Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 6. nóvember 2006

Ár 2006, mánudaginn 6. nóvember, er í matsnefnd eignarnámsbóta, samkvæmt lögum nr. 11/1973, tekið fyrir matsmálið nr. 9/2006.

                                  Vegagerðin

                                   gegn

                                   Jóhannesi Jóhannssyni

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, en varaformaður hefur kvatt þá til starfa í málinu samkvæmt heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi, dagsettu 2. maí 2006, beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin, Borgartúni 5 og 7 Reykjavík, þess með vísan til 46. gr. vegalaga nr. 45/1994 og laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, að Matsnefnd eignarnámsbóta meti bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi jarðarinnar Silfrastaða, Akrahreppi, í Norðurárdal í Skagafirði.

Eignarnámsþoli er þinglýstur eigandi Silfrastaða, Jóhannes Jóhannsson, kt. 160149-7019.

Eignarnámið beinist að landi undir veg og jarðefni til vegagerðar í landi Silfrastaða. Nánar tiltekið er andlag eignarnáms land undir vegsvæði Hringvegar á 6.820 m kafla og jarðefni til vegagerðar úr landi umræddrar jarðar sem hér segir:

Beitiland og ræktanlegt land undir vegsvæði,

plan og viðbót við reiðleið:                               14,91 ha. 

Áreyrar og ónýtanlegt land                              29,10 ha.

Samtals land                                                   44,01 ha.

Jarðefni til vegagerðar:

Burðarlag                                                           30.700 m3

Fyllingarefni                                                     165.100 m3

Jarðefni samtals                                                195.800 m3

 

Tilefni eignarnámsins er yfirvofandi framkvæmdir eignarnema við endurbyggingu Hringvegar um Norðurárdal í Skagafirði samkvæmt svokallaðri veglínu M. Framkvæmdin er liður í bættu vegasambandi á Hringvegi og á milli byggðarlaga á Norðurlandi. Telur eignarnemi núverandi veg á 15 km kafla um Norðurárdal hættulegan og þarfnast endurbóta. Vegurinn sé fremur mjór með fjórum einbreiðum brúm, blindbeygjum og blindhæðum. Við brýrnar séu tíð umferðaróhöpp og vegurinn allur mikil slysagildra.

Ekki náðist niðurstaða í viðræðum um bætur á grundvelli bótahugmynda eignarnema og voru aðilar því ásáttir um að leggja ákvörðun bóta í hendur matsnefndar eignarnámsbóta.

Í matsbeiðni og greinargerðum aðila er lagaheimild til eignarnámsins lýst og fjallað um andlags þess, auk þess sem samskipti aðila eru nánar rakin. Hér verður atvikum þessum lýst að því marki sem horfir til skýringar á málinu og þeim hagsmunum sem meta á bætur fyrir.

Eignarnámið beinist að landi undir veg í landi Silfrastaða og að jarðefni til vegagerðar í  landi umræddrar jarðar. Ekki hefur verið ágreiningur með aðilum um sjálfa framkvæmdina. Eignarnámsþoli gerði athugasemdir við legu reiðleiðar um land sitt og tókst samkomulag um legu hennar milli aðila með samningi, dags 8. mars 2006.

Áformað er að núverandi vegur verði áfram að hluta nýttur sem reið- og rekstrarleið í landi Silfrastaða, samkvæmt skilyrði í framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar sem sett var með vísan til samkomulags aðila. Samkvæmt samkomulaginu var að ósk eignarnámsþola vikið frá núverandi vegi með reiðleiðina og hún lögð með fram nýja vegarstæðinu frá Bessakoti að Gvendarnesi. Verður reiðleiðin afgirt og hyggst eignarnemi ekki nýta hana á nokkurn hátt og er hún honum í raun óviðkomandi. Þessi leið verður nýtt fyrir þá litlu ríðandi umferð sem þarna fer um, auk þess sem nýta þarf leiðina til að reka fé af fjalli í réttir að hausti.

Eignarnámið beinist jafnframt að jarðefni til vegagerðar í landi umræddra jarða. Um er að ræða efni úr áreyrum Norðurár sem notað er í burðarlag og fyllingu vegarins.

Eftir að eignarnemi gerði eignarnámsþola tilboð um bætur kvað matsnefnd eignarnámsbóta upp úrskurði vegna sömu framkvæmdar í máli nr. 5/2006 vegna Fremri- og Ytri-Kota og Borgargerðis, í máli nr. 6/2006 vegna Flatatungu og Tungukots og í máli nr. 7/2006 vegna Egilsár. Eignarnemi telur einingaverð í umræddum úrskurðum of hátt miðað við verðmæti hins eignarnumda. Allt að einu hyggst eignarnemi una niðurstöðu hvað varðar einingaverð og greiða bætur í samræmi við það.

Eignarnemi unir ekki niðurstöðu matsnefndar að greiða skuli fullar bætur fyrir land að 30 m frá miðlínu stofnvegar. Matsnefnd byggir á því að þar sem leyfi Vegagerðarinnar þurfi til að reisa mannvirki á svæði allt að 30 m frá miðlínu með fram stofnvegum sé Vegagerðinni skylt að taka það land eignarnámi og að greiða eigi fullar bætur fyrir það land. Þetta álitaefni er nú til meðferðar fyrir dómstólum. Eignarnemi lýsir því yfir að hann muni greiða bætur í samræmi við endanlega niðurstöðu dómstóla þegar hún liggur fyrir varðandi þetta álitaefni.

 

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA UM FJÁRHÆÐ BÓTA

Af hálfu eignarnema er á því byggt að bætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sannað fjárhagslegt tjón hans er af eignarnáminu, þannig að hann verði sem líkast settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Miða eigi bætur við sannað fjárhagslegt verðmæti hins eignarnumda á matsdegi miðað við staðgreiðslu. Til frádráttar bótum eigi að koma þær hagsbætur, sem ætla megi að hljótist af þeim framkvæmdum, sem eru tilefni eignarnámsins.

Eignarnemi vísar til þess að hann gaf út um áratuga skeið, í samráði við Bændasamtök Íslands, viðmiðun um lágmarksbætur fyrir land undir veg og efnistöku. Í ljósi verðþróunar á fasteignamarkaði undanfarin ár og með hliðsjón af úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta hafi eignarnemi einhliða endurskoðað viðmiðanir hvað þetta varðar og gefið út vinnureglur um greiðslu bóta vegna vegagerðar.

Í umræddum vinnureglum eignarnema er byggt á þeirri almennu reglu að miða beri bætur fyrir land við ætlað söluverð lands hverju sinni. Liggi ekki fyrir áreiðanlegar upplýsingar sem unnt er að byggja á til ákvörðunar á ætluðu söluverði viðkomandi lands eru gefnar leiðbeiningar við ákvörðun bóta sem taka til mismunandi lands með tilliti til staðsetningar, landgæða, notkunarmöguleika o.fl.

Eignarnemi aflaði sér upplýsinga um þá þætti sem notaðir eru til viðmiðunar við mat lands hjá Fasteignamati ríkisins og lagði þær að nokkru leyti til grundvallar við gerð vinnureglnanna. Enn fremur var miðað við að færa til nútíma þær viðmiðanir sem eignarnemi styðst við, m.a. þannig að fjölþættari not lands komi til skoðunar við ákvörðun bóta hverju sinni en gert var samkvæmt eldri orðsendingum um landbætur. T.d. er sérstaklega tekið fram að horfa eigi til þess við mat á bótum ef land sem um ræðir telst ákjósanlegt til bygginga vegna staðsetningar og landgæða.

Eignarnemi telur að með nýjum vinnureglum um bætur fyrir land hafi lágmarksviðmiðanir grunnverðs fyrir land verið hækkaðar, svo að unnt sé að miða við lágmarksviðmiðun í flestum tilvikum, þegar um er að ræða hefðbundið landbúnaðarland utan þéttbýlis, fjarri vinsælum svæðum, fyrir sumarhúsabyggð. Í sumum tilvikum geti bætur samkvæmt vinnureglum talist í hærra lagi, svo sem á afskekktari svæðum og annars staðar þar sem landnotkun takmarkast af náttúrulegum aðstæðum, t.d. vegna hæðar yfir sjávarmáli eða ágangi vatns.

Eignarnemi miðar framboðnar bætur fyrir landið við að um sé að ræða landbúnaðarland og önnur nýting, svo sem undir sumarhúsabyggð, sé ekki fyrirsjáanleg eða líkleg. Ekki liggi fyrir nánari upplýsingar um núverandi nýtingu landsins en gera megi ráð fyrir að það sé að nokkru nýtt til beitar búsmala. Áform hafi verið um að nýta besta hluta landsins til skógræktar, þ.e. landið frá Gvendarnesi að merkjum við Kot, en ekkert liggi fyrir sem staðfesti það. Lakasti hlutinn, þ.e. áreyrarnar, nýtist að sjálfsögðu ekki til skógræktar eða annarra sambærilegra nota vegna ágangs Norðurár.

Tilboð eignarnema er um bætur að fjárhæð 125.000 kr./ha. fyrir nytjaland, þ.e. ræktanlegt land, og 5.000 kr./ha. fyrir áreyrar. Eignarnemi tekur fram að tilboðið taki mið af nýlegum úrskurðum nefndarinnar í málum vegna nærliggjandi jarða. Varðandi áreyrar er á því byggt að það land sé lítt eða ekki nýtanlegt vegna ágangs Norðurár. Fullvíst megi því telja að framboðnar bætur séu fullt verð fyrir landið. Er þar miðað við lágmarksverð samkvæmt vinnureglum eignarnema.

Eignarnemi bendir á að ekki liggi fyrir nýlegar jarðasölur í næsta nágrenni hins eignarnumda lands, sem hægt er að fallast á að nota megi til viðmiðunar um verðmæti landsins. Varðandi mat á bótum fyrir land sé óhjákvæmilegt að líta til úrskurðar í máli nr. 5/2006 varðandi Fremri- og Ytri-Kot, nágrannajarðir Silfrastaða. Þessi samanburður eigi þó aðeins við að því tilskildu að um sambærilegt land sé að ræða. Þannig var ekki um að ræða land á áreyrum í landi Fremri- og Ytri-Kota. Að jafnaði verði að telja það land sem fer undir veg í landi Silfrastaða lakara land þegar á heildina er litið. Samanburðurinn einskorðist einnig við landverðið en ekki verði jafnað saman áhrifum framkvæmda á þessar jarðir.

Þegar litið er til úrskurða nefndarinnar um landverð hin seinni ár telur eignarnemi að einkum megi hafa til hliðsjónar úrskurði í málum nr. 2 og 6/2005. Þó beri að geta þess að í máli nr. 6/2005 var talið að hluti landsins væri ákjósanlegur til byggingar sumarbústaðs, auk þess sem um var að ræða land í nágrenni mesta uppgangssvæðis á landsbyggðinni í Reyðarfirði, og meðalverð lands því eðlilega nokkru hærra en verðmæti lands sem hér um ræðir.

Almennt megi að lokum segja um mat á landverði að helstu sérfræðingar spái lækkun raunvirðis fasteigna á næstunni. Þannig sé ekki um hækkun vegna verðlags að ræða þrátt fyrir almennar verðlagshækkanir. Jafnframt hafi verið bent á að nokkur leiðrétting kunni að eiga sér stað á verði eigna sem verðlagðar hafi verið hátt vegna þenslu á fasteignamarkaði af völdum mikillar eftirspurnar. Það gæti t.d. átt við jarðir utan vinsælla sumarhúsasvæða, svo sem í Norðurárdal í Skagafirði. Þar sem gera megi ráð fyrir minni eftirspurn á næstu misserum telur eignarnemi að land sambærilegt við Silfrastaði hvað snertir staðsetningu, landgæði og nýtingarmöguleika, muni lækka í verði á næstu misserum. Minnkandi eftirspurn muni hafa áhrif til lækkunar á verði jarða utan vinsælustu svæða fyrir frístundabyggð.

Varðandi bætur fyrir jarðefni byggir eignarnemi á vinnureglum um landbætur o.fl., sem notaðar séu til viðmiðunar við greiðslu fyrir jarðefni til vegagerðar. Þar sé gerður greinarmunur á efni eftir gæðum, þ.e. hvort efni er nýtanlegt í fyllingar, burðarlag eða bundið slitlag. Enn fremur sé gerður greinarmunur á því hvort efni er tekið innan eða utan markaðssvæða.

Eignarnemi hefur byggt á því að um sé að ræða efnistöku utan markaðssvæða. Ekki sé um að ræða stöðuga og verulega eftirspurn eftir jarðefni til mannvirkjagerðar úr áreyrum Norðurár í landi Silfrastaða. Af þeim sökum hafi boðnar bætur verið miðaðar við verð utan markaðssvæða.

Eignarnemi hefur í þessu sambandi vísað til áralangrar venju í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta við mat á jarðefni til vegagerðar, sem komin sé nokkur festa á, sbr. t.d. úrskurð í máli nr. 10/2004 og úrskurði frá árinu 2003 vegna lagningar Snæfellsnesvegar um Kolgrafarfjörð.

Eignarnemi bendir á að matsnefnd eignarnámsbóta hafi komist að þeirri niðurstöðu í áðurnefndum úrskurðum vegna sömu framkvæmdar, að markaður væri fyrir jarðefni til mannvirkjagerðar úr áreyrum Norðurár. Af þeim sökum hafi nefndin hækkað bætur til eigenda Fremri- og Ytri-Kota, Borgargerðis, Flatatungu, Tungukots og Egilsár, frá því sem eignarnemi gerði ráð fyrir. Eins og áður sagði hefur eignarnemi ákveðið að una niðurstöðum varðandi einingaverð og greiða bætur í samræmi við einingaverð úrskurða í þessum málum. Af þeim sökum hafi eignarnemi boðið sama verð í máli þessu. Eignarnemi áréttar þó að hann fallist ekki á umrædda úrskurði nefndarinnar.

Loks bendir eignarnemi á, varðandi efnistökuna, að framboðnar bætur af hans hálfu séu hærri en nemi tjóni eignarnámsþola þar sem efnismagnið sé nánast óþrjótandi. Þannig hagi til á þessu svæði að Norðurá beri fram mikið magn malarefnis og því séu hlunnindin endurnýjanleg.

Varðandi bætur fyrir jarðrask, átroðning og tímabundið rask og afnot lands utan hinnar eignarnumdu spildu í landi Silfrastaða bendir eignarnemi á að takmarkað verði ráðið af fyrri úrskurðum nefndarinnar. Þegar kemur að því að meta bætur af þessu tagi hafi hvert mál sína sérstöðu en skoða verði hvort eignarnámsþoli hafi orðið fyrir skaða umfram það sem felst í því sem bætt er að fullu með greiðslu fyrir hið eignarnumda land og jarðefni. Horfa verði til aðstæðna eins og þær eru í landi Silfrastaða og þá sérstaklega að líta til þess hvaða breytingar verði frá því sem er í dag. Ekki verði fundin leiðsögn um bótafjárhæð að þessu leyti í máli nr. 5/2006 varðandi eignarnám í landi Fremri- og Ytri-Kota. Ljóst sé að mun meiri breytingar verði á öllum aðstæðum og landnýtingu þar heldur en í landi Silfrastaða þar sem nýtt vegarstæði skeri heimatún Fremri-Kota meðan húsin að Silfrastöðum séu fjarri framkvæmdasvæði. Enn fremur verði reiðleið á öllum núverandi vegi í landi Fremri- og Ytri-Kota en aðeins að hluta í landi Silfrastaða.

Eignarnemi telur að horfa verði til þess að núverandi vegur liggur um jörðina endilanga eftir miðju nýtanlegs lands. Hluti núverandi vegar fari úr notkun þegar nýi vegurinn er tilbúinn, þ.e. kaflinn frá Bessakoti að Gvendarnesi, þar sem ætlunin er að reið- og rekstrarleið liggi með fram nýja veginum. Á þessum kafla verði nýja vegarstæðið á áreyrum sem hljóti að vera mun hagstæðara en núverandi vegarstæði. Þarna verði ekki afgirtur vegur lengur sem í dag skipti landinu eftir endilöngu. Eignarnámsþoli hafi haldið því fram að skipting lands með vegi dragi úr hagkvæmni skógræktar og því hljóti það að vegur á þessum kafla verði aflagður að sama skapi að auka hagkvæmni skógræktar. Kjósi eignarnámsþoli að nýta þennan hluta landsins til skógræktar, eftir því sem landgæði leyfa, opnist hér nýir möguleikar fyrir hann til skógræktar og annarrar landnýtingar. Hér sé um að ræða sérstakt hagræði sem leggja verður mat á til frádráttar bótum.

Við mat á bótum telur eignarnemi að taka beri sérstakt tillit til þess að nýr vegur á áreyrum í landi Silfrastaða muni skýla landinu fyrir ágangi Norðurár og draga með því úr hættu á landbroti. Ný veglína sé grjótvarin og jafngildir samfelldum varnargarði frá Kjálkavegi að Gvendarnesi. Sérstakt hagræði af þessu gæti numið kostnaði við gerð varnargarðs á þessum kafla sem nemi tugum milljóna. Ávinningur af þessu sé væntanlega minni fyrir eignarnámsþola en þó verulegur, ekki síst þegar til lengri tíma er litið þar sem landbrot gæti orðið verulegt vandamál. Eignarnámsþoli vinni land með þessu sem gæti t.d. hugsanlega nýst til skógræktar.

Loks áréttar eignarnemi að venju samkvæmt verði allt jarðrask jafnað og sáð í sár á grónu landi í samræmi við lagaskyldu sem hvíli á eignarnema.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA

Eignarnámsþoli bendir á að hann eigi rétt á fullum bótum fyrir þau eignarréttindi hans sem skert verði með eignarnáminu, sbr. 72. gr. stjórnarskrár. Einnig bendir eignarnámsþoli á að þar sem hann hafi ekkert val um hvort eða hvenær hann selji hið eignarnumda hafi það áhrif á sönnunarbyrði hans þannig að slakað skal á kröfum til sönnunar um tjón en eftir atvikum verði að meta það að álitum.

Eignarnámsþoli bendir á að eignarnemi hafi tekið ákvörðun um að taka land eignarnámi undir þjóðveg 1 og sé það gert á grundvelli heimildar í vegalögum nr. 45/1994. Tilgangur eignarnámsins samkvæmt vegalögunum sé skýr og nái eingöngu til að afla lands undir veginn. Engu að síður telji Vegagerðin að með eignarnáminu á landi Silfrastaða muni ríkið eignast landið með öllum gögnum og gæðum eins og það hafi verið að kaupa land frjálsri sölu og geti hagnýtt sér það að vild eftir því sem aðstæður leyfi og tilefni er til. Í þessu sambandi bendir eignarnámsþoli á að eignarnemi geti engu svarað um hvernig hann muni bregðast við ef reyni á þau lagafyrirmæli vegalaga sem kveða á um að skila beri landinu til baka við ákveðnar aðstæður. Þá yrði aðstaðan sú að eignarnema bæri að skila landinu en hann hefði ef til vill áður ráðist í eða heimilað ýmsa mannvirkjagerð í engu samræmi við tilgang eignarnámsins. Ástæðuna fyrir þessum skilningi telji eignarnemi vera þann að þar sem fullar bætur séu úrskurðaðar þá hljóti eignarnemi að eiga landið með öllum gögnum og gæðum. Hér telur eignarnámsþoli að eignarnemi snúi öllum reglum sem gilda um eignarnám á hvolf og horfa fram hjá því að bótaákvörðunin snýst um að eignarnámsþolinn fái fullar bætur og skaðist ekki af eignarnáminu og þar sem hann sé útilokaður frá nýtingu landsins séu eignarnámsbætur metnar í samræmi við að öll eignarráð tapist. Eignarnemi eignist hins vegar ekki þau eignarréttindi sem eignarnámsþoli tapar og geti ekki öðlast víðtækari eignarráð til landsins en lagaheimild vegalaganna segir fyrir um.

Eignarnemi bendir á að fyrirhugaður vegur mun liggja á nýjum stað um land eignarnámsþola frá stöð 20.900 til 27.540. Leiði af lögum og hlutarins eðli að eignarnámið þurfi að taka til alls þessa lands sem fer undir veginn og veghelgunarsvæðis hans. Það leiðir svo af atvikum máls að skilyrði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms sé fullnægt þannig að matsnefnd eignarnámsbóta getur tekið kröfu eignarnámsþola til greina til að tryggja skaðleysi hans og ákveðið að eignarnámið taki í nokkrum tilvikum til meira lands en nemur 60 m breidd vegarins og veghelgunarsvæðis hans. Nánar gerir eignarnámsþoli þá kröfu að eignarnámið taki til alls lands sem nemur 30 m frá miðju fyrirhugaðs vegar fjær hlíðinni frá stöð 20.900 til stöðvar 25.750 en frá stöð 25.750 til stöðvar 27.540 ráði bakki Norðurár. Einnig er gerð sú krafa að eignarnámið taki til alls lands sem nemur 30 m frá miðju fyrirhugaðs vegar nær hlíðinni frá stöð 23.770 til 25.750 en frá stöð 20.900 til stöðvar 23.770 og frá stöð 25.750 til stöðvar 27.540 að ytri brún reiðleiðar.

Eignarnámsþoli bendir á að frá stöð 20.900 til stöðvar 23.770 leiði ákvörðun eignarnema, um að nýta núverandi veg sem reiðleið, til þess að land á milli hennar og fyrirhugaðs vegar komi ekki til með að gagnast eignarnámsþola. Þannig verði t.d. ekki hægt að planta trjám fyrr en ofan við núverandi veg. Þá sé fyrirhugað lón í námu C til seiðauppeldis innan þessa svæðis. Eignarnemi hafi einnig uppi áform um að gera bílastæði innan þessa svæðis til að tryggja aðgengi að Skeljungshöfða, en þá girði lög fyrir að byggja megi innan 100 metra frá fyrirhuguðum vegi. Allt séu þetta bótaskyldar takmarkanir á ráðstöfun eignarnámsþola á eign sinni og leiði af vegagerðinni.

Eignarnámsþoli heldur því fram að frá stöð 25.750 til stöðvar 27.540 leiði ákvörðun eignarnema, um að nýta núverandi veg sem reiðleið, til þess að það land þurfi að taka eignarnámi. Fyrirhugaður vegur útiloki eignarnámsþola frá því að stunda nytjaskógrækt á landinu að núverandi vegi.

Eignarnámsþoli krefst þess að allt land frá stöð 25.770 til stöðvar 27.540 verði metið sem skógræktarland en það nær frá bökkum Norðurár að ytri mörkum núverandi vegar og fyrirhugaðri reiðleið. Samkvæmt matsgerð Skógræktar ríkisins, dags. 12. desember 2005, ónýtast vegna eignarnámsins 24 ha. sem allir séu vel fallnir til skógræktar, og hefur Skógrækt ríkisins metið það tjón eignarnámsþola á kr. 402.118 kr./ha. Um sé að ræða vel rökstudda matsgerð frá ríkinu, sem er eignarnemi, og sé hún samin af þeirri ríkisstofnun sem hafi sérþekkingu á þessu sviði. Eignarnámsþoli telur að leggja eigi matsgerðina til grundvallar með þeirri breytingu einni að nákvæmari mælingar sýni að svæðið sé ekki 24 ha. heldur um 26 ha. (26,94 ha að frátöldum  skika við stöð 25.770).

Eignarnámsþoli vekur athygli nefndarinnar á því að upplýsingar séu fyrir hendi að hærra verð sé greitt fyrir grisjun en 30.000 kr. sem fram komi í matsgerðinni og allt upp í 60.000 kr. Einnig bendir eignarnámsþoli á að gleymst hafi í matsgerðinni að reikna með tekjum fyrir skógarhögg með útdrætti en hann sé á bilinu 150.000–250.000 kr. Rétt væri því að taka tillit til þessa við útreikning eignarnámsbóta en eignarnámsþoli hafi hins vegar ákveðið að leggja til grundvallar sama verð á hektara og gert er í matsgerðinni. Er það gert til einföldunar málsins en einnig til þess að tryggja að enginn vafi geti leikið á um að allar kröfur eignarnámsþola hafi tryggan stuðning í gögnum málsins.

Eignarnámsþoli heldur því fram að á hluta af svæðinu frá stöð 20.900 til stövar 23.770 sé land sem vel er fallið til skógræktar en mun ekki nýtast eignarnámsþola þar sem núverandi vegur sem reiðleið og fyrirhugaður vegur munu takmarka um of ræktunarskilyrði þess lands sem liggur á milli þessara samgönguæða. Á þetta ekki við um allt landið en samkvæmt framlögðu korti sé varlega reiknað að landið sé um 7 ha. Um almennan rökstuðning fyrir þessari kröfu er vísað til matsgerðar Skógræktar ríkisins, dags. 4. október 2006, og til meðfylgjandi korts þar sem glögglega megi sjá að aðstæður séu kjörnar til skógræktar ef núverandi vegur hefði farið. Leiði það af ákvörðun eignarnema um að nýta núverandi veg áfram sem reiðleið að þessi skógrækt verði áfram útilokuð og ekki hægt að planta út fyrr en ofan við reiðleiðina. Athygli er vakin á því að þar sem land Silfrastaða sé að mestum hluta orðið samningsbundið vegna skógræktar við Norðurlandsskóga þá hafi jörðin sérstakan forgang við að gera slíka samninga um annað land jarðarinnar.

Varðandi annað land en metið hefur verið skóræktarland vísar eignarnámsþoli til þess að um sé að ræða land frá stöð 20.900 til stöðvar 23.770, en landið liggi frá núverandi vegi, fyrirhugaðri reiðleið og út fyrir 30 m veghelgunarsvæði. Hér komi til frádráttar þeir 7 ha. sem þegar hefur verið fjallað um en að því gættu sé stærð landsins 29,58 ha. (36,58-7). Í þennan flokk falli einnig 60 m vegbreiddin frá stöð 23.770 til stöðvar 25.750 en það land sé 11,8 ha. Alls falli því í þennan flokk 41,38 ha. af landi. Telur eignarnámsþoli eðlilegt með hliðsjón af úrskurðum nefndarinnar í málum nr. 1/2006 og 5/2006 að land þetta verði metið á 125.000 kr./ha.

Eignarnámsþoli vísar til þess að í grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, kemur fram regla um að við deiliskipulag svæða utan þéttbýlis skuli þess gætt að ekki sé byggt nær stofn- og tengiverum en 100 m. Telur eignarnámsþoli að ekki verði hjá því komist að hafa hliðsjón af þessari reglu við mat eignarnámsbóta. Hér telur eignarnámsþoli eðlilegt að miða við 2/3 hluta landverðs.

Varðandi hugsanlegan frádrátt vegna núverandi vegar sem ekki verður notaður sem reiðleið og fellur til eignarnámsþola er bent á að eignarnámsþoli hafi þurft að lifa við þær takmarkanir og skerðingar vegna vegarins í áratugi án þess að hafa fengið nokkrar bætur. Telur eignarnámsþoli að ekki hefi verið sýnt fram á hverjar hagsbætur eignarnámsþola kunna að verða við að fá þennan hluta vegarins til baka og þaðan af síður að þær hafi verið metnar til fjár. Verði niðurstaða nefndarinnar allt að einu sú að einhverjar fjárhagslegar hagsbætur muni leiða af þessu fyrir eignarnámsþola umfram almenning þá gerir eignarnámsþoli þá kröfu að sá bótaþáttur verði lagður að jöfnu við aðra bótaþætti sem nefndin þarf að meta að álitum og lúta að takmörkun á veiði og möguleikum til malarnáms eignarnámsþola í farvegi Norðurár.

Af hálfu eignarnámsþola er fallist á þau einingarverð sem eignarnemi leggur til grundvallar vegna bóta fyrir malarefni.

Eignarnámsþoli heldur því fram að fyrirhugaður vegur muni hafa áhrif á veiðistaði fyrir landi Silfrastaða og þá sérstaklega frá stöð 21.300 til stöðvar 23.500. Þar séu nú góðir veiðistaðir en Norðurá mun leggjast þar í stríðan streng með fram grjótvörn hans á löngum köflum.

Þá krefst eginarnámsþoli bóta fyrir jarðrask, átroðning og óhagræði af skiptingu landsins.

 

 

NIÐURSTAÐA

Jörðin Silfrastaðir er í Norðurárdal í Skagafirði, skammt frá Öxnadalsheiði. Eignarnámið nær til vegstæðis eftir því sem næst endilangri jörðinni og efnistöku. Samkvæmt gögnum málsins er lengd vegarkaflans sem liggur um land jarðarinnar 6.740 metrar. Eignarnemi telur að landspildan sem eignarnámið tekur til sé 44,01 ha. að stærð og miðar eignarnemi það flatarmál við 30 metra frá miðlínu vegarins eða 60 metra breitt vegsvæði auk svæðis undir bílastæði við Skeljungshöfða og svæðis skammt vestan við Garðsgil sem ónýtist til skógræktar.

Af þessu landi eru 14,91 ha. ræktanlegt land. Eignarnámsþoli stundar skógrækt á landi sínu. Verður því við mat þetta að líta til þess hvernig hið eignarnumda land hefði getað nýst honum við skógræktina. Fyrir liggur matsgerð um brúttótekjur af skógrækt á þessu svæði. Lítur nefndin til hennar við ákvörðun bóta enda ekkert fram komið sem rýrir gildi hennar. Að þessu gættu og teknu tilliti til kostnaðar við skógræktina telur nefndin að bætur vegna þessa svæðis séu hæfilega metnar 4.473.000 krónur (14,91 ha. x 300.000).

Hluti hins eignarnumda svæðis, eða 29,10 ha. eru á áreyrum. Það svæði er mun síður fallið til skógræktar en þess ber þó að gæta að við gerð vegarins  mun ágangur árinnar verða heftur þannig að mögulegt verður að nýta svæðið til skógræktar þótt tilkostnaður verði meiri. Telur nefndin bætur vegna þessa hæfilega ákveðnar 2.910.000 krónur (29.1 ha. x 100.000). Samtals eru bætur vegna þessara þátta  7.383.000 krónur.

Svæði á austasta hluta jarðarinnar eða frá Garðsgili að Kotagili er vel fallið til skógræktar. Hinn nýi vegur sker þetta svæði eftir endilöngu og rýrast við það möguleikar til skógræktar þar. Nefndin telur að bæta beri 10 ha af þessu svæði og er þá tekið tillit til þess að hluti þess er þegar bættur vegna hins nýja vegstæðis og einnig var friðunarsvæði með gamla veginum sem fellur nú til eignarnámsþola. Eftir sem áður er þetta svæði til umráða fyrir eignarnámsþola. Nefndin telur að hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna þessa þáttar séu 2.000 000 króna ( 10 ha. x 200.000).

Eignarnámsþoli hefur krafist bóta vegna svæðis á áreyrum vestan við Garðsgil og utan veghelgunarsvæðisins. Nefndin telur ekki efni til að bæta svæði þetta enda er það ekki nýtanlegt nú en kann að verða það eftir að nýi vegurinn hefur verið lagður. Þá verður ekki fallist á það með eignarnámsþola að regla um bann við byggingum nær vegi en 100 metrum komi til álita hér með því að núverandi vegarstæði fellur til eignarnámsþola við færslu vegarins.

Ekki er ágreiningur um það með aðilum að bætur fyrir jarðrask, átroðning og óhagræði af skiptingu lands skuli nema 838.500 krónum og ákvarðast bætur í þessum þætti samkvæmt því.

Enginn ágreiningur er með aðilum um það að einingaverð efnis sem eignarnemi tekur úr námum í landi Silfrastaða skuli nema 50 krónum fyrir rúmmetra burðarlagsefnis og 15 krónum fyrir rúmmetra fyllingarefnis. Verður það verð lagt til grundvallar hér. Hins vegar deila aðilar um magn efnis vegna þess að eignarnámsþoli telur að námur eigi að skiptast eftir miðlínu farvegar Norðurár en eignarnemi vill skipta til helminga með eigendum aðliggjandi jarða. Það liggur utan valdheimilda matsnefndar eignarnámsbóta að skera úr þessu álitaefni.
Aftur á móti deila aðilar ekki um það að 30.700 rúmmetrar burðarlagsefnis komi úr námu eignarnámsþola og 165.100 rúmmetrar af fyllingarefni. Bætur vegna þessa þáttar ákvarðast því þannig að vegna burðarlagsefnis eru bætur 1.535.000 krónur (50 x 30.700) og vegna fyllingarefnis 2.476,500 krónur (15 x 165.100) eða samtals 4.011.500 krónur vegna efnis.

Samkvæmt öllu framansögðu ákvarðast bætur til eignarnámsþola í máli þessu samtals 14.233.000 krónur. Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþola 1.494.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og 850.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi, Vegagerðin, greiði eignarnámsþola, Jóhannesi Jóhannssyni, 14.233.000 krónur og 1.494.000 krónur í málskostnað.

Eignarnemi greiði 850.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                                  Allan V. Magnússon

                                                                                              Benedikt Bogason

                                                                                              Vífill Oddsson

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta