Hoppa yfir valmynd

Nr. 286/2013

Miðvikudaginn 26. febrúar 2014

 

 

 

286/2013

 

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

ÚRSKURÐUR

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þorsteinn Magnússon lögfræðingur.

 

Með kæru, dags. 5. september 2013, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótaréttindi hennar á árinu 2011 vegna fjármagnstekna.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru eftirfarandi samkvæmt málsgögnum. Með bréfi, dags. 10. janúar 2013, krafði Tryggingastofnun ríkisins kæranda um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2011 samtals að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi, dags. 30. janúar 2013, óskaði kærandi endurskoðunar á þeirri ákvörðun stofnunarinnar með hliðsjón af því að fjármagnstekjur sem skertu bótaréttindi hennar á árinu 2011 og leiddu m.a. til ofgreiðslu bótanna tilheyrðu henni ekki. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2013, taldi stofnunin andmæli kæranda ekki breyta niðurstöðu um endurreikning bótanna.

 

Kærandi óskaði síðar leiðréttingar á skattframtali vegna tekjuársins 2011 hjá ríkisskattstjóra þar sem hún fór fram á að umræddar fjármagnstekjur yrðu fjarlægðar úr framtali hennar. Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. X 2013, var fallist á beiðni kæranda og framtalið leiðrétt. Með hliðsjón af því óskaði kærandi niðurfellingar endurkröfunnar hjá Tryggingastofnun ríkisins og bar fyrir sig að hún hafi ekki notið þeirra fjármagnstekna sem skertu bótaréttindi hennar á árinu 2011. Með bréfi, dags. 7. júní 2013, féllst stofnunin á að fella niður 25% af eftirstöðvum endurkröfunnar á þeirri forsendu að kærandi hefði fengið eingreiðslu frá lífeyrissjóði í desember 2011. Stofnunin féllst hins vegar ekki á að fella niður endurkröfuna vegna umræddra fjármagnstekna.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir:

 

„Kærandi, A, sleit samvistum við eiginmann sinn B X 2010. Kærandi krafðist lögskilnaðar X 2011 hjá Sýslumanninum í C og lagði fram undirritaðan fjárskiptasamning milli hennar og B. Þar sem […], gat hann ekki gengið frá lögskilnaðinum fyrr en í X 2012.

 

Í áðurnefndum fjárskiptasamningi milli þeirra kemur fram að fyrirtækið E komi í hlut B ásamt öllum eignum og skuldum.

 

Í skattframtali kæranda fyrir árið 2011 kom fram arður vegna hlutabréfa. Kærandi kærði málið til Ríkisskattstjóra (RSK) og úrskurðaði hann um málið þann 4. mars 2013 og og féllst hann á beiðni kæranda um að leiðrétta skattframtalið fyrir árið 2011. RSK féllst þar með á að kærandi ætti ekki hlutabréf í E skv. eignaskiptasamningi milli hennar og fyrrverandi eiginmanns hennar. Á skattframtali 2012 fyrir árið 2011 hjá kæranda kemur nú fram á eyðublaði 3.19 að hlutabréfaeign hennar sé 0 og arður 0.

 

Þrátt fyrir þetta heldur TR fast í það að arður af fyrirtækinu E fyrir árið 2011 tilheyri kæranda og tekur hann með í endurútreikning sinn fyrir árið 2011. í tölvupósti þann 22. ágúst 2013 til lögfræðings F kemur fram að þrátt fyrir úrskurð skattsins um að taka arðinn út, falli fjármagnstekjur inn í endurreikning hennar hvort sem skatturinn úrskurðaði um eitthvað annað. Ástæðan sé sú að þau hafi verið skráð gift árið 2011.“

 

Með bréfi, dags. 6. september 2013, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar. Umbeðin greinargerð barst frá stofnuninni, dags. 20. september 2013, þar sem farið var fram á frávísun málsins frá úrskurðarnefndinni á þeirri forsendu að kærufrestur hinnar kærðu ákvörðunar væri liðinn.

 

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 6. september 2013. Efni kærunnar snýst um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótaréttindi kæranda á árinu 2011 vegna fjármagnstekna. Með hliðsjón af ferli málsins hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem rakið hefur verið í lýsingu á málavöxtum hér að framan, telur úrskurðarnefndin að endanleg niðurstaða hafi fengist í mál kæranda um meðhöndlun fjármagnsteknanna hjá stofnuninni með bréfi dagsettu 7. júní 2013. Að því virtu telur úrskurðarnefndin að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.

 

Tryggingastofnun ríkisins var gefinn kostur á að koma að efnislegri greinargerð í málinu með bréfi, dags. 30. október 2013. Greinargerð, dags. 27. nóvember 2013, barst frá stofnuninni þar sem segir:

 

1. Kæruefnið

 

Kærð er meðhöndlun Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum í endurreikningi tekjutengdra bóta 2011 sem kæranda var tilkynnt um með bréfi dags. 10. janúar 2013.

 

2. Lagaákvæði

 

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 (atl.) með síðari breytingum er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta.

 

Þá segir í 2. mgr.

Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Þó skal eftirfarandi gilda við ákvörðun tekjugrundvallar:

a. Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.

 

Bótagreiðsluár er almanaksár sbr. 5. mgr. 16. gr. atl. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.

 

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna. Þar kemur fram að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Sú skylda er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

 

Í 2. mgr. 52. gr. atl. felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

 

3. Málavaxtalýsing

 

Kærandi naut örorkulífeyris og tengdra greiðslna á árinu 2011. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2011, leiddi til X kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist í uppgjöri á hendur kæranda er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2012 vegna tekjuársins 2011 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir.

 

Kæranda var send tekjuáætlun vegna ársins 2011 með bréfi dags. 11. janúar 2011 þar var gert ráð fyrir því að að kærandi hefði X kr. í fjármagnstekjur á árinu. Kærandi breytti fyrirliggjandi tekjuáætlun í maí 2011 á þá leið að fjármagnstekjur væru X kr., sjá bréf dags. 3. maí 2011.

 

Við bótauppgjör ársins 2011 kom í ljós að kærandi var með X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í vexti og verðbætur, X kr. í arður og aðrar tekjur voru X kr.

 

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2011 var að kærandi hafði fengið greitt á árinu X kr. en hefði átt að fá greitt X kr. Sjá nánar í meðfylgjandi gögnum. Leiddi þessi mismunur til endurgreiðslukröfu að fjárhæð X kr. Um er að ræða ofgreiðslu í grunnlífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu, orlofs- og desemberuppbót og framfærsluuppbót.

 

Kærandi andmælti niðurstöðu uppgjörs og var andmælunum svarað með bréfi, dags. 7. febrúar 2013, þar sem niðurstaða endurreikningsins var rökstudd.

 

Útreikningur tekjutengdra bóta byggist á lögum um almannatryggingar. Kærandi var sannarlega í hjúskap allt árið 2011 og ber því að meðhöndla fjármangstekjur hjónanna eins og 16. gr. atl. kveður á um. Þrátt fyrir að kærandi taldi fram sem einstaklingur á árinu 2011 og þrátt fyrir ákvörðun skattsins um meðhöndlun fjármagnsteknanna sem leiddu til ofgreiðslu, breytir það ekki þeirri staðreynd að viðkomandi var sannarlega giftur á umræddu ári, fjármagnstekjur mynduðust og lögum samkvæmt hafa fjármagnstekjur maka áhrif á tekjutengdar bætur eins og komið hefur verið að hér að framan. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjunum lögum samkvæmt. Í þessu samhengi vísast til úrskurðar úrskurðarnefnd almannatrygginga í máli nr. 17/2012. Rétt að vekja einnig athygli á niðurstöðu hæstaréttardóms í máli nr. 395/2008 þar sem tekinn var af allur vafi á að Tryggingastofnun beri að endurreikna bætur og miða við hvernig fjármagnstekjurnar eru færðar á hvert tekjuár en ekki tilurð þeirra tekna eða hvort viðkomandi hafi í raun fengið einhverja greiðslur í hendur á því ári.

 

4. Niðurstaða

 

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. nóvember 2013, og henni gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða bótaréttindi kæranda á árinu 2011 vegna fjármagnstekna.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún hafi slitið samvistum við eiginmann sinn þann X 2010 og krafist lögskilnaðar þann X 2011. […] hafi lögskilnaður ekki gengið í gegn fyrr en þann X 2012. Samkvæmt fjárskiptasamningi þeirra hafi fyrirtækið E komið í hlut fyrrum eiginmanns hennar ásamt öllum eignum og skuldum. Í skattframtali vegna ársins 2011 hafi komið fram arður vegna hlutabréfa. Kærandi hafi kært málið til ríkisskattstjóra sem hafi úrskurðað um málið þann X 2013 og fallist á leiðréttingu á skattframtali kæranda fyrir árið 2011. Samkvæmt skattframtali kæranda komi nú fram á eyðublaði 3.19 að hlutabréfaeign sé 0 og arður 0.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kæranda hafi verið send tillaga að tekjuáætlun í janúar 2011 þar sem gert hefði verið ráð fyrir X kr. í fjármagnstekjur. Kærandi hafi breytt þeirri tekjuáætlun þannig að gert væri ráð fyrir X kr. í fjármagnstekjur. Við bótauppgjör ársins 2011 hafi komið í ljós að kærandi hefði verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í fjármagnstekjur auk fleiri tekna. Þá segir að kærandi hafi verið í hjúskap á árinu 2011 og því beri að meðhöndla fjármagnstekjur hjónanna eins og 16. gr. almannatryggingalaga kveði á um. Einnig segir að þrátt fyrir að kærandi hafi talið fram sem einstaklingur á árinu 2011 og þrátt fyrir ákvörðun skattsins um meðhöndlun fjármagnsteknanna sem leiddu til ofgreiðslu breyti það ekki þeirri staðreynd að viðkomandi hafi sannanlega verið gift á umræddu ári, fjármagnstekjur hafi myndast og lögum samkvæmt hafi fjármagnstekjur maka áhrif á tekjutengdar bætur.

 

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2011. Fjárhæðir bóta á bótagreiðsluári ráðast af upplýsingum um tekjur bótaþega á því ári sem bæturnar eru greiddar. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar bera bótaþegar skyldu til að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra.

 

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Endurreikningur stofnunarinnar á bótarétti kæranda vegna ársins 2011 leiddi í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Stofnunin hefur samþykkt að fella niður X kr. af þeirri fjárhæð með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

 

Tryggingastofnun ríkisins hefur komist að niðurstöðu um ofgreiðslu bótanna og krafið kæranda um endurgreiðslu þeirra á þeirri forsendu m.a. að fjármagnstekjur hafi verið vanáætlaðar í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2011. Ágreiningur máls þessa snýst um þá ákvörðun stofnunarinnar.

 

Samkvæmt gögnum málsins gerði upphafleg tekjuáætlun kæranda, dags. 11. janúar 2011, ráð fyrir X kr. í fjármagnstekjur á árinu 2011. Þeirri tekjuáætlun breytti kærandi þann X 2011 þar sem fjármagnstekjur voru lækkaðar í X kr. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda reyndust samanlagðar fjármagnstekjur kæranda og fyrrverandi eiginmanns hennar hins vegar vera X kr. Þau töldu fram til skatts sem einstaklingar vegna tekjuársins 2011. Samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra, dags. X 2013, hefur framtal kæranda vegna tekjuársins 2011 verið leiðrétt þar sem fjármagnstekjur hafa verið fjarlægðar.

 

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi tekjutengdra bótagreiðslna. Í a-lið 2. mgr. greinarinnar er fjallað nánar um tengingu fjármagnstekna við bótaréttindi:

 

„Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“

 

Hin kærða ákvörðun grundvallast á framangreindu lagaákvæði þar sem helmingur samanlagðra fjármagnstekna kæranda og fyrrum eiginmanns hennar skerða bótaréttindi kæranda á árinu 2011 þar sem þau voru skráð í hjúskap það ár.

 

Gögn málsins bera með sér að kærandi og fyrrum eiginmaður hennar hafi slitið samvistum í X 2010. Leyfi til lögskilnaðar var gefið út af sýslumanni þann X 2012. Umræddar fjármagnstekjur mynduðust á árinu 2011 og tengjast einkahlutafélagi sem kom í hlut fyrrum eiginmanns kæranda í kjölfar skilnaðar þeirra.

 

Samkvæmt því sem kveðið er á um í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta. Við úrlausn þessa máls telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að lagaákvæðið verði ekki túlkað á annan veg en að það taki til þeirra bótaþega sem séu skráðir í hjúskap samkvæmt opinberri skráningu. Í máli þessu er óumdeilt að kærandi var skráð í hjúskap á árinu 2011. Leyfi til lögskilnaðar var gefið út þann X 2012. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að umræddar fjármagnstekjur skerða réttilega bótaréttindi kæranda á árinu 2011. Þá ber einnig að líta til 3. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem kveðið er á um að ekki skipti máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi fjármagnstekjur. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefndin hvorki hafa þýðingu í máli þessu að fjármagnstekjurnar stafi af einkahlutafélagi í eigu þáverandi eiginmanns kæranda né að tekjurnar hafi verið fjarlægðar úr skattframtali kæranda.

 

Að því virtu sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að staðfesta beri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fjármagnstekjur skerði bótaréttindi kæranda á árinu 2011. Endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreiðslu á tekjutengdum bótum á árinu 2011 er því staðfest.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja A, um ofgreiddar bætur vegna ársins 2011 er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta