Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/2013.

 

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 15. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 11/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 2. október 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 27. september 2012, fjallað um höfnun hans á atvinnuviðtali. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 1. október 2012 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 7. janúar 2013. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 1. júní 2011.

 

Kærandi var boðaður í atvinnuviðtal hjá B 31. ágúst 2012. Skömmu síðar bárust Vinnumálastofnun þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi gangavarðar hjá skólanum. Vinnumálastofnun óskaði í kjölfarið eftir skýringum kæranda með bréfi, dags. 10. september 2012. Í bréfi, dags. 14. september 2012, greindi kærandi frá því að hann sé hálfheyrnarlaus og eigi erfitt með að vera í miklum hávaða. Af þeim sökum hafi hann átt erfitt með að taka starfinu.

 

Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 2. október 2012, um hina kærðu ákvörðun frá 27. september 2012, þess efnis að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til hans í tvo mánuði frá og með 1. október 2012, á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi hafnað atvinnutilboði.

 

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. september 2012, í bréfi, dags. 11. október 2012. Með endurupptökubeiðninni fylgdi læknisvottorð, dags. 4. október 2012, þar sem fram kemur að kærandi sé með langvinnan eyrnasjúkdóm og sé heyrnarskertur. Hann búi við óþol varðandi hávaða/háreysti og taka verði tillit til umhverfis í því sambandi.

 

Mál kæranda var endurupptekið hjá Vinnumálastofnun í kjölfarið og með bréfi, dags. 26. október, 2012, tilkynnti stofnunin kæranda að hún hefði á fundi sínum 24. október 2012 fjallað um höfnun hans á atvinnuviðtali og skýringar hans teldust ekki gildar. Var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 1. nóvember 2012, í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. október 2012, í bréfi, dags. 6. nóvember 2012.

 

Vinnumálastofnun sendi kæranda annað bréf, dags. 12. nóvember 2012, þar sem fram kom að stofnunin hefði á fundinum 24. október 2012 tekið þá ákvörðun að fella niður bótarétt hans frá og með 1. nóvember 2012, í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vegna beiðni kæranda um rökstuðning í bréfi, dags. 6. nóvember 2012, sendi Vinnumálstofnun kæranda rökstuðning fyrir ákvörðuninni í bréfi, dags. 20. nóvember 2012. Í rökstuðningi stofnunarinnar kemur meðal annars fram að ákvörðun um biðtíma á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið dregin til baka á fundi 24. október 2012 í ljósi framlagðs læknisvottorðs, en þar sem kærandi hafi ekki lagt fram læknisvottorð um skerta vinnufærni í upphafi umsóknar um atvinnuleysisbætur frá júní 2012 hafi sú ákvörðun verið tekin á fundinum að kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur tekið fram að hann geti tekið hvaða starfi sem er og ekki nefnt skerta vinnufærni vegna heyrnarskerðingar. Kærandi greinir jafnframt frá því að sér hafi ekki dottið í hug að hann gæti þurft að hafna starfi sökum heyrnarskerðingarinnar þar sem hún hafi aldrei haft áhrif á störf hans áður. Hann geri sér grein fyrir því í dag að hann hefði átt að leggja fram læknisvottorð ásamt því að greina frá henni. Þá telur hann ákvörðunina harkalega miðað við mistök sín.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. apríl 2013, segir að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta varði ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um áhrif þess að láta hjá líða að veita upplýsingar eða að tilkynna um breytingar á högum. Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að við ákvörðun um að Vinnumálastofnun skuli meta hvort ákvörðun atvinnuleitanda um höfnun starfs eða atvinnuviðtals hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra fjölskyldumeðlima. Sé því ljóst að atvinnuleitanda sé eingöngu heimilt að hafna starfi án þess að þurfa að sæta viðurlögum, ef höfnunin er réttlætanleg á grundvelli ástæðna sem taldar séu upp í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu enda sé ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar. Komi upplýsingar um skerta vinnufærni fyrst upp þegar starf er boðið atvinnuleitanda, kunni að koma til viðurlaga skv. 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum sé að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Það geti því reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að umsækjendur geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni umsækjenda geti það haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomandi standa til boða enda hefur miðlun í störf og úrræði stofnunarinnar verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að í athugasemdum vegna atvinnuviðtals hjá B segi að kærandi hafi hafnað starfstilboði sökum þess að vinnustaðurinn hafi verið of stór og fjölmennur. Í skýringum kæranda komi svo fram að hann geti ekki tekið starfi vegna heyrnarskerðingar og að hann eigi erfitt með að vera í miklum hávaða.

 

Vinnumálastofnun telur skýrt af gögnum málsins að kærandi hafi ekki lagt fram læknisvottorð um skerta vinnufærni fyrr en eftir að honum var boðið starf sem gangavörður í B. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar, meðal annars í ljósi ofangreindra ummæla í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsingar um heilsu atvinnuleitenda sem kunna að hafa áhrif á getu þeirra til að sinna almennum störfum á vinnumarkaði verði að hafa borist stofnuninni áður en starfstilboðum eða vinnumarkaðsúrræðum sé hafnað hjá stofnuninni.

 

Óumdeilt sé að kærandi lagði ekki fram læknisvottorð um skerta vinnufærni í upphafi umsóknar um atvinnuleysisbætur frá júní 2012. Í umsókn hans um atvinnuleysisbætur sé merkt við að kærandi sá almennt vinnufær og Vinnumálastofnun hafi tekið mið af þeim upplýsingum. Ekki verði séð að kærandi hafi, fyrir umrædda höfnun á atvinnutilboði, tjáð stofnuninni frá skertri vinnufærni eða gert fyrirvara í umsókn um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá telur Vinnumálastofnun að þrátt fyrir að ástæður kæranda fyrir höfnun á starfsviðtali séu studdar læknisvottorði verði ekki séð að skýringar hans geti talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem upplýsingar um skerta vinnufærni kæranda komu fyrst fram þegar honum var boðið starf. Vinnumálastofnun tekur fram að fyrir mistök hafi kæranda verið sent bréf, dags. 26. október 2012, þar sem fram komi að ákvörðun stofnunarinnar sé tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. apríl 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. apríl 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 


 

2.

Niðurstaða

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.

 

Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur eftirfarandi fram:

 

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

 

Í greinargerð í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að gert sé ráð fyrir að þetta eigi við um þá sem hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttökudegi umsóknar um atvinnuleysisbætur. Þá greinir að það þyki eðlilegt að þeir sem eru tryggðir fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi er þeir helst kjósa að sinna. Sá tími var liðinn þegar kærandi hafnaði umræddri vinnu en kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. júní 2012 líkt og fyrr greinir. Þá segir að heimilt sé að taka tillit til skertrar vinnufærni atvinnuleitanda við mat á því hvort ástæður séu gildar. Sjaldan muni þó reyna á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að atvinnuleitanda verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna.

 

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að ástæðan fyrir því að hann hafnaði starfinu sé vegna þess að hann sé heyrnarskertur en hann hafi ekki tekið það fram þar sem heyrnarskerðingin hafi ekki áður haft áhrif á störf hans. Hann hafi því ekki grunað að þetta gæti komið upp.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð, dags. 4. október 2012, þar sem fram kemur að kærandi sé til meðferðar vegna langvinns eyrnasjúkdóms. Hann sé heyrnarskertur og búi við óþol varðandi hávaða/háreysti og verði að taka tillit til umhverfis í þessu sambandi. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna, en við það mat ber að hafa í huga að í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur tekur hann ekki fram að hann sé heyrnarskertur og geti ekki starfað í hávaðasömu umhverfi. Þá ber einnig að líta til 1. mgr. 59. gr. sömu laga en þar kemur fram að sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar því staðfest.


 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. október 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta