Hoppa yfir valmynd

Nr. 415/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. ágúst 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 415/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050045

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 21. maí 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. maí 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á Íslandi með vísan til 1.-3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, með síðari breytingum.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 16. nóvember 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 19. nóvember 2018, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 8. janúar 2019 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 10. janúar 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 20. maí 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 21. maí 2019 og kærði kærandi ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 12. júní 2019. Þá bárust frekari gögn þann 8. júlí og 27. ágúst 2019.

Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að sænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Svíþjóðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir í greinargerð sinni ýmsar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. hvað varðar mat Útlendingastofnunar á aldri hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi lagt fram persónuskilríki þar sem fram komi að hann sé fæddur [...] og hafi hann því verið barn að aldri við komuna til landsins. Í hinni kærðu ákvörðun hafi stofnunin hins vegar lagt til grundvallar og talið hafið yfir allan vafa að kærandi sé fæddur [...]. Með vísan til framlagningar áðurnefnds afrits af persónuskilríki sínu mótmæli kærandi þessari staðhæfingu Útlendingastofnunar, auk þess sem kærandi mótmæli því að stofnunin hafni að leggja afritið til grundvallar í málinu. Telji kærandi að stofnuninni hafi borið skylda til að hafa hliðsjón af skjalinu sem hluta af heildstæðu mati á aldri kæranda. Kærandi vísi þá jafnframt til þess að tekið sé fram í hinni kærðu ákvörðun að ekki hafi verið framkvæmd aldursgreining á kæranda sökum þess að samningur við Háskóla Íslands þar um hafi ekki verið tilbúinn. Kærandi bendir á að það verði að túlka það honum í hag að stofnunin hafi ekki séð sér fært að láta framkvæma líkamsrannsókn til aldursgreiningar af þessum sökum.

Krafa kæranda er reist á því að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga standi til þess að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi telji jafnframt að stjórnvöldum beri skylda til að taka tillit til 6. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar við mat á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi, enda auki ungur aldur kæranda á viðkvæma stöðu hans, sbr. t.d. úrskurð kærunefndar útlendingamála nr. 126/2019 frá 9. apríl 2019 sem kærandi telji sambærilegt máli hans. Krafa kæranda er einnig reist á 3. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sem kveði á um bann við sendingu einstaklings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði áframsendur til slíks svæðis þar sem líf hans eða frelsi kunni að vera í hættu.

Kærandi gerir að lokum alvarlegar athugasemdir við langan málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar, sér í lagi í ljósi þess að kærandi hafi verið fylgdarlaust barn við komuna til landsins og hafi haft brýna hagsmuni af því að mál hans hlyti hraða afgreiðslu hjá stofnuninni. Kærandi vísar í því sambandi m.a. til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 494/2016 frá 13. desember 2016. Kærandi leggi ábyrgð á töfum á málsmeðferð alfarið í hendur Útlendingastofnunar, t.a.m. að ekki hafi verið farið fram á aldursgreiningu kæranda. Telji kærandi að Útlendingastofnun hafi með þessu brotið gegn málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í málinu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og að framan greinir varðar hin kærða ákvörðun synjun Útlendingastofnunar á því að veita umsókn kæranda um alþjóðlega vernd efnismeðferð, sbr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í III. kafla laganna er fjallað um málsmeðferðarreglur í málum um alþjóðlega vernd. Í 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga segir m.a. að ef grunur vaknar um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur er, aldursgreining skv. 113. gr. laganna. Í 3. málsl. ákvæðisins kemur fram að ávallt skuli litið svo á við meðferð máls að umsækjandi um alþjóðlega vernd sem segist vera undir lögaldri sé barn þar til annað komi í ljós með aldursgreiningu eða á annan hátt. Heimilt er þó að víkja frá því ef augljóst sé að viðkomandi sé lögráða. Í 1. mgr. 113. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ef grunur leiki á að umsækjandi um alþjóðlega vernd eða umsækjandi um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar villi á sér heimildir við meðferð máls eða segi rangt til um aldur við meðferð máls geti viðkomandi stjórnvald lagt fyrir útlending að hann gangist undir líkamsrannsókn til þess að ákvarða aldur hans. Niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi metinn umsækjanda í hag. Í 1. mgr. 40. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingu, sbr. 3. mgr. 113. gr. laga um útlendinga, kemur jafnframt fram að við ákvörðun á aldri skuli fara fram heildstætt mat á aðstæðum einstaklings og frásagnar af ævi hans en auk þess megi beita líkamsrannsókn til greiningar á aldri. Leiki grunur á að umsækjandi segi rangt til um aldur skuli framkvæma líkamsrannsókn til greiningar.

Samkvæmt framansögðu hefur löggjafinn ákveðið að stjórnvöld á sviði útlendingamála skuli beita tilteknum rannsóknaraðferðum þegar upplýsa þarf um aldur umsækjanda um alþjóðlega vernd. Þá hefur löggjafinn jafnframt ákveðið að mat á aldri skuli vera heildstætt og vera byggt, eftir atvikum, á fleiri gögnum en líkamsrannsókn. Þá hefur löggjafinn enn fremur ákveðið að aldursgreining, skv. 113. gr. laga um útlendinga, skuli fara fram eins fljótt og kostur er.

Þegar kærandi lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi, hjá lögreglunni á Suðurnesjum, var hann skráður með fæðingardaginn [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 19. nóvember 2018, kvaðst kærandi ekki vita af hverju hann hafi verið skráður með þann fæðingardag en vísaði til þess að þannig væri hann skráður á samfélagsmiðlum, og kvaðst kærandi þá vera fæddur [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 15. apríl 2019, lagði kærandi fram skjal sem hann hafi sagt vera afrit af persónuskilríki hans frá heimaríki. Samkvæmt því sé skráður afmælisdagur kæranda [...]. Íslensk stjórnvöld sendu upplýsingabeiðni til sænskra stjórnvalda, dags. 22. nóvember 2018, og óskuðu upplýsinga um hvernig þau hefðu metið aldur kæranda er hann sótti um alþjóðlega vernd þar í landi. Í svari frá sænskum stjórnvöldum, dags. 20. desember 2018, kom fram að þegar kærandi hafi lagt fram umsókn þar í landi hafi hann kveðið sig vera fæddan [...]. Hann hafi þó ekki lagt fram nein skilríki í tengslum við umsókn sína en sænska útlendingastofnunin hafi ekki talið ástæðu til að draga fæðingardag hans í efa. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ekki sent beiðni um líkamsrannsókn á tönnum til Háskóla Íslands þar sem samningar þess efnis hafi ekki verið tilbúnir milli Háskóla Íslands og stofnunarinnar. Þegar samningur milli þeirra hafi verið tilbúinn hafi kærandi verið orðinn fullorðinn samkvæmt síðasta fæðingardegi sem hann hafi gefið upp og því hafi ekki verið talin ástæða til þess að senda kæranda í aldursgreiningu, enda hafi verið langt liðið síðan kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd.

Líkt og að framan greinir kemur fram í 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga að vakni grunur um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða og ekki sé hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð, eins fljótt og kostur sé, aldursgreining skv. 113. gr. laganna. Af framangreindu er ljóst að kærandi sagðist vera fylgdarlaust barn við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og að gögn málsins eru ekki samhljóða um aldur kæranda. Það er mat kærunefndar að við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun ekki hafi verið hægt að staðfesta á óyggjandi hátt hvort kærandi væri lögráða af þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu um aldur kæranda. Hafi því, skv. framangreindu ákvæði, átt að gera aldursgreiningu, skv. 113. gr. laganna.

Í 1. mgr. 113. gr. laganna segir svo að niðurstaða úr slíkri líkamsrannsókn skuli metin í samhengi við önnur atriði málsins og vafi skuli metinn umsækjanda í hag. Af orðalagi Útlendingastofnunar í hinni kærðu ákvörðun verður ekki annað ráðið en að ástæða þess að ekki hafi verið framkvæmd aldursgreining á kæranda hafi verið sú að ekki hafi verið til staðar samningur milli Útlendingastofnunar og Háskóla Íslands um framkvæmd slíkra rannsókna. Þótt samningur milli Útlendingastofnunar og Háskóla Íslands um framkvæmd slíkra rannsókna hafi ekki verið til staðar, getur slíkt með engu móti vikið skýru orðalagi 3. mgr. 26. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun var því skylt að láta kæranda undirgangast aldursgreiningu í samræmi við framangreint ákvæði, og að leggja niðurstöðu úr þeirri rannsókn, ásamt öðrum atriðum málsins, til grundvallar við mat á aldri kæranda. Það er því niðurstaða kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki verið í samræmi við lög.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Kærunefnd telur að framangreindur annmarki á ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda séu þess eðlis að ekki verði bætt úr þeim á æðra stjórnsýslustigi. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi.

Enn fremur er það mat kærunefndar að endurtekin málsmeðferð, þar sem að nýju yrði lagt mat á það hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um efnismeðferð á grundvelli 36. gr. laga um útlendinga, kæmi til með að vera mjög íþyngjandi fyrir kæranda. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 16. nóvember 2018 og hefur því, þegar úrskurður þessi er kveðinn upp, dvalist hér í rúma níu mánuði. Það er því niðurstaða kærunefndar að það samrýmist ekki hagsmunum kæranda, m.a. í ljósi ungs aldurs, að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Það er mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð á kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá beri, eins og hér háttar sérstaklega til, að meðferð íslenskra stjórnvalda á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd sé þess eðlis að rétt sé að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi vegna sérstakar ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu telur kærunefnd ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um athugasemdir kæranda varðandi ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellants application for international protection in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Anna Tryggvadóttir                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta