Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 157 Slysatrygging

 

Þriðjudaginn 8. ágúst 2006

 

 

157/2006

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

 

 Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 29. maí 2006 kærir B f.h. A synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. mars 2006 um bætur úr slysatryggingum almannatrygginga.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir að þann 20. desember 2005 var Tryggingastofnun ríkisins tilkynnt um vinnuslys, sem kærandi varð fyrir 21. apríl 2000.  Í reit 20 á tilkynningarblaði til Tryggingastofnunar var nákvæm lýsing á tildrögum og orsök slyss eftirfarandi:

 

 „Var að vinna sem flugfreyja um borð í flugi á leið til Oslo í aðflugi pullaði vélin snögglega upp með þeim afleiðingum að ég féll í gólfið og varð fyrir meiðslum í baki og fæti.”

 

Í læknisvottorði C, dags. 10. desember 2005, en vottorðið er byggt á sjúkraskýrslum slysa- og bráðadeildar LSH í Fossvogi, segir m.a.:

 

  Sjúklingur leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi þann 21.04.2000 og er skráð inn kl. 16:08. Sjúklingur starfar sem flugfreyja og hafði verið við vinnu sína um borð í flugvél um kl. 10:00 að morgni komudags.

   Skömmu fyrir lendingu í Osló lenti flugvélin í ókyrrð og hrasaði sjúklingur þá og fékk vinding um ökkla og hné á vinstri fæti. Hefur hún átt erfitt með að stíga í fótinn eftir það.

 

   Við skoðun þá er svolítill vökvi í vinstri hnélið og það virðast vera eymsli yfir liðbandi sem liggur innanvert yfir hnéliðinn. Þá er hún aum yfir efri enda á sperrilegg og loks eru eymsli innanvert við vinstri ökkla. Ekki er að sjá neina bólgu yfir ökklanum né heldur finnst neitt los þegar togað er í liðböndin. Liðbönd um hnélið virðast sömuleiðis vera stabil.

 

   Greining sem sjúklingur fær er tognun á ökkla og tognun á hné. Þarna hafði verið um að ræða snúningsáverka.

 

   Fær sjúklingur teygjusokk um hné og ökkla til að nota næstu daga og ráðlagt að sleppa vinnu a.m.k. næstu viku.

 

Fór hún við svo búið það sinn.

 

Sjúklingur kemur á endurkomu þ. 03.05.2000 og þann dag er hún með einkenni frá liðböndum bæði frá vinstra hné og vinstri ökkla og enn finnast svolítil merki um vökva í hnéliðnum. Hún hafði ekki verið í vinnu frá því hún meiddi sig við þessa komu og gangur mála og bati virtist vera á eðlilegu róli. Fór hún við svo búið þennan dag.

 

Sjúklingur kemur loks þann 17.05.2000 og er það síðasta koma vegna þessa máls. Hún kveðst hafa byrjað að fljúga 12.05. og segist öll vera að koma til. Svolítill þroti er enn um ökklann og einstaka sinnum koma sársaukalitlir smellir í hnéð. Talið er að ekki sé um annað betra að ræða en að bíða og sjá hvað úr þessu ætlar að verða því að mörg tognunareinkenni svipuð þessum jafnar sig þegar ögn lengra líður frá áverkadegi og sjúklingur hefur sýnt að hún er á batavegi.”

 

Tryggingastofnun hafnaði bótaskyldu með bréfi dags. 2. mars 2006.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 

„ Slysið varð þegar umbj. minn var að vinna sem flugfreyja hjá D á leið til Osló. Í aðflugi rétt fyrir lendingu “pullaði” vélin snögglega upp með þeim afleiðingum að umbj. minn féll harkalega í gólfið og varð fyrir meiðslum á baki og fæti. Umbj. minn leitaði strax á slysadeild Landspítalans á Fossvogi eftir komu til landsins. Meiðsli hennar í fyrstu voru aðallega á vinstra fæti og fékk hún meðferð á slysadeild, sbr. meðfylgjandi vottorð frá slysadeild. Umbj. minn fór síðan fljótlega að finna fyrir meiðslum í baki en m.a. vegna veikinda móður hennar, sem lést í kjölfarið, lét hún ekki verða af því að fara til læknis vegna einkenna í baki fyrr en í desember 2001. Hún harkaði því af sér á þessu tímabili en leitaði síðan til heimilislæknis og hefur verið í sjúkraþjálfun og stundað jóga Eins og fram kemur í meðfylgjandi vottorði heimilislæknis hefur umbj. minn fundið fyrir tognunareinkennum í baki og versnandi mígreni eftir slyssið og býr hún við verulega minnkað álagsþol í bakinu til frambúðar. Þá hefur hún fundið fyrir tognunaráverka á hnélið sem truflar hana m.a. við allar stöður og göngur.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 31. maí 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Greinargerðin er dags. 13. júní 2006.  Þar segir m.a.:

 

„ Þann 8. febrúar 2006 óskar Tryggingastofnun eftir læknisvottorði frá þeim lækni sem stundaði hana vegna afleiðinga slyssins á tímabilinu frá apríl 2000 til desember 2001. Svar barst frá E hdl. dags. 20. febrúar 2006 en þar segir m.a.: „Skv. upplýsingum frá umbj.mínum fór hún á slysadeildina strax eftir slysið og harkaði síðan af sér þar til hún leitaði til heimilislæknis síns í desember 2001."

   Samkvæmt ofangreindu átti slysið sér stað 21. apríl 2000. Við komu á slysadeild samdægurs er lýst áverka á ökkla og vinstra hné. Við endurkomu 3. maí 2000 og 17. maí 2000 eru áverkar vegna ökkla og vinstra hnés að ganga til baka og ekki minnst á neina verki frá baki, herðum, hálsi eða hnakka. Ekki er minnst frekar á óþægindi frá ökkla og vinstra hné eftir þetta. Fyrst er minnst á bakverki eftir slysið í símtali við lækni þann 3. desember 2001 eða tæplega tveimur árum eftir slysið. Fyrst er minnst á aukna höfuðverki eftir slysið 25. september 2002 eða tæplega tveimur og hálfu ári eftir slysið.

 

Eins og áður segir eru bætur ekki greiddar lengra aftur í tímann en tvö ár. Varðandi áverka frá ökkla og vinstra hné hefur engum óþægindum frá ökkla eða vinstra hné verið lýst eftir 17. maí 2000 og er samkvæmt því ekki sýnt fram á að um varanlegt mein vegna slyssins sé að ræða. Fram kemur í örorkumati F læknis dags. 24. janúar 2006 að varanlegar afleiðingar séu vegna áverka á vinstra hné. Því er sérstaklega mótmælt með vísan til framangreinds auk sem byggt á skoðun læknis sem fram fór 6 árum eftir slysið. Umsókn um bætur vegna þess fellur því utan ákvæða laganna.

 

Orsakasamband milli áverka nú sem eru tognunareinkenni á baki og versnandi mígreni og slyssins þann 21. apríl 2001 eru hins vegar afar óljós. Umrædd einkenni eru hvergi nefnd í tæplega tvö ár eftir slys þrátt fyrir nokkrar komur til lækna á umræddum tíma. Þannig liggja engar samtímaheimildir fyrir um umrædd einkenni enda mun hún ekki hafa leitað til læknis vegna þeirra. Samkvæmt því er ekki unnt að meta læknisfræðilegt orsakasamband milli slyssins og heilsutjóns hennar. Áðurnefnt örorkumat F breytir ekki kröfum almannatryggingalaga um orsakasamband milli slyss og áverka. Skilyrði til að víkja frá lagaákvæði um fyrningu er því ekki til staðar. Ekki er talið að lögð hafi verið fram fullnægjandi gögn til að sýna fram á að um sé að ræða vinnuslys sem bótaskylt sé skv. almannatryggingalögum. Kærandi verður sjálf að bera hallan af sönnunarskorti um meinta áverka árið 2000 og ástands hennar í dag.”

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 14. júní 2006 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt hefur ekki borist.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Kærandi var þann 21. apríl 2000 að vinna sem flugfreyja í aðflugi að Osló þegar vélin lenti í ókyrrð með þeim afleiðingum að kærandi hrasaði og fékk vinding um ökkla og hné á vinstri fæti.  Hún átti erfitt með að stíga í fótinn og leitaði strax við komu til landsins á slysasdeild. Sjúkdómsgreining var tognun á ökkla og hné.  Tilkynning til Tryggingastofnunar um vinnuslys er dags. 16. desember 2005.  Tryggingastofnun hafnaði bótaskyldu þann 2. mars 2006.

 

Í rökstuðningi kæranda segir m.a. að hún hafi leitað á slysadeild strax eftir komu til landsins.  Meiðsl hennar hafi í fyrstu aðallega verið á vinstra fæti og hafi hún fengið meðferð á slysadeild.  Fljótlega hafi kærandi farið að finna fyrir einkennum frá  baki, en vegna veikinda og andláts móður hafi hún ekki leitað til læknis vegna baksins fyrr en í desember 2001.  Ennfremur hafi kærandi verið verri af mígreni eftir slysið.  Kærandi hafnar því að ekki sé unnt að meta orsakasamband milli einkenna nú og slyssins 21. apríl 2000 og vísar máli sínu til stuðnings til örorkumats F, læknis dags. 24. janúar 2006. 

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til 23. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar þar sem segir að slys skuli tilkynna tafarlaust og í síðasta lagi innan árs frá því slysið bar að höndum.  Ennfremur að heimilt sé samkvæmt 2. mgr. 23. gr. að víkja frá tímamörkum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði sem máli skipta.  Kærandi hafi lent í slysi í apríl 2000 en slysið hafi ekki verið tilkynnt Tryggingastofnun fyrr en í desember 2005. Eins árs tilkynningarfrestur hafi því verið löngu liðinn. 

 

Í greinargerðinni segir að við komu á slysadeild á slysdegi sé lýst einkennum frá  ökkla og vinstra hné.  Eftir endurkomu 17. maí 2000 sé ekki frekar minnst á óþægindi frá ökkla og hné.  Í símtali við lækni þann 3. desember 2001, eða einu og hálfu ári eftir slys,  sé fyrst minnst á bakverki eftir slysið.  Þá sé fyrst þann 25. september 2002 minnst á aukna höfuðverki eftir slysið. Orsakasamband milli slyssins 2000 og tognunareinkenna í baki og versnandi mígreni sé því óljóst.  Örorkumat F breyti þar engu og kærandi verði sjálf að bera hallann af sönnunarskorti.

 

Samkvæmt 23. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar skal, þegar að höndum ber slys, sem ætla má bótaskylt samkvæmt III. kafla laganna, atvinnurekandi eða hinn tryggði, ef ekki er um atvinnurekanda að ræða, tafarlaust tilkynna um slysið og í síðasta lagi innan árs frá því að slysið bar að höndum. Þeim sem vilja gera kröfu til bóta vegna slyssins ber samkvæmt ákvæðinu að fylgjast með því að tilkynningarskyldunni sé fullnægt. Heimilt er þó samkvæmt 2. mgr. 23. gr. að greiða bætur samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur með reglugerð, sbr. lög nr. 91/2004 um breytingu á almannatryggingalögum, þótt liðið sé ár frá því að slys bar að höndum ef atvik eru svo ljós að drátturinn torveldar ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta. Núgildandi reglugerð er nr. 356/2005, en árið 2000 gilti að tryggingaráð gat ákveðið að greiða bætur þó að lengri tími liði ef atvik voru svo ljós að drátturinn torveldaði ekki gagnaöflun um atriði er máli skipti.  Í því fólst að fyrir þurfti að liggja læknisfræðilegt mat á orsakasambandi, þ.e. að unnt væri að meta orsakasamband slyssins og heilsutjóns hins slasaða.

 

Atburður sá sem kærandi tilkynnti Tryggingastofnun 20. desember 2005 varð þann 21. apríl 2000.  Það liðu því tæp sex ár frá slysi og þar til tilkynning barst stofnuninni en frestur til að tilkynna slys er eitt ár nema í undantekningartilvikum, sbr. tilvitnuð lög og reglur. Undantekningarákvæði ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Skilyrði þess að vikið sé frá ársfrestinum er að vafalaust sé af fyrirliggjandi gögnum að orsakasamband sé á milli slyss og þess áverka sem sótt er um bætur fyrir. 

 

Í málinu liggur fyrir vottorð C, sérfræðings á slysa- og bráðadeild LSH í Fossvogi dags. 10. desember 2005.  Vottorðið er byggt á skýrslum slysa- og bráðadeildar.  Samkvæmt vottorðinu leitaði kærandi á slysa- og bráðadeild LSH í Fossvogi þann 21. apríl 2000 vegna slyss er hún varð fyrir þann sama dag.  Kærandi hafði átt erfitt með að stíga í vinstri fót eftir að hafa fengið vinding um ökkla og hné.  Við skoðun var svolítill vökvi í vinstri hnélið og það virtust eymsli yfir liðbandi sem liggur innanvert yfir hnéliðinn.  Þá var kærandi aum yfir efri enda á sperrilegg og loks voru eymsli innanvert við vinstri ökkla.  Ekki var að sjá neina bólgu yfir ökklanum né heldur fannst neitt los þegar togað var í liðböndin.  Liðbönd um hnélið virtust sömuleiðis vera stöðug.  Greining var tognun á ökkla og tognun á hné.  Við síðustu endurkomu 17. maí 2000 var kærandi á batavegi og farin að vinna.

 

Í læknisvottorði G, yfirlæknis á Heilsugæslunni H dags. 9. desember 2005 segir m.a. varðandi fyrra heilsufar: ,, [ ... ] að í mars mánuði 1984 hafi A dottið af hestbaki og marist afar illa á hægri rasskinn.  Átti hún í þeim vanda alls um 7 mánaða tímabil, en náði sér loks að fullu – án viðvarandi fylgikvilla.

 

Árið 1990 greinist mígrini hjá A og tengist sá sjúkdómur því slysi , sem að hún varð fyrir árið 2000, enda versnuðu einkennin töluvert um langa hríð í kjölfar þess.

 

Í september mánuði, 1992, kvartar A um vöðvabólgu í hálsi og herðum og henni er því ráðlagt að stunda hita og sund.

 

Í mars mánuði, 1994, er skrifuð beiðni um sjúkraþjálfun fyrir A vegna einkenna frá hálsi, herðum og baki.  Náði hún sér fljótt af þeim kvilla.”

 

Í læknisvottorðinu segir að kærandi hafi fyrst leitað til Heilsugæslu H vegna slyssins þann 3. desember 2001.  Þá hafi hún símleiðis lýst bakverkjum vegna slyssins og beðið um beiðni í sjúkraþjálfun.  Hún segir að bakverkjaeinkennin hafi ekki komið fram fyrr en töluvert eftir að slysið átti sér stað.  Þann 9. desember 2002 leitar kærandi á slysadeild og er greind með vöðvabólgueinkenni.  Á árunum 2001 til 2004 óskar kærandi ítrekað eftir framhaldsbeiðnum vegna sjúkraþjálfunar.  

 

Við skoðun á stofu hjá lækninum þann 9. desember 2005 komu fram hjá kæranda vöðvaeymsli í bakvöðvum, hálsi og herðum.  Einnig dálítill stirðleiki.  Að öðru leyti eðlileg.  Í samantekt læknisins segir að í kjölfar slyssins 2000 hafi borið mest á einkennum frá ökkla og hné vinstra megin til að byrja með, en síðan hafi farið að bera á tognunareinkennum í baki.  Sennilega muni kærandi sitja uppi með verulega minnkað álagsþol í bakinu til frambúðar.

 

Í örorkumati F dags. 24. janúar 2006 segir um núverandi kvartanir:

 

,,A kvartar um óþægindi frá vinstra hné.  Kveðst finna fyrir þreytu í öllu hnénu eftir að vinna, svo og að liggja á hnjánum og stundum við að ganga upp stiga.

 

A kveðst hafa haft óþægindi fyrst eftir slysið og verið með teygjuumbúðir í nokkra mánuði.  Hálfu til einu ári eftir slysið hafi hún verið orðin alveg einkennalaus frá vinstri ökklalið og sé það enn. 

 

A kvartar um óþægindi á víð og dreif um bak og bol.  Einkenni hafi komið fram nokkru eftir slysið en man ekki nákvæmlega hvenær þau byrjuðu.  [ ... ]”

 

Þá er sjúkdómsgreining samkvæmt örorkumatinu: 

 

,,1.  Tognun á innra hliðarliðbandi vinstri hnéliðar (háð slysi 21.04.2000).

2.      Tognun í vinstri ökkla sem hefur jafnað sig (háð slysi 21.04.2000).

3.      Brjóstbaksónot (hugsanlega tengd slysi 21.04.2000).”  

 

Að því er varðar sönnunargildi örorkumats F, læknis um orsakasamband milli ástands kæranda þegar mat fór fram og slyssins,  þá er til þess að líta að matið fór fram 19. janúar 2006 eða tæpum sex árum eftir slysaatburðinn.  Ekki verður séð að önnur eða betri gögn hafi legið fyrir við matsgerðina en þau sem úrskurðarnefndin, sem m.a. er skipuð lækni, hefur undir höndum.

 

Óumdeilt er að kærandi lenti í vinnuslysi  21. apríl 2000 og var samdægurs greind með tognun á ökkla og hné vinstri fótar. Að sögn kæranda var hún frá vinnu eftir slysið til og með 7. maí 2000. Samkvæmt vottorði heilsugæslulæknis var það ekki fyrr en 3. desember 2001 að kærandi hafði samband símleiðis og lýsti bakverkjum sem afleiðingu vinnuslyssins eða um einu og hálfu ári eftir slys.  Kærandi segir að bakverkjaeinkenni hafi ekki komið fram fyrr en töluvert eftir að slysið átti sér stað án þess að geta tilgreint tíma nánar.  Engar samtímaheimildir eru því til um bakverki kæranda á tímabilinu frá apríl 2000 til og með nóvember 2001. Ennþá seinna eða 25. september 2002 kvartar kærandi yfir auknum höfuðverkjum í kjölfar slyssins.  Hins vegar kemur fram í læknisvottorði að kærandi hafi mörgum árum fyrir slysið greinst með mígreni og haft einkenni frá hálsi, herðum og baki og verið í sjúkraþjálfun þess vegna.  Að mati úrskurðarnefndar sem m.a. er skipuð lækni er orsakasamband milli einkenna frá baki og versnandi höfuðverkjar nú og slyssins 2000 afar óljós. Ekki er fyrir að fara samtímagögnum sem staðreyna þessa afleiðingu slyssins, þrátt fyrir að kærandi hafi ítrekað verið undir læknishendi. Þá eru ábendingar í gögnum málsins að umrædd einkenni kunni að eiga sér aðrar orsakir en slysið a.m.k. að hluta. Af þessum sökum verður ekki ráðið af fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum að orsakasamband sé milli atburðar í apríl 2000 og bakverkja og höfuðverkja kæranda nú.

 

Samkvæmt  örorkumati F finnast í vinstra hné væg eymsli yfir innra hnéliðbandi og hnéliðsglufu og minni óþægindi yfir ytri hnéliðsglufu.  Liðbönd stöðug, hreyfiferlar eðlilegir, ekki vökvi í lið og ekki óþægindi við tilfærslu hnéskeljar.  Gert er ráð fyrir að óþægindin verði viðvarandi og trufli kæranda við stöður og göngur.  Að mati úrskurðarnefndar verður orsakasamband nægilega ráðið af fyrirliggjandi gögnum milli vinnuslyssins og eymsla í vinstra hné.   Skilyrði eru því fyrir hendi til að beita undantekningarreglu 2. mgr. 23. gr. laga nr. 117/1993 um að víkja frá eins árs tilkynningarfresti að því er varðar þennan þátt málsins.

 

Við mat á varanlegri örorku kæranda vegna áverka á vinstra hné er stuðst við töflu Örorkunefndar frá 1994 um miskastig.  Þar sem í töflunni er ekki að finna samskonar áverka og kærandi hlaut er stuðst við áverka sem eru sem næst sambærilegir.  Samkvæmt 4. tl. b. B. IV. kafla, en kaflinn fjallar um útlimaáverka, svarar óstöðugt hné eftir minniháttar liðbandaáverka til 5 miskastiga.  Að mati nefndarinnar, sem m.a. er skipuð lækni, eru eymsli kæranda frá vinstra hné minni en þau einkenni sem svara til 5 miskastiga.  Samkvæmt 6. mgr. 29. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar greiðast örorkubætur ekki ef orkutapið er metið minna en 10%.  Samkvæmt því kemur ekki til greiðslu örorkubóta til kæranda vegna vinnuslyss 21. apríl 2000.    

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Greiðslu örorkubóta til A er hafnað þar sem orkutapið er undir 10%. 

 

F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta