiða sem tilgreind séu í stafliðum ákvæðisins. Þegar þannig hátti til að skuldarar hafi tekist á hendur skuldbindingar sem litlar eða engar líkur séu á að þeir geti staðið við hafi niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála jafnan verið sú að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.
Með tilliti til þess sem rakið hefur verið og í ljósi þess að kærandi tókst á hendur umtalsverðar skuldir vegna kaupa á fasteign árið 2007 og bílum árið 2008, á meðan tekjur hans voru litlar sem engar, er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Kærandi gerir kröfu um að umsókn hans um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má ráða að fjárhagsstaða kæranda hafi verið eftirfarandi árin 2005 til 2008 í krónum:
2005 | 2006 | 2007 | 2008 | |
Meðaltekjur á mánuði (nettó) | 100.496 | 82.985 | 43.007 | 126.702 |
Eignir alls | 20.834.813 | 26.027.655 | 29.120.108 | 16.800.899 |
· D gata nr. 10 | 16.107.000 | 18.970.000 | 0 | |
· E gata nr. 8 | 19.840.000 | 12.292.408 | ||
· Ökutæki | 207.000 | 162.000 | 8.413.000 | 3.973.000 |
· Hrein eign skv. efnahagsreikningi | 4.520.813 | 6.895.655 | 867.108 | 0 |
· Hlutir í félögum | 0 | 0 | 0 | 500.000 |
· Bankainnstæður | 0 | 0 | 0 | 35.491 |
Skuldir | 11.586.187 | 12.074.345 | 13.852.848 | 39.028.590 |
Nettóeignastaða | 9.248.626 | 13.953.310 | 15.267.260 | -22.227.691 |
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:
Kröfuhafi | Ár | Tegund | Upphafleg | Staða | Vanskil |
fjárhæð | frá | ||||
Byr | 2007 | Veðskuldabréf | 10.000.000 | 27.436.772 | 2009 |
Byr | 2007 | Veðskuldabréf | 4.600.000 | 12.329.712 | 2009 |
SP fjármögnun | 2007 | Bílasamningur | 856.923 | 535.878 | 2011 |
SP fjármögnun | 2008 | Bílasamningur | 3.111.548 | 3.961.401 | 2009 |
Ýmsir | 2009 | Reikningar | 5.941.016 | 10.447.319 | 2009 |
Byr | 2011 | Tékkareikningur | 856.923 | 615.763 | 2011 |
Alls | 25.366.410 | 55.326.845 |
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í því lagaákvæði eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.
Umboðsmaður skuldara álítur að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar þar sem hann hafi ekki haft tekjur til að geta staðið í skilum með lán sem hann tók vegna kaupa á húsnæði árið 2007 og bifreiðum árið 2008 og því hafi hann tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Kærandi kveðst á hinn bóginn hafa hagað fjármálum sínum á ábyrgan hátt.
Kærandi keypti atvinnuhúsnæði að D götu nr. 10 árið 2004. Húsnæðið leigði hann út þar til árið 2007 er hann seldi það fyrir 32.000.000 króna. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að leigutekjur hafi dugað til greiðslu afborgana áhvílandi lána sem voru um 12.000.000 króna en leigutekjur voru 160.000 krónur á mánuði á árinu 2006. Kærandi keypti annað atvinnuhúsnæði árið 2007 fyrir 23.890.000 krónur og hugðist einnig leigja það út. Til kaupanna tók hann tvö erlend lán alls að fjárhæð 14.600.000 krónur. Eigið fé hans í hinu nýja húsnæði var samkvæmt því ríflega 9.000.000 króna. Ráða má af fyrirliggjandi gögnum að mánaðarleg greiðslubyrði hinna erlendu lána hafi verið um 104.000 krónur. Á þessum tíma voru framtaldar tekjur kæranda afar lágar, að meðaltali um 43.000 krónur á mánuði. Í ljósi gagna málsins verður þó að ganga út frá því að kærandi hafi ætlað leigutekjum að standa undir greiðslubyrði lánanna, eins og hann hafði gert frá árinu 2004, en kærandi aðskildi rekstur atvinnuhúsnæðisins frá persónulegum fjárhag sínum á skattframtölum. Þá telur kærunefndin að líta beri til þess að eigið fé kæranda var á þessum tíma töluvert þannig að eignir hans umfram skuldir voru ríflega 15.000.000 króna í lok árs 2007.
Á árinu 2008 tók kærandi bílalán að fjárhæð ríflega 3.100.000 krónur en aðrar skuldir hans voru þá tæpar 900.000 krónur auk framangreindra fasteignalána. Mánaðarleg greiðslubyrði bílalánanna var um 65.000 krónur. Samkvæmt því sem gögn málsins bera með sér var mánaðarleg greiðslugeta kæranda þessi í krónum:
Ár | 2008 |
Ráðstöfunartekjur* | 126.702 |
Framfærslukostnaður** | 44.500 |
Greiðslugeta | 82.202 |
Greiðslubyrði bílaláns | 65.000 |
Til ráðstöfunar | 17.202 |
*Meðalráðstöfunartekjur á mánuði samkvæmt skattframtali.
**Bráðabirgðaneysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir einstakling. Ekki hefur verið tekið tillit til greiðslu húsaleigu eða afborgana af öðrum skuldbindingum
Samkvæmt þessu hafði kærandi til ráðstöfunar rúmar 17.000 krónur á mánuði þegar hann hafði framfleytt sér og greitt af bílaláninu.
Með vísan til alls þess sem fram hefur komið svo og atvika málsins telur kærunefndin ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til athugasemda með 6. gr. frumvarps til laga nr. 101/2010. Þar er tekið fram að með ákvæðinu sé að hluta til miðað við gildandi lagaákvæði um greiðsluaðlögun í 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Við mat á fjárhagslegri áhættu aðila í því máli var meðal annars litið til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað. Í ljósi eignastöðu kæranda þegar hann stofnaði til nefndra skuldbindinga telur kærunefndin að c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir