Hoppa yfir valmynd

A 261/2007 Úrskurður frá 21. júní 2007

A-261/2007 Úrskurður frá 21. júní 2007


ÚRSKURÐUR

Hinn 21. júní 2007 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-261/2007:

 

Kæruefni

Með skriflegri kæru, dags. 11. apríl sl., kærði [...] synjun landbúnaðarráðuneytisins frá 4. apríl sl. um aðgang í fyrsta lagi að yfirlitum þriggja tilgreindra mála úr málaskrá ráðuneytisins. Í öðru lagi að fjórum tilgreindum tölvubréfum og í þriðja lagi að gögnum um samskipti ráðuneytisins við hagsmunaaðila vegna samningsgerðar við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur og um breytingu á lagaákvæðum um tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða.
Með bréfi, dags. 16. apríl sl., var kæran kynnt landbúnaðarráðuneytinu og því veittur frestur til fimmtudagsins 26. apríl sl. til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni Jafnframt var þess óskað að ráðuneytið léti nefndinni í té afrit þeirra gagna sem kæran laut að innan sama frests. Umsögn ráðuneytisins barst nefndinni með bréfi, dags. 18. apríl sl.
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um umsögn landbúnaðaráðuneytisins með bréfi, dags. 23. apríl sl. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 3. maí sl.

 


Málsatvik


1.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að með bréfi, dags. 24. mars sl., fór kærandi þess á leit að hann fengi afrit af öllum gögnum sem landbúnaðarráðuneytið hefði undir höndum um undirbúning og gerð samkomulags við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur, er tók gildi 1. mars sl. Sérstaklega óskaði kærandi eftir afriti af öllum færslum úr málaskráningarkerfi ráðuneytisins um málefnið og afriti af bréfaskiptum ráðuneytisins við fulltrúa íslenskra ráðuneyta í Brussel.
Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 28. mars sl., kemur fram að þau minnisblöð, sem beiðni kæranda taki til, séu vinnugögn starfsmanna ráðuneytisins og til kynningar og ákvarðanatöku fyrir ráðherra og ráðuneytisstjóra, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Sama eigi einnig við um afrit af bréfaskiptum ráðuneytisins við fulltrúa ráðuneyta í Brussel. Synjun um aðgang að gögnunum var einnig rökstudd með tilvísun til 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Bréfi ráðuneytisins fylgdi jafnframt yfirlit úr málaskrá þess.
Með bréfi, dags. 31. mars. sl., óskaði kærandi eftir útprentunum úr málaskrárkerfi ráðuneytisins vegna eftirfarandi mála: 1) LAN04020039 Viðræður varðandi viðskipti með landbúnaðarvörur v. 19. gr. EES samningsins, 2) LAN04090226 Samningsumleitan við Evrópusambandið varðandi aukið frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarvörur og 3) vegna máls til undirbúnings frumvarps til laga um breytingu á lagaákvæðum um tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða. Sérstaklega óskaði kærandi eftir því að fá afrit að skráningum undir nefndum málum þar sem fram komi vísanir milli mála, þ.e. í önnur mál ráðuneytisins. Í öðru lagi óskaði kærandi eftir aðgangi að gögnum nr. 5, 6, 7 og 16 á lista yfir málsgögn sem fylgdu bréfi ráðuneytisins frá 28. mars sl. Í þriðja lagi óskaði kærandi eftir afriti að öllum gögnum um samskipti við hagsmunaaðila vegna umrædds samnings og undirbúning frumvarps til laga um breytingu á lögum um tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða.
Í svarbréfi landbúnaðarráðuneytisins, dags. 4. apríl sl., eru efnisatriði röksemda kæranda raktar og því lýst að ráðuneytið hafi ákveðið að senda kæranda á ný málsyfirlit vegna áðurnefndra tveggja mála og að auki útprentun á málsyfirliti vegna undirbúnings frumvarps til laga um breytingu á lagaákvæðum um tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða. Ráðuneytið muni á hinn bóginn ekki taka saman skráningar eða tilvísanir sem raktar séu í 1. tölul. bréfs kæranda, sbr. 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Að því er varði beiðni kæranda um afrit af gögnum nr. 5, 6, 7 og 16 á lista yfir málsgögn ítrekaði ráðuneytið fyrri afstöðu sína og vísaði ennfremur til ummæla í lögskýringargögnum við 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Tekur ráðuneytið fram að samningaviðræður Evrópusambandsins og íslenska ríkisins, sbr. 19. gr. EES-samningsins hafi verið leiddar í sameiningu af utanríkisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Náið samstarf hafi verið á milli starfsmanna ráðuneytanna við samningaviðræðurnar og ekki hafi verið unnt að aðgreina þessi tvö ráðuneyti. Með vísan til dóms Hæstaréttar Hrd. 2002:1024 telur ráðuneytið að skjölin hafi haft stöðu vinnuskjals þó svo að aðrir starfsmenn innan Stjórnarráðsins, en starfsmenn landbúnaðarráðuneytisins hafi hagnýtt sér þau. Að því er varði tilvísun til 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga þá séu samningaviðræður vegna 19. gr. EES-samningsins í raun ekki lokið þar sem samningurinn geri ráð fyrir endurskoðun með reglubundnum hætti, sbr. 14. tölul. inngangsorða hans. Í þeim gögnum sem kærandi óski aðgangs að sé m.a. fjallað um hvað fram hafi farið á lokuðum samningsfundum við Evrópusambandið þar sem rætt hafi verið um samningsmarkmið beggja aðila og samningsstöðu Íslands. Einnig sé mikilvægt að traust ríki í alþjóðlegum viðskiptaviðræðum og verði því markmiði best þjónað með því að nýta heimild 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Séu þessir hagsmunir mun ríkari en hagsmunir almennings af aðgangi. Hvað viðkomi beiðni kæranda um aðgang að gögnum í máli til undirbúnings frumvarps til laga um breytingu á lagaákvæðum um tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða hafi ráðuneytið látið kæranda í té gögn málsins að undanskildum tveimur minnisblöðum til ríkisstjórnarinnar. Að því er varði beiðni kæranda um öll gögn sem varði samskipti við hagsmunaaðila tekur ráðuneytið fram að því leyti sem þau sé ekki að finna í þeim gögnum sem borist hafa kæranda muni ráðuneytið með tilvísun til 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga ekki taka þau sérstaklega saman.


2.

Kærandi tekur fram í kæru sinni að hann telji sig hafa sýnt fram á aðgangsrétt sinn í bréfum sínum til ráðuneytisins, dags. 24. og 31. mars 2007. Aðgangsréttur hans, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga taki einnig til dagbókarfærslna sem lúti að gögnum málsins. Sé þessar færslur að finna í málaskrárkerfi ráðuneyta. Augljóst sé að landbúnaðarráðuneytinu beri að veita aðgang að færslunum með útprentuðu yfirliti um málið. Sé prentun þessi einföld og á tæmandi yfirliti komi einnig fram tilmæli og athugasemdir sem skráðar verði vegna málsins, m.a. á grundvelli VII. kafla upplýsingalaga. Um 2. lið kæru sinnar tekur kærandi fram að tilvísun landbúnaðarráðuneytisins til dóms Hæstaréttar í máli 397/2001 (2002: 1024) styðji ekki synjun ráðuneytisins, þar sem í því máli hafi fyrst og fremst verið fjallað um 1. tölul. 4. gr. upplýsingalaga og að svo miklu leyti sem fjallað sé um 3. tölul 4. gr. styðji dómurinn sjónarmið kæranda um að veita beri aðgang að umræddum gögnum. Staðhæfing um að ekki sé unnt að greina á milli landbúnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins standist ekki. Að því er varðar 3. lið kæru sinnar tekur kærandi fram að synjun ráðuneytisins byggi á 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Hann hafi á hinn bóginn ekki farið fram á vinnslu gagna heldur að hann fengi afrit af þeim gögnum sem ráðuneytið hefði undir höndum um samskipti þess við hagsmunaaðila vegna samningsgerðar við ESB og þeirrar lagabreytingar sem fylgdi í kjölfarið. Slík gögn hljóti að liggja fyrir að teknu tilliti til eðlis þess málefnis sem til umfjöllunar var.
Í umsögn landbúnaðarráðuneytisins er því lýst að kæranda hafi verið látin í té umbeðin yfirlit með því að afrita þau úr málaskrárkerfi ráðuneytisins yfir í svonefnt excel skjal og prenta þau þaðan. Hafi yfirlitin þannig verið gerð læsilegri. Til samanburðar fylgdi umsögn ráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar útprentun úr málaskrá með þeim hætti sem kærandi hafði óskað eftir. Að því er varði aðgang kæranda að athugasemdum og tilmælum sem skráð hafi verið á forsíðu málanna gerir ráðuneytið ekki athugasemdir við það að kærandi fái aðgang að forsíðunum. Kærandi hafi á hinn bóginn fyrst með kæru sinni óskað með skýrum hætti eftir aðgangi að forsíðum málanna. Hvað varði afrit að gögnum sem gengið hafi á milli starfsmanna landbúnaðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins við samningsgerð samninganefndar íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið á grundvelli 19. gr. EES-samningsins sé um að ræða vinnuplögg, sem nefndin hafi ritað til eigin nota og snúi að innra starfi nefndarinnar. Fráleitt sé að skilgreina vinnugögnin með þeim hætti að þau hafi farið milli stjórnvalda vegna þess eins hvernig nefndin hafi verið skipuð. Tekur landbúnaðarráðuneytið fram að þrátt fyrir að nefndin hafi verið skipuð starfsmönnum beggja ráðuneytanna þá sé það utanríkisráðuneytið sem fari með samningsumboð íslenska ríkisins við önnur ríki, sbr. ákvæði reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, ennfremur ákvæði 21., sbr. 13. gr. stjórnarskrárinnar og lög nr. 39/1971 um utanríkisþjónustu Íslands. Hinum diplómatísku samningaviðræðum hafi lyktað með samkomulagi milli Íslands og Evrópusambandsins um tvíhliða viðskipti með landbúnaðarafurðir, sbr. 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga. Þrátt fyrir að eintök umræddra gagna sé að finna í skjalasafni þess þá telji ráðuneytið að af uppbyggingu stjórnsýslunnar og diplómatakerfisins leiði að utanríkisráðuneytið sé eitt bært til að meta til fulls gildi takmarkana 5.-6. gr. upplýsingalaga í kærumálinu og taka ákvörðun um að veita eða synja um aðgang að umbeðnum gögnum samninganefndarinnar. Þar sem málið sé á kærustigi hafi það framsent utanríkisráðuneytinu gögn þess og farið fram á að það taki afstöðu til þess hvort veita skuli aðgang að umræddum gögnum. Að því er varði beiðni kæranda um aðgang að gögnum um samskipti við hagsmuna aðila vegna undirbúnings og gerðar áðurnefnds samkomulags og breytingu á lagaákvæðum um tollkvóta við innflutning á landbúnaðarvörum hafi ráðuneytið látið kæranda í té öll gögn í máli sem varði nefnda lagasetningu að undanskildum tveimur minnisblöðum til ríkisstjórnar. Einungis hafi verið um óformlegt samráð við [A] áður en að samningaviðræðunum kom og hafi ráðuneytið því engin gögn í sínum fórum sem falli undir þennan hluta beiðni kæranda.
Í athugasemdum kæranda er því hafnað að ákvæði 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga geti haft þýðingu í málinu. Þá hafi ráðuneytið látið útbúa yfirlit úr málaskrá ráðuneytisins án þess að verða við beiðni um útprentað yfirlit.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstaða

Ákvæði upplýsingalaga taka til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Ákvæði laganna gera ekki greinarmun á því hvers eðlis sú starfsemi sé sem stjórnvöld hafa með höndum. Gildissvið laganna er ekki einskorðað við ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, heldur taka lögin til hverskonar þjónustustarfsemi, samningsgerðar og annarrar starfsemi stjórnvalda. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna nær réttur almennings til aðgangs að upplýsingum hjá stjórnvöldum til: „ - 1. allra skjala sem mál varða, þar með talinna endurrita af bréfum sem stjórnvald hefur sent, enda megi ætla að það hafi borist viðtakanda; - 2. allra annarra gagna sem mál varða, svo sem teikninga, uppdrátta, korta, mynda, örfilma og gagna sem vistuð eru í tölvu; - 3. dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn.“ Um takmarkanir upplýsingaréttarins er fjallað í 4.-6. gr.
Kæruefnið er þríþætt og tekur til aðgangs kæranda að gögnum samkvæmt 1. og 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga. Um synjun sína um afhendingu gagna hefur landbúnaðarráðuneytið einkum vísað til 3. tölul. 4. gr. og 2. mgr. 6. gr. laganna.


1.

Í fyrsta lagi hefur kærandi afmarkað beiðni sína við aðgang að málsyfirlitum þriggja tilgreindra mála í skjalasafni landbúnaðarráðuneytisins. Upplýsingaréttur samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er tvíþættur. Tekur hann annars vegar til dagbókarfærslna sem lúta að gögnum máls og hins vegar lista yfir málsgögn. Fyrir liggur að landbúnaðarráðuneytið hefur látið útbúa lista yfir málsgögn og hefur kærandi fengið aðgang að honum. Beiðni kæranda tekur á hinn bóginn til dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins.
Í samræmi við 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga og ákvæði 6. gr. laga nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands felur málaskrárkerfi ráðuneyta í sér kerfi málsnúmera, sem raðað er samkvæmt skráningarkerfi eða bréfalyklum, er tekur mið af viðfangsefnum ráðuneytisins og staðfest hefur verið af Þjóðskjalasafni Íslands. Sérhverju viðfangsefni eða máli er úthlutað ákveðnu málsnúmeri eða eftir atvikum málsnúmerum. Undir málsnúmerum má sjá yfirlit yfir dagbókafærslur þess máls sem um er að ræða. Þá hefur hvert málsnúmer sérstaka forsíðu, þar sem m.a. kemur fram heiti máls, nöfn aðila, nafn starfsmanns og hvar málið er vistað í skjalasafni ráðuneytisins. Þá er gert ráð fyrir því að á forsíðu máls sé einnig hægt að skrá tilmæli og athugasemdir ásamt tengingu við önnur málsnúmer. Kærandi hefur óskað eftir útprentuðu yfirliti dagbókarfærslna sem skráðar hafa verið á tiltekin málsnúmer vegna þriggja tilgreindra mála ásamt forsíðum þeirra. Að mati úrskurðarnefndar verður forsíða málsnúmers ekki skilin frá dagbókarfærslum þess. Af umsögn ráðuneytisins verður ekki séð að kærandi hafi fengið útprentað yfirlit úr málaskrárkerfi ráðuneytisins. Þess í stað hafi hann, eins og áður segir, fengið yfirlit sem unnið hafi verið upp úr framangreindu málaskrárkerfi, þar sem það hafi að mati ráðuneytisins þótt gleggra.
 Umsögn landbúnaðarráðuneytisins fylgdu forsíður þriggja málsnúmera LAN04020039, LAN04090226 og LAN07020044. auk útprentaðs yfirlits dagbókarfærslna sem þar eru skráð. Með tilvísun til 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. verður að telja að kærandi eigi rétt til aðgangs að yfirliti yfir þær dagbókarfærslur sem skráðar eru á umrædd málsnúmer og forsíður þeirra, enda verður ekki séð að ákvæði 4.-6. gr. standi því í vegi.


2.

Í öðru lagi hefur kærandi óskað eftir aðgangi að fjórum skjölum auðkennd nr. 5, 6, 7 og 16. Synjun landbúnaðarráðuneytisins er á því byggð að um sé að ræða vinnugögn í merkingu 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga og að ákvæði 2. mgr. 6. gr. leiði einnig til þess að takmarka beri aðgang kæranda að gögnunum. Í umsögn ráðuneytisins er ennfremur vísað til fyrirmæla 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga og tekið fram að þrátt fyrir að gögnin sé að finna í skjalasafni þess þá leiði það að af uppbyggingu stjórnsýslunnar og diplómatakerfisins að utanríkisráðuneytið sé eitt bært til að meta til fulls gildi takmarka samkvæmt 5.-6. gr. upplýsingalaga.

 
2.1

Tilvísun landbúnaðarráðuneytisins til 3. mgr. 10. gr. upplýsingalaga getur ekki átt við í máli þessu. Ákvæðið geymir fyrirmæli um hvaða stjórnvald skuli veita aðgang að gögnum í máli þar sem tekin hefur verið ákvörðun eða mál er til ákvörðunar um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Ákvarðanir um undirbúning og gerð þjóðréttarsamninga, sbr. 19. gr. EES-samningsins falla ekki undir framangreint ákvæði upplýsingalaga. Samkvæmt þessu verður beiðni borin fram við það stjórnvald sem hefur gögnin í sínum vörslum, nema annað leiði af lögum. Koma sjónarmið þess fram í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum. Þar sem umbeðin gögn er að finna í skjalasafni landbúnaðarráðuneytisins ber því að leysa úr beiðni kæranda.


2.2

Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur upplýsingaréttur almennings „ ... ekki til: ... vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin nota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annarsstaðar frá.“ Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laganna, er orðalagið „til eigin afnota“ m.a. skýrt með svofelldum hætti: „Með vinnuskjölum er hér einkum átt við skjöl sem stjórnvald ritar til eigin afnota, svo og skjöl sem fara á milli deilda, skrifstofa eða að öðru leyti á milli starfsmanna hjá sama stjórnvaldi Á hinn bóginn teljast gögn, sem fara á milli tveggja stjórnvalda, ekki til vinnuskjala enda þótt bréfaskiptin séu liður í meðferð máls og stjórnvöldin standi í nánum tengslum hvort við annað. Þá geta þau skjöl ekki talist vinnuskjöl sem stafa frá öðrum en hlutaðeigandi stjórnvaldi enda þótt slík gögn hafi orðið til að frumkvæði stjórnvaldsins ...“
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þau fjögur skjöl sem landbúnaðarráðuneytið hefur synjað kæranda um aðgang að. Í skjölum 5, 6 og 7 er lýst tölvupóstsamskiptum vegna fyrirhugaðra fundarhalda íslenskra stjórnvalda með fulltrúum Evrópusambandsins vegna undirbúnings samningaviðræðna á grundvelli 19. gr. EES-samningsins. Stafa skjölin frá öðrum aðilum en landbúnaðarráðuneytinu og verða þau því ekki talin vinnuskjöl í merkingu 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Það sama gildir um skjal það sem merkt er nr. 16, en það geymir tölvubréf starfsmanns utanríkisráðuneytisins til starfsmanns landbúnaðaráðuneytisins og tveggja annarra starfsmanna utanríkisráðuneytinu, dags. 8. mars 2005. Í tölvubréfinu er óskað athugasemda við drög að frásögn af fundi samningarnefnda fulltrúa íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins vegna undirbúnings samningafundar vegna tvíhliða landbúnaðarsamnings Íslands og Evrópusambandsins.


2.3

Samkvæmt 2. tölul. 6. gr. er heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga er ákvæðið skýrt á þann hátt að það eigi „... við samskipti íslenska ríkisins við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir, hvort sem þau eru af pólitískum, viðskiptalegum eða annars konar toga. Þeir hagsmunir, sem hér er verið að vernda, eru tvenns konar. Annars vegar er verið að forðast að erlendir viðsemjendur fái vitneskju um samningsmarkmið og samningsstöðu okkar Íslendinga. Hins vegar er verið að tryggja góð samskipti og gagnkvæmt traust í skiptum við önnur ríki, þar á meðal innan þeirra fjölþjóðlegu stofnana sem Ísland er aðili að. - Vegna fyrrgreinds skilyrðis um mikilvæga almannahagsmuni verður beiðni um upplýsingar um samskipti við erlend ríki og fjölþjóðastofnanir því ekki synjað, nema hætta sé á tjóni af þessum sökum. Í ljósi þess að hér er oft um mjög veigamikla hagsmuni að ræða kann varfærni þó að vera eðlileg við skýringu á ákvæðinu.“ Í dæmaskyni er í athugasemdunum vísað til þess að með fjölþjóðastofnunum sé m.a. átt við Evrópusambandið (EU).
Skjal nr. 16. geymir tölvubréf starfsmanns utanríkisráðuneytisins til starfsmanns landbúnaðarráðuneytisins og tveggja annarra starfsmanna utanríkisráðuneytisins. Tölvubréfið geymir drög að frásögn af undirbúningsfundi með fulltrúum Evrópusambandsins 7. mars 2005 um endurskoðun á tvíhliða landbúnaðarsamningi Íslands og Evrópusambandsins. Í frásögninni er m.a. að finna lýsingu á samningsmarkmiðum íslenskra stjórnvalda og hvað hafi efnislega verið rætt í því sambandi. Í þessu ljósi og með hliðsjón af tilgangi 2. tölul. 6. gr. upplýsingalaga eins og því er lýst hér að frama verður að fallast á að landbúnaðarráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að framangreindu skjali. Skjöl nr. 5, 6 og 7 varða undirbúning samningaviðræðna íslenskra stjórnvalda og Evrópusambandsins. Hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast haga undirbúningi slíkra viðræðna, þ. á m. hvaða einstaklingar muni taka þátt í þeim eða koma að undirbúningi þeirra geta skipt máli varðandi samningsstöðu og samningsmarkið íslenskra stjórnvalda. Ekki er unnt að útiloka að tjón geti hlotist af verði slíkar upplýsingar gerðar opinberar. Verður því einnig að fallast á að landbúnaðaráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að umræddum skjölum.


3.

Í þriðja lagi hefur kærandi afmarkað beiðni sína við gögn er varða samskipti ráðuneytisins við hagsmunaaðila vegna samningsgerðar við Evrópusambandið um viðskipti með landbúnaðarvörur og um breytingu á lagaákvæðum um tollkvóta við innflutning landbúnaðarafurða.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 er heimilt að bera synjun stjórnvalds um að veita aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Kæruheimildin er bundin því skilyrði að ágreiningur sé uppi um annað tveggja: skyldu stjórnvalds til að veita aðgang að gögnum eða skyldu þess til að veita aðgang í formi ljósrits af skjölum eða afrits af öðrum gögnum.
Af hálfu landbúnaðarráðuneytisins er staðhæft að það hafi þegar látið kæranda í té öll gögn í máli er varði umrædda lagasetningu að undanskildum tveimur minnisblöðum til ríkisstjórnarinnar. Þá hafi ráðuneytið einungis haft óformlegt samráð við [A] áður en að samningaviðræðum kom og að hjá ráðuneytinu séu engin gögn er varða þennan hluta beiðni kæranda. Eins og kæruefnið er afmarkað af hálfu kæranda tekur kæra hans ekki til tilvitnaðra minnisblaða til ríkisstjórnarinnar. Ekkert hefur komið fram í máli þessu sem er til þess fallið að draga beri í efa framangreindar fullyrðingar ráðuneytisins. Samkvæmt framansögðu liggur ekki fyrir synjun stjórnvalds um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Ber því að staðfesta þá ákvörðun ráðuneytisins frá 4. apríl 2007 að synja kæranda um aðgang að gögnum sem ekki eru til í vörslu þess.

 

Úrskurðarorð:

Landbúnaðarráðuneytinu er skylt að veita kæranda, [...], aðgang að útprentuðu yfirliti úr málaskrá ráðuneytisins vegna mála sem skráð eru á málsnúmerin LAN0409226, LAN07020044 og LAN04020039 ásamt forsíðum þeirra.
Staðfest er synjun landbúnaðarráðuneytisins á beiðni kæranda um aðgang að skjölum auðkenndum nr. 5, 6, 7 og 16.
Ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins frá 4. apríl 2007 að synja um aðgang að gögnum, sem ekki eru til í vörslu þess, er staðfest.


Páll Hreinsson
formaður

 

                                            Friðgeir Björnsson                                         Sigurveig Jónsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta