Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 19/2023

Miðvikudaginn 31. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 9. janúar 2023, kærði B réttindagæslumaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. nóvember 2022, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 27. október 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 24. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um örorkulífeyri til nýrrar meðferðar og boðaði kæranda í viðtal og skoðun hjá skoðunarlækni með bréfi, dags. 11. janúar 2023. Í kjölfarið tók stofnunin nýja ákvörðun í málinu, dags. 15. mars 2023, þar sem fallist var á að kærandi uppfyllti skilyrði um örorkulífeyri. Gildistími matsins var ákvarðaður frá 1. desember 2022 til 31. maí 2025 á þeim forsendum að tryggingayfirlæknir hafi metið kæranda endurhæfanlegan samkvæmt bréfi, dags. 24. nóvember 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. janúar 2023. Með bréfi, dags. 10. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. janúar 2023, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að þar sem ákveðið hefði verið að senda kæranda í skoðun vegna umsóknar um örorku væri óskað eftir frávísun málsins. Með bréfi, dags. 26. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar ríkisins. Bréfið var ítrekað 13. febrúar 2023. Í símtali við umboðsmann kæranda 21. mars 2022 var óskað eftir að upphafstími örorkumats yrði metinn lengra aftur í tímann. Með bréfi, dags. 22. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð stofnunarinnar vegna ákvörðunar um upphafstíma örorkumats kæranda. Með bréfi, dags. 28. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. mars 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram sú krafa að endurskoðuð verði ákvörðun Tryggingastofnunar um að hafna umsókn kæranda um örorkulífeyri. Umsókninni hafi verið hafnað á þeirri forsendu að hann þyrfti að sækja fyrst um endurhæfingarlífeyri.

Kærandi sé greindur með einhverfu sem einkennist af skorti á getu til félagslegra og tilfinningalegra samskipta. Þar að auki komi greinilega fram hjá honum einkenni hömlunar- og áráttuhegðunar, áráttu varðandi áhugamál sem lýsi sér gjarnan í síendurteknum óviðráðanlegum hreyfingum og stöðluðu endurtekningasömu tali/bergmáli (ecololia). Kærandi þurfi að fylgja ósveigjanlegri rútínu til að girða fyrir tilfinningar eins og mikla fælni, hugsanir um hræðilega hluti sem gætu gerst og sjálfsskaða. Kærandi hafi ríka tilhneigingu til ótta og áhyggna sem enginn fótur sé fyrir.

Kærandi sé með ósjálfráða hreyfingar sem aukist í hlutfalli við vaxandi kvíða og óróleika, hann eigi erfitt með að hegða sér inni á heimilinu og utan þess. Greiningar á einhverfu sýni einnig greindarskort, blandaða röskun á námshæfni, auk þess sem hann eigi í erfiðleikum með lestur, skriflega tjáningu og stærðfræði/reikning. Þessi skortur á námshæfni sé alvarlegur og kærandi þurfi mjög sértæka leiðsögn og einstaklingsmiðaða, sérsniðna að getu hans og einkennum til þess að hann nái betri tökum á ákveðnum hlutum. Kærandi búi ekki yfir getu til að ná viðunandi árangri í þessum námsgreinum.

Kærandi sé auk þess með ótilgreinda hegðunarröskun sem birtist fyrst og fremst í samskiptum við móður hans sem hafi allt til dagsins í dag alið önn fyrir honum. Að lokum beri að taka fram að kærandi hafi verið greindur með væga þroskaheftingu og enga eða lágmarksskerðingu atferlis.

Endurhæfingarprógramm geti ekki „læknað” framangreint. Það sé engin lækning til og því sé farið fram á að kærð ákvörðun verði endurskoðuð vandlega.

Bent sé á að kærandi hafi frá um sjö ára aldri og fram á þennan dag verið undir handleiðslu geðlækna og sálfræðinga. Beri helst að nefna C barna- og unglingageðlækni.

Það sé öllum ljóst sem til þekki að kærandi sé ófær með öllu að búa einn og lifa sjálfstæðu lífi. Hann verði alla sína tíð háður öðrum um framfærslu og daglegt líf. Þar sé móðir hans efst á blaði á meðan hennar njóti við.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 4. nóvember 2022, um synjun á örorkumati þar sem endurhæfing hafi ekki þótt vera fullreynd. Eftir að kæra hafi borist stofnuninni hafi málið verið tekið til nýrrar efnisskoðunar. Á þeim forsendum hafi kærandi verið boðaður í skoðun hjá matslækni Tryggingastofnunar og hafi bréf þess efnis verið sent kæranda.

Þar sem Tryggingastofnun hafi nú tekið málið upp að nýju og ákveðið að senda kæranda í skoðun vegna umsóknar um örorkumat óski stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísi fyrirliggjandi kæru frá. Fallist nefndin ekki á frávísunarkröfu þessa áskilji stofnunin sér rétt til að leggja fram efnislega greinargerð vegna málsins.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. mars 2023, kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri 27. október 2022 sem hafi verið synjað þann 24. nóvember 2022. Sú synjun hafi verið byggð á því að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Við endurskoðun Tryggingastofnunar á málinu í kjölfar kæru hafi verið ákveðið að breyta fyrri ákvörðun og senda kæranda í örorkumat hjá skoðunarlækni. Sú ákvörðun hafi verið tilkynnt úrskurðarnefnd velferðarmála 24. janúar 2023.

Kærandi hafi farið í skoðun hjá skoðunarlækni 6. mars 2023 og eftir að skoðunarskýrsla hafi verið yfirfarin af sérfræðingum Tryggingastofnunar hafi verið ákveðið að samþykkja umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann, eða frá 27. október 2020. Ekki hafi verið fallist á slíka afturvirkni örorkulífeyris af sérfræðingum stofnunarinnar, heldur hafi tímabil örorkulífeyris verið ákvarðað frá 1. desember 2022 til 31. maí 2025.

Þar sem ágreiningsefni málsins varði einungis tímabil örorkulífeyris, þá nægi að gera grein fyrir lagaumhverfinu varðandi það efni.

Í 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé að finna ákvæði um upphaf bóta. Í 1. mgr. segi: „Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.“ Í 4. mgr. 53. gr. sömu laga segi: „Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Líkt og gildi um framangreinda reifun á lögum og reglum, þá nægi að gera aðallega grein fyrir þeim málavöxtum sem hafa þýðingu fyrir ákvörðun um tímabil örorkulífeyris.

Kærandi sé ungur að árum, fæddur í maí X. Hann hafi verið búsettur í […], D, hluta ævi sinnar, og hafi umönnunargreiðslur, sem móðir hans hafi, verið greiddar til D. Samkvæmt sjúkdómsgreiningu í læknisvottorði sem hafi fylgt umsókn um örorkulífeyri, dags. 15. nóvember 2922, sé kærandi með bernskueinhverfu (F84.0), röskun á námshæfni (F81.3), hegðunarröskun (F91.9) og væga þroskaheftingu með engri eða lágmarksskerðingu atferlis (F70.0).

Þegar umsókn kæranda um örorkulífeyri hafi upprunalega verið synjað þann 24. nóvember 2022 hafi það verið gert á þeirri forsendu að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Um það atriði segi í bréfinu: „Umsækjandi er greindur með taugaþroskaraskanir sem munu væntanlega setja mark sitt á framtíðar starfsgetu. Þar sem fullum taugaþroska er ekki náð sökum aldurs er ótímabært að meta framtíðar starfsgetu. Bent er á að nám á starfsbraut getur verið liður í endurhæfingaráætlun.“ Synjunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og við vinnslu málsins hafi stofnunin ákveðið að endurskoða ákvörðunina og boða kæranda í örorkumat hjá skoðunarlækni. Eftir að skoðunarskýrsla hafi verið yfirfarin hafi niðurstaðan verið sú að veita kæranda örorkulífeyri, en þó ekki tvö ár aftur í tímann eins og um hafi verið sótt, heldur frá 1. desember 2022.

Í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. mars 2023, segi varðandi synjun á afturvirkni að það sé gert á grundvelli mats tryggingalæknis á því að umsækjandi hafi verið metinn endurhæfanlegur, sbr. bréf, dags. 24. nóvember 2022, og að örorkumatið miðist því við næstu mánaðamót, þ.e. frá 1. desember 2022.

Við þessa málavexti megi bæta þeirri staðreynd að ákvörðun Tryggingastofnunar sé í raun ívilnandi með tilliti til skoðunarskýrslu skoðunarlæknis því að í skýrslunni sé hakað við „nei“ við spurningunni um hvort að endurhæfing sé fullreynd. Að mati skoðunarlæknis 6. mars 2023 sé endurhæfing ekki fullreynd sem styðji upphaflegt mat læknateymis Tryggingastofnunar þegar umsókn um örorkulífeyri hafi verið synjað 24. nóvember 2022.

Ef sérfræðingar Tryggingastofnunar hefðu farið eftir niðurstöðu örorkumatsskýrslu að öllu leyti, hefði umsókn kæranda um örorkulífeyri ekki verið samþykkt. Hins vegar hafi sú ákvörðun verið tekin að veita kæranda örorkulífeyri engu að síður og hafi sú ákvörðun verið byggð á heildstæðu mati á færniskerðingu hans eins og henni sé lýst í skoðunarskýrslu.

Ákvörðun tryggingayfirlæknis varðandi tímabil örorku byggist á tveimur staðreyndum sem eru samofin.

Í fyrsta lagi hafi það einungis verið eftir skýrslu skoðunarlæknis 6. mars 2023 að sérfræðingar Tryggingastofnunar hafi talið sig hafa nægar upplýsingar til að veita kæranda örorkulífeyri. Í besta falli megi halda því fram að þær upplýsingar hafi átt að vera ljósar eftir að læknisvottorð hafi borist með umsókn um örorkulífeyri, dags. 15. nóvember 2022. Fyrir þann tíma hafi fullnægjandi upplýsingar ekki borist stofnuninni. Í því sambandi beri til dæmis að nefna að læknisvottorð vegna fyrri umsóknar um örorkulífeyri, dags. 5. janúar 2021, hafi ekki verið byggð á skoðun á kæranda eins og komi fram lýsingu læknisskoðunar í vottorðinu og slík atriði geti haft áhrif á hvort læknateymi Tryggingastofnunar telji upplýsingar fullnægjandi.

Í öðru lagi hafi kærandi verið metinn endurhæfanlegur af læknateymi, sbr. bréf, dags. 24. nóvember 2022. Sú niðurstaða samrýmist mati skoðunarlæknis sem hafi talið endurhæfingu kæranda ekki vera fullreynda við skoðun 6. mars 2023. Þrátt fyrir þá niðurstöðu sérfræðinga Tryggingastofnunar og skoðunarlæknis hafi ákvörðun verið tekin um að veita kæranda örorkulífeyri. Þegar sú ákvörðun hafi verið tekin hafi sérfræðingar stofnunarinnar talið að endurhæfing væri fullreynd, enda hefði umsóknin ekki verið samþykkt að öðrum kosti. Tímamarkið þegar endurhæfing teljist ekki lengur fullreynd sé ekki augljóst, en því sé harðlega mótmælt af hálfu Tryggingastofnunar að því tímamarki hafi verið náð fyrir tveimur árum. Ekki hafi tíðkast að veita 18 ára einstaklingum örorkulífeyri nema færniskerðingin sé mun meiri en í tilviki kæranda, enda sé endurhæfing iðulega raunhæfari hjá ungu fólki en öldnu og mikilvægt sé að láta reyna á möguleika á starfsendurhæfingu hjá ungum einstaklingum, sé þess einhver kostur.

Í ljósi þessara staðreynda hafi það verið mat tryggingayfirlæknis að tímabil örorkulífeyris skyldi hefjast 1. desember 2022, enda stofnist réttur til bóta frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan á umsókn kæranda um að samþykkja umsókn hans um örorkulífeyri frá 1. desember 2022 til 31. maí 2025 sé málefnaleg og byggð á faglegum sjónarmiðum sem eigi sér stoð í gildandi lögum og reglum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. mars 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var samþykkt frá 1. desember 2022 til 31. maí 2025. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á afturvirkum greiðslum örorkulífeyris. Kærandi krefst þess að upphafstíminn verði ákvarðaður frá 27. október 2020.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur samkvæmt þeim lögum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt þágildandi 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt þágildandi 4. mgr. sömu greinar skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berst Tryggingastofnun.

Samkvæmt þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að viðkomandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Af framangreindu má ráða að örorkulífeyrir skal reiknaður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun ríkisins. Eins og áður hefur komið fram var kærandi talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati, dags. 15. mars 2023. Gildistími örorkumatsins var ákvarðaður frá 1. desember 2022 til 31. maí 2025. Áður hafði Tryggingastofnun synjað umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 24. nóvember 2022, á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem leiddi til nýrrar ákvörðunar, dags. 15. mars 2023. Örorkumatið var byggt á skoðunarskýrslu E læknis, dags. 6. mars 2023, þar sem kærandi hlaut ekkert stig samkvæmt líkamlega hluta staðalsins og 21 stig samkvæmt andlega hluta staðalsins.

Mál þetta varðar kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. mars 2023, var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. desember 2022. Í umsókn er þess krafist að upphafstími örorkumats verði 1. október 2020. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála sem leiddi til nýrrar ákvörðunar, dags. 15. mars 2023. Örorkumatið er byggt á skoðunarskýrslu E læknis, dags. 6. mars 2023, þar sem kærandi hlaut ekkert stig samkvæmt líkamlega hluta staðalsins en 21 stig í andlega hluta staðalsins. Að mati E felst andleg færniskerðing kæranda í því að kærandi geti ekki séð um sig sjálfur, að hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi eða truflandi hegðunar, að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra, að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur, að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf, að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, að kærandi ráði ekki við breytingar á daglegum venjum, að kæranda finnist oft að hann hafi svo mörgu að sinna að hann gefst upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis, að kærandi kvíði því að sjúkleiki hans versni fari hann aftur að vinna, að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins, að kæranda sé ekki annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu, að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, að kærandi geti ekki svarað í síma og ábyrgst skilaboð, að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt, að kærandi geti ekki fundið númer í símaskrá og að kærandi þurfi stöðuga örvun til að halda einbeitingu.

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skýrslunni:

„Á einhverfurófi, þroskaröskun, ADHD, mótþróaþrjóskuuröskun, áratta og þráhyggja.“

Um félagssögu kæranda segir í skýrslunni:

„Um er að ræða ungan dreng sem er búsettur á F hjá móður sinni. Móðir hans er frá D en faðir hans íslenskur, þau skildu. A fór ungur með foreldrum sínum til D en kom aftur til Íslands á grunnskólaaldri. Hann hefur ekki lokið formlega grunnskólanámi en rætt hefur verið um hvort hann komist á starfsbraut.“

Um heilsufars- og sjúkrasögu kæranda segir í skýrslunni:

„Líkamlega hraustur alla tíð en var seinn til tals og sýndi greinileg merki þroskaröskunar. Töluvert vandamál vegna reiðiskasta og átt erfitt með að halda rútínu. Mikil einkenni mótþróaþrjóskuröskunar og hann var greindur með einkenni ADHD og talinn vera á einhverfurófi og með þroskaröskun. Í viðtali koma fram lýsingar á einkennum eins og áráttu og þráhyggju og vænishyggju. Ástandið er sveiflukennt. Einhver lyfjameðferð hefur verið reynd og hann var lengi í eftirliti hjá C barnageðlækni á G sem nú mun vera hættur störfum. Fyrirhuguð eru tengsl við geðdeild H. Nám gekk almennt illa, hann lærði að lesa á X og lærði ensku á netinu. Er slakur í íslensku. Einkenni hans hafa eitthvað lagast á lyfjameðferð.“

Þá kemur fram í skýrslunni það mat skoðunarlæknis að færni kæranda hafi verið svipuð og hún sé nú nokkur undanfarin ár. Auk þess segir að eðlilegt sé að endurmeta kæranda innan tveggja þriggja ára.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð I, dags. 15. nóvember 2022. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„BERNSKUEINHVERFA

BLANDIN RÖSKUN Á NÁMSHÆFNI

HEGÐUNARRÖSKUN, ÓTILGREIND

VÆG ÞROSKAHEFTING, ENGIN EÐA LÁGMARKSSKERÐING ATFERLIS“

Um fyrra heilsufar segir:

„A mun hafa verkið greindur í D með mótþróaþrjóskuröskun og ávísað Ritalin.

Af gögnum Greiningar- og ráðgjafastöðvarinnar frá 2008 mátti sjá, á viðeigandi skimunarkvörðum, að það voru til staðar fjölmörg einkenni einhverfu og var það ástand að hluta til skoðað með ADOS auk einkennamælikvarða og skimunarlista.

Niðurstöður þessa mælitækis sýndu einhverfueinkenni yfir viðmiðunarmörkum miðað við mælieiginleika tækisins. Fullnaðargreining var ekki gerð.

Eftir að afskiptum Greiningar- og ráðgjafastöðvarinnar lauk var leitað eftir orsökum hegðunar A m.a. með því að skoðaðir voru litningar, almenn blóðpróf og tekið heilalínurit. Þetta var allt innan eðlilegra marka.

Þegar C barna- og unglingageðlæknir kom að málinu X var gengið úr skugga um hvort þau einkenni sem skilgreina einhvefu væru til staðar og greiningarskilyrði einhverfu væru fyllt. Þetta var gert með því að í nokkrum viðtölum var lagt fyrir foreldra spyrjandamiðað greiningarviðtal (ADI-R) til athugunar á tilvist einhverfueinkenna. Niðurstöður úr því staðfestu einhverfugreiningu.

Vegna fyrri sögu um ADHD einkenni og mótþróaþrjóskuröskun var gerð tilraun til þess að móta hegðun A með örvandi lyfi. Þeirri meðferð var fylgt eftir með viðeigandi hætti og þótti ljóst að hún skilaði ekki árangri og var henni því hætt.

Samkvæmt því sem fram kom í símtali við […] hans 5. janúar 2021 lærði hann ekki að lesa fyrr en X. Hún lýsir skapofsaköstum og öðrum einkennum sem samrýmast ofangreindum sjúkdómsgreiningum.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„A er sonur X móður og íslendings. Þau voru búsett á Íslandi þegar hann fæddist og hann gekk í skóla á Íslandi unns þau fluttu til D. Þetta mun hafa verið í kringum X. Hann er nýlega fluttur aftur til Íslands aftur með móður sinni.

A átti í miklum erfiðleikum sem barn. Hann var greindur með einhverfu en fékk einnig greininguna mótþróa þrjóskuröskun og athyglsibrest. Rannsóknir sýndu enn fremur fram á skert greind. Drengnum gekk mjög illa í skóla.

Skv. upplýsingum frá móður og honum sjálfum varð ekki mikið úr formlegri skólagöngu eftir að A flutti til D X, þá X ára gamall. Svo virðist sem hvergi hafi verið hægt að setja honum mörk og veita honum þjónustu við hæfi. Á endanum var hann sendur í skóla fyrir börn með sérþarfir en undi sér illa og hegðunarvandi jókst. Var því tekin úr þeim skóla. Undanfarið hefur hann varið tímanum aðallega við tölvu, að teikna og í sundi.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð J, dags. 5. janúar 2021, sem er að mestu samhljóða læknisvottorði I, dags. 15. nóvember 2022.

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem lagður var fram með umsókn kæranda um örorku, svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda er greint frá einhverfu og vægri þroskahömlun. Kærandi svarar spurningum um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða játandi og nefnir þar þráhyggju, áráttur, kvíðaröskun og þunglyndi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll gögn málsins. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt gögnum málsins var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur fyrst synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. nóvember 2022, á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Sú ákvörðun var afturkölluð undir rekstri málsins og kærandi boðaður í skoðun hjá skoðunarlækni. Ljóst er að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði örorku þegar skoðun skoðunarlæknis fór fram þann 6. mars 2023. Tryggingastofnun miðaði upphafstíma örorkumats kæranda við 1. desember 2022, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að sótt var um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Í hinni kærðu ákvörðun er greint frá því að synjun á afturvirkni hafi verið gerð á grundvelli mats tryggingayfirlæknis á því að kærandi hafi verið metinn endurhæfanlegur, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 24. nóvember 2022, og að upphafstími örorkumats miðist því við 1. desember 2022.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur heimilt við mat á upphafstíma örorkulífeyris að líta til þess hvenær endurhæfing er fullreynd, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt gögnum  málsins afturkallaði Tryggingastofnun aftur á móti þá ákvörðun sína að synja kæranda um örorkulífeyri á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd, sendi hann til skoðunarlæknis og féllst í kjölfarið á að hann uppfyllti skilyrði örorkulífeyris. Af því verður ráðið að Tryggingastofnun hafi litið svo á að endurhæfing væri fullreynd. Því er ekki fallist á þá málsástæðu Tryggingastofnunar að miða upphafstíma örorkumats við niðurstöðu sem var síðar afturkölluð, enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að breyting á ástandi kæranda hafi leitt til afturköllunar.

Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á þá niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins að miða upphafstíma örorkumats við 1. desember 2022 á þeim grundvelli að tryggingalæknir hafi metið kæranda endurhæfanlegan 24. nóvember 2022.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. mars 2023, um upphafstíma örorkumats kæranda felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma örorkumats A, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta