Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 124/2022- Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 124/2022

Miðvikudaginn 22. júní 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 28. júní 2021 og var umsóknin samþykkt með 68% bótarétti. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá kom í ljós að kærandi var skráð í 15 eininga nám við Tækniskólann á haustönn 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2021, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Skýringar bárust frá kæranda samdægurs. Frekari skýringar og gögn bárust frá kæranda þann 29. nóvember 2021. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 12. janúar 2022, var óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda. Skýringar bárust frá kæranda þann 19. janúar 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021 að fjárhæð 850.025 kr., að meðtöldu álagi. Kærandi óskaði eftir endurskoðun ákvörðunar stofnunarinnar sama dag. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. febúar 2022. Með bréfi, dags. 1. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 13. apríl 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 6. maí 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa sótt um atvinnuleysisbætur þann 28. júní 2021 og veitt þær upplýsingar að hún hafi ætlað að hætta í námi. Sama dag hafi hún rætt við ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun sem hafi hvatt hana til að sækja um bætur og ekki hætta í námi þar sem hún mætti vera í 12 eininga námi samhliða bótum. Kærandi hafi tjáð ráðgjafa stofnunarinnar að hún ætti 15 einingar eftir til að útskrifast og hann hafi hvatt hana til þess að sækja um undanþágu til að vera í 15 einingum sem hún hafi gert. Hún hafi sent inn yfirlit yfir námið þar sem hún hafi ekki getað nálgast almennileg gögn frá skólanum vegna lokunar. Stuttu síðar hafi kærandi fengið greiddar bætur og hafi í fávisku sinni talið að þetta hafi verið samþykkt. Hún hafi ekki tekið eftir bréfi Vinnumálastofnunar undir „rafrænum skjölum“ um að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt með þeim upplýsingum að kærandi hafi hætt í námi. Vinnumálastofnun hafi því ekki svarað beiðni kæranda um undanþágu vegna 15 eininga náms.

Kærandi hafi í kjölfarið farið í nám og haldið að þetta hafi verið samþykkt. Hún hafi reynt að sækja um störf samhliða námi en það hafi gengið illa vegna Covid-19, enda hafi verið lítið að gera alls staðar. Í nóvember 2021 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun þess efnis að hún væri skráð í nám samhliða greiðslu bóta og að slíkt væri ekki heimilt. Hún hafi þá haft samband við stofnunina til að leiðrétta misskilninginn og hafi verið beðin um að skila inn skólavottorði og skýringum. Kærandi hafi orðið við því. Hún hafi sagst ætla að hætta í náminu ef þetta yrði henni að óleik en hún hafi verið hvött til að skila umbeðnum gögnum og vona það besta. Henni hafi verið tjáð að þetta yrði örugglega í lagi. Enginn hafi sagt henni að hún hafi þá, nokkrum dögum fyrir útskrift, getað skilað inn námssamningi sem hún hefði annars gert. Í janúar 2022 hafi kærandi fengið bréf frá Vinnumálastofnun þess efnis að hún skuldaði stofnuninni rúmar 800.000 kr. vegna þessa. Hún hafi verið í áfalli og beðið stofnunina um að endurskoða málið þar sem þetta hafi augljóslega verið byggt á samskipta- og skipulagsvanda Vinnumálastofnunar og fávisku kæranda um hvernig þetta virki. Kærandi taki sem dæmi að engin ein manneskja hafi verið með mál hennar hjá Vinnumálastofnun. Hún hafi ekki fengið sömu upplýsingar frá starfsmönnum stofnunarinnar.

Ef kærandi hefði vitað hvaða ákvörðun yrði tekin löngu síðar hefði hún hætt í námi í nóvember eins og hún hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um. Hún hafi upphaflega ekki ætlað í námið en ráðgjafi stofnunarinnar hafi ráðlagt henni að gera það. Hún hafi beðið Vinnumálastofnun um að endurskoða málið og hafi fengið bréf 2. febrúar 2022 þess efnis að stofnunin standi við fyrri ómanneskjulegu ákvörðun sína. Eftir sitji hún, þriggja barna móðir, og skuldi rúmar 800.000 kr. sem hún geti ekki á nokkurn hátt greitt þar sem bankinn geti ekki hjálpað henni. Allt vegna smá misskilnings sem sé að mati kæranda bæði vegna hennar en líka stofnunarinnar.

Kærandi taki fram að henni hafi yfirsést upplýsingar þegar umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt í júlí 2021. Hún segi málið óvandað af hálfu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi aldrei sent stofnuninni skólavottorð á þeim tíma eins og tekið sé fram, hvorki hefðbundið né þess efnis að hún væri hætt í námi. Hún hafi sent þeim skjáskot með yfirliti yfir liðnar annir og komandi önn en það hafi verið í því samhengi að fá að halda áfram námi sínu. Hún hafi ekki getað sent stofnuninni vottorð þar sem skólinn hafi verið lokaður. Vinnumálastofnun hafi svarað bréfi kæranda sem hafi fylgt umsókninni en hún hafi aldrei fengið svar við bréfi sem hún hafi sent sama dag eftir ráðleggingu frá ráðgjafa stofnunarinnar. Í því bréfi hafi hún óskað eftir að stunda námið, ýmist 12 eða 15 einingar, samhliða bótum. Ekkert hafi staðið í bréfinu sem hafi fylgt skýringum kæranda um að hún hafi hætt námi. Rótin að vandamálinu sé hvernig málið hafi verið unnið í upphafi. Uppspunnið skólavottorð hafi ekki borist, bréfi kæranda hafi ekki verið svarað og hún hafi sjálf ekki tekið eftir skýringarklausu í bréfi Vinnumálastofnunar.

Kærandi taki ábyrgð á því að hafa ekki tekið eftir umræddri skýringarklausu sem hafi fylgt bréfi Vinnumálastofnunar. Hún hefði svo sannarlega hringt og kannað málið ef hún hefði verið svo heppin og fullkomin. Kæranda þyki þetta ansi dýr refsing og sérstaklega þar sem hún hafi verið í stöðugu sambandi við Vinnumálastofnun þegar henni hafi verið tilkynnt um stöðuna í nóvember og reynt að sjá til þess að hún gæti leiðrétt umræddan misskilning. Kærandi hafi í tvígang skilað öllu sem beðið hafi verið um, bæði skýringum og vottorði, og hafi jafnvel sagst ætla að ganga svo langt að hætta í náminu ef þetta yrði vesen. Kæranda hafi gengið mjög vel í náminu og hafi hlotið verðlaun við útskrift. Auk þess hafi kæranda verið tjáð að málið væri komið til ráðgjafa og því væntanlega ekkert eftir sem hún hefði getað gert. Kæranda hafi verið tjáð að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur og þetta færi örugglega vel. Kærandi trúi því varla að á Íslandi geti stofnun verið svo grimm að hún refsi svona svakalega fyrir formsatriði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 28. júní 2021. Kærandi hafi tilgreint í athugasemdum með umsókn að hún væri skráð í nám á næstu önn en hún hygðist ekki fara þar sem hún fengi ekki námslán frá LÍN og hefði af þeirri ástæðu ekki efni á að halda áfram námi. Kærandi hafi þess í stað ætlað að sækja um vinnu tengda náminu og klára námið seinna. Þann sama dag hafi kærandi greint frá því að eftir símtal við ráðgjafa Vinnumálastofnunar hafi hún fengið þær upplýsingar að hún gæti verið í 12 eininga námi samhliða atvinnuleysisbótum. Kæranda hafi verið leiðbeint um að skila inn skólavottorði en þar sem skólinn hafi verið lokaður hafi það ekki verið mögulegt. Meðfylgjandi hafi verið yfirlit yfir námsferil þar sem fram hafi komið að hún væri skráð í 15 eininga nám. Hún hafi þó viljað taka út áfanga til að enda með 12 einingar, nema hún fengi undanþágu til að vera í 15 eininga námi samhliða atvinnuleysisbótum. Þá hafi kærandi óskað eftir því að fá afturvirkar greiðslur frá 15. maí 2021 þar sem hún hefði sótt um fyrr en hún hefði vitað að LÍN myndi hafna umsókn hennar.

Með erindi, dags. 22. júlí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 68%. Beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur frá 15. maí 2021 hafi verið hafnað.

Þann 23. nóvember 2021 hafi kærandi verið upplýst um að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá hafi komið í ljós að hún hafi stundað nám umfram 12 einingar samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga, án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina. Kæranda hafi verið bent á að ef það væri ósk hennar að kanna hvort hún ætti rétt á að stunda nám án skerðingar á rétti til atvinnuleysistrygginga í tengslum við vinnumarkaðsátakið „Nám er tækifæri“ þyrfti hún að senda inn skólavottorð þar sem umfang náms á haustönn 2021 væri tilgreint. Nám kæranda hafi ekki fallið undir framangreint vinnumarkaðsátak og kæranda hafi því verið bent á að kanna hvort heimilt væri að stunda nám samhliða bótum allt að 20 einingum en slíkir námssamningar leiði til skertra atvinnuleysisbóta á sama tímabili.

Kærandi hafi svarað erindi stofnunarinnar með tölvupósti sama dag. Þar hafi kærandi greint frá því að hún hafi sent upplýsingar um nám sitt ásamt fylgiskjölum. Hana hafi minnt að hún hefði sent fylgiskjöl í gegnum tilkynningabox á „Mínum síðum“. Umsóknin hafi í kjölfarið verið samþykkt. Kærandi væri að útskrifast eftir nokkra daga og hún myndi halda áfram að leita að vinnu í faginu.

Vinnumálastofnun hafi svarað erindi kæranda þann 24. nóvember 2021. Þar hafi kæranda verið sendar ítarlegar upplýsingar um hvenær heimilt væri að stunda nám samhliða atvinnuleysisbótum. Þá hafi verið óskað eftir að kærandi sendi upplýsingar fyrir föstudaginn 26. nóvember 2021 og tekið fram að ef staðfesting bærist ekki yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Þann 26. nóvember 2021 hafi kærandi greint stofnuninni frá því að tengdafaðir hennar hefði látist um morguninn en hún myndi reyna að skila umbeðnum gögnum innan frests. Skólavottorð vegna 15 eininga á haustönn 2021 hafi borist þann 29. nóvember 2021. Kærandi hafi sagst vona að hún myndi ekki líða fyrir þetta þar sem hún hafi tilgreint upplýsingar um nám við upphaf umsóknar. Hún hafi þegar tilgreint að ef þetta gengi ekki upp myndi hún skrá sig úr einhverjum fögum og útskrifast á næstu önn.

Með erindi, dags. 12. janúar 2022, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda vegna náms hennar. Í erindi til kæranda hafi athygli verið vakin á því að samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu námsmenn ekki tryggðir á grundvelli laganna á sama tímabili og þeir stundi nám, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsúrræða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Þar sem enginn námssamningur lægi fyrir á milli kæranda og Vinnumálastofnunar hafi verið óskað eftir því að kærandi legði fram skólavottorð þar sem umfang náms væri tilgreint.

Með erindi, dags. 25. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem ekki lægi fyrir námssamningur við stofnunina. Kæranda hafi verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Beiðni um endurupptöku máls hafi borist samdægurs. Í erindi kæranda hafi komið fram að hún hefði strax við upphaf umsóknar talað við ráðgjafa Vinnumálastofnunar um atriði tengd námi hennar. Hún hafi verið upplýst um að hún þyrfti ekki að hætta í námi og að hún mætti vera í 12 eininga námi meðfram atvinnuleysisbótum. Þá hafi kærandi upplýst um að hún ætti 15 einingar eftir til að útskrifast. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi þá bent henni á að senda bréf og athuga hvort hún fengi undanþágu. Kærandi hafi gert það. Skólinn hafi verið lokaður á þessum tíma og því hafi hún ekki getað skilað gögnum frá skólanum þegar óskað hafi verið eftir þeim. Hún hafi ekki verið beðin skriflega um nein gögn frá skólanum eftir þetta. Þá hafi kærandi ekki verið beðin um að skila inn námssamningi. Umsókn hennar hafi í framhaldinu verið samþykkt og hún hafi því haldið að beiðni um undanþágu hefði verið samþykkt. Þann 23. nóvember hafi kærandi fengið upplýsingar um að hún þyrfti að skila staðfestingu frá skóla ef hún væri hætt námi eða skila skýringum ef hún væri að stunda nám. Framsetning á erindum frá Vinnumálastofnun hafi verið óskýr og hún hafi talið sig hafa gert allt sem hún gæti og ætti að bíða svara. Staða hennar væri erfið og hafi kærandi því óskað eftir að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Hún hafi þegar upplýst um að hún myndi skrá sig úr skólanum og taka námið seinna ef það gengi ekki upp að stunda nám samhliða bótum.

Þann 2. febrúar 2022 hafi Vinnumálastofnun fjallað um málið að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun frá 24. janúar 2022, enda hefði sú ákvörðun haft að geyma efnislega rétta niðurstöðu.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda þar sem hún hafi stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina.

Í c. lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

,,Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

1. mgr. 52. gr. kveði á um þá meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi. Ákvæðið hljóði svo:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Mælt sé fyrir um undanþágur frá meginreglunni í 2. til 5. mgr. 52. gr. Þær séu eftirfarandi:

„Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr. án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Fyrir liggi að kærandi hafi stundað 15 ECTS-eininga nám við Tækniskólann á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Undanþága frá framangreindri meginreglu sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 52. gr. laganna eigi ekki við í máli kæranda, enda hafi hún stundað nám umfram 12 ECTS-eininga hámarkið sem tilgreint sé í undanþáguákvæðinu.

Undanþága 3. mgr. 52. gr. sé bundin við þau tilfelli þegar námshlutfall sé það lágt að námið teljist ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Þá sé það einnig skilyrði að námið kunni að nýtast beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Ef slík undanþága sé veitt séu atvinnuleysisbætur skertar í samræmi við umfang námsins. Vinnumálastofnun hafi ekki borist staðfesting á því að það námshlutfall kæranda á haustönn 2021 væri svo lágt að nám hennar væri ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna og ekki liggi fyrir hvort kærandi hafi sótt um námslán vegna haustannar 2021.

Þá sé nám kæranda ekki skipulagt samhliða vinnu, sbr. 4. mgr. 52. gr. laganna, og eigi sú undanþága því ekki við. Heimild 5. mgr. ákvæðisins um að atvinnuleitanda sé heimilt að ljúka þeirri önn sem sé yfirstandandi við starfslok hans eigi heldur ekki við, enda hafi kærandi síðast starfað í janúar 2020 og sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta í júní 2021.

Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að meginregla 1. mgr. 52. gr. um að atvinnuleitendur teljist ekki tryggðir samkvæmt lögunum á sama tíma og þeir stundi nám eigi við í máli kæranda. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september 2021 til 31. desember 2021. Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Með vísan til framangreinds beri kæranda að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. september til 31. desember, samtals 793.152 kr.

Heildarskuld kæranda nemi 850.024 kr., þar af sé álag að fjárhæð 110.872 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið ef hinn tryggði færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til skuldamyndunar. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar komi fram að kærandi telji að leiðbeiningar stofnunarinnar hafi verið ófullnægjandi. Við yfirferð gagna í málinu geti Vinnumálastofnun fallist á að skilningur kæranda hafi verið á þá leið að þau gögn sem hún hafi þegar skilað inn væru fullnægjandi. Telji stofnunin því rétt að fella niður álag að fjárhæð 110.872 kr.

Með vísan til framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga á sama tíma og hún hafi stundað nám og að henni beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar á þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í lok júní 2021 var hún skráð í nám á haustönn 2021 en tók fram að hún hygðist hætta í námi. Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar að heimilt væri að stunda 12 eininga nám samhliða atvinnuleysisbótum og verið bent á að óska eftir undanþágu fyrir 15 eininga námi þar sem hún ætti þær einingar eftir til að útskrifast. Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur frá kæranda með þeirri beiðni, dags. 28. júní 2021. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi ekki fengið svar við þeirri beiðni og fær það stoð í gögnum málsins. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var síðan samþykkt 22. júlí 2021 og í þeirri tilkynningu var sérstaklega tekið fram að kærandi hefði hætt í námi. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita að umsókn hennar hefði verið samþykkt á þeirri forsendu að hún væri ekki í námi. Úrskurðarnefndin telur þó ástæðu til að gera athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki svarað beiðni kæranda um undanþágu til að stunda 15 eininga nám en samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttarins á hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald almennt rétt á að fá skriflegt svar, enda uppfylli erindið skilyrði um að ráðið verði af efni þess að vænst sé svars og erindið sé á verksviði stjórnvaldsins.

Fyrir liggur að kærandi var skráð í 15 eininga nám við Tækniskólann samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og að námið var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 átti við um kæranda, þ.e. hún stundaði nám í skilningi laganna. Úrskurðarnefndin bendir á að undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem hún var skráð í nám umfram 12 einingar og enginn námssamningur lá fyrir. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún var skráð í námið og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. september 2021 til 31. desember 2021.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta staðfest. Í ljósi yfirlýsingar Vinnumálastofnunar um að fallist sé á niðurfellingu álags að fjárhæð 110.872 kr. verður ekki séð að ágreiningur sé um það atriði.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur að fjárhæð 739.152. kr., er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta