Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 109/2003 - heimilisuppbót

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með kæru til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 1. maí 2003, móttekinni 13. maí 2003 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. mars 2003 á greiðslu heimilisuppbótar.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að kærandi er örorkulífeyrisþegi og hefur notið bóta frá Trygginga­stofnun sem slíkur, m.a. heimilisuppbótar.  Með bréfi stofnunarinnar til kæranda dags. 26. september 2002 er tilkynnt að borist hafi upplýsingar frá Hagstofu Íslands  um nýtt heimilisfang.  Því þurfi að sækja að nýju um heimilisuppbót.  Berist ekki ný umsókn falli greiðslur heimilisuppbótar niður frá og með 1. nóvember 2002.  Ný umsókn kæranda um heimilisuppbót er dags. 12. febrúar 2003.  Umsókninni var synjað með bréfi dags. 12. mars 2003.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

   „ Samkvæmt úrskurði Tryggingarstofnunnar ríkisinns í svarbréfi frá þeim, telja lögfræðingar þeirra að ég eigi ekki rétt á heimilisuppbót vegna dvalar minnar erlendis um tíma. Staðreyndin er sú að Tryggingastofnun ríkisinns hefur flutt mig hreppaflutningum milli heimsálfa, ólöglega að ég tel. Ég á lögheimili að B R.V.K. og greiði mína skatta og skyldur á Íslandi. Ég tel niðurlægjandi fyrir mig að fá svarbréf frá Tryggingastofnun ríkisinns orðalag "'Þú ert samkvæmt þjóðskrá skráður heimilis að B í R.V.K ÁSAMT FLEIRI EINSTAKLINGUM". Húsnæði þetta er sirka 240 til 260 fm. á efri hæð þar sem ég bý, bjó tengdamóðir bróður míns. Bróðir minn og eiginkona hanns eiga allt þetta húsnæði í dag.Mér fynnst athugasemd sem þessi frá Tryggingastofnun ríkisinns útí hött. Ég seldi íbúð sem ég átti á Íslandi á haustdögum árið 2002 afsal var gefið út 1. febrúar 2003 Ég festi kaup á húsnæði í Bandaríkjunum það kom til meðal annars vegna umsagna lækna á Islandi.Telji þeir að það auki lífslíkur mínar og betri heilsu almennt. Ég hef verið mikill sjúklingur mörg undan farin ár. Endanlega 1998 fór á örorku vegna krabbameins í blöðru frá 1993, vegna bakspengingar 10 jun 1998, vegna hjartaáfalls 13 jun 1998 og vegna sprunginns botnlanga 3 feb 1999 og dvalar á sjúkrahúsum og göngudeildar í 10 mán vegna þess síðast talda. Til staðfestingar á öllu þessu eru til vottorð hjá Tryggingarstofnun ríkisinns. Jafnframt var ég á Reykjalundi haustið 2000 og er líka vottorð til staðar hjá stofnuninni. Læknar mínir eru, C þvagfærasérfræðingur, D bæklunarsérfræðingur, E hjartasérfræðingur, F heimilislæknir, G skurðlæknir, botnlangaskurður. Á Reykjalundi voru margir læknar, meðal annars H svo og annar I sem ég man ekki föðurnafnið á. Allt eru þetta úrvalslæknar sem hafa það starf að bjarga lífi fólks eins og mínu. Eina ástæðan fyrir því að Tryggingastofnun ríkisinns synji mér um mínar bætur er geðþóttaákvörðun hjá starfsfólki stofnunarinnar. Ekki trúi ég því að örorka og uppbætur sem þegnum er úthlutað sé eyrnamerkt, að það verði að eyða peningunum á Íslandi.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 13. maí 2003 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 21. maí 2003.  Þar segir:

 

   „Aðallega byggir synjun á því að A sé búsettur erlendis mestan part ársins, en hann hefur sjálfur gefið Tryggingastofnun þær upplýsingar að hann búi í eigin húsnæði í Bandaríkjunum. Greiðsla heimilisuppbótar til einstaklings sem uppfyllir skilyrði greiðslna að öðru leyti en því sem lýtur að búsetu hér á landi fer að mati lífeyristryggingasviðs gegn tilgangi ákvæðis 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 118/1993 og beinlínis gegn orðalagi 1. gr. reglugerðar nr. 595/1997.

Verði litið svo á að byggja beri á lögheimilisskráningu A hér á landi er bent á að hann er ekki eigandi þeirrar fasteignar sem hann er skráður til heimilis í. Þar eru fleiri einstaklingar skráðir með lögheimili. Í slíkum tilvikum er ávallt farið fram á framlagningu húsaleigusamnings til staðfestingar á að ekki sé um að ræða fjárhagslegt hagræði af búsetu með öðrum, sbr. 1. mgr. 4. gr. rgl. nr. 595/1997.

     Samkvæmt 2. gr. rgl. nr. 595/1997 er umsækjendum skylt að gefa allar nauðsynlegar upplýsingar og skýringar og skila inn umbeðnum gögnum til þess að hægt sé að ákvarða bætur eða endurskoða bótarétt. A hefur ekki lagt fram húsaleigusamning, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli starfsmanna lífeyristryggingasviðs þar um. Hann verður, að mati lífeyristryggingasviðs, að bera hallann af því að leggja ekki fram umbeðin gögn til sönnunar á að hann uppfylli skilyrði bótaréttar. 

   Rétt er að taka fram að mál A var tekið fyrir á fundi samráðsnefndar um heimilisuppbót og frekari uppbót þann 19. febrúar 2003 og var þá ákveðið að vísa því til lögfræðinga lífeyristryggingasviðs.

 

Að öðru leyti vísast til bréfs til A, dags. 12. mars 2003.”

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 22. maí 2003 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða frekari gögnum.  Athugasemdir kæranda eru dags. 27. maí 2003 og hafa verið kynntar Tryggingastofnun.

 

Úrskurðarnefndin ákvað á fundi sínum 18. júní 2003 að gefa kæranda kost á að leggja fram upplýsingar um dvalartíma á Íslandi, húsaleigusamning o.fl.  Svör kæranda eru dags. 18. ágúst og 2. september 2003.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Málið varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um heimilisuppbót.  Kærandi er skráður með lögheimili að B, Reykjavík.  Auk hans búa á sama stað bróðir hans og mágkona sem eru skráðir eigendur húsnæðisins.  Fyrir liggur að kærandi hefur selt fasteign sem hann átti á Íslandi og keypt fasteign í Bandaríkjunum þar sem hann dvelur langdvölum að læknisráði að sögn.  Kærandi hafði notið heimilisuppbótar frá Tryggingastofnun  en uppbótin var felld niður þegar upplýsingar bárust um breytt lögheimili og fasteignakaup á Florida.  Kærandi sótti um uppbót á ný en var synjað.

 

Í rökstuðningi segir kærandi  að Tryggingastofnun hafi flutt sig hreppaflutningi milli heimsálfa.  Hann eigi lögheimili á Freyjugötu og greiði skatta á Íslandi.  Kærandi kveðst hafa verið mikill sjúklingur um árabil og dvelji erlendis að læknisráði.  Hann trúi því ekki að greiðslum frá Tryggingastofnun þurfi að eyða hérlendis.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til þess að kærandi uppfylli ekki skilyrði um búsetu hérlendis.  Verði hins vegar litið svo á að kærandi uppfylli búsetuskilyrði er bent á að kærandi sé ekki eigandi þeirrar fasteignar þar sem hann er með skráð lögheimili.  Í slíkum tilvikum sé farið fram á framlagningu húsaleigusamnings.  Kærandi hafi ekki lagt fram slíkan samning þrátt fyrir ítrekuð tilmæli og verði að bera hallann af því.

Ákvæði um greiðslu heimilisuppbótar er í 9. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð svo og í reglugerð nr. 595/1997, með síðari breytingum. Samkvæmt lagaákvæðinu er heimilt að greiða einhleypingi, að uppfylltum skilyrðum um greiðslu tekjutryggingar, heimilisuppbót ef hann er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/1993 er greiðsla bóta samkvæmt lögunum bundin við lögheimili á Íslandi.  Greiðsla heimilisuppbótar er því bundin því skilyrði að umsækjandi eigi lögheimili á Íslandi.

Ekki er í lögum nr. 118/1993 að finna skilgreiningu á lögheimili.  Í 15. gr. laganna segir að ákvæði laga nr. 117/1993 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.  Í 9. gr. a laga nr. 117/1993 með síðari breytingum er vísað til laga um lögheimili varðandi skilgreiningu á lögheimili.  Þá segir í greininni að Tryggingastofnun ríkisins ákvarði hvort einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum.

 Í 1. gr. laga nr. 21/1990 um lögheimili segir:

,, Lögheimili manns er sá staður  þar sem hann hefur fasta búsetu.

Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.”

Samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands er kærandi með skráð lögheimili að B í Reykjavík.  Eigendur hússins eru bróðir hans og mágkona.  Kærandi kveðst vera leigutaki hjá þeim og hefur lagt fram húsaleigusamning dags. 1. október 2002 því til staðfestingar.  Um ótímabundinn leigusamning er að ræða með 1. október 2002 sem upphafstíma.  Fjárhæð húsaleigu samkvæmt samningnum er kr. 0.- á mánuði.  Samkvæmt upplýsingum kæranda seldi hann húsnæði sem hann átti á Íslandi haustið 2002 og keypti sér húsnæði á Florida sama haust.  Sérstaklega aðspurður um dvöl sína á Íslandi frá 1. nóvember 2002 kvaðst kærandi í bréfi dags. 18. ágúst 2003 hafa dvalið á Íslandi 5. – 18. febrúar 2003.  Ljósrit farmiða liggja fyrir því til staðfestingar.  Kærandi dvelur því mestmegnis í eigin húsnæði á Florida.

Úrskurðarnefndin leggur á það mat hvort skilyrði 1. gr. lögheimilislaga um fasta búsetu séu uppfyllt í tilviki kæranda. Miðað við framlögð gögn, má segja að kærandi hafi bækistöð bæði hér heima og erlendis. Hann hefur tryggt sér aðstöðu hjá bróður sínum á B auk þess að búa sér heimili í Bandaríkjunum. Miðað við upplýsingar kæranda um dvalartíma hérlendis og erlendis sl. ár, liggur fyrir að hann hefur aðeins dvalið á Íslandi í um hálfan mánuð. Í ljósi þess verður að telja, að hann dvelji að jafnaði í tómstundum sínum á heimili sínu erlendis og að þar sé svefnstaður hans í skilningi lögheimilislaga. Nefndin horfir til þess, hvort líta megi svo á að kærandi sé fjarverandi frá Íslandi um stundasakir vegna orlofs, vinnuferðar, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika, eins og segir í 1. gr. lögheimilislaga. Ljóst er að kærandi er ekki í vinnuferð, enda örorkulífeyrisþegi. Þá telur nefndin, að ekki sé unnt að líta svo á að kærandi sé í orlofi eða fjarverandi vegna veikinda. Almennt er fólk í orlofi frá vinnu í um einn mánuð á ári. Kærandi er hins vegar örorkulífeyrisþegi og því eðlilegt að orlofstímaviðmið séu lengri. Að mati nefndarinnar er dvöl kæranda í Bandaríkjunum miklu lengri en svo að verða talin orlofsdvöl um stundarsakir og ber þess  miklu frekar merki að vera föst búseta.

Það er staðreynd að fjöldi lífeyrisþega dvelur sér til heilsubótar um lengri eða skemmri tíma erlendis þar sem loftslag er hlýrra enda tími þeirra rýmri en þeirra sem eru á vinnumarkaði.  Kærandi hefur verið heilsuveill um árabil og segist dvelja erlendis að ráði lækna.  Hann seldi húsnæði sitt hér á landi fyrir u.þ.b. ári síðan og keypti annað ytra þar sem hann hefur dvalið utan 13 daga sem hann var á Íslandi í febrúar s.l.  Bækistöð kæranda og svefnstaður er því á Florida en ekki á Íslandi.   Lögheimili kæranda samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1990 er því á Florida. Framlagður húsaleigusamningur varðandi B breytir þar engu um.   Skilyrði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð um lögheimili á Íslandi er því ekki uppfyllt.  Skilyrði til greiðslu heimilisuppbótar skv. 9. gr. laga nr. 118/1993 eru ekki uppfyllt.  Synjun Tryggingastofnunar á umsókn um heimilisuppbót er staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A um heimilisuppbót er staðfest.

 

 

F. h. Úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta