Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 248/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 248/2023

Fimmtudaginn 7. september 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. maí 2023, um að staðfesta ákvörðun frá 2. mars 2023 þar sem ofgreiddar atvinnuleysisbætur voru innheimtar með 15% álagi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árunum 2020 til 2022. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. janúar 2023, var óskað eftir gögnum frá kæranda vegna fjármagnstekna á árinu 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 2. mars 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu janúar til ágúst 2021 vegna fjármagnstekna, að fjárhæð 141.760 kr., að viðbættu 15% álagi. Heildarskuld við Vinnumálastofnun næmi því 163.024 kr. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. maí 2023, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun frá 2. mars 2023 þar sem sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn. Kæranda bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2023. Með bréfi, dags. 24. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð með erindi úrskurðarnefndar, dags. 15. júní 2023. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst sama dag þar sem fram kom að ranglega hefði verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og því hefði hin kærða ákvörðun um innheimtu 15% álags á skuld verið afturkölluð. Þá kom fram að þegar greitt álag til Vinnumálastofnunar yrði endurgreitt. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. júní 2023, var óskað eftir afstöðu kæranda til greinargerðar Vinnumálastofnunar. Athugasemdir og frekari gögn bárust frá kæranda 17. júní 2023 sem var kynnt Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júní 2023. Athugasemdir bárust frá Vinnumálastofnun 29. júní 2023 og voru þær kynntar kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2023. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda samdægurs og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. júlí 2023. Þá bárust úrskurðarnefndinni frekari erindi og gögn frá kæranda 27., 29. og 30. júlí 2023 sem kynnt var Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. ágúst 2023. Einnig barst úrskurðarnefndinni erindi frá kæranda 15. ágúst 2023. Með erindi úrskurðarnefndar 16. ágúst 2023 var óskað eftir frekari gögnum frá Vinnumálastofnun vegna kærunnar. Umbeðin gögn bárust 21. ágúst 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um að láta hann greiða álag á skuld vegna fjármagnstekna gjaldárið 2021. Kærandi hafi látið Vinnumálastofnun vita af áætluðum fjármagnstekjum á því ári en þar sem árið hafi ekki verið liðið hafi ekki verið ljóst hverjar þær yrðu. Vinnumálastofnun hafi því vitað að kærandi ætti þetta fjármagn en bíði eftir því þar til fyrst nú á árinu 2023 að spyrja hann nákvæmlega út í þessar tekjur. Allar þessar tekjur séu á skattframtali og því sé ekki um nein bótasvik að ræða. Vinnumálastofnun hafi upplýsingaskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum og það hefði verið hægur leikur fyrir stofnunina að spyrja kæranda að þessu, þ.e. áður en álagið hafi verið lagt á, enda hafi þetta allt legið fyrir samkvæmt skattskýrslu sem hann hafi fyllt út árið 2022. Að mati kæranda sé verið að rukka óbeinan skatt. Málið hefði verið allt öðruvísi ef kærandi hefði ekki sett fjármagnstekjur á skattframtal en svo hafi ekki verið.

Í svari kæranda við greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að hann vilji fá viðbrögð stofnunarinnar við eftirfarandi atriðum ef málið eigi ekki að fá efnislega meðferð og áður en hann taki afstöðu til málaloka. Í fyrsta lagi að tveimur tölvupóstum sem hann hafi ítrekað sent til Vinnumálastofnunar verði svarað sem fyrst. Í öðru lagi að kærandi fái 15 þúsund krónur aukalega við álagið vegna ómaksins sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins. Í þriðja lagi að Vinnumálastofnun velti því fyrir sér hvort eðlilegt sé að rukka kæranda um skuld frá tekjuárinu 2020 fyrst nú árið 2023 þegar hann hafi fyrir löngu sent gögn sem hafi skýrt tekjur árið 2020 til stofnunarinnar. Kærandi spyrji hvort málið sé ekki orðið fyrnt þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki brugðist við í tíma. Kærandi vilji fá vísun í lög, meðal annars sem fjalli um fyrningartíma svona skulda.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnunin hafi í kjölfar stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar velferðarmála farið yfir gögn í máli kæranda að nýju og telji að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun í máli hans. Hin kærða ákvörðun, er varði innheimtu 15% álags á skuld á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, hafi því verið afturkölluð. Af þeim sökum telji Vinnumálastofnun ekki tilefni til að taka málið til efnislegrar umfjöllunar. Kærandi muni koma til með að fá sent erindi frá Vinnumálastofnun þar sem honum verði tilkynnt um að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið afturkölluð og þegar greitt álag til Vinnumálastofnunar verði endurgreitt.

Í svari Vinnumálastofnunar við athugasemdum kæranda kemur fram að stofnunin biðji kæranda velvirðingar á því að erindum hans hafi ekki verið svarað. Svo stofnunin geti orðið við kröfu kæranda um svar við tveimur tölvupóstum hafi verið farið þess á leit við kæranda að hann veiti nákvæmar upplýsingar um þau erindi sem hann óski svara við, þar sem ekki megi ráða af fyrirliggjandi gögnum um hvaða tölvupósta ræði.

Kærandi fari jafnframt fram á það að Vinnumálastofnun greiði honum 15.000 kr. vegna ómaksins sem hann hafi orðið fyrir vegna málsins. Vinnumálastofnun hafi ekki heimild lögum samkvæmt til þess að verða við framangreindri kröfu kæranda.

Kærandi hafi óskað þess að Vinnumálastofnun velti því fyrir sér hvort eðlilegt sé að innheimta ofgreiddar bætur vegna tekjuársins 2020, fyrst nú árið 2023. Einkum í ljósi þess að hann hafi sent stofnuninni gögn sem hafi skýrt tekjur árið 2020 til stofnunarinnar. Að mati Vinnumálastofnunar sé óljóst til hvers kærandi sé að vísa, enda varði hin kærða ákvörðun álag á skuld sem hafi verið innheimt vegna tekjuársins 2021. Kæranda hafi þó jafnframt verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tekjuársins 2020 með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. mars 2022. Sú ákvörðun hafi ekki komið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála og skuld kæranda vegna tekjuársins 2020 hafi verið greidd að fullu af hálfu kæranda í lok nóvember 2022.

Skylda atvinnuleitanda, sem hafi fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann hafi átt rétt á, til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sé fortakslaus. Í ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og sömuleiðis athugasemda með ákvæðinu í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að skylda kæranda til að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur og sömuleiðis skylda Vinnumálastofnunar lögum samkvæmt til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur sé fortakslaus. Eins og fram komi í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. júní 2023, til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi álag á skuld kæranda verið fellt niður. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hefði fært rök fyrir því að honum yrði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar við Vinnumálastofnun, sbr. lokamálslið 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú niðurstaða breyti hins vegar ekki þeirri fortakslausu skyldu kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Þá spyrji kærandi hvort mál hans sé ekki orðið fyrnt þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki brugðist við í tíma. Kærandi óski eftir því að Vinnumálastofnun upplýsi hann um fyrningartíma skuldar hans við stofnunina með vísun til laga. Um fyrningu skulda, þar á meðal skulda sem tilkomnar séu vegna innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, gildi lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt ákvæði 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda sé almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Því sé ljóst að krafa Vinnumálastofnunar á hendur kæranda sé ekki fyrnd.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. maí 2023, um að staðfesta ákvörðun frá 2. mars 2023 þar sem ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið janúar til ágúst 2021 voru innheimtar með 15% álagi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar var vísað til þess að hin kærða ákvörðun um innheimtu 15% álags á skuld hefði verið afturkölluð. Einnig kom fram að þegar greitt álag til Vinnumálastofnunar yrði endurgreitt. Samkvæmt gögnum sem bárust frá Vinnumálastofnun 21. ágúst 2023 var 15% álag, að fjárhæð 21.264 kr., bakfært 9. ágúst 2023.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kveður úrskurðarnefndin upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Þar sem Vinnumálastofnun hefur þegar bakfært það álag sem lagt var á skuld kæranda verður ekki séð að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og stofnunarinnar vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta