Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

Miðvikudaginn 5. nóvember 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 33/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með kæru, dags. 2. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 7. maí 2014, vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteignar.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi kærði til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 1. júlí 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum vegna fasteignar að B. Úrskurður í málinu var kveðinn upp á fundi nefndarinnar þann 14. desember 2011 þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest. Vegna breyttrar framkvæmdar úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun verðmats er Íbúðalánasjóður byggði á við niðurfærslu veðlána var mál kæranda endurupptekið að beiðni kæranda. Úrskurðarnefndin kvað upp nýjan úrskurð í málinu á fundi nefndarinnar þann 27. mars 2014 þar sem hin kærða ákvörðun var felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka nýja ákvörðun í máli kæranda þannig að miðað væri við að verðmæti fasteignar kæranda væri 15.500.000 krónur í stað 18.300.000 króna. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 8. maí 2014, var kæranda kynntur nýr endurútreikningur, dags. 7. maí 2014, vegna leiðréttingar lána sem er grundvöllur kæru þessarar.

Með bréfi, dags. 3. júní 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og frekari gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 11. júlí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. júlí 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 26. ágúst 2014, var óskað eftir nánari skýringum frá Íbúðalánasjóði og bárust þær með bréfi sjóðsins, dags. 8. september 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. september 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telur að Íbúðalánasjóður hafi ekki staðið rétt að niðurfærslu lánsins. Íbúðalánasjóður hafi hagnast á því að hafa farið eftir röngu verðmati sem hafi verið framkvæmt árið 2011 af fasteignasala á vegum sjóðsins. Þegar lánið hafi verið endurreiknað í maí 2014 hafi eingöngu verið stuðst við stöðu lánsins árið 2011. Kærandi telur nauðsynlegt að taka með í útreikninginn allar afborganir og verðbætur frá upphaflegum niðurfærsludegi árið 2011 þar sem það hafi töluverð áhrif á stöðu lánsins.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins er vísað til þess að heimild til niðurfærslu á veðkröfum sjóðsins miðist við uppreiknaða stöðu veðkrafna þann 1. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998. Útreikningur sjóðsins miðist við lánastöðu á þeirri dagsetningu.

Í viðbótarathugasemdum Íbúðalánasjóðs kemur fram að sú fjárhæð sem komi til lækkunar ákvarðist meðal annars af stöðu láns 1. janúar 2011, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Ekki sé kveðið á um hvenær skuli ráðstafa fjárhæðinni inn á lánið. Eðli málsins samkvæmt hafi niðurfærslunni verið ráðstafað inn á lánið um leið og endurútreikningurinn hafi legið fyrir með sama hætti og aðrar innborganir á lánið. Ef ætlun löggjafans hefði verið að miða niðurfærsluna við annan tíma hefði slíkt þurft að koma fram berum orðum í lögunum. Í úrskurði nefndarinnar frá 27. mars 2014 hafi ekki verið mælt fyrir um að hin nýja ákvörðun skyldi vera afturvirk og því gildi viðbótarlækkunin frá þeim tíma sem ákvörðun um hana hafi verið tekin. Viðbótarniðurfærslunni hafi því verið ráðstafað inn á lánið með sama hætti og aðrar niðurfærslur enda standi lög ekki til annars.

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

Þann 1. júlí 2011 lá fyrir endurútreikningur Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttingar lána kæranda í 110% veðsetningarhlutfall af verðmæti fasteignar. Á fundi úrskurðarnefndarinnar þann 14. desember 2011 var kveðinn upp úrskurður í máli kæranda nr. 147/2011 þar sem endurútreikningurinn var staðfestur. Að beiðni kæranda var mál hans endurupptekið og með úrskurði nefndarinnar 27. mars 2014 var fyrri úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka nýja ákvörðun í máli kæranda. Þann 7. maí 2014 lá fyrir nýr endurútreikningur Íbúðalánasjóðs og lýtur ágreiningur málsins að þeim endurútreikningi.

Með ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 1. júlí 2011 voru færðar niður veðkröfur sjóðsins á hendur kæranda, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Frá þeim tíma og þar til nýr endurútreikningur, dags. 7. maí 2014, lá fyrir voru afborganir, vextir og verðbætur innheimt af láni kæranda miðað við stöðu lánsins þann 1. júlí 2011. Íbúðalánasjóður hefur vísað til þess að úrskurður nefndarinnar frá 27. mars 2014 hafi ekki mælt fyrir um að hin nýja ákvörðun skyldi vera afturvirk. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á þessi sjónarmið Íbúðalánasjóðs. Ógilding stjórnvaldsákvörðunar felur það í sér að ákvörðun hefur ekki þá þýðingu að lögum sem efni hennar gefur til kynna. Ákvörðunin telst þá ógild frá öndverðu, þ.e. ógildingin er þannig afturvirk. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Íbúðalánasjóði því að endurreikna lán kæranda á ný miðað við stöðu þess þann 1. júlí 2011 og þar með endurskoða allar greiðslur sem kærandi hafði innt af hendi frá þeim tíma.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður endurútreikningur Íbúðalánasjóðs, dags. 7. maí 2014, vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningahlutfall af verðmæti fasteignar felldur úr gildi og lagt fyrir sjóðinn að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Endurútreikningur Íbúðalánasjóðs, dags. 7. maí 2014, vegna leiðréttingar lána í 110% veðsetningahlutfall af verðmæti fasteignar A, er felldur úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta