Hoppa yfir valmynd

Nr. 266/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 266/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19030031

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. mars 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. febrúar 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. september 2018. Þar sem kærandi hafði undir höndum dvalarleyfisskírteini útgefið af maltneskum stjórnvöldum var, þann 20. september 2018, beiðni um viðtöku kæranda beint til yfirvalda á Möltu, sbr. 1. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá maltneskum yfirvöldum, dags. 10. desember 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 26. febrúar 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann sama dag og kærði kærandi ákvörðunina þann 13. mars 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 22. mars 2019, ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda þann 26. mars sl. Kærunefnd bárust upplýsingar frá maltneskum yfirvöldum þann 2. maí sl. og veitti nefndin kæranda tækifæri til að koma að andmælum vegna upplýsinganna þann 3. maí sl. en engin andmæli voru höfð í frammi.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að maltnesk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Möltu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Möltu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi glímt við vandamál á Möltu og ómögulegt sé fyrir hann að vera þar eftir að hann hafi talað illa um [...]. Kærandi kveður að hann hafi fengið martraðir og talað ósjálfrátt og móðgandi við annað fólk í vöku án þess að vita af því. Hegðun hans hafi valdið honum vandræðum og hann hafi verið lagður inn á [...] á Möltu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun í janúar sl. hafi kærandi hins vegar kveðið að [...] hans væri komin í gott lag aftur.

Kærandi kveður að hann hafi yfirgefið Möltu af heilsufarsástæðum og ef hann yrði aftur veikur vildi hann vera á stað þar sem hann fengi góða umönnun og nyti mannréttinda. Þá kveður kærandi að hann verði settur í fangelsi snúi hann aftur til Möltu en hann hafi þegar setið í fangelsi þar í tvígang fyrir það eitt að ferðast frá landinu. Dvöl kæranda á Möltu hafi verið erfið en við komuna til landsins hafi hann sætt varðhaldsvist í eitt og hálft ár. Þá hafi hann ekki haft dvalarleyfi þar fyrst um sinn og svo aðeins til eins árs í senn og því hafi verið erfitt að finna húsnæði. Skortur á atvinnu hafi gert það enn erfiðara að fá húsnæði en eftir dvölina í flóttamannabúðunum hafi honum ekki staðið til boða nokkur opinber framfærsla. Þessar aðstæður hafi valdið kæranda mikilli streitu og álagi og það hafi verið mjög erfitt fyrir hann að þurfa að endurnýja dvalarleyfið árlega. Þá kveður kærandi að hann hafi upplifað mikla fordóma á Möltu.

Kærandi kveður þá að hann glími við [...] og að framlögð heilsufarsgögn gefi til kynna að hann sé [...] af [...]. Því sé nauðsynlegt að stjórnvöld rannsaki ítarlega stöðu hans sem viðkvæms einstaklings og hvaða [...] hann glími við. Til þess dugi ekki ummæli heilbrigðisstarfsfólks í almennri læknisskoðun. Í því sambandi vísar kærandi til 6. tölul. 3. gr., 2. mgr. 23. gr., 1. mgr. 25. gr. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem stjórnvöldum sé með beinum hætti falið lögum samkvæmt að afla ákveðinna gagna, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, sé þeim óheimilt að neita aðila um aðstoð sérfræðinga þegar hann hafi sýnt fram á þörf fyrir hana eða færa ábyrgð á aðkomu sérfræðinga yfir á aðila sjálfan og láta hann bera hallann af því að slík aðstoð fáist ekki. Um gríðarlega hagsmuni sé að ræða og kæranda sé torvelt ef ekki ómögulegt að afla slíkra gagna án aðkomu stjórnvalda.

Þá gerir kærandi í greinargerð sinni alvarlegar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun. Þrátt fyrir að fram komi í skýrslu Asylum Information Database að fjölmargar hindranir séu í vegi umsækjenda um alþjóðlega vernd við nýtingu heilbrigðisþjónustu á Möltu hafi Útlendingastofnun metið kæranda ótrúverðugan um að hann hafi ekki notið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi. Þá hafi kærandi borið fyrir sig að hann eigi á hættu fangelsisvist þar sem hann hafi ferðast frá Möltu og fái sú frásögn stoð í framangreindri skýrslu Asylum Information Database en umfjöllun Útlendingastofnunar um þann þátt málsins sé með öllu óskiljanleg. Um aðstæður og réttindi einstaklinga með alþjóðlega vernd á Möltu vísar kærandi til umfjöllunar þar um í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar.

Kærandi telur að taka beri mál hans til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og því sé ótækt að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í málinu. Þá vísar kærandi til lagaáskilnaðarreglu 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og óskráðrar lögmætisreglu stjórnsýsluréttar en nýleg reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, brjóti gegn lögmætisreglunni. Kærandi telji því að litið skuli framhjá breytingarreglugerðinni við meðferð málsins. Í öllu falli skuli reglugerðin og þau atriði sem í henni séu talin upp í dæmaskyni túlkuð með hliðsjón af lögskýringargögnum að baki 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, um sérstakar ástæður. Að mati kæranda hafi íslensk stjórnvöld, við túlkun á hugtakinu sérstakar ástæður, horft í of ríkum mæli til dómafordæma alþjóðadómstóla við beitingu 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Slíkt sé í ósamræmi við lög um útlendinga og 17. gr. mannréttindasáttmálans. Þá vísar kærandi til jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi kveður að mat á sérstökum ástæðum skuli vera ítarlegt og ná bæði til aðstæðna viðkomandi útlendings sem og aðstæðna og ástands í móttökuríki. Í ljósi markmiðs laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, og sjónarmiða um aukið vægi mannréttinda sé því alfarið hafnað að við mat á sérstökum ástæðum hafi sjónarmið um skilvirkni umsóknarferlisins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkurt vægi. Slík sjónarmið kunni að hafa þýðingu við mat á beitingu undantekningarreglna a- eða c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en ekki við mat á sérstökum ástæðum, sérstökum tengslum, tímafrestum, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og grundvallarreglunni um non-refoulement.

Í lögskýringargögnum að baki 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga komi fram að líta skuli til viðkvæmrar stöðu umsækjanda um alþjóðlega vernd og þess hvort hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki. Í lögskýringargögnum sé hvergi að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika, alvarlega mismunun, verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu eða að meðferð sjúkdóms sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Slíkar kröfur hafi enga stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni. Í máli kæranda liggi fyrir að hans bíði fangelsisvist og mögulegar sektir við endursendingu til Möltu fyrir það eitt að hafa yfirgefið landið. Þá bendi heimildir til þess að verulegur skortur sé á þjónustu við viðkvæma einstaklinga á Möltu, einkum hvað varðar [...]. Þá séu fordómar og kynþáttahatur mikið vandamál á Möltu og alvarleg mismunun líðist m.a. á atvinnumarkaði. Ljóst sé því að staða kæranda verði verulega síðri en almennings á Möltu, verði hann sendur aftur þangað. Kæranda muni reynast erfið sú óvissa sem felist í því að þurfa að endurnýja dvalarleyfi sitt árlega en heimildir bendi til þess að slík endurnýjun sé erfiðleikum bundin á Möltu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Möltu á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja maltnesk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.Einstaklingsbundnar aðstæður kærandaKærandi í málinu er karlmaður [...] sem kom hingað einn til lands en kveðst eiga dóttur í [...]. Í framlögðum heilsufarsgögnum kæranda kemur m.a. fram að greining gamals [...] og [...] hafi verið staðfest en hann sýni þó engin klínísk einkenni [...]. Þá hafi kærandi glímt við viðvarandi [...] í [...] og leitað til heilsugæslu vegna [...]. Kærandi kvaðst jafnframt hafa glímt við [...] á Möltu. Hann hafi þá sýnt einkenni [...] og kvaðst hafa verið lagður inn á [...] á Möltu í tvígang. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. janúar sl. kvað kærandi að hann hefði átt í vandræðum með [...]. Hann hefði m.a. glímt við martraðir og tekið köst þar sem hann hafi móðgað fólk ósjálfrátt og óafvitandi. Þær upplifanir sem hann hafi orðið fyrir í Líbíu hafi orsakað hegðun hans og árásargirni.Í greinargerð kæranda kemur fram að hann telji nauðsynlegt að stjórnvöld rannsaki ítarlega stöðu hans, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, m.a. svo að fyrir liggi hvaða [...] hann glími við. Að mati kærunefndar er mál kæranda nægilega upplýst að því er varðar heilsufar hans, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og telur nefndin því ekki tilefni til að afla frekari gagna þar um. Í ljósi gagna málsins, þ. á m. fyrirliggjandi heilsufarsgagna, er það mat kærunefndar að staða kæranda sé ekki þess eðlis að hann teljist hafa sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Möltu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð á Möltu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• Asylum Information Database, Country Report: Malta (European Council on Refugees and Exiles, 11. mars 2019);

• Malta 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);

• Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Malta (UN High Commissioner for Refugees (UNHCR), júlí 2018);

• Freedom in the World 2019 – Malta (Freedom House, 2019);

• Progress Report 2018: A Global Strategy to Support Governments to End the Detention of Asylum seekers & Refugees, 2014-2019 (UN High Commissioner for Refugees (UNCHR), febrúar 2019);

• ECRI Report on Malta (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);

• Amnesty International Report 2017/18 - Malta (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

• National Report on Hate Speech and Hate Crime in Malta 2016 (E-More Project, nóvember 2016);

• National Action Plan Against Racism and Xenophobia (Equality Research Consortium, 2010);

• Upplýsingar af vefsíðum maltneskra yfirvalda: https://integration.gov.mt/en/ResidenceAndVisas/Pages/Humanitarian-Other-Reasons.aspx og https://deputyprimeminister.gov.mt/en/cbhc/Pages/Entitlement/Health-Entitlement-to-RefugeesMigrants.aspx;

• Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna: http://www.unhcr.org.mt;

• Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu;

• Upplýsingar af vefsíðu félagasamtakanna Victim Support: victimsupport.org.mt;

• Upplýsingar af vefsíðum Report Racism Malta og Reporting Hate: www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu;

• Tölvupóstur frá maltneskum stjórnvöldum (Identity Malta), dags. 2. maí 2019.

Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að þann 15. nóvember sl. hafi maltnesk yfirvöld kynnt til sögunnar svonefnda sérstaka dvalarheimild (e. Specific Residence Authorisation (SRA)) sem ætlað hafi verið að leysa af hólmi tímabundin mannúðardvalarleyfi (e. Temporary Humanitarian Protection New (THPN)). Heimilt er að veita þeim einstaklingum sérstaka dvalarheimild sem komu til Möltu fyrir 1. janúar 2016, hafa dvalið þar í fimm ár fyrir umsóknardag og fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd. Þá er gerð krafa um að umsækjandi um sérstaka dvalarheimild hafi ekki verið sakfelldur fyrir alvarleg afbrot eða ógni þjóðaröryggi, allsherjarreglu eða almannahagsmunum. Enn fremur að hann geti sýnt fram á reglubundna atvinnu sl. fimm ár. Dvalarleyfi á grundvelli sérstakrar dvalarheimildar gildir í tvö ár, með möguleika á endurnýjun, og fer einstaklingsbundið mat fram af þar til bærri stofnun (e. Identity Malta). Einstaklingar með sérstaka dvalarheimild eiga rétt á sambærilegri félagslegri þjónustu og einstaklingar með viðbótarvernd, svo og atvinnuleyfi, ferðaskilríkjum og aðgangi að menntun og heilbrigðisþjónustu. Einstaklingar með tímabundið mannúðardvalarleyfi fá útgefna sérstaka dvalarheimild án undangengis einstaklingsbundins mats, sé dvalarleyfið enn í gildi. Við endurnýjun slíks dvalarleyfis skal áðurnefnt mat fara fram, í samræmi við ofangreind skilyrði. Við matið skal tekið tillit til fjölskyldna, viðkvæmra einstaklinga og þeirra sem hafa verið ófærir um að tryggja sér löglega atvinnu.

Af ofangreindum tölvupósti maltneskra stjórnvalda, dags. 2. maí sl., má ráða að umsækjandi með mannúðardvalarleyfi verði við endurnýjun dvalarleyfis að uppfylla skilyrði fyrir útgáfu sérstakrar dvalarheimildar (SRA), hafi hann ekki fengið slíka heimild útgefna áður en mannúðardvalarleyfi hans hafi runnið út. Meðan á endurnýjun dvalarleyfis standi hafi umsækjandi þá almennt ekki aðgang að félagslega kerfinu, að undanskilinni bráðaheilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt skýrslu Asylum Information Database er útgáfa og endurnýjun dvalarleyfa erfiðleikum bundin í framkvæmd, m.a. vegna skorts á aðgengi að upplýsingum, tafa við vinnslu umsókna, íþyngjandi krafna og neikvæðra viðhorfa opinberra starfsmanna í garð einstaklinga með alþjóðlega vernd á Möltu. Upplýsingar séu ekki alltaf settar fram á tungumáli sem aðilar skilji og þá þurfi umsækjendur um endurnýjun dvalarleyfis m.a. að leggja fram sönnun um núverandi dvalarstað, s.s. leigusamning og afrit af persónuskilríkjum leigusala. Meðan á umsóknarferlinu standi hafi umsækjendur þá ekki aðgang að þeirri þjónustu sem þeir eigi rétt á þar sem þeir hafi ekki undir höndum gilt dvalarleyfisskírteini.

Í ofangreindri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, um varðhaldsvist umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna, kemur m.a. fram að Malta hafi á síðustu árum gripið til nokkurra aðgerða í samræmi við tilmæli alþjóðlegra eftirlitsaðila bæði til að stemma stigu við varðhaldsvist flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd og til að bæta aðstæður í varðhaldsmiðstöðvum. Þá kemur fram í skýrslu Asylum Information Database að árið 2018 hafi 2.045 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Möltu en að 53 umsækjendur hafi sætt varðhaldi á árinu. Þá sé ein þar til gerð varðhaldsmiðstöð á Möltu, með 200 plássum, en við lok árs 2018 hafi sjö einstaklingar sætt þar varðhaldsvist. Skilyrði fyrir beitingu varðhaldsvistar eru lögbundin en m.a. er heimilt að beita varðhaldi til að staðfesta auðkenni eða ríkisfang umsækjanda og til að koma í veg fyrir flótta umsækjanda, þ. á m. þegar ákvörðun um frávísun eða brottvísun umsækjanda liggur fyrir, og til verndar þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.

Í ofangreindri skýrslu European Commission against Racism and Intolerance frá árinu 2018 kemur m.a. fram að flóttamenn og innflytjendur sæti mismunun á Möltu, þ. á m. á vinnumarkaði. Árið 2010 gáfu maltnesk yfirvöld út aðgerðaráætlun gegn kynþáttahyggju og útlendingahatri (e. National Action Plan Against Racism and Xenophobia). Telji einstaklingar á sér brotið geta þeir m.a. leitað til nefndar um opinbera þjónustu (e. Public Service Commission), jafnréttisnefndar (e. National Commission for the Promotion of Equality), umboðsmanns þingsins (e. Parliamentary ombudsman) og dómstóla. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2009 kváðust 29% [...] innflytjenda hafa orðið fyrir ofbeldi, hótunum eða alvarlegu áreiti á grundvelli kynþáttar en yfir 50% árása væru ekki tilkynntar til lögreglu vegna skorts á trausti til yfirvalda. Ekki liggja fyrir aðgreind, opinber gögn um hatursglæpi á Möltu, s.s. um tíðni þeirra, kærufjölda, fjölda mála sem sæta ákæru o.s.frv. Hatursglæpir, þ. á m. á grundvelli kynþáttar, eru refsiverðir skv. maltneskum hegningarlögum. Samkvæmt ofangreindum heimildum skortir þó á eftirfylgni með löggjöfinni, fá mál eru kærð og lágt hlutfall kærumála sætir ákæruferli. Auk þess að leita til lögreglu geta þolendur hatursglæpa leitað til samtakanna Victim Support og jafnframt tilkynnt um hatursglæpi á þar til gerðum vefsíðum, www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu. Þá kemur fram á vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar á Möltu sem séu þolendur afbrota og tali hvorki né skilji maltnesku geti lagt fram kæru til lögreglu á sínu móðurmáli og eigi rétt á nauðsynlegri aðstoð við það, s.s. túlkaþjónustu. Meðan á rannsókn standi eigi þeir jafnframt rétt á túlkaþjónustu en þurfi þá að greiða fyrir þjónustuna.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Það er mat kærunefndar að fyrirliggjandi upplýsingar um aðstæður á Möltu, þ. á m. um varðhaldsvist umsækjenda um alþjóðlega vernd þar, séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að þær brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er það mat kærunefndar að gögn málsins beri með sér að á Möltu sé almennt veitt fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement). Öll gögn benda til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði á Möltu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst, þ. á m. líkamlegum og andlegum kvillum hans og erfiðleikum sem hann kveðst hafa staðið frammi fyrir á Möltu. Líkt og fram hefur komið hefur kærandi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á Möltu en hefur fengið útgefið mannúðardvalarleyfi af maltneskum yfirvöldum, sem nú er útrunnið. Ljóst er því að kærandi muni þurfa að afla endurnýjunar á dvalarleyfi sínu við endurkomu til Möltu, sem sé erfitt og tímafrekt ferli. Þá gefa fyrirliggandi gögn til kynna að kærandi muni glíma við aðgangshindranir að félagslega kerfinu meðan á ferlinu standi en muni þó hafa aðgang að bráðaheilbrigðisþjónustu. Sem fyrr segir hefur kærandi verið greindur með [...], sem sé einkennalaus, en fyrir liggur að takmörkuð meðferð er í boði við henni og engin þekkt lækning til. Með tilliti til eðlis líkamlegra og andlegra kvilla kæranda, sbr. framlögð gögn í málinu, er það því mat kærunefndar að heilsufar hans sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Þrátt fyrir ýmsar aðgangshindranir að húsnæðis- og vinnumarkaði hefur kærandi heimild til að stunda atvinnu á Möltu og nýtur almennt sömu réttinda þar um og maltneskir ríkisborgarar. Þá verður ráðið af framangreindum gögnum að kærandi geti leitað ásjár maltneskra yfirvalda óttist hann um öryggi sitt eða verði fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar á Möltu. Það er því mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds er það því mat kærunefndar að aðstæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. janúar 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 5. september 2018.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. trúverðugleikamat stofnunarinnar og beitingu stjórnvalda á reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 1. september 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann 5. september sl. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Möltu eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa maltnesk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Möltu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Hilmar Magnússon                                                                 Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta