Hoppa yfir valmynd

Nr. 577/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 18. október 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 577/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060162

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 18. júní 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bandaríkjanna ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2023, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hún krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið 25. júlí 2022. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ekki stödd á landinu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 1. júní 2023, var umsókn kæranda synjað. Taldi stofnunin að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hún uppfyllti skilyrði 78. gr. laga um útlendinga og að aðstæður í máli hennar væru ekki með þeim hætti að það yrði talið bersýnilega ósanngjarnt að veita henni ekki dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Ákvörðun Útlendingastofnunar barst kæranda með bréfpósti 9. júní 2023. Kærunefnd barst kæra kæranda 18. júní 2023 ásamt fylgiskjölum. Viðbótargögn bárust kærunefnd 21. júní 2023, 2. júlí 2023 og 9. október 2023.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í rökstuðningi með kæru kæranda kemur fram að eina ástæða þess að hún sé ekki með íslenskt ríkisfang sé sú að tvöfalt ríkisfang hafi ekki verið heimilað fyrr en hún hafi verið komin á fullorðinsár. Á unglingsárum hafi kærandi flutt til Bandaríkjanna með íslenskri móður sinni og hefði það valdið margháttuðum erfiðleikum að hafa ekki bandarískt ríkisfang. Nú hafi löggjafinn á Íslandi komist að því að rétt sé að menn geti haldið íslensku ríkisfangi þrátt fyrir að vera ríkisborgarar annars lands. Ljóst sé að vilji löggjafans sé að forða mönnum frá því óhagræði sem fylgi því að þurfa að afsala sér íslensku ríkisfangi við að taka upp erlent ríkisfang. Það óhagræði sé af nákvæmlega sama toga og við kæranda blasi ef henni verði synjað um dvalarleyfi á Íslandi og verði því ekki annað séð en að veiting dvalarleyfis sé í fullkomnu samræmi við vilja Alþingis í málum af þessu tagi. Þá vilji kærandi árétta tengsl sín við Ísland, en móðir hennar hafi verið alíslensk og rætt við kæranda á íslensku eftir því sem tök hafi verið á í uppeldinu. Kærandi hafi oft dvalið á Íslandi sem barn, unglingur og fullorðin kona, eftir því sem nám og vinna erlendis hafi leyft. Sem unglingur hafi kærandi m.a. unnið um sumur við að gæta barna og síðar við að sinna erlendum ferðamönnum sem tekið hafi verið á móti af fjölskyldufyrirtæki í Reykjavík. Stórfjölskylda móður kæranda sé samheldin og kærandi hafi verið hluti af henni frá fæðingu.

Þá vilji kærandi benda á að vegna fjölskylduaðstæðna og ekki síst vinnu hafi ekki verið raunhæft að dvelja lengur á Íslandi heldur en þann tíma sem við eigi um venjulega ferðamenn frá því að hún hafi verið barn og þar til nú þegar hún sé komin á eftirlaun. Núna hafi fyrst gefist langþráð tækifæri til að dvelja lengur en örfáa mánuði á Íslandi, rækta tengsl við systkini, stóran frændgarð, landið sjálft og samfélagið. Síðast en ekki síst dugi ekkert minna en löng samfelld dvöl til að ná þokkalegu valdi á íslensku á ný, sem kærandi hyggist gera. Kærandi hafi alist upp í Þýskalandi og hafi í hyggju að heimsækja landið og rækta tengsl við það og þá vini sem hún hafi eignast og haldið sambandi við. Sambandi milli Íslands og Þýskalands sé hins vegar svo háttað að sá tími sem kærandi dveljist í Þýskalandi dragist frá þeim tíma sem hún geti verið á Íslandi hafi hún ekki það dvalarleyfi sem hún sé að sækja um. Þá vilji kærandi leiðrétta það sem fram komi í svari Útlendingastofnunar um að hálfbróðir kæranda sé búsettur á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari. Hið rétta sé að umræddur maður sé albróðir hennar eftir að faðir kæranda hafi ættleitt hann og hafi kærandi og bróðir hennar verið afar náin frá fæðingu. Þá séu synir kæranda uppkomnir og lifi sjálfstæðu lífi. Ekkert samband sé innan föðurfjölskyldu kæranda, en mikið samband og sterk tengsl séu innan stórfjölskyldu móður kæranda. Allur frændgarður kæranda sé með öðrum orðum á Íslandi, sem og albróðir hennar. Þá valdi það verulegu óhagræði að þurfa að dvelja utan Íslands og Schengen-svæðisins í rúma 90 daga, tvisvar sinnum á ári. Það kalli á híbýli í Bandaríkjunum sem erfitt sé að leigja út í skamman tíma í senn og muni þau því standa tóm á meðan kærandi dveljist á Íslandi. Synir kæranda séu á ferð og flugi vegna náms og vinnu og þeim sé jafnauðvelt að heimsækja móður sína í Reykjavík og þar sem hún búi núna í Bandaríkjunum. Þá sé kærandi fjárhagslega sjálfstæð, hafi rífleg eftirlaun og eigi fasteign í Bandaríkjunum.

Með tölvubréfi er barst kærunefnd frá kæranda greindi hún frá því að hafa dvalið hér á landi ásamt fjölskyldu sinni í rúmt ár á milli 1959 og 1961. Þá hafi hún komið hingað á hverju sumri árin 1970 – 1980 og dvalið um þriggja mánaða skeið. Fyrst um sinn hafi hún gætt barna í Reykjavík og á Grundarfirði en síðar unnið í Víðimýri í Skagafirði og við ferðaþjónustufyrirtæki fjölskyldu hennar. Þá kvað hún að síðustu fimm ár hefði hún komið hingað árlega og dvalist í um tvær vikur hjá bróður sínum sem hefði flutt heim til Íslands árið 2018. Kærandi taldi sig hafa haft íslenskan ríkisborgarrétt áður en hún flutti til Bandaríkjanna en hefði ekki fundið gögn í búi móður sinnar sem styddu það.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða.

Að því er varðar lengd lögmætrar dvalar segir í a-lið 19. gr. reglugerðarinnar að dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skuli almennt ekki veitt nema umsækjandi hafi dvalist hér á landi lengur en tvö ár, eða þá að önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Í b-lið kemur fram að hafi umsækjandi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis sé dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk. Samkvæmt d-lið skal m.a. horfa til fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, fjölskylduaðstæðna og skyldleika. Líta beri til þess hvort umönnunarsjónarmið, félagsleg og menningarleg tengsl styðji umsókn á grundvelli fjölskyldutengsla. Vegna umönnunarsjónarmiða skal horft til þess hvort umsækjandi sé háður einhverjum hérlendis, sem er tengdur honum fjölskylduböndum, eða hvort aðstandandi umsækjanda hér á landi sé honum háður, sbr. e-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Að mati kærunefndar getur hugtakið „lögmæt dvöl“ jafnt tekið til dvalar samkvæmt útgefnu dvalarleyfi, sjá þó áskilnað 5. mgr. 78. gr., sem og dvalar án dvalarleyfis, sbr. 49. gr. laga um útlendinga. Hins vegar er ljóst að útlendingur telst jafnan mynda ríkari tengsl á grundvelli útgefins dvalarleyfis enda þá jafnan með fasta búsetu hér á landi um samfellda hríð.

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og aðeins verið búsett hér í eitt ár á tímabilinu 1959 til 1961. Af upplýsingum frá kæranda er ljóst að hún dvaldi hér í ríkum mæli á meðan hún var barn og ung kona og myndaði rík tengsl við landið á þeim tíma, m.a. í starfi. En hún kvaðst hafa dvalið hér um þrjá mánuði á hverju sumri á árunum 1970-1980 og unnið við barnapössun og einnig ferðaþjónustufyrirtæki fjölskyldumeðlima hennar hér á landi. Dvöl hennar síðustu ár hefur þó verið takmarkaðri og þrátt fyrir að heildardvalartími hennar hér á landi nái tveimur árum, sbr. a-lið 19. gr. reglugerðar um útlendinga, þá dvaldi kærandi ekki hér að neinu marki frá árinu 1980 til ársins 2018. Í ljósi b-liðar 19. gr. reglugerðarinnar hefur dvöl hennar fyrir þann tíma minna vægi við matið. Þrátt fyrir framangreind menningarleg tengsl kæranda við landið og fjölskyldutengsl hennar hér verður ekki ráðið að tengsl hennar við landið séu mjög sterk. Þá verður ekki ráðið af þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram að hún hafi nokkru sinni haft íslenskan ríkisborgararétt. Enn fremur eiga engin umönnunarsjónarmið við í málinu sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga og d-lið 19. gr. reglugerðarinnar.

Loks er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda falli ekki innan ákvæðis 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga, enda fjallar síðarnefnda ákvæðið um þær aðstæður þegar umsækjandi á uppkomið barn eða foreldri sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem getur myndað grundvöll fyrir slíkt leyfi og að hann hafi verið á framfæri þess aðstandanda í minnsta kosti ár.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og eftir heildarmat á gögnum málsins og aðstæðum kæranda er það niðurstaða kærunefndar að hún uppfylli ekki skilyrði 78. gr. laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Samantekt og leiðbeiningar til kæranda

Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Kærunefnd telur rétt að benda á að samkvæmt c-lið 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt í vissum tilvikum að veita útlendingi sem öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt við fæðingu en hefur misst hann eða afsalað sér honum ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. ákvæðisins séu uppfyllt. Kæranda er leiðbeint um að hún geti lagt fram umsókn á þessum grundvelli telji hún sig uppfylla skilyrði ákvæðisins. Kærunefnd tekur þó fram að með þessu tekur nefndin enga afstöðu til þess hvort kærandi eigi rétt til slíks leyfis.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Þorsteinn Gunnarsson

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta