Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2009. Úrskurður kærunefndar útboðsmála

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 29. júlí 2009

í máli nr. 13/2009:

Nesbyggð ehf.

gegn

Ríkiskaupum

          

Með bréfi, dags. 17. mars 2009, sem barst kærunefnd útboðsmála 14. apríl 2009, kærði Nesbyggð ehf. ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um að ógilda tilboð kæranda í ­útboði nr. 14621 – Hjúkrunarheimilið Jaðar, Ólafsvík. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Krafa er sett fram um að tilboð Nesbyggðar sé dæmt gilt og gengið verði til samninga við þá sem lægstbjóðendur. Beiðni er sett fram um álit kærunefndar á skaðabótaskyldu kaupanda ef ekki verði orðið við ofangreindri kröfu.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi kærða, dags. 6. maí 2009, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um athugasemdir kærða fyrir 22. maí 2009. Ekkert svar barst og var kæranda gefinn annar frestur til 23. júní 2009 en þegar engin svör bárust var frestur lengdur til 8. júlí 2009. Engar athugasemdir eða viðbótargögn bárust frá kæranda.

 

I.

Í febrúar 2009 auglýsti kærði útboð nr. 14621 „Hjúkrunarheimilið Jaðar, Ólafsvík”. Kærandi var einn bjóðenda í útboðinu. Grein 0.4.1 í útboðslýsingu kallaðist „Gerð og frágangur tilboðs“ og þar sagði m.a.:

            „Tilboð skal gera í allt verkið eins og því er lýst í útboðsgögnum.

Bjóðendur skulu fylla út alla liði tilboðsskrár, sem er hluti af útboðsgögnum þessum. Litið er á óútfyllta liði tilboðsskrár sem ákvörðun bjóðanda um að innifela kostnað við þá í öðrum liðum.“

 

Grein 0.4.6 í útboðslýsingu kallaðist „Meðferð og mat á tilboðum“ og þar sagði m.a.:

„Við yfirferð tilboða er einingarverð bjóðenda sett inn í tilboðsskrá útboðsgagna. Hafi bjóðandi breytt magni, fellt niður eða bætt línum við tilboðsskrána kemur það ekki fram við yfirferð, enda er slíkt óheimilt. Verkkaupi áskilur sér engu að síður rétt til að líta á slík tilboð sem gild, enda gildi þá ákvæði greinar “0.4.1 Gerð og frágangur tilboðs“ um að óútfylltir liði teljist innifaldir í öðrum liðum.“

 

Grein 0.3.2 í útboðslýsingu kallaðist „Skýringar á útboðsgögnum“ þar sagði m.a. að „fyrirspurnir og svör við þeim [yrðu] hluti af útboðsgögnum“. Samkvæmt grein 0.1.2 í útboðslýsingu var tilboðsfrestur til 24. febrúar 2009 og svarfrestur vegna fyrirspurna til 20. febrúar 2009. Hinn 19. febrúar 2009 sendi kærði tölvupóst til allra þátttakenda í útboðinu með fyrirspurnum sem borist höfðu og svörum við þeim. Í tölvupóstinum sagði m.a.:

            „Fyrirspurn 2:

Óskað er frekari skýringa vegna misræmis í gögnum í kafla 7.2 og kafla 7.3 er misræmi á verklýsingum og tilboðskrá liðir í kafla 7.2 eru 9 í verklýsingu en 7 liðir í magnskrá.

Einnig er spurt hvort átt er við ákveðna tegund harðviðar í kafla 7.2.9 (7.2.7 í magnskrá) ekkert kemur fram í kafla 10 um hvaða tegund á að nota.

 

Svar 2:

Meðfylgjandi eru breyttir kaflar í verklýsingu, kafli 7 og kafli 10 ásamt heildar­verk­lýsingu og nýrri tilboðsskrá með breytingum í kafla 7.

 

ATH.

Til þeirra sem eru búnir að fylla út í tilboðsskrána sem var á geisladisknum:

Hægt að afrita allan dálk E ath. bara þann dálk fyrir viðeigandi kafla úr eldri skrá yfir í þessa nýju nema kafla 7 þar sem þarf að fylla inn í að nýju.“

 

Með tölvupósti, dags. 9. mars 2009, sendi kærði lista yfir gild tilboð sem bárust og tilkynnti um leið „að ákveðið [hefði] verið að taka tilboði frá Afltaki ehf. í ofangreindu útboði, enda tilboðið metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt ákvæðum útboðs- og samningsskilmála“.

Með tölvupósti, dags. 10. mars 2009, óskaði kærandi eftir skýringum á því hvers vegna tilboð kæranda hefði ekki verið talið með í lista yfir gild tilboð. Með tölvupósti, dags. 12. mars 2009, svaraði kærði fyrirspurn kæranda en í póstinum sagði m.a.:

„Þann 19. febrúar sendu Ríkiskaup út tölvupóst til allra þeirra sem sótt höfðu gögn í útboðinu. Í þessum pósti voru spurningar sem borist höfðu á fyrirspurnartímanum og svör við þeim, auk þess sem ný magntöluskrá var send út þar sem villur voru í upphaflegu skránni.

 

Innsent tilboð Nesbyggðar ehf. tók ekki tillit til þesarar breyttu magntöluskrár og er tilboðið því ekki í samræmi við útboðsgögn og verður því að teljast ógilt.“

 

II.

Kærandi telur að breytingar á verkskránni hafi verið óverulegar og að tilkynning kærða um þær hafi ekki verið nægjanlega skýr og því hafi hún farið fram hjá kæranda. Kærandi telur einnig að útboðsgögn hafi gert ráð fyrir frávikum í tilboðum.

 

III.

Kærði telur að kærufrestur sé liðinn. Þá telur kærði að ekki sé hægt að verða við kröfu  kæranda um að gengið verði til samninga við kæranda. Kærði telur að tilboð kæranda hafi ekki verið gilt enda hafi verið tekið fram í útboðsgögnum að fyrirspurnir og svör við þeim yrðu hluti af útboðsgögnum. Þar sem tilboð kæranda hafi ekki verið í samræmi við leiðrétta tilboðsskrá hafi það ekki verið gilt. Kærði telur að breytingar og skýringar á útboðsgögnum séu í samræmi við 2. mgr. 63. gr. laga nr. 84/2007 og ákvæði 9. gr. ÍST 30:2003. Auk þess telur kærði að jafnræðis bjóðenda hafi verið gætt við breytingar á útboðslýsingu.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Af athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 má ráða að ætlast sé til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur samkvæmt 75. gr. laganna er veittur.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að kærða hafi verið óheimilt að meta tilboð hans ógilt. Kærandi fékk vitneskju um að kærði hefði metið tilboð hans ógilt þegar hann fékk tölvupóst kærða með lista yfir gild tilboð, dags. 9. mars 2009. Kærði óskaði eftir rökstuðningi fyrir því að tilboð hans var metið ógilt og sá rökstuðningur barst honum með tölvupósti kærða, dags. 12. mars 2009.

Kærandi vissi um þá ákvörðun, sem hann telur ólögmæta og byggir kröfur sínar á, þegar hann fékk tölvupóst frá kærða, dags. 9. mars 2009. Kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 hófst við það tímamark og síðasti dagur til að bera kæru undir nefndina var þannig 7. apríl 2009. Þar sem rökstuðningur kærða barst 12. mars 2009 hefur hann ekki áhrif á lengd kærufrestsins enda rúmaðist 15 daga viðbótarfrestur samkvæmt 75. gr. laganna innan almenna frestsins.

Kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, var þannig liðinn þegar kæra barst kærunefnd útboðsmála hinn 14. apríl 2009 og verður því að vísa kæru þessari frá kærunefnd útboðsmála.

 

Úrskurðarorð:

Kröfum kæranda, Nesbyggðar ehf., er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

 

 

 

                                            Reykjavík, 29. júlí 2009.

                                            Páll Sigurðsson

                                            Sigfús Jónsson

                                            Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 29. júlí 2009.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta