Hoppa yfir valmynd

Nr. 266/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 266/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040010

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 4. apríl 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Írak ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann veg að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 22. desember 2021 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi. Kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi. Hinn 25. maí 2022 sendi Útlendingastofnun tölvubréf á umboðsmann kæranda, stjúpföður hans, og óskaði eftir upplýsingum um hvers konar leyfi kærandi væri að sækja um þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði fjölskyldusameiningar sökum þess að hann væri fullorðinn. Hinn 2. júní 2022 svaraði umboðsmaður kæranda og kvað kæranda vera að sækja um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið samkvæmt 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt gögnum málsins óskaði Útlendingastofnun ítrekað eftir gögnum sem sýndu fram á trygga framfærslu kæranda og framfærslu hans aftur í tímann. Hinn 26. ágúst 2022 lagði kærandi fram skjöl sem hann kvað vera frumrit umbeðinna gagna. Ráða má af málaskrá Útlendingastofnunar að málið hafi verið í biðstöðu fram til febrúar 2023.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2023, var umsókn kæranda hafnað með vísan til þess að hann hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að hann hafi verið á framfæri aðstandanda hér á landi í að minnsta kosti ár fyrir framlagningu umsóknar. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á trygga og sjálfstæða framfærslu hér á landi. Jafnframt sé kærandi […] gamall og hafi rík tengsl við heimaríki. Þá sé hann ekki einn eftir í heimaríki þar sem hluti af fjölskyldu hans dvelji þar. Taldi Útlendingastofnun aðstæður kæranda ekki benda til þess að hann eigi svo sérstök tengsl við landið að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki umbeðið dvalarleyfi, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar barst umboðsmanni kæranda með ábyrgðarbréfi 20. mars 2023. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar 4. apríl 2023. Kærunefnd barst greinargerð frá kæranda ásamt fylgiskjölum 21. apríl 2023.

Í greinargerð óskaði móðir kæranda og eiginmaður hennar eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála að jafnaði vera skrifleg. Með vísan til málsatvika og fyrirliggjandi gagna taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa móður kæranda og eiginmanni hennar kost á að koma fyrir nefndina.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að móðir hans búi hér á landi og sé í hjúskap með manni sem sé íslenskur ríkisborgari og hafi verið búsettur hér á landi í yfir aldarfjórðung. Kærandi sé einstæður og eini fjölskyldumeðlimur hans sem hann sé í tengslum við í heimaríki sínu sé systir hans. Hún geti þó varið takmörkuðum tíma með honum þar sem hún starfi sem læknir í fullu starfi, auk þess sem hún sé kvænt og með eigin fjölskyldu. Kærandi vísar til greinargerðar móður sinnar, dags. 1. febrúar 2022, um að hún óttist um líf hans í heimaríki þeirra þar sem hann verði stöðugt fyrir áreiti af hálfu yfirvalda vegna þátttöku hans í mótmælum sem hafi varðað hagsmunabaráttu fyrir betri réttindum ungs fólks í Kúrdistan. Hvað varði framfærslu þá hafi kærandi lagt fram vottorð frá […], kúrdískum banka, um að hann eigi þar 20 þúsund bandaríska dollara. Að auki hafi kærandi aðgang að fríu húsnæði hjá móður sinni og stjúpföður á Íslandi sem og fæði. Þá sé kærandi sjúkratryggður hjá […].

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Fyrir liggur að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hefur því ekki myndað tengsl við landið með lögmætri dvöl. Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Þetta getur t.d. átt við þegar einstaklingur er einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnast umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búa hér á landi. Samkvæmt 9. mgr. 78. gr. laga um útlendinga getur ráðherra sett reglugerð um nánari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 78. gr., m.a. hvenær geti komið til beitingar undantekningarreglu 4. mgr. ákvæðisins.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært við hvaða aðstæður getur komið til veitingar dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur ekki búið á Íslandi. Kemur þar fram að útgáfa slíks dvalarleyfis sé heimil eigi umsækjandi uppkomið barn eða foreldri sem búi á Íslandi og sé íslenskur ríkisborgari eða hafi ótímabundið dvalarleyfi eða dvalarleyfi sem geti myndað grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í að minnsta kosti ár og að fjölskyldu- og félagsleg tengsl hans við heimaríki séu slík að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita honum ekki dvalarleyfi hér á landi. Þá kemur fram að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla þurfi að jafnaði að mæla með veitingu dvalarleyfis.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er […] ára einhleypur karlmaður, er fæddur, uppalinn og búsettur í Írak. Kærandi hefur aldrei búið hérlendis og hefur ekki haft dvalarleyfi á Íslandi. Þá liggur fyrir að hann lauk skólagöngu sinni í Írak og hefur starfað þar sem ljósmyndari. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann óski eftir því að fá dvalarleyfi á Íslandi svo hann geti búið með móður sinni og stjúpföður. Eins og áður greinir kveður 20. gr. reglugerðar um útlendinga á um að útgáfa dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið þegar umsækjandi hafi ekki búið á Íslandi sé heimil í þeim tilvikum er umsækjandi eigi uppkomið barn eða foreldri og hafi verið á framfæri þessa aðstandanda í a.m.k. ár. Af gögnum málsins er óljóst hvernig framfærslu kæranda hefur verið háttað í heimaríki hans. Kærandi lagði fram bréf þar sem fram kemur að fyrirtækið Balla hafi ákveðið að styrkja kæranda með mánaðarlegum greiðslum og að móðir hans hafi endurgreitt styrkina að fullu, að því er virðist án beiðni þar um. Þá kvaðst kærandi hafa unnið sem ljósmyndari í íhlaupavinnu og lagði fram staðfestingu vinnuveitanda hvað það varðar en enga launaseðla. Kærandi lagði ekki fram bankaskjöl sem sýna fram á að millifærslur eða peningaskipti hafi sannarlega farið fram. Þá er ekki að finna yfirlit yfir launagreiðslur eða aðrar greiðslur til kæranda á framlögðu bankayfirliti. Hefur því ekki verið sýnt fram á að kærandi hafi verið á framfæri móður sinnar í a.m.k. ár.

Jafnvel þótt fallist yrði á að kærandi hafi fengið greiðslur frá framangreindu fyrirtæki í heimaríki sínu að tilstuðlan móður sinnar frá árinu 2020 hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla mæli með veitingu dvalarleyfis. Er þá einkum horft til þess að kærandi er fullorðinn einstaklingur sem hefur verið búsettur í Írak alla sína ævi. Hann er vinnufær, hefur lokið menntun í heimaríki og stundað þar atvinnu. Þar á hann jafnframt að eigin sögn ættingja, m.a. föður, systur og stjúpmóður. Má því ráða að tengsl kæranda við heimaríki hans séu sterk. Þá eru hvorki til staðar rík umönnunarsjónarmið né aðrar ástæður sem leiða til þess að bersýnilega ósanngjarnt væri að veita kæranda ekki dvalarleyfi hér á landi. 

Þegar málsatvik eru virt heildstætt er ljóst að aðstæður kæranda eru ekki þess eðlis að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1 og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

Athugasemd kærunefndar við málsmeðferð Útlendingastofnunar

Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Líkt og áður greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsókn 22. desember 2021 og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málinu 15. mars 2023, eða um 15 mánuðum síðar. Samkvæmt málaskrá Útlendingastofnunar var mál kæranda fyrst tekið til skoðunar í lok maí 2022. Þá verður ekki séð að aðhafst hafi verið í málinu af hálfu Útlendingastofnunar frá ágústmánuði 2022 og fram í febrúar 2023 nema að skrá inn fyrirspurnir umboðsmanns kæranda, sem voru ítrekaðar á því tímabili, ásamt því að taka við viðbótargögnum. Jafnvel þótt játa verði Útlendingastofnun svigrúm til að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn skv. 10. gr. stjórnsýslulaga er ljóst að málsmeðferðartími stofnunarinnar fór fram úr því sem eðlilegt getur talist og fer meðferð þessi í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta