Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 408/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 408/2022

Mánudaginn 12. september 2022

A

gegn

Fjölskyldusviði B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 9. ágúst 2022, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fjölskyldusviðs B, dags. 14. júlí 2022, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi er móðir drengsins. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar frá lögreglu um að kærandi hefði haft samband um meint kynferðisbrot föður og nágranna kæranda gagnvart drengnum. Að undangenginni könnun máls samkvæmt 22. gr. bvl. var máli drengsins lokað þann 14. júlí 2022 eftir samtöl við drenginn, kæranda og föður.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. ágúst 2022. Með bréfi, dags. 11. ágúst 2022, var óskað eftir greinargerð Fjölskyldusviðs B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fjölskyldusviðs B barst 12. ágúst 2022 og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. ágúst 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Fjölskyldusviðs B um að hætta könnun máls er varði meint kynferðisbrot föður gagnvart syni kæranda. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Fjölskyldusviði B verði falið að kanna málið með fullnægjandi hætti lögum samkvæmt, sbr. einkum 3. mgr. 22. bvl.

Vísað sé til málsatvikalýsingar í greinargerð um að hætta könnun máls, dags. 14. júlí 2022. Líkt og segi í niðurlagi greinargerðarinnar beri málsatvikalýsing hallann af því hversu verulega ábótavant skráningu atvika hafi verið á meðan á vinnslu málsins hafi staðið. 

Kærandi og barnsfaðir hennar eigi saman tvö börn, drenginn D sem mál þetta varði og stúlkuna E. Í apríl 2021 hafi drengurinn tjáð námsráðgjafa í grunnskólanum á F að hann hefði verið beittur kynferðislegu ofbeldi af hálfu föður. Viðkomandi námsráðgjafi hafi tilkynnt atvikið þegar í stað til Fjölskyldusviðs B. Á þeim tíma hafði um nokkurt skeið verið til rannsóknar meint kynferðisbrot föður gegn stúlkunni og aðkoma barnaverndaryfirvalda verið töluverð. Á fundi með skólastjórnendum skömmu síðar hafi kærandi tjáð áhyggjur sínar um að hún óttaðist að stuðningur Fjölskyldusviðs B við fjölskylduna væri ófullnægjandi sökum þess að henni væri ekki treyst. Hún hafi óttast um velferð barna sinna og upplifað sig hjálparvana í aðstæðunum. Í fyrrgreindri greinargerð með hinni kærðu ákvörðun sé einmitt vísað til þess mats starfsmanna Fjölskyldusviðs B að ásakanir um kynferðisofbeldi bæru þess merki að vera tilbúningur. Af greinargerðinni að dæma sé jafnframt ljóst að frásögn drengsins hafi verið afskrifuð þá og þegar, án nánari skoðunar.

Því sé sérstaklega mótmælt sem fram komi í greinargerðinni um afstöðu kæranda til könnunar málsins en þar sé ranglega fullyrt að kærandi hafi verið andsnúin frekari skoðun málsins. Þetta sé alrangt og þvert á vilja kæranda sem hún hafi tjáð mjög skýrt á fundum, bæði með starfsmönnum fjölskyldusviðs og skólastjórnendum.

Hin kærða ákvörðun sé eigi studd fullnægjandi rökum, enda hafi eiginleg könnun máls aldrei farið fram, þrátt fyrir rökstuddan grun um kynferðisofbeldi gegn barni. Starfsmenn Fjölskyldusviðs B hafi enn fremur látið undir höfuð leggjast að leita aðstoðar Barnahúss við könnun málsins líkt og þeim hafi borið að gera samkvæmt 3. mgr. 22. gr. bvl.

Auðsýnt þyki að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin þvert á meginreglur bvl., einkum rannsóknar- og málshraðareglur 41. gr. laganna. Líkt og áður segi hafi samtímaskráningu atvika verið ábótavant, auk þess sem óljóst sé hvenær ákvörðun um að hætta könnun máls hafi verið í raun tekin. Fyrir liggi að tilkynning hafi borist Fjölskyldusviði B í apríl 2021 en greinargerð um að hætta könnun máls hafi ekki verið rituð fyrr en rúmu ári síðar, án þess þó að eiginleg könnun málsins hafi farið fram í millitíðinni. Á sama tíma hafi kærandi ekki fengið neinar upplýsingar um framvindu málsins.

III.  Sjónarmið Fjölskyldusviðs B

Fjölskyldusvið B vísar til greinargerðar um að hætta könnun máls, dags. 14. júlí 2022. Þar kemur fram að tilkynning hafi komið frá lögreglu um að kærandi hefði haft samband um meint kynferðisbrot gagnvart drengnum af hendi föður og nágranna kæranda. Könnun máls hafi hafist með samtölum við drenginn. Mikið ósamræmi hafi komið fram í samtölum við hann, ótrúverðugleiki í frásögn og hafi það verið mat barnaverndarstarfsmanns að um tilbúning væri að ræða. Hann hafi talað um að hitta sérfræðinga og gera eitthvað skemmtilegt. Hann hafi viljað gera eins og systir hans, en meint kynferðisbrot gagnvart henni hafi verið til rannsóknar á sama tíma. Barnaverndarstarfsmaður hafi metið málið mjög litað af væntanlegri umgengni föður við börnin og málið borið merki þess að um tilbúning væri að ræða. Einnig hafi verið rætt við kæranda og ferlinu við lögreglurannsókn lýst. Við það hafi komið fram mikil andstaða móður við frekari skoðun málsins. Rætt hafi verið við föður drengsins sem hafi vísað öllum ásökunum á bug. Ekki hafi verið rætt við nágranna kæranda. Í lýsingum kæranda komi fram að nágranni hafi játað brot sín við barnaverndarstarfsmann, en það sé ekki rétt. Könnun máls hafi verið lokað eftir samtöl við drenginn, kæranda og föður. Greinargerðin hafi verið unnin út frá samtölum við barnaverndarstarfsmann því að skráningu á vinnslu málsins hafi verið verulega ábótavant á meðan á því hafi staðið.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er sonur kæranda. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar frá lögreglu um að kærandi hefði haft samband um meint kynferðisbrot föður og nágranna kæranda gagnvart drengnum. Með hinni kærðu ákvörðun Fjölskyldusviðs B frá 14. júlí 2022 var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir þjónustunnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarþjónusta skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan barnsins. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarþjónustna, um skyldu til að láta barnaverndarþjónustum í té upplýsingar og málsmeðferð almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 3. mgr. 22. gr. bvl. kemur fram að ef grunur sé um að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi eða alvarlegu líkamlegu eða andlegu ofbeldi beri barnaverndarþjónustu að óska eftir þjónustu Barnahúss við könnun málsins. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 107/2021 kemur fram að í ákvæðinu felst skylda til að óska eftir þjónustu Barnahúss sem síðan metur hvort ástæða sé til að bjóða barninu þjónustu.

Í ljósi fyrrgreinds lagaákvæðis og tilkynningar frá kæranda vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi, telur úrskurðarnefndin að Fjölskyldusviði B hafi borið skylda til að leggja sérstakt mat á það hvort tilkynningin hafi gefið tilefni til að óska eftir aðstoð Barnahúss við könnun málsins, sbr. 3. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga, sbr. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 107/2021.

Samkvæmt framansögðu telur úrskurðarnefndin að könnun málsins hafi ekki verið í samræmi við málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga og því er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til Fjölskyldusviðs B til meðferðar að nýju.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fjölskyldusviðs B, dags. 14. júlí 2022, um að loka máli vegna drengsins D, er felld úr gildi og vísað til nýrrar meðferðar Fjölskyldusviðs B.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta