Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 227/2016

Reglugerðarákvæði skortir lagastoð

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 227/2016

Miðvikudaginn 8. febrúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. júní 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála stöðvun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 14. júlí 2016, á milligöngu meðlagsgreiðslna með syni kæranda og endurkröfu meðlagsgreiðslna fyrir tímabilið X 2015 til X 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Tryggingastofnun ríkisins hafði milligöngu um meðlagsgreiðslur með syni kæranda frá 1. mars 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. júní 2016, var kæranda tilkynnt um stöðvun meðlagsgreiðslna frá X 2015 þar sem sonur kæranda hefði flutt til B þann dag, sbr. 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Þá var kærandi upplýstur um ákvörðun Tryggingastofnunar að endurkrefja kæranda um meðlag vegna tímabilsins frá X 2015 til X 2016. Var kæranda veittur frestur til 16. júní 2016 til að gera athugasemdir, koma fram andmælum eða koma á framfæri gögnum sem sýndu fram á annað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2016. Með bréfi, dags. 30. júní 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. júlí 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júlí 2016. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af gögnum málsins má ráða að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun og endurkröfu meðlagsgreiðslna verði felld úr gildi.

Í kæru segir að hún hafi fengið greitt meðlag með syni sínum frá X til X þrátt fyrir að hann hafi verið fluttur úr landi á þeim tíma. Þá segir kærandi að sonur hennar hafi flutt einn síns liðs til B til að stunda nám veturinn 2015 – 2016. Þar hafi hann búið einn og leigt sér húsnæði og séð um sig sjálfur á meðan hann hafi stundað nám. Kærandi hafi sent honum mánaðarlegar meðlagsgreiðslur.

Þá segir kærandi að þegar sonur hennar hafi flutt til Íslands í maí þá hafi komið í ljós að flutningurinn til B hafi aldrei verið skráður inn í íslenska Þjóðskrá þótt hann hafi skráð sig inn til B á sínum tíma. Þangað til í maí 2016 hafi hann verið skráður á Íslandi nema þegar hann var skráður út og inn í landið og nánast sama dag núna í maí. Það hafi þurft að skrá hann út úr landinu til að geta skráð hann aftur inn til að hafa samræmi á milli landa. Þarna í X 2015 hefðu meðlagsgreiðslurnar átt að stöðvast strax ef kerfið hefði ekki klikkað. Þjóðskrá hafi viðurkennt að hafa gleymt skráningunni og allar dagsetningar séu inni í kerfinu.

Þá spyr kærandi ýmissa spurninga í kæru um afleiðingar hinnar kærðu ákvörðunar. Meðal annars er spurt að því hvort barnsfaðir hennar sleppi þá við að greiða meðlag þessa mánuði. Einnig er óskað aðstoðar við að sækja um meðlag í gegnum almannatryggingakerfið í B vegna þessa tímabils. Bent er á að þetta sé tímafrekt ferli. Kærandi greinir jafnframt frá því að hún geti send yfirlit yfir greiðslur hennar til sonar síns á þessu tímabili.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna með syni kæranda og endurkrafa þeirra greiðslna frá X 2015 til X 2016.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 2. júní 2016, hafi kæranda verið tilkynnt að Tryggingastofnun myndi stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna með syni hennar frá X 2015 og endurkrefja hana um greiðslu meðlagsins frá þeim tíma til X 2016 þar sem samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá hafi sonur kæranda flutt úr landi X 2015.

Í 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, segi að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna skv. IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Samkvæmt 2. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærslulaga, falli meðlagsgreiðslur niður þegar barn flytji af heimili meðlagsmóttakanda. Þá segi í 5. tölul. 8. gr. reglugerðarinnar að greiðslur skuli falla niður ef meðlagsmóttakandi og/eða barn séu búsett erlendis.

Þá segi í 16. gr. reglugerðarinnar að hafi Tryggingastofnun ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög eigi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.

Tryggingastofnun hafi haft milligöngu um meðlag með syni kæranda, C, frá 1. mars 2015. Í maí 2016 hafi Tryggingastofnun borist upplýsingar frá Þjóðskrá um að sonur kæranda hafi flutt til B þann X 2015. Sú skráning í Þjóðskrá hafi ekki farið fram fyrr en 12. maí 2016 og því hafi Tryggingastofnun ekki fengið þær upplýsingar fyrr en þá. Því hafi kæranda verið sent bréf, dags. 2. júní 2016, þar sem henni hafi verið tilkynnt að Tryggingastofnun myndi stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna með syni kæranda frá X 2015 og endurkefja hana um ofgreiddar greiðslur frá þeim tíma og fram til X 2016, en þann dag varð kærandi 18 ára.

Þá segir að það komi skýrt fram í gögnum málsins að sonur kæranda hafi flutt til B þann X 2015 og því hafi ekki verið mótmælt af hálfu kæranda. Í ljósi þess telji Tryggingastofnun að ekki sé unnt að líta fram hjá skýru ákvæði reglugerðar nr. 945/2009 um að meðlagsgreiðslur skuli falla niður þegar barn búi ekki lengur hjá meðlagsmóttakanda og sé flutt úr landi. Með vísan til alls framanritaðs telji Tryggingastofnun því að rétt hafi verið að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá X 2015 og endurkrefja hana um ofgreiddar greiðslur frá þeim tíma og fram að þeim tíma sem sonur kæranda varð 18 ára.

Að lokum tiltekur Tryggingastofnun það að gefnu tilefni að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda samkvæmt meðlagsákvörðun, dags. X 1998, til að greiða kæranda meðlag vegna þess tíma sem Tryggingastofnun hafi ekki milligöngu um. Kærandi geti því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna og endurkröfu á hendur kæranda vegna ofgreidds meðlags fyrir tímabilið frá X 2015 til X 2016.

Í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er mælt fyrir um rétt til fyrirframgreiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal ávallt vera innan þeirra marka sem 20. gr. laga þessara setur um fjárhæð greiðslna og aldur barna.“

Óumdeilt er að sonur kæranda lagði stund á nám í B á framangreindu tímabili þrátt fyrir að skráning í Þjóðskrá hafi farist fyrir. Skráningin var síðan leiðrétt þann 12. maí 2016. Þar sem sonur kæranda var ekki lengur búsettur á heimilinu og með lögheimili í B á umræddu tímabili felldi Tryggingastofnun ríkisins niður milligöngu meðlagsgreiðslna og endurkrafði kæranda um greiðslur á tímabilinu X 2015 til X 2016. Kærandi byggir á því að sonur hennar hafi enn verið á framfæri hennar á meðan hann var við nám í B, hún hafi sent honum meðlagið til B og staðið undir frekari kostnaði.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar umsækjandi hefur lögformlega meðlagsákvörðun. Það skilyrði er sett fyrir milligöngunni að það barn sem greiða skuli meðlag með sé á framfæri umsækjanda. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, með síðari breytingum, hefur verið sett með stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau tilvik þar sem meðlagsgreiðslur falla niður. Í 2. tölul. 8. gr. segir að greiðslur falli niður ef „barn flytur af heimili meðlagsmóttakanda eða er af öðrum ástæðum ekki lengur á framfæri meðlagsmóttakanda“. Þá segir í 5. tölul. 8. gr. að greiðslur falli niður ef „meðlagsmóttakandi og/eða barn eru búsett erlendis.“ Einnig kemur fram í 5. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar að ávallt sé skilyrði að barn sé búsett á heimili meðlagsmóttakanda við upphaf greiðslna. Samkvæmt framangreindum reglugerðarákvæðum er það skilyrði fyrir meðlagsgreiðslum að barnið búi á Íslandi á heimili meðlagsmóttakanda en greiðslur falla niður flytji það brott.

Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er gerð krafa um að meðlagsmóttakandi hafi barn á framfæri sínu en ekki verður ráðið af orðalagi ákvæðisins að ætlun löggjafans hafi verið að milliganga meðlagsgreiðslna einskorðist við þau tilvik sem barn býr á heimili meðlagsmóttakanda á Íslandi, sbr. 2. og 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009. Hafa ber í huga að um íþyngjandi skilyrði er að ræða sem takmarkar verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Í lagaákvæðinu er ekki kveðið á um að barn skuli búa á heimili meðlagsmótttakanda á Íslandi og kemur því til skoðunar hvort framangreint skilyrði reglugerðarinnar hafi næga lagastoð, en almennt er ekki unnt að skerða réttindi til greiðslna samkvæmt almannatryggingalögum með reglugerð nema hún hafi stoð í skýru og ótvíræðu lagaákvæði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær hvorki ráðið að í 6. mgr. 63. gr. né 70. gr. laga um almannatrygginga felist heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarka verulega rétt til milligöngu meðlagsgreiðslna. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefðu framangreind skilyrði í reglugerð nr. 945/2009 annaðhvort þurft að koma fram í lögunum sjálfum eða að ráðherra hefði verið veitt heimild til að setja sjálfstæð efnisleg skilyrði í reglugerð með skýrri og ótvíðræðri reglugerðarheimild í lögum. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 2. og 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um að meðlagsgreiðslur falli niður flytji barn til útlanda eða af heimili meðlagsmóttakanda, eigi sér ekki næga stoð í 70. gr., sbr. 6. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun á milligöngu meðlags til kæranda á grundvelli 2. og 5. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 er hrundið. Þegar af þeirri ástæðu kemur endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda ekki til skoðunar. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til nýrrar meðferðar á grundvelli ákvæða laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að fella niður milligöngu meðlagsgreiðslna til A, er hrundið. Málinu er heimvísað til Tryggingastofnunar ríkisins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta