Hoppa yfir valmynd

Nr. 433/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 433/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21060052

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. júní 2021 kærði […], kt. […] ríkisborgari Srí-Lanka (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2021, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við handhafa ótímabundins dvalarleyfis hinn 1. september 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. júní 2021, var umsókninni synjað. Umboðsmaður kæranda, sem er maki kæranda, kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 23. júní 2021. Greinargerð umboðsmanns kæranda barst kærunefnd hinn 10. ágúst 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að hinn 14. apríl 2021 hefði verið ljóst að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir veitingu umbeðins dvalarleyfis með þeim fyrirvörum sem kæmu fram í 54. gr. laga um útlendinga. Hafi vegabréfsáritunarbeiðni verið í kjölfarið send til norska sendiráðsins í Nýju Delí, Indlandi. Hinn 11. maí 2021 hafi ný áritunarbeiðni verið send til íslenska sendiráðsins í Nýju Delí og þann 27. maí 2021 hafi stofnuninni borist tölvupóstur frá íslenska sendiráðinu þar sem hefðu komið fram upplýsingar um að hætt hefði verið við útgáfu áritunarinnar, sem nauðsynleg væri fyrir landgöngu kæranda, vegna yfirvofandi skilnaðar kæranda og maka hennar. Þann 28. maí 2021 hafi Útlendingastofnun borist tölvupóstur frá maka kæranda þar sem fram hefði komið samþykki fyrir því að dvalarleyfisumsóknin væri dregin til baka vegna yfirvofandi skilnaðar hans og kæranda.

Vísaði Útlendingastofnun til þess að í 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga væri tekið fram að umsókn um fyrsta dvalarleyfi samkvæmt 70.-72. gr. laganna skuli hafnað ef samþykki fjölskyldumeðlims fyrir útgáfu þess leyfis liggi ekki fyrir. Í ljósi viljayfirlýsingu maka kæranda væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar og var umsókninni því hafnað, sbr. 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð beinir umboðsmaður kæranda því til kærunefndar að tölvupóstur hans til Útlendingastofnunar verði virtur að vettugi. Hafi kærandi og hann leyst úr fyrri vandamálum og hyggist nú ætla sér að hefja fjölskyldulíf á Íslandi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. skal umsókn um fyrsta dvalarleyfi samkvæmt 70.-72. gr. hafnað ef samþykki fjölskyldumeðlims fyrir útgáfu þess leyfis liggur ekki fyrir.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögum um lögheimili og aðsetur. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Eins og greinir í III. kafla úrskurðarins grundvallaðist synjun Útlendingastofnunar á dvalarleyfisumsókn kæranda á yfirvofandi skilnaði kæranda og maka hennar. Í greinargerð umboðsmanns kæranda til kærunefndar kemur fram að kærandi og maki hafi leyst úr sínum vandamálum og ætli sér að hefja fjölskyldulíf á Íslandi. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi og maki hennar séu enn í hjúskap auk þess sem aðstæður málsins hafa breyst verulega frá töku hinnar kærðu ákvörðunar. Með vísan til breyttrar afstöðu kæranda og maka hennar stendur 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga ekki í vegi fyrir því að kæranda fái útgefið dvalarleyfi á Íslandi.

Þótt játa verði Útlendingastofnun ákveðið svigrúm til þess að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða.

Að framangreindu virtu verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta