Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 603/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 603/2020

Miðvikudaginn 10. mars 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 19. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. nóvember 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 14. október 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. nóvember 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Farið var fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun með tölvupósti 18. nóvember 2020 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. nóvember 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. nóvember 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 16. febrúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að farið sé fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru er greint frá því að Tryggingastofnun hafi neitað umsókn kæranda um örorku, þrátt fyrir að hún sé klárlega öryrki. Rök stofnunarinnar hafi verið þau að endurhæfing væri ekki fullreynd. Í júlí hafi umsókn kæranda um endurhæfingu verið neitað, kærandi hafi ekki áhuga á að fara aftur í endurhæfingu þar sem hennar mat sé það að hún græði ekkert á henni.

Kærandi hafi farið til taugalæknis sem hafi sagt að hún væri mjög líklega með idiopathic hypersomnia sem valdi því að hún sofi meira en tólf tíma og vakni þreytt. Kærandi eigi erfitt með að vakna, hún sofi yfir sig og sé þreytt allan daginn og eigi mjög erfitt með að halda sér vakandi. Þar sem að kærandi sé of verkjuð og alltof þreytt til þess að vakna geti hún ekki unnið allan daginn og missi alltaf vinnuna, hún geti einungis unnið fjóra tíma í senn, mesta lagi sex tíma, og alls ekki alla daga, hún geti oftast unnið um sex til tíu vaktir í mánuði en ekki fleiri. Kærandi sé með vefjagigt, idiopathic hypersomnia, vanvirkan skjaldkirtil, hashimotos, ibs, krónískt þunglyndi, mígreni og kvíða. Að geta ekki framfleytt sér valdi kæranda mjög miklum kvíða og meira þunglyndi. Hún sé föst í heimahúsi en þaðan geti hún ekki flutt þar sem hún fái svo lítið útborgað. Líkamlega geti kærandi ekki unnið meira, hún píni sig í að vinna, þrátt fyrir að geta það varla en hún verði að fá einhver laun og það myndi hjálpa henni mikið að fá metna örorku.

Í athugasemdum kæranda frá 16. febrúar 2020 segir að Tryggingastofnun hafi ítrekað synjað henni um örorkubætur, hún hafi verið í endurhæfingu í 24 mánuði og hún sjái engan bata eftir allan þann tíma. Heimilislæknir kæranda, taugalæknir og VIRK séu öll sammála því að frekari endurhæfing þjóni engum tilgangi. Staða kæranda sé sú að hún geti alls ekki unnið fulla vinnu eða verið í skóla þar sem líkaminn sé orðinn svo slæmur. Kærandi sé að bíða eftir að fara í svefnrannsókn til þess að sanna að hún hafi idiopathic hypersomnia sem taugalæknir hennar sé mjög viss um að hún hafi. Kærandi sofi um 12 til 14 tíma á sólarhring þar sem hún græði ekkert á svefninum. Kærandi geti lagt sig alla daga og nokkrum sinnum vegna þreytu. Kærandi vakni ekki við vekjaraklukkur og geti ekki vaknað snemma. Þegar hún vakni þurfi hún að liggja í rúminu í 30 til 60 mínútur þar sem hún sé svo þreytt, ringluð og illt í líkamanum að hún geti varla staðið upp. Kærandi sé með vefjagigt, vanvirkan skjaldkirtil, hashimotos, krónískt þunglyndi frá X ára aldri, mjög slæman kvíða, mígreni, króníska vöðvabólgu, sinaskeiðabólgu og stanslausa verki í liðum og fótum

Kærandi sé verkjuð alla daga. Hún þurfi að taka verkjalyf þrisvar sinnum á dag eingöngu til þess að komast í gegnum daginn. Allar hreyfingar sem hún geri séu sársaukafullar, hún geti hvorki stundað leikfimi né unnið heimilisverk vegna sársauka og orkuleysis. Reyni hún að hreyfa sig geispi hún allan tímann og gefist strax upp vegna verkja og orkuleysis. Eftir það þurfi hún að leggja sig uppi í rúmi. Kærandi fari ekki í sturtu nema með margra daga millibili því að það taki alla orku frá henni. Kærandi vinni aðeins í fjóra tíma og sex tíma aðra hvora helgi og taki aukavakt þegar það vanti en aldrei meira en sex tíma þar sem það sé alltof mikið fyrir hana. Sex tímar séu eiginlega of mikið en hún þurfi að fá einhvern pening. Kærandi sé að verða X ára en búi enn heima hjá foreldrum sínum. Kærandi sé að fá rétt yfir 100.000 kr. á mánuði í laun sem dugi ekki fyrir leigu. Kærandi sé orðin það slæm í líkamanum að hún treysti sér ekki til að fara í endurhæfingu. Fengi hún örorku myndi hún ekki hafa jafn mikinn kvíða vegna peninga og þá gæti hún búið til sína eigin stundatöflu sem hún gæti unnið í sjálf og á sínum eigin hraða.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun um synjun umsóknar kæranda um örorkulífeyri. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 14. október 2020, frá 15. október 2018. Með bréfi, dags. 17. nóvember 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað. Kæranda hafi hins vegar verið bent á reglur um endurhæfingarlífeyri og hún hvött til að hafa samband við heimilislækni sinn til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu.

Til grundvallar ákvörðun Tryggingastofnunar hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 6. nóvember 2020, læknabréf, dags. 7. október 2020, starfsgetumat, dags. 15. janúar 2019, umsókn, dags. 14. október 2020, og spurningalisti, dags. 2. september 2020. Rökstuðningur hafi verið veittur með bréfi, dags. 24. nóvember 2020. 

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi þegið endurhæfingarlífeyri í 27 mánuði og hafi lokið síðasta tímabilinu þann 28. febrúar 2019.

Í málinu liggi einnig fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 16. apríl 2019, sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 11. júní 2019, með þeim rökum að endurhæfing væri ekki fullreynd. Þá hafi umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 31. ágúst 2020, ekki verið afgreidd af hálfu Tryggingastofnunar vegna skorts á gögnum, sbr. bréf, dags. 2. september 2020.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 6. nóvember 2020, greinargerð B, dags. 15. janúar 2019, svörum kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 2. september 2020, og göngudeildarnótu Landsspítala, dags. 7. október 2020.

Í rökstuðningi Tryggingastofnunar, dags. 24. nóvember 2020, hafi verið vísað til 18. gr. laga um almannatryggingar sem kveði á um heimild stofnunarinnar til að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Í gögnum máls komi fram upplýsingar um depurð og verki, auk svefnvanda. Þá hafi verið getið um „nám í C á sínum takti“ en gert hafi verið ráð fyrir fullu námi við útskrift úr B í janúar 2019. Samkvæmt læknisvottorði hafi mátt búast við að færni ykist eftir endurhæfingu og með tímanum. Að mati Tryggingastofnunar virðist endurhæfing ekki fullreynd og því sé ekki tímabært að meta örorku. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað.

Tryggingastofnun undirstriki að ekki sé útséð um að finna megi, með aðstoð fagaðila, viðeigandi úrræði að teknu tilliti heilsufars og ungs aldurs kæranda sem stuðlað geti að aukinni starfshæfni hennar. Á grundvelli 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi kærandi þegið endurhæfingarlífeyri í samtals 27 mánuði og hafi lokið síðasta tímabilinu þann 28. febrúar 2019. Hún eigi því að minnsta kosti níu mánuði eftir af þeim rétti. Fram komi í gögnum með umsókn að kærandi ráðgeri að leita sér aðstoðar í formi sálfræðihjálpar og sjúkraþjálfunar.

Það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna og aðra fagaðila hverju sinni að koma þeim einstaklingum, sem ekki séu settir í örorkumat samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar, í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og vísa þess í stað á viðeigandi úrræði innan ramma reglna um endurhæfingarlífeyri hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. nóvember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð D, dags. 6. nóvember 2020. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Fibromyalgia

Kvíði

Hypersomnia, nonorganic“

Um fyrra heilsufar kæranda segir í vottorðinu:

„Sótt um Ö mat / styrk að ósk sjúklings

˂Saga um allergy gróður og dýr

UVI neðri. Hypothyr“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„Visa i fyrri vottorð.

Depurð og óyndi í langan tíma.

Vex allt í augum Hefur þyngst allmikið siðan síðast sem er slæmt og hamlandi furir andlega og líkamlega líðan.

Kvíði þo enn verulegur. Verkir alls staðar. Sefur illa.Alltaf þreytt oftast illa upplögð. Gd geðdeildar, heimsókn áður

Væg vanstarfsemi skjaldkirtils ekki alvarlegt er í meðferð

Ræði við X hennar haust X:

"Er X mín depressif??

Er buin að klára X en gerir ekkert !!

Var í ferð á X um árið, óx allt í augum þurfti að leggja sig snemma

hávaði í fólki , vantar allan kraft. Gerði ekkert " X hennar með í för

og fannst þetta óskiljanlegt hjá ekki eldri konu Hefur reynt diverse SSRI

lyf og SSRI og SRNI lyf varð flöt og líflaus vildi deyja, endurteknar dauðaóskir ....

Reynt duloxetin svarar ekki aukaverkanir reyni Fluanxol mite en venjul sk 1 að morgni og aftur kl 16 ómögulegt sefur .....

Aðspurð hvenær allt þetta hafi byrjað:

" þegar ég var X ára , þá skildu foreldrar mínir" og A grætur…“

Í lýsingu læknisskoðunar kemur fram:

„Kemur vel fyrir Hitti hana nýverið

Getur ekki unnið, ekki á launum

Virk er útskrifuð en er í námi / C á sinum takti

Er ekki eins döpur og fyrr en stutt í kvíðahugsanir lágt sjálfsmat

Býr hjá X

Aum í flestum festum Sefur oft meira og minna allan sólarhringinn

Sefur 12 klsr ef enginn vekur hana

Er í skóla frá 8-16 alla daga nema einn búin eftir það

Starfsendurh verið reynd fullreynd að minu mati

? hvort nám verður til framfærslu

Hafnað hjá VIRK

[…]“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu eða með tímanum. Í athugasemdum segir:

„Mikið ferli hjá VIRK verið í gangi óv fær

? hvort nám framfleyti síðar??

Sótt um örorku í 2 ár.“

Meðal gagna málsins liggur fyrir göngudeildarnóta E læknis, dags. 7. október 2020, til D læknis. Í nótunni kemur fram greiningin athugun vegna gruns um taugakerfisröskun og þar segir:

„Glímir við erfiða vefjagigt. Jafnvel sum einkenni passa betur við síþreytu þar sem hún verður svo geysilega þreytt ef hún hreyfir sig en kemur aðallega til þess að ræða mikla þreytu skömmu eftir X fór hún að finna fyrir mikilli þreytu, getur sofið lengi allt að 15 klukkustundir í einu án þess að vera endurnærð. Tekur mikið á að vakna, þarf að nota endurteknar vekjaraklukkur og er lengi svefndrukkin fyrst þegar hún vaknar, tekur langan tíma að komast inní veruleikan. Liggur víst alveg kjurr þegar hún sefur, hreyfir sig lítið. Dreymir lítið. Þegar hún leggur sig á daginn sefur hún í marga klukkutíma, á erfitt með að taka power nap. Ekki með cataplexiu, svefnlömun eða ofskynjanir við það að sofna. Finnur fyrir ójafnvægi við göngu. Taugaskoðun kemur vel út nema hún þarf að einbeita sér við Tandem gang. Annað er eðlilegt nema hún er geysilega aum yfir öllum vefjagigtarpunktum.

Álit:

Slæm vefjagigt, jafnvel síþreyta og svo er grunur frekar um það sem við köllum idiopathic hypersomnia. Ekki klassísk narcolepsi.

Plan:

Segi við hana að ræða aftur við þig varðandi örorku sem líklegast arf vegna ofannefndra kvilla. Maður gæti prófað Pregabalin í staðin fyrir Gabapentin annars virkar Gabapentin ágætlega á hana. LDN er annar kostur. Sendi ég beiðni á Svefnrannsókn á Landspítalanum og hringir hún í mig þegar hún er búin að fara í þær rannsóknir.“

Einnig liggur fyrir læknisvottorð D, dags. 10. janúar 2018, sem er að mestu samhljóða vottorði hans frá 6. nóvember 2020 og læknisvottorð F. , dags. 26. janúar 2018.

Í ódagsettu bréfi frá VIRK kemur fram að þjónustu VIRK hafi verið hafnað og að ástæða þess sé:

„Þjónusta VIRK er ekki talin líkleg til árangurs á þessum tímapunkti . Þverfaglegt inntökuteymi Virk vísar beiðni frá. A á að baki tvö tímabil í starfsendurhæfingu og hefur auk þess lokið endurhæfingu á Reykjalundi. Síðasta tímabil í starfsendurhæfingu á vegum Virk lauk með góðum árangri í febrúar 2019.

Einstaklingur hefur því áður lokið umtalsverðri endurhæfingu og/eða starfsendurhæfingu og samkvæmt beiðni læknis ekki orðið slík breyting á heilsufari eða aðstæðum að talið sé líklegt að endurtekin starfsendurhæfing beri frekari árangur.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 28. febrúar 2017, segir í samantekt:

„Það er mat skoðunarlæknis að starfsendurhæfing sé ekki fullreynd. […] Starfsgeta […] er lág eins og stendur en um er að ræða X konu sem hefur mikla möguleika og eðlilegt að fylgja henni eftir eins lengi og hægt er m.t.t. endurkomu á vinnumarkað.“

Í greinargerð við lok starfsendurhæfingar B, dags. 15. janúar 2019, segir um andlega og félagslega líðan og stöðu í byrjun endurhæfingar:

„A hafði verið í endurhæfingu á Reykjalundi á geðheilsusviði skömmu áður en hún hóf endurhæfingu á B eða í X og X 2018. Þar náði hún ágætis árangri samkvæmt skýrslu þaðan, náði m.a. að vinna að bættri rútínu. […] A var að glíma við þunglyndi og lágt sjálfsmat í byrjun endurhæfingar.“

Um andlega líðan og stöðu í lok endurhæfingar segir:

„A náði að stunda fullt nám í C á X 2018. Hún mætti samkvæmt stundaskrá 5 daga vikunnar frá 8-16 nema mánudaga þá mætti hún kl. 11. Hún hafði takmarkaða orku til að gera nokkuð annað en að sinna skólanum sem henni gekk ágætlega að mæta í og sinna. Hún var stolt af því að hafa haldið önnina út en var útkeyrð þegar henni lauk. Andleg líðan er svipuð við lok endurhæfingar og hún var í byrjun […]. A var bent á að hún gæti komist til sálfræðings á heilsugæslunni eftir útskrift.“

Um líkamlega heilsu í byrjun endurhæfingar segir:

„A er með vefjagigt og oft verkjuð og orkulaus. Hún upplifir ekki betri líðan við hreyfingu nema þá helst sundleikfimi.“

Um líkamlega stöðu í lok endurhæfingar segir meðal annars:

„Líkamleg líðan A við lok endurhæfingar er eins og hún var í byrjun.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja og þreytu. Einnig er greint frá erfiðleikum með sjón, tal og heyrn. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hún hafi verið þunglynd frá X ára aldri og hafi kvíðinn fylgt því.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af líkamlegum og andlegum toga og hefur verið í töluverðri endurhæfingu. Í læknisvottorði D, dags. 6. nóvember 2020, kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu eða með tímanum. Einnig segir að starfsendurhæfing sé fullreynd að hans mati. Í nýlegu svari VIRK varðandi beiðni um þjónustu kemur fram að síðasta tímabili í starfsendurhæfingu á vegum VIRK hafi lokið með góðum árangri í febrúar 2019 en ekki hafi orðið slík breyting á heilsufari eða aðstæðum hennar að líklegt sé að endurtekin starfsendurhæfing beri frekari árangur. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé fullreynd en ekki verður dregin sú ályktum af starfsgetumatinu að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður hvorki ráðið af læknisvottorði D né eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 27 mánuði en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á frekar endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. nóvember 2020 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta