Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 15. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 20/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 29. janúar 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit að kærandi, A, greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Skuldin nam 191.426 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 28.714 kr. eða samtals 220.140 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 31. janúar 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Skuld kæranda er þannig tilkomin að hann fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 3. nóvember til 31. desember 2010 en hann uppfyllti ekki á þeim tíma almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar við ríkisskattstjóra í febrúar og mars 2011 vegna nóvember og desember 2010 kom í ljós að kærandi hafði þegið greiðslu sjúkradagpeninga samhliða því að hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá 3. nóvember til 31. desember 2010. Með bréfum, dags. 9. febrúar og 9. mars 2011, var kærandi beðinn um skýringar á þessum ótilkynntu tekjum. Hann skilaði inn skýringum 8. apríl 2011 og var málið í kjölfarið tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 29. apríl 2011. Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 2. maí 2011, að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á fyrrgreindu tímabili og þær yrðu innheimtar skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu var honum jafnframt leiðbeint um rétt sinn til þess að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því að bréfið bærist honum. Kærufresturinn rann út 2. ágúst 2011 án þess að kærandi nýtti sé kæruheimildina.


 

Með greiðsluseðli til kæranda frá Vinnumálastofnun, dags. 3. maí 2011, var kæranda tilkynnt að skuld hans vegna fyrrgreinds tímabils væri 191.426 kr. án 15% álags. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 2. maí 2011, var kæranda leiðbeint um rétt sinn til að óska eftir endurupptöku á máli sínu, til að óska eftir rökstuðningi og einnig leiðbeint um rétt sinn til að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða frá því að bréfið bærist honum. Kærufresturinn rann út 2. ágúst 2011 og nýtti kærandi sér ekki kæruheimildina.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2013, var kæranda tilkynnt að þar sem skuld hans vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta væri enn ógreidd yrði hún innheimt í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og ef bréfinu yrði ekki svarað innan 14 daga yrði skuldin send til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Kæranda var jafnframt bent á að skuld hans væri aðfararhæf skv. 6. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tekið var fram í bréfinu að kæranda væri heimilt að kæra ákvörðunina um innheimtu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða. Kærandi hefur nú kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 31. janúar 2013.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. maí 2013, bendir Vinnumálastofnun á að þegar kærandi hafi lokið töku atvinnuleysisbóta í febrúar 2011 hafi skuld hans vegna tímabilsins 3. nóvember til 31. desember 2010 að fjárhæð 191.426 kr. án álags verið ógreidd. Sökum mikilla anna hjá Vinnumálastofnun hafi skuld kæranda ekki verið send í frekari innheimtumeðferð innan stofnunarinnar fyrr en í ársbyrjun 2013 og með bréfi, dags. 29. janúar 2013, hafi kæranda verið tilkynnt að hann skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi fái ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða ofgreidda fjárhæð.

 

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi komið á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar 31. janúar 2013 og fullyrt að hann væri búinn að greiða skuld sína og hafi hann lagt fram bankayfirlit og yfirlit yfir greiðslu sjúkradagpeninga því til stuðnings. Samkvæmt greiðslukerfi stofnunarinnar hafi kærandi ekki greitt skuld sína og ekki sé hægt að sjá samkvæmt bankayfirlitinu að hann hafi gert það. Vinnumálastofnun hafnar fullyrðingum kæranda um að hann hafi innt af hendi greiðslu til stofnunarinnar vegna skuldar hans.

Vinnumálastofnun telji, þar sem skuld kæranda er enn ógreidd, að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt. Vinnumálastofnun telur þó rétt að fella niður 15% álag á skuld kæranda enda hafi honum verið tilkynnt 3. maí 2011 á greiðsluseðli stofnunarinnar til hans að skuldin væri 191.426 kr. og hafi þá ekki verið reiknað með 15% álagi. Vinnumálastofnun telji því að rangt hafi verið að bæta álagi á skuld kæranda þegar stofnunin tók þá ákvörðun að innheimta skuldina skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í stað 3. mgr. 39. gr. sömu laga líkt og hafi verið gert meðan kærandi þáði greiðslu atvinnuleysisbóta. Skuld kæranda við Vinnumálastofnun sé því 191.426 kr. en ekki 220.140 kr. líkt og segi í innheimtubréfi stofnunarinnar frá 29. janúar 2013.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júní 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 18. júní 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna gríðarlega mikils málafjölda hjá nefndinni.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 3. nóvember til 31. desember 2011 að fjárhæð 191.426 kr. en á þeim tíma uppfyllti hann ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann þáði á sama tíma greiðslu sjúkradagpeninga. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi komið á skrifstofu stofnunarinnar 31. janúar 2013 og haldið því fram að hann hafi þegar greitt skuld sína og hafi hann lagt fram bankayfirlit og yfirlit yfir greiðslu sjúkradagpeninga því til stuðnings. Samkvæmt greiðslukerfi stofnunarinnar hafi skuldin ekki verið greidd. Samkvæmt framlögðum gögnum máls þessa fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bendir ekkert til þess að kærandi hafi þegar greitt skuld sína.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum segir:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun telur rétt að fella niður 15% álag á skuld kæranda þar sem honum hafi verið tilkynnt 3. maí 2011, á greiðsluseðli stofnunarinnar til hans, að skuldi væri 191.426 kr. og hafi þá ekki verið reiknað með 15% álagi á hana. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur þessa niðurstöðu vera rétta. Kæranda ber því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir 3. nóvember til 31. desember 2010 að fjárhæð 191.426 kr.

 

 


 

 

Úrskurðarorð

Kæranda, A, ber að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir 3. nóvember til 31. desember 2010 að fjárhæð samtals 191.426 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta