Hoppa yfir valmynd

Nr. 559/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. nóvember 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 559/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100020

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. október 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. september 2021, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd á Íslandi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Önnur varakrafa kæranda er sú að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 75. gr. laga um útlendinga. Þriðja varakrafa kæranda er sú að brottvísun og endurkomubann sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. og 101. gr. laga um útlendinga verði felld úr gildi. Fjórða varakrafa kæranda er sú að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 15. september 2021. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 21. september 2021 ásamt talsmanni sínum og með ákvörðun sama dag synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Að ósk kæranda var veittur frekari rökstuðningur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar með bréfi stofnunarinnar, dags. 1. október 2021. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 11. október 2021. Kærunefnd barst greinargerð kæranda og fylgigögn hinn 18. október 2021. Þá bárust kærunefnd frekari gögn frá kæranda hinn 25. október 2021.

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé fæddur og uppalinn í bænum [...] í Albaníu og hafi búið þar þangað til ársins 2018 þegar hann hafi yfirgefið heimaríki sitt. Kærandi hafi einnig greint frá því að hann hafi eitt sinn glímt við krabbamein í maga og þjáist nú að nýju af verkjum vegna þess. Kærandi nærist illa, sé með höfuðverki og upplifi svima og orkuleysi. Kærandi greindi frá því að ástæður flótta frá heimaríki hafi verið þær að hann hafi verið virkur í stjórnmálastarfi en hann hafi verið meðlimur í The Socialist Party og aðstoðað flokkinn í kosningum árið 2015. Síðar hafi kærandi gengið í The Socialist Movement for Integration og starfað fyrir þann flokk árið 2017. Við þau störf hafi hann komið auga á spillingu í The Socialist Party þar sem kjósendum hafi verið mútað til að kjósa flokkinn. Kærandi hafi notað fjölmiðla og samfélagsmiðla til að beita sér gegn tveimur frambjóðendum þess flokks sem hafi verið á sakaskrá. Það hafi leitt til þess að kæranda var sagt upp störfum hjá sveitarfélaginu sem hann hafi starfað hjá vegna ítaka The Socialist Party hjá sveitarfélaginu. Í kjölfarið hafi kæranda borist hótanir augliti til auglitis, þar sem honum hafi verið tjáð að hann myndi aldrei geta stundað atvinnu aftur og hafi með athöfnum sínum eyðilagt framtíð sína í stjórnmálum. Kærandi hafi í viðtalinu nefnt fjóra einstaklinga, sem hann kveður að séu allir áhrifamenn í stjórnmálum í Albaníu og sem hann telur að hafi staðið að baki hótunum gegn sér. Aðspurður í viðtali hvað kærandi óttaðist í heimaríki kvaðst hann óttast The Social Party og meðlimi þess flokks sem séu valdhafar og glæpamenn. Ekki sé hægt að leita aðstoðar yfirvalda vegna mikillar spillingar. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að hafa unnið fyrir National Informative Agency (SHIK) en þar hafi hann unnið við gagnöflun í baráttunni við hryðjuverk. Vegna starfa sinna fyrir þessi samtök hafi verið brotist inn á samfélagsmiðla kæranda og honum hafi í kjölfarið borist hótun í textaskilaboðum.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um ástand mannréttindamála í Albaníu, m.a. um spillingu stjórnvalda og aðgerðarleysi lögreglu. Í því sambandi vísar kærandi til alþjóðlegra skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Í greinargerð eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemd við það að ekki sé hægt að sjá í eftirfarandi rökstuðningi að einstaklingsbundið mat hafi verið framkvæmt í máli hans. Kærandi hafi tiltekið tvo stjórnmálaflokka, samtökin National Informative Agency og einstaklinga sem hafi tengst hótunum sem hann hafi orðið fyrir en ekki sé hægt að sjá að stofnunin hafi tekið afstöðu til þeirra málsástæðna. Þá gerir kærandi í öðru lagi athugasemd við það að hafa ekki fengið að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Kærandi hafi sýnt skilaboð sem hafi innihaldið morðhótanir sem hann hafi fengið vegna starfs síns fyrir National Informative Agency en hann hafi ekki fengið að leggja skilaboðið fram því birt hafi verið ákvörðun í máli hans strax í kjölfar viðtals. Kærandi lagði fram mynd af skilaboðinu með greinargerð sinni til kærunefndar. Í þriðja lagi gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi gert kröfu um að hann legði fram gögn til stuðnings frásögn sinni um þá spillingu sem viðvarandi sé í heimaríki en eðli málsins samkvæmt séu að jafnaði ekki gefin út gögn um slíkt. Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar hvað varðar kröfu hans um dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga þar sem hann sé hugsanlegt fórnarlamb mansals. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi átt að vera meðvituð um kröfu hans áður en til viðtals við hann kom en kærandi hafi greint frá aðstæðum sínum og hugsanlegu mansali sem hafi átt sér stað á farfuglaheimili hér í borg. Kærandi vísar til þess að hann og talsmaður hans hafi óskað eftir því sérstaklega að afla gagna sem sýni fram á misneytingu sem hann hafi orðið fyrir á farfuglaheimilinu sem ekki væri útilokað að gæti talist sem mansal. Kærandi fær ekki séð hvernig Útlendingastofnun hafi verið stætt á því að gefa honum ekki eðlilegan frest til að nálgast gögn sem styddu framangreinda kröfu. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni við skoðun á málsástæðu hans um mansal þar sem stofnunin hafi ekki rannsakað þann þátt frekar eftir að hafa fengið þau svör frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að ekkert mál um hugsanlegt mansal á kæranda hefði komið inn á borð hjá henni. Kærandi vísar til athugasemda með 75. gr. laga um útlendinga þar sem fram kemur að rannsókn lögreglu sé ekki forsenda þess að stofnunin taki afstöðu og veiti dvalarleyfi á þessum grundvelli. Þá hafi Útlendingastofnun ekki tekið afstöðu til kröfunnar í ákvörðun sinni eða eftirfarandi rökstuðningi fyrir henni. Í fimmta lagi gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að hann sé ekki einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu þrátt fyrir að í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sé tekið fram að fórnarlömb mansals séu einstaklingar í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í sjötta lagi gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa. Kærandi vísar til þess að hann hafi borið fyrir sig ofsóknir og mismunun vegna stjórnmálaþátttöku sinnar í heimaríki og þá hafi hann greint frá því að glíma við alvarlegan heilsubrest í maga og meltingarfærum. Jafnframt hafi kærandi borið fyrir sig að vera hugsanlegt fórnarlamb mansals.

Kærandi gerir þá kröfu aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé utan heimaríkis af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur, sbr. 1. mgr. og a- og b-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga og vegna stjórnmálaþátttöku sinnar, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. sömu laga. Kærandi vísar til málavaxta sem rakin hafi hafi verið að framan og annarra gagna málsins. Kærandi telur að ljóst sé að hann hafi flúið heimaríki vegna hótana frá valdamiklum einstaklingum vegna afhjúpunar hans á spillingu og kosningasvindli. Þá hafi kæranda borist hótanir vegna starfa sinna hjá stofnun/samtökum sem berjist gegn hryðjuverkum. Kærandi telur að það sé deginum ljósara að skipulögð glæpastarfsemi sé stór partur af albönskum raunveruleika og kærandi sé fullur vantrúar á getu lögreglu og yfirvalda í Albaníu. Kærandi geti ekki fært sér í nyt vernd stjórnvalda í heimaríki þar sem handhafar valds ofsæki hann. Þá sé einnig ekki útilokað að kærandi hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki á þeim grundvelli að hann tilheyri sérstökum þjóðfélagshópi vegna starfa sinna fyrir SHIK en honum hafi borist hótanir vegna uppljóstrana sinna um ákveðna hópa í mosku í heimaríki.

Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ríka þörf fyrir vernd vegna þess að stjórnvöld í heimaríki hans veita honum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá byggir hann framangreinda kröfu einnig á því að hann eigi rétt á dvalarleyfi vegna erfiðra aðstæðna og vegna heilsufars. Kærandi hafi greint frá því að heilsufar hans fari versnandi og hann finni fyrir einkennum á nýjan leik sem hann kannist við úr fortíðinni sem einkenni krabbameins. Með vísan til framangreinds telur kærandi að hann hafi sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Önnur varakrafa kæranda er sú að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi sem hugsanlegt fórnarlamb mansals, sbr. 75. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til þess að fyrir liggi að hann hafi gögn undir höndum sem styðji þá fullyrðingu hans um að atvinnurekandi hans hafi hagnýtt sér bága stöðu hans og mögulega hneppt hann í mansal með það fyrir augum að hagnýta sér vinnuafl hans og viðkvæma stöðu hans sem útlendingur hér á landi sem óttist stjórnvöld vegna fyrrum reynslu sinnar í heimaríki.

Þriðja varakrafa kæranda er sú að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi. Kærandi byggir framangreinda kröfu á því að umsókn hans sé ekki bersýnilega tilhæfulaus. Kærandi vísar til þess að hann óttist ofsóknir í sinn garð vegna stjórnmálaþátttöku sinnar og baráttu gegn spillingu og hryðjuverkum í  heimaríki. Þá hafi kærandi greint frá því að vera fórnarlamb mansals hér á landi. Kærandi vísar til þess að hafa beðið um frest til að leggja fram gögn því til stuðnings. Með vísan til framangreinds telur kærandi að ástæður sé til að fella úr gildi brottvísun og endurkomubann í hans máli.

Fjórða varakrafa kæranda er sú að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og stofnuninni verði gert að taka mál hans til meðferðar að nýju. Kærandi vísar til athugasemda í greinargerð til stuðnings framangreindri kröfu.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað albönsku kennivottorði og fjölskylduvottorði. Taldi Útlendingastofnun auðkenni kæranda sannað. Með vísan til framangreinds er lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé albanskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Albania (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • Annual Report 2020 (UNICEF Country office, 2020);
  • Albania 2020 Report (European Commission, 6. október 2020);
  • Can people afford to pay for health care? New evidence on financial protection in Albania (World Health Organization, 2020);
  • Compilation on Albania. Report of the Office of the United Nations High Commissioner for Human Rights (United Nations, Human rights Council, 22. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note. Albania: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júlí 2017);
  • Country Policy and Information Note. Albania: Mental Healthcare (UK Home Office, maí 2020);
  • EASO Country of Origin Information Report – Albania (European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  • Financing Social Protection. Albania (European Social Policy Network, ESPN, 2019);

  • Freedom in the World 2021 - Albania (Freedom House, 3. mars 2021);
  • Lifosrapport: Albanien - rätts- och säkerhetssektorn (Migrationsverket, 29. mars 2019);
  • OECD Reviews of Evaluation and Assessment in Education: Albania (OECD, 7. maí 2020);
  • Report by Dunja Mijatovic. Commissioner for Human Rights of the Council of Europe. Following her visit to Albania from 21 to 25 May 2018 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 13. september 2018);
  • Report of a Home Office Fact-Finding Mission Albania (UK Home Office, 1. febrúar 2018);
  • Social Protection Albania (International Labour Organization, sótt 12. ágúst 2021);
  • Social Security Programs Throughout the World: Europe, 2018. Albania (Social Security, 1. október 2018);
  • The World Factbook. Europe: Albania (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 11. ágúst 2021);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 3. nóvember 2021);
  • Stjórnarskrá Albaníu (https://www.osce.org/files/f/documents/3/2/41888.pdf) og
  • Vefsíða umboðsmanns í Albaníu (https://www.avokatipopullit.gov.al/en/).

Albanía er lýðræðisríki með rúmlega þrjár milljónir íbúa. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1991, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1994 og sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu ári síðar. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Þá er Albanía á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki.

Í ofangreindum gögnum, þ. á m. skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 og skýrslu Evrópuráðsins frá árinu 2020, kemur fram að í Albaníu sé til staðar kerfi sem borgarar landsins geti leitað til telji þeir á sér brotið. Eftirfylgni brota gegn refsilöggjöf landsins sé góð og hafi albönsk yfirvöld skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu. Þá hafi góður árangur náðst undanfarin ár í baráttu gegn spillingu og refsileysi sem hafi verið viðvarandi vandamál í Albaníu, þ. á m. innan löggæslu- og réttarkerfisins. Lögreglu- og embættismenn hafi verið sóttir til saka fyrir brot í starfi og embætti sérstaks saksóknara (e. Special Anti-Corruption Structure, SPAK) hafi verið komið á fót. Á vefsíðu starfandi umboðsmanns í Albaníu (a. Avokati i popullit) kemur fram að hann hafi m.a. það hlutverk að vernda rétt borgaranna gegn brotum opinberra starfsmanna. Umboðsmaðurinn geti, á grundvelli kvartana eða að eigin frumkvæði, tekið til skoðunar ætluð brot opinberra starfsmanna sem varði borgara landsins. Aftur á móti falli ákvarðanir og athafnir embættis forseta landsins og formanns ráðherranefndar (e. Chairman of the Council of Ministers), skipanir hersveita og einkaréttarlegir samningar utan starfssviðs umboðsmanns.

Í framangreindum skýrslum, þ. á m. skýrslum Evrópuráðsins frá 2019 og 2020, kemur fram að mikið atvinnuleysi hafi verið viðvarandi vandamál í Albaníu. Yfirvöld hafi unnið að úrbótum í atvinnumálum og hafi atvinnuleysi farið minnkandi undanfarin ár. Þá hafi verið unnið að því að bæta aðgengi að ódýru húsnæði fyrir efnalitla einstaklinga og aðra viðkvæma hópa. Með það að markmiði hafi lög nr. 22/2018 (e. Law on social housing) verið innleidd. Auk þess sé öllum sem séu án atvinnu og hafi ekki önnur úrræði til framfærslu tryggður réttur til aðstoðar skv. 52. gr. stjórnarskrá landsins. Lög nr. 9355 (e. Law on social assistance and services) kveða á um að fjölskyldur í neyð eigi rétt á fjárhagsaðstoð. Ákvörðunarvald um hverjir eigi tilkall til aðstoðar sé í höndum sveitafélaga og sé styrkjum úthlutað mánaðarlega. Í skýrslu alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 2020 kemur fram að stjórnarskrá Albaníu kveði á um að stjórnvöld landsins séu ábyrg fyrir því að tryggja að allir landsmenn hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Yfirvöld hafi innleitt ríkisrekið tryggingarkerfi árið 1995 (The Mandatory Health Insurance Fund, MHIF) sem atvinnulausir, bótaþegar, nemendur yngri en 25 ára og ellilífeyrisþegar geti leitað til. Þá hafi lög um lögboðnar heilbrigðistryggingar tekið gildi árið 2013. Frá árinu 2013 hafi ótryggðum einstaklingum jafnframt verið tryggður endurgjaldslaus aðgangur að bráðaþjónustu, þjónustu heimilislækna og árlegri læknisskoðun. Þá kemur fram í skýrslu bresku utanríkisþjónustunnar frá 2020 að ríkisborgarar hafi aðgang að geðheilbrigðisþjónustu í Albaníu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd hér á landi á því að hann hafi orðið fyrir ofsóknum og hótunum í heimaríki sínu, Albaníu. Kærandi hafi flúið heimaríki vegna hótana frá valdamiklum einstaklingum vegna afhjúpunar hans á spillingu og kosningasvindli. Kærandi hafi einnig ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimaríki á þeim grundvelli að hann tilheyri sérstökum þjóðfélagshópi vegna starfa sinna fyrir SHIK samtökin en honum hafi borist hótanir vegna uppljóstrana sinna um ákveðna hópa í mosku í heimaríki.

Við málsmeðferð hjá kærunefnd lagði kærandi fram mynd af skilaboðum sem hann kveðst hafa fengið frá einstaklingi í heimaríki og feli í sér morðhótun. Að mati kærunefndar styðja umrædd skilaboð ekki frásögn kæranda um að hafa verið hótað í heimaríki af hálfu valdamikilla einstaklinga vegna afhjúpunar hans á spillingu og kosningasvindli. Þá hefur kærandi ekki lagt fram önnur gögn sem styðja við málatilbúnað hans um hótanir og ofsóknir í heimaríki eða störf hans fyrir stjórnmálaflokka og samtök. Þá liggur fyrir í máli kæranda að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hinn 15. september 2021, tveimur dögum eftir að honum var birt ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. maí 2021, þess efnis að honum væri vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár. Kærandi kvaðst hafa dvalið hér á landi frá 24. ágúst 2018 til ákvörðunardags að undanskildum mánuði er hann ferðaðist um Evrópu (september 2019), allan tímann innan Schengen-svæðisins. Kærandi kvaðst aðspurður ekki hafa sótt um alþjóðlega vernd áður. Að mati kærunefndar dregur það úr trúverðugleika frásagnar kæranda að hann hafi ekki séð ástæðu til þess að leggja fram umsókn um vernd hér á landi við komuna til landsins í ágúst 2018. Kærandi hefur því að mati kærunefndar ekki lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu valdamikilla aðila í heimaríki sínu, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Albaníu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Með vísan til þess sem að framan er rakið um löggæslumál í Albaníu er það mat kærunefndar að ríkisborgarar Albaníu sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Þá sé til staðar kerfi í Albaníu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til sérstaks saksóknara og umboðsmanns í ríkinu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að stjórnvöld í heimaríki hans skorti vilja eða getu til að veita honum viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunni að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væri ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann hafi ríka þörf fyrir dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilsufars. Hann hafi árið 2014 verið greindur í heimaríki með krabbamein í maga og hafi meðferðin falist í breyttu matarræði og einfaldri lyfjameðferð. Hann hafi farið í læknisskoðun hér á landi árið 2020. Kærandi greindi frá því að hann finni fyrir einkennum sem hann kannist við úr fortíðinni, hann geti ekki borðað almennilega, fái höfuðverki, beinverki, svima og sé orkulaus. Kærandi kvaðst ekki geta fengið meðferð í heimaríki. Kærandi lagði engin gögn fram um heilsufar sitt. Hinn 11. nóvember 2021 bauð kærunefnd kæranda að leggja fram gögn um heilsufar sitt. Sama dag barst kærunefnd tölvubréf frá talsmanni kæranda. Fram kom í tölvubréfinu að þar sem kærandi væri ekki í þjónustu hjá Útlendingastofnun eða sveitarfélagi fengi hann ekki aðgang að þjónustuteymi þeirra til að óska eftir heilbrigðisþjónustu. Hvað framangreindar skýringar varðar þá vekur kærunefnd athygli á því að kærandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu hér á landi þrátt fyrir að hann sé ekki í þjónustu hjá Útlendingastofnun eða sveitarfélagi. Verður af framburði kæranda eða gögnum málsins ekki séð að að hann sé í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa. Þá má sjá af skýrslum um aðstæður í Albaníu að kæranda standi til boða aðgangur að heilbrigðisþjónustu í heimaríki.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. 

Ákvæði 1. mgr. 75. gr. laga um útlendinga

Í greinargerð er gerð sú krafa til vara að kæranda verði veitt leyfi hér á landi sem hugsanlegt fórnarlamb mansals. Kærandi vísar til þess að hann hafi undir höndum gögn sem styðji fullyrðingu hans um að atvinnurekandi hans hafi hagnýtt sér bága stöðu hans og mögulega hneppt í mansal með það fyrir augum að hagnýta sér vinnuafl hans og viðkvæma stöðu hans sem útlendingur hér á landi sem óttist stjórnvöld vegna fyrrum reynslu sinnar frá heimaríki.

Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem grunur leikur á að sé fórnarlamb mansals dvalarleyfi í allt að níu mánuði þótt skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna sé ekki fullnægt. Sama gildi um barn viðkomandi ef það er statt hérlendis með foreldri. Við rannsókn málsins skal lögregla hérlendis veita Útlendingastofnun aðstoð, t.d. við mat á aðstæðum viðkomandi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að stuðla að því að fórnarlamb mansals fái tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal. Veiting dvalarleyfisins sé óháð því hvort lögreglurannsókn fari fram en dvalarleyfinu sé m.a. ætlað að gefa hugsanlegu fórnarlambi svigrúm til þess að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins. Efni ákvæðisins ber með sér að því sé ætlað að veita þeim einstaklingum tímabundið atvinnuleyfi sem nýlega hafa losnað undan mansali eða eru enn undir áhrifum þeirra sem stunda mansal.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 21. október 2021 kvaðst kærandi eiga gögn sem sýndu fram á það að hann væri fórnarlamb mansals hér á landi. Kærandi hafi unnið á farfuglaheimili þar sem honum hafi verið lofaður samningur og atvinnuleyfi en á sama tíma hafi hann búið við ómannúðlegar aðstæður og hafi ekki fengið greitt.

Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur sem kærandi hafi sent á VR hinn 5. desember 2019. Í póstinum greinir hann m.a. frá vinnuaðstæðum sínum og kjörum á farfuglaheimilinu [...]. Fram kemur að kærandi hafi hafið störf á farfuglaheimilinu í september 2018 en í lok nóvember 2019 hafi hann verið handtekinn af lögreglu fyrir framan vinnustaðinn þar sem hann sé frá Albaníu og hafi týnt vegabréfinu sínu. Þá liggur fyrir í gögnum málsins afrit úr Erlendi. Þar kemur fram að skráð hafi verið hinn 19. nóvember 2019 að tölvubréf hafi borist Útlendingastofnun frá lögreglu þar sem tilkynnt hafi verið að kærandi hafi verið handtekinn. Kærandi hafi greint lögreglunni frá því að hafa verið á landinu í rúmt ár og hafi sagst vera búinn að týna vegabréfinu sínu. Hinn 21. nóvember 2019 er skráð í Erlend að viðkomandi sé með mynd af vegabréfinu sínu en ekki vegabréfið sjálft og því séu engar myndir af stimplum. Þá kemur fram að send hafi verið tilkynning til lögreglunnar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Samkvæmt gögnum málsins hafi ekkert orðið af því að ákvarða kæranda um brottvísun og endurkomubann í nóvember 2019. Í afriti af lögregluskýrslu sem finna má í gögnum brottvísunarmáls á hendur kæranda, stjórnsýslunúmer KNU21090049, greinir kærandi frá því að hafa unnið á framangreindu farfuglaheimili í eitt og hálft ár og hætt. Kærandi lagði fram afrit af tölvupóstssamskiptum hans og rekstrarstjóra farfuglaheimilisins frá 14. desember 2019. Sjá má á þeim samskiptum að ágreiningur sé þeirra á milli um kaup og kjör og hvað hafi átt sér stað í þeirra samskiptum. Samkvæmt því sem að framan er rakið má draga þá ályktun að kærandi hafi mögulega hætt störfum hjá farfuglaheimilinu [...] annað hvort í nóvember eða desember 2019 eða mars 2020. Kærandi hafi því mögulega ekki starfað á umræddu farfuglaheimili í rúmlega tvö ár. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi í kjölfar frásagnar kæranda um að hafa sætt mansali í störfum sínum fyrir umrætt farfuglaheimili kallað eftir upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um það hvort hún hefði slíkt mál til skoðunar varðandi kæranda. Hafi lögreglan tjáð Útlendingastofnun að ekkert slíkt mál væri til skoðunar varðandi kæranda. Að mati Útlendingastofnunar hafi upplýsingar kæranda um innihald gagna varðandi meint mansal ekki gefið til kynna ástæðu til að hinkra eftir þeim gögnum. Gerði kærandi í greinargerð athugasemd við þau vinnubrögð Útlendingastofnunar að komast að ákvörðun í máli hans án þess að bíða eftir framangreindum gögnum. Kærunefnd hefur farið yfir þau gögn sem kærandi lagði fram til stuðnings málatilbúnaði sínum um að hafa verið fórnarlamb mansals. Að mati nefndarinnar renna þau ekki frekari stoðum undir staðhæfingu hans um að hafa verið fórnarlamb mansals. Allt að einu taldi kærunefnd rétt að senda fyrirspurn á bæði dvalarleyfisteymi Útlendingastofnunar og Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Fram kom í svörum Útlendingastofnunar að engin sérstök umsókn um dvalarleyfi fyrir kæranda á grundvelli 75.g r. laga um útlendinga hefði verið skráð hjá þeim. Þá kvað fulltrúi lögreglunnar ekkert mál varðandi grun um mansal á kæranda vera í gangi, hvorki í vinnslu né lokað.

Líkt og fram hefur komið kemur fram í athugasemdum með ákvæði 75. gr. laga um útlendinga að markmiðið með ákvæðinu sé að stuðla að því að fórnarlamb mansals fái tækifæri til að ná bata og losa sig undan áhrifum þeirra sem stundi mansal. Samkvæmt svörum Útlendingastofnunar og lögreglunnar er engin rannsókn í gangi á meintu mansali kæranda og engin umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 75. gr. laga um útlendinga verið lögð fram til Útlendingastofnunar. Þá er samkvæmt gögnum málsins allt að því eitt og hálft ár frá því að kærandi hætti störfum hjá umræddu farfuglaheimili og verður ekki séð af gögnum málsins að hann sé enn undir áhrifum þess aðila sem hann kveður hafa beitt sig mansali. Þá er sá umþóttunartími sem ákvæði 75. gr. laga um útlendinga er ætlað að gefa mögulegum fórnarlömbum mansals jafnframt liðinn. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 75. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Krafa kæranda um ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar

Að lokum er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Kærunefnd hefur farið yfir málsmeðferð Útlendingastofnunar og gögn málsins og komist að sömu niðurstöðu og stofnunin. Að framangreindu virtu er mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Frávísun, brottvísun og endurkomubann

Kærandi kom hingað til lands að eigin sögn árið 2018 og sótti um alþjóðlega vernd 15. september 2021. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar.

Kærandi hefur dvalið hér á landi í rúm þrjú ár. Það mál sem hér er til afgreiðslu hófst að frumkvæði kæranda þann 15. september 2021 þegar mál vegna brottvísunar kæranda frá landinu hafði verið hafið hjá Útlendingastofnun, tæplega þrem árum eftir að kærandi kom til landsins. Með vísan til 5. mgr. 106. gr. laga um útlendinga verður frávísun ekki beitt í þessu máli. Verður því sá þáttur ákvörðunar Útlendingastofnunar felldur úr gildi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsókn kæranda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að valdamiklir einstaklingar í heimaríki hafi hótað honum og ofsótt vegna starfa hans fyrir stjórnmálaflokka og samtök þar sem hann hafi komið upp um spillingu og kosningasvindl. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kæranda og aðstæðna hans þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður hans vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kæranda séu ekki þess eðlis eða nái því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati.

Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt að veita kæranda ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur. Þegar umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd er bersýnilega tilhæfulaus er heimilt að fella niður frest til að yfirgefa landið, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þegar komist hefur verið að niðurstöðu að umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus og að heimilt sé að fella niður frest útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur þá liggur fyrir að hann dvelst ólöglega í landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og því er heimilt að brottvísa honum.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 558/2021 uppkveðnum 24. nóvember 2021 var ákvörðun Útlendingastofnun frá 31. maí 2021 um brottvísun kæranda af landinu og endurkomubann hingað til lands í tvö ár staðfest. Þykir því ekki ástæða til þess að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar sem hér er til meðferðar hvað brottvísun og endurkomubann varðar.

Er ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann því felld úr gildi.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að því er varðar umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Felldur er úr gildi sá þáttur ákvörðunar í máli kæranda þar sem kæranda er frávísað og brottvísað frá landinu og ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda að því er varðar umsókn hans um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er staðfest. Felld er úr gildi ákvörðun stofnunarinnar um frávísun, brottvísun og endurkomubann hans til landsins.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the application for international protection and residence permit on humanitarian grounds is affirmed. The Directorate’s decision on refusal of entry, expulsion and re-entry ban is vacated.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson, varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta