Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 214/2003 - kærufrestur

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með kæru til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 8. ágúst 2003, móttekinni 21. ágúst 2003 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót/styrk vegna bifreiða­kaupa.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti með umsókn til Tryggingstofnunar dags. 23. apríl 2003 um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið. Umsókn var synjað með bréfi stofnunarinnar dags. 5. maí 2003 þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði um hreyfihömlun samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„ Umsækjandi; A reindist með vefjagigt í janúar 1996. B gigtarlæknir greindi mig, þá var líkamleg heilsa orðin mjög slæm og ég átti orðið erfitt með að sinna vinnu og annarra iðju vegna einkenna vefjagigtarinnar. Reynt hefur verið eftir megni að halda einkennum hennar niðri með lyfjagjöf, sjúkraþjálfun og ýmissa óhefðbundinna lækninga en án árangurs.

Hefur vefjagigtin því heftað getu mína til daglegrar iðju og gjörða vegna einkenna sem lýsir sér með miklum vöðvaverkjum, úthaldsleysi, orkutapi, vanheilsu og vanlíðan. Vefjagigtin hefur lagst mjög á alla vöðva líkamans, liðamót og einnig á líffærin s.s. ristil og maga þar sem líkamsvinnsla þeirra hægist mjög.

Í desember 2001 greindist ég með krabbamein (sarkoma) í vinstri handlegg og þurfti ég að gangast undir aðgerð 14. janúar 2002 þar sem höndin var fjarlægð um 10 cm. frá úlnlið.

Vegna sjúkdómsástands, fötlunar og andlegrar vanlíðar í kjölfar vefjagigtar, krabbameins og fötlunar vegna útlimamissis hef ég þurft að sækja viðtöl hjá C Krabbameins- og Geðlækni og hefur hann stutt mig í baráttu minni.

Ástæður fyrir umsókn minni um bifreiðastyrk eru ríkar þar sem ég þarf á bifreið að halda til að komast ferða minna til minna lækna þar sem ég er undir stöðugu eftirliti, til að mynda hjá D Krabbameinslækni, C Krabbameins- og Geðlækni og einnig hjá Stoðtækjafræðingi hjá E vegna gerðar og eftirlits gervihandar.

Vegna fötlunar minnar með útlimissinum og slæms líkamsástands eru daglegar venjur og gjörðir erfiðari en ella og má þar nefna innkaup og burður til þess erfiður mér. Get ég því ekki gert innkaup nema með afnot bifreiðar.

Fyrir liggur hjá Tryggingastofnun, læknisvottorð frá D Krabbameinslækni um örorku mína þar sem ég er fullur öryrki og fæ ég greiddar örorkulífeyri frá Tryggingastofnun.”

Úrskurðarnefndin óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar með bréfi dags. 21. ágúst 2003. Greinargerðin er dags. 12. september 2003. Þar segir:

„Tryggingastofnun ríkisins barst umsókn um bifreiðastyrk dags. 23. apríl 2003 Umsókninni var synjað með bréfi stofnunarinnar dags. 5. maí 2003 þar sem skilyrði fyrir hreyfihömlun þótti ekki uppfyllt. Bent var á að kærufrestur væri þrír mánuðir.

Samkvæmt l. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema annað hvort verði talið afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. segir svo að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kærandi kærir ofangreinda ákvörðun með kæru dags. 8. ágúst 2003 er barst úrskurðarnefndinni 21. ágúst 2003. Þriggja mánaða kærufrestur var þá liðinn. Samkvæmt framansögðu ber ekki að taka mál þetta til efnislegrar meðferðar.”

Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 15. september 2003 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda eru dags. 18. september 2003. Þar segir:

„Viðbótarbréf vegna kærumáls um bílastyrk. Kærandi sendi inn bréf til Tryggingastofnun með rökum fyrir umsókn um bílastyrk í ágúst sl. Kærufrestur var 3 mánuðir og barst kæran aðeins of seint eða þremur dögum, samkvæmt bréfi frá TR 12. september.

Kærandi biður vinsamlega um að farið sé í kærumálið þó kærufrestur sé liðinn, vegna þess að kærandi þurfti að fá aðstoð og upplýsingar vegna umsóknarinnar frá lækni og á þessum tíma voru seinkanir vegna sumarfrí hjá þeim.

Einnig var kærandi að fá nýja gervihönd og þurfti að laga hana til og fór mikill tími í að fara til stoðtækjafræðings og það tekur á andlega að vera í vandræðum með gerviútlim og ekki gafst því tími í að sinna fleirum málum.

Bið eftir gögnum og upplýsingum frestuðust því umfram tíma sem erfitt er að eiga við. Ég legg hér með inn vinsamleg beiðni að málið verði tekið fyrir vegna þess að fresturinn var stuttlega runninn út.”

Úrskurðarnefndin ákvað á fundi sínum 8. október 2003 að gefa kæranda kost á að koma með skýringar á þeim langa tíma sem leið frá dagsetningu kæru þann 8. ágúst 2003 og þar til starfsmenn úrskurðarnefndar móttóku kæru þann 21. ágúst 2003. Kærandi hafði samband símleiðis og kvaðst hafa skrifað kæru þann 8. ágúst og afhent hana sjálf hjá Tryggingastofnun ríkisins í kringum 12. ágúst s.l. þar sem henni hefði verið sagt að starfsmenn úrskurðarnefndar kæmu daglega til að sækja póst.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um styrk/uppbót vegna bifreiðakaupa.

Í rökstuðningi fyrir kæru vísar kærandi til veikinda sinna, vefjagigtar og krabbameins í vinstri handlegg sem leiddi til þess að höndin var fjarlægð um 10 cm frá úlnlið. Veikindin geri allar daglegar venjur erfiðari og hún geti t.d. ekki gert innkaup nema að hafa afnot bifreiðar. Þá óskar kærandi eftir því að málið hljóti efnislega afgreiðslu enda þótt kærufrestur sé liðinn þar sem erfiðlega hafi gengið að fá aðstoð og upplýsingar tímanlega frá læknum vegna sumarleyfa.

Í greinargerð Tryggingstofnunar er vísað til þess að kærufrestur sé liðinn.

Kæranda var tilkynnt um synjun umsóknar með bréfi Tryggingastofnunar dags. 5. maí 2003. Í synjunarbréfi er getið um kæruheimild og kærufrest. Kæra til Úrskurðarnefndar almannatrygginga er dags. 8. ágúst 2003 og móttekin þann 21. ágúst 2003. Samkvæmt 7. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum, er heimilt að kæra til Úrskurðarnefndar almannatrygginga mál er varða grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta. Skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Úrskurðarnefndin hefur mótað þá vinnureglu, að kærufrestur skuli miðast við 5 daga umfram 3 mánuði þegar kæra berst í pósti þannig að kærandi beri ekki skaða af því ef staðreynt er að sending dregst vegna atvika sem rekja má til póstdreifingar sbr. orðalag 1. mgr. 7. gr. laga nr. 117/1993. Í máli þessu afhenti kærandi sjálf kæru sína hjá Tryggingastofnun ríkisins að sögn í kringum 12. ágúst s.l. Úrskurðarnefndin kannaði sérstaklega hvort verið gæti að kæran hefði mislagst hjá Tryggingastofnun. Var talið að svo væri ekki. Þess skal getið að starfsmaður úrskurðarnefndar sækir daglega póst nefndarinnar sem berst til Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefndin móttók kæruna þann 21. ágúst 2003. Þrír mánuðir voru liðnir þegar kæra var móttekin. Kærufrestur í máli þessu er því liðinn.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvæði er heimilar að fjalla um stjórnsýslu­kærur þó að kærufrestur sé liðinn ef afsakanlegt er samkvæmt 1. tl. að kæran hafi ekki borist fyrr eða skv. 2. tl veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í máli þessu hefur ekkert komið fram sem réttlætir að vikið sé frá kærufresti. Þá lítur nefndin til þess, að samkvæmt gildandi reglum um uppbætur/styrki til bifreiðakaupa er ekkert því til fyrirstöðu að kærandi sæki um að nýju. Ákvörðun um frávísun málsins getur því ekki talist mjög íþynjandi fyrir kæranda. Málinu er því vísað frá þar sem kærufrestur er liðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kæru A er vísað frá þar sem kærufrestur er liðinn.

_____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

_____________________________ _________________________

Ludvig Guðmundsson Þuríður Árnadóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta