Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2011

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 31. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 28. febrúar 2011, þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun er hafnað. Kæranda barst ákvörðunin 18. mars 2011

Með bréfi, dags. 1. apríl 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 18. apríl 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 19. apríl 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærandi taldi ekki þörf á að gera frekari athugasemdir.

 

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að hún hafi sótt um greiðsluaðlögun vegna fjárhagsörðugleika sem rekja megi til kostnaðar við viðgerðir á húsnæði hennar en háir vextir, kostnaðarsöm framfærsla og heilsuleysi hennar sökum mikils vinnuálags hafi einnig haft áhrif.

Kærandi segist hafa leitað til Íbúðalánasjóðs vorið 2009 og farið fram á að sjóðurinn myndi taka við íbúð hennar sem keypt var af sjóðnum. Kærandi segist hafa fengið synjun á þeim grundvelli að slík ráðstöfun þyrfti að fara í gegnum ákveðið ferli.

Kærandi fór til Danmerkur í atvinnuleit í októbermánuði 2009, með E-301 vottorð frá Vinnumálastofnun sem veitir rétt til þess að vera í atvinnuleit erlendis í þrjá mánuði og njóta greiðslu atvinnuleysisbóta á sama tímabili. Þá segir kærandi að hún hafi snúið aftur til Íslands í janúar 2010, en í febrúar sama ár hafi hún farið til Noregs í atvinnuviðtal og fengið þar tímabundið starf í sex mánuði. Í maí og júní sama ár hafi hún sótt um kennarastöður á Íslandi og aftur í desembermánuði, en án árangurs. Kærandi flutti á ný til Danmerkur haustið 2010 og er nú búsett og  með lögheimili þar. Hún telur sig hafa náð ákveðnum árangri í atvinnuleit sinni í Danmörku þar sem hún sé í föstu afleysingastarfi í tilteknum skóla og á lista yfir tiltæka afleysingakennara í C-borg. Kærandi segist gera ráð fyrir betri atvinnumöguleikum í Danmörku, en hún vinni einarðlega að því að bæta fjárhagsstöðu sína, meðal annars sé hún komin með réttindi að hluta til hjá danska kennarasambandinu sem veiti henni rétt til atvinnuleysisbóta þar í landi. Þá segir kærandi að hún sæki um allar stöður sem í boði séu sem hæfi hennar reynslu og menntun bæði á Íslandi og í Danmörku.

Kærandi segist hafa keypt fasteign sína í sveitarfélaginu B til þess að eiga þar heimili, en það hafi komið henni á óvart hversu mikil áhrif efnahagsástandið hafi haft á afkomu hennar og atvinnumöguleika og því geri hún athugasemdir við að umboðsmaður leggi henni ekki lið og veiti henni greiðsluaðlögunarúrræði þar til rætist úr hennar málum.

Þann 14. nóvember 2010 lagði kærandi fram umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga. Var umsókn hennar synjað með ákvörðun, dags. 28. febrúar sl., á grundvelli þess hún uppfyllti ekki skilyrði greiðsluaðlögunar um að eiga lögheimili og vera búsett hér á landi skv. 4. mgr. 2. gr. laga um greiðsluaðlögum einstaklinga, nr. 101/2010, (lge.). Þá taldi umboðsmaður að undanþáguheimildir sömu lagagreinar um tímabundna búsetu erlendis vegna atvinnu, náms eða læknismeðferðar ættu ekki við um kæranda.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns að ástæðan að baki fjárhagsörðugleikum hennar séu flutningar hennar erlendis því hún hafi flutt erlendis til þess að afla meiri tekna í því skyni að geta séð sér og sínum farborða ásamt því að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar á Íslandi. Þá mótmælir kærandi einnig því mati umboðsmanns að ekki sé um tímabundna búsetu erlendis að ræða.

Kærandi telur sig hafa gert allt sem í hennar valdi stendur til þess að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar eins og að taka allri aukavinnu sem henni hafi boðist með tilheyrandi álagi sem hafi leitt til veikinda hennar. Þá segir kærandi að hún hafi tekið út séreignarlífeyrissparnað sinn til þess að greiða niður skuldir, en þrátt fyrir þessar ráðstafanir hafi skuldir hennar aukist. Því hafi hún litið á starf við kennslu erlendis sem leið út úr þessum erfiðleikum. Kærandi segir að sú staðreynd að dóttir hennar hafi farið í nám erlendis hafi haft áhrif á þá ákvörðun hennar að flytja búferlum erlendis, en það hafi ekki verið aðalástæðan. Kærandi segist hafa sótt um atvinnu í bæði Noregi og Danmörku en án árangurs og telur það kunni að hafa verið mistök að flytja án þess að hafa tryggt sér atvinnu, en henni hafi verið tjáð að besta leiðin til þess að fá atvinnu sé að vera á staðnum.

Kærandi segist hafa flutt úr landi í góðri trú um betri tekjur, en það ferli hafi tekið lengri tíma en hún hafi reiknað með. Kærandi segist hafa góðan vilja, hug og kjark til þess að koma sér í betri aðstæður og biður því um skilning á tímabundnum aðstæðum og óskar þess að frysting lána hennar verði að veruleika. Það myndi veita henni þann tíma og það tækifæri sem hún þarf á að halda til þess að bæta stöðu sína og standa við skuldbindingar sínar.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn ber að líta til þeirra aðstæðna sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. e. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laga til að leita greiðsluaðlögunar. Umboðsmaður vísar til skýringa kæranda í greinargerð á flutningi hennar til Danmerkur og áréttar að engin gögn hafi verið lögð fram því til staðfestu.

Umboðsmaður vísar einnig til 4. mgr. 2. gr. lge. þar sem kveðið er á um að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar sem eiga lögheimili og eru búsettur hér á landi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem tímabundið er búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda enda leiti hann hennar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast hafa hér á landi við lánardrottna sem eiga hér heimili.

Umboðsmaður bendir á að kærandi hafi ekki verið komin með atvinnu þegar hún flutti til Danmerkur og hafi átt erfitt með að fá fasta atvinnu þar í landi, en kærandi hefur mótmælt túlkun umboðsmanns á því að ekki sé um tímabundinn flutning að ræða og að ástæður að baki fjárhagsörðugleika hennar megi rekja til flutningsins til Danmerkur. Umboðsmaður áréttar að kærandi hefur ekki lagt fram gögn til staðfestingar á því að hún hafi fasta afleysingakennslu.

Þá vísar umboðsmaður til fyrirliggjandi gagna og telur að ekki sé hægt að ráða af þeim að kærandi hafi flust tímabundið erlendis vegna atvinnu eða náms eða að um tímabundna búsetu sé að ræða vegna veikinda eða læknismeðferðar. Það er mat umboðsmanns að í tilvikum sem þessum og þar sem um undantekningarákvæði er að ræða, verði að gera þær kröfur til kæranda að hún skýri með fullnægjandi hætti ástæður tímabundinnar búsetu erlendis og leggi fram viðeigandi gögn því til stuðnings. Umboðsmaður telur að ekki hafi komið fram slík gögn sem breytt geti forsendum sem synjunarákvörðun í máli kæranda er byggð á. Umboðsmaður telur að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins uppfylli kærandi ekki skilyrði þess að leita greiðsluaðlögunar skv. a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., og því fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geta þeir einir leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og séu búsettir hér á landi. Í upphaflegu frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga var ekki gert ráð fyrir að lögheimili og búseta hér á landi væri skilyrði greiðsluaðlögunar heldur þvert á móti bent á, í athugasemdum við greinina, að öll rök mæli með því að gera fólki kleift að leita greiðsluaðlögunar sem flutt hefur til útlanda vegna náms eða í atvinnuleit. Þrátt fyrir þetta var það niðurstaða Alþingis að færa ákvæði 4. mgr. 2. gr. í núverandi horf og var það fyrirkomulag rökstutt með því að ekki séu til staðar samningar við erlend ríki um gagnkvæma viðurkenningu nauðasamninga til greiðsluaðlögunar. Myndu því nauðasamningar til greiðsluaðlögunar á Íslandi ekki koma í veg fyrir að lánardrottnar gætu sótt kröfu sína fyrir dómstóli þar sem lögheimili skuldara væri. Því er meginreglan sú að heimild til greiðsluaðlögunar er bundin því skilyrði að fólk eigi lögheimili og búi hér á landi. Í sömu grein segir að heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar.

Í máli þessu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda í Danmörku sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við. Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem er ekki ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Í tilviki kæranda liggur fyrir að hún býr nú í Danmörku og hefur verið með skráð lögheimili þar síðan 3. október 2009. Hún hefur leitað að atvinnu þar um nokkurt skeið og unnið óreglulega við afleysingastörf. Kærandi er enn í atvinnuleit þar í landi og telur sig eiga betri möguleika á föstu starfi í Danmörku en á Íslandi.  

Með hliðsjón af atvikum málsins og eins og lögum er háttað er niðurstaða nefndarinnar sú að ekki verði hjá því komist að staðfesta ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A, um greiðsluaðlögun er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta