Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 29/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júní 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 29/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 18. janúar 2009. Umsókn kæranda var samþykkt og fékk hann fyrst greiddar bætur þann 6. mars 2009 fyrir tímabilið 19. janúar til 19. febrúar 2009. Kærandi vildi ekki una því að honum væru ekki greiddar bætur frá því að hann varð atvinnulaus og krefst bóta frá þeim degi, þ.e. 1. janúar 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði sem fiskvinnslumaður hjá X hf. frá 24. ágúst 2005 til 24. ágúst 2008. Hann hætti störfum þar vegna veikinda. Samkvæmt læknisvottorði B, yfirlæknis á Landspítala, dags. 11. desember 2008, getur kærandi ekki unnið störf sem krefjast þess að hann standi í fæturna. Kærandi fékk sjúkradagpeninga frá verkalýðsfélaginu C frá því í september til 31. desember 2008.

Af hálfu kæranda kemur fram að sá skilningur Vinnumálastofnunar á 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjendur geti ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en frá því tímamarki að sótt er um atvinnuleysisbætur feli í sér oftúlkun á lagaákvæðinu. Lagagreinin sé einungis heimildarákvæði um greiðslu atvinnuleysisbóta með tilteknum hætti, en ekki bann við greiðslu atvinnuleysisbóta með öðrum hætti. Til þess að lagaákvæðið þyldi túlkun Vinnumálastofnunar þyrfti það að lýsa berum orðum fortakslausu banni við greiðslu atvinnuleysisbóta með nokkuð öðrum hætti en þeim sem kveðið er á um í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lagaskilningur Vinnumálastofnunar myndi leiða til þess að réttaröryggi og jafnræði einstaklinga, sem eiga í samskiptum við stofnunina varðandi atvinnuleysisbætur, yrði fyrir borð borinn. Skrifleg og tæknileg aðstaða umsækjenda til að koma umsókn á framfæri geti verið með ýmsu móti þannig að tilviljanir eða örðugar aðstæður geti leitt til meira og minna bótataps atvinnulausra samkvæmt lagaskilningi Vinnumálastofnunar. Með þessum skilningi Vinnumálastofnunar á lögunum heldur kærandi því fram að þau nái ekki þeim tilgangi sínum að vera framfærslutrygging frá upphafi atvinnuleysis.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. apríl 2009, kemur fram að í 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna reglu er mæli meðan annars fyrir um frá hvaða tíma atvinnuleysisbætur skuli greiddar. Í 1. mgr. 29. gr. laganna komi fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans. Lagaákvæðið mæli skýrlega fyrir um að umsækjendur geti ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en frá því tímamarki að sótt sé um atvinnuleysisbætur. Sú afstaða kæranda að hann eigi rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá því tímamarki sem hann verður atvinnulaus, þ.e. hættir að njóta greiðslu sjúkradagpeninga sé því ekki í samræmi við lög.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. maí 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. maí 2009. Kærandi sendi úrskurðarnefndinni greinargerð, dags. 17. maí 2009.

 

2.

Niðurstaða

1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal foreldri eða forráðamaður samþykkja umsóknina með undirritun sinni.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttekur umsókn um atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt ofangreindum ákvæðum er byggt á því að stjórnsýslumál hefjist þegar umsókn um atvinnuleysisbætur er móttekin og sé fallist á rétt umsækjenda þá séu atvinnuleysisbætur greiddar frá og með þeim tíma sem umsókn um atvinnuleysisbætur barst. Þessi skipan styðst við þau rök að það sé í valdi atvinnuleitenda að sækja um atvinnuleysisbætur og að umsókn þeirra leggi grunninn að afgreiðslu hvers máls.

Kærandi lét af störfum vegna veikinda í ágústlok 2008 og fékk greidda sjúkradagpeninga frá september til 31. desember 2008. Hann sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta þann 18. janúar 2009 og fékk greiddar bætur frá og með 19. janúar 2009. Með vísan til framangreindra ákvæða laga um atvinnuleysistryggingar er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða A atvinnuleysisbætur frá 19. janúar 2009 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta