Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 119 Ofgreiddar bætur

Miðvikudaginn 13. september 2006

 

119/2006

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi mótt. 10. apríl 2006 hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga kærir A endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta ársins 2004.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með bréfi Tryggingastofnunar dags. 1. apríl 2006 var kæranda tilkynnt að vegna beiðni hennar um breytta tilhögun bóta væri samþykkt að frádráttur af greiðslum hennar yrði kr. 5.800 á mánuði í 36 mánuði frá og með 1. apríl 2006.

           

Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:

 

„Ég hef orðið vör við að bæturnar minar hafa lækkað, og að það sé dregið af mér i hverjum mánuði.

  Ég hef þess vegna hringt i starfsfólk þjónustumiðstöðvar og spurt út i þetta.

  Þar var mér sagt að það sé dregið af mér vegna þess að ég hafi haft of miklar tekjur i 2003. Ég sagði þeim að það gæti ekki verið rétt.

  Í dag fékk ég bréf það sem mér var sagt að það væri dregið af mér af þvi að ég hafi fengið of mikið greitt i 2004. (bréf sent með).

  Út af öllu þessu þá sendi ég hér ljósrit af öllum minum skattaskýrslum frá Noregi frá árinu 2002 - til 2006.

  Þar getið þið séð svart á hvitu að ég hef ekki haft neinar rosa tekjur þessi ár.

Ég sendi einnig með vottorð frá lindorf þar sem segir að ég sé stórskuldug við bankann minn. Fjárhæð 262.258 Nkr.

Ég er það sem kallað er á Norsku gjelds offer.

Og það bendir nú ekki á að ég hafi haft of mikla peninga.?

Þær bætur sem ég fékk greitt aftur i timann á sinum tima - þegar ég fékk örorkubætur, á maður vist ekki að borga skatt af eftir þvi sem mér er sagt.

Og eins og þið sjáið af þeim tekjum sem ég hef haft siðustu árin þá hef ég ekki haft neinar rosalegar tekjur, einfaldlega af þvi að ég hef verið veik.

Ég vil þess vegna biðja ykkur umm að fara rækilega i gegn umm þetta mál og rétta það upp fyrir mig.

Eins og þið sjáið af heimilisfanginu þá bý ég i Sviþjóð núna, einfaldlega vegna þess að hér er húsaleigan lægri.

Bæturnar mínar eru ekki það háar að ég geti leift mér mikið.

Áður bjó ég i Noregi i nokkur ár, og fæ örorkubætur frá Noregi 4.900 nkr á mánuði. Ég borga skatt af þeim til Noregs. “

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 18. apríl 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.  Ítrekað var óskað eftir frestum af hálfu stofnunarinnar til að skila greinargerð þar sem ekki hefði verið unnt að fara yfir mál kæranda vegna breytinga á tölvukerfi. Barst greinargerð dags. 15. júní 2006. Þar segir m.a.:

 

„Kærð er lækkun á örorkulífeyrisgreiðslum og frádrátt af greiðslum vegna ofgreiðslu. Eftir að óskað hafði verið eftir upplýsingum um erlendar tekjur frá lífeyrisþegum búsettum erlendis vegna endurreiknings lífeyrisgreiðslna fyrir árið 2004 bárust frá kæranda tekjuyfirlýsing þar sem hún kvaðst ekki hafa haft neinar tekjur, norskt skattframtal þar sem fram kom að lífeyrisgreiðslur hennar væru 63.160 NOK og launaseðill þar sem fram kom að örorkulífeyrisgreiðslurnar hennar skiptust í “grunnpensjon” (sem hefur ekki áhrif á útreikning lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins) og “tilleggspensjon” (sem reiknast sem tekjur við útreikning á lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins þar þær greiðslur eru sambærilegar greiðslur við greiðslur úr lífeyrissjóði hér á landi). Hún hefur einnig frá árinu 2004 verið að fá greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóði sem hún hefur ekki tilkynnt um.

 

Kærandi hefur verið að fá greiðslur miðað við að hún hafi ekki neinar aðrar tekjur en greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust vegna endurreiknings á lífeyrisgreiðslum til hennar á árinu 2004 hefur hún á hinn bóginn verið að fá tekjur sem hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur til hennar frá Tryggingastofnun ríkisins. Tekjurnar eru yfir þeim mörkum að réttur sé á tekjutryggingarauka en undir skerðingarmörkum annarra greiðslutegunda, þ.e. hafa ekki áhrif á útreikning annarra greiðslutegunda. Greiðslur tekjutryggingaauka sem átt hafa sér stað til hennar eru því ofgreiddar og er skv. 50. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 heimilt að draga allt að 20% af mánaðarlegur greiðslum upp í ofgreiðsluna þar til hún er að fullu innheimt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 19. júní 2006 og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda bárust 28. júní 2006 og voru þær kynntar Tryggingastofnun.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar endurkröfu ofgreiddra bóta ársins 2004.  

 

Í kæru segir kærandi að hún hafi orðið vör við að bætur hennar hafi lækkað og dregið hafi verið af bótum hvers mánaðar. Hún hafi fengið þær upplýsingar að henni hafi verið greiddar of háar bætur á árinu 2004. Segist kærandi ekki hafa haft neinar tekjur að ráði árin 2002 til 2006. Einnig sé hún stórskuldug við bankann sinn.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að greiðslur til kæranda úr norsku almannatryggingakerfi hafi skipst í „grunnpension“ og „tilleggspensjon“ og hafi síðarnefndu bæturnar áhrif á greiðslur lífeyris frá Íslandi enda séu þær samsvarandi greiðslum úr lífeyrissjóði á Íslandi. Einnig hafi kærandi fengið greiðslur frá íslenskum lífeyrissjóði sem hún hafi ekki tilkynnt um. Segir ennfremur að kærandi hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eins og hún hafi engar aðrar tekjur en greiðslur frá stofnuninni. Við endurreikning bóta ársins 2004 hafi hins vegar komið í ljós að kærandi hafi verið að fá tekjur sem hafi áhrif á lífeyrisgreiðslur til hennar frá Tryggingastofnun ríkisins.

 

Í athugasemdum kæranda, dags. 28. júní 2006, við greinargerð Tryggingastofnunar er því mótmælt að hluti greiðslna almannatrygginga í Noregi hafi áhrif á greiðslur til kæranda frá Tryggingastofnun. Kærandi segir ekki rétt að „tilleggspensjon“ séu sambærilegar greiðslur og lífeyrisgreiðslur á Íslandi.

 

Úrskurðarnefndin tók málið fyrir á fundi sínum 5. júlí sl. Var þá ákveðið að óska viðbótargreinargerðar Tryggingastofnunar þar sem svarað yrði athugasemdum kæranda dags. 28. júní 2006 og var einnig ítrekuð beiðni um gögn vegna endurreikningsins. Óskað var eftir að svar bærist fyrir 25. júlí 2006. Málið var aftur tekið fyrir á fundi nefndarinnar 23. ágúst 2006 en þar sem viðbótargreinargerð hafði enn ekki borist var afgreiðslu frestað og Tryggingastofnun veittur lokafrestur til að skila greinargerðinni. Þann 13. september 2006 var málið enn tekið fyrir. Hafði greinargerð Tryggingastofnunar þá ekki borist innan veitts lokafrests. Málið var þá afgreitt þar sem nefndin taldi uppkvaðningu úrskurðar ekki geta dregist lengur vegna lögbundinnar skyldu nefndarinnar til að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða, sbr. 7. gr. a. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.

 

Úrskurðarnefndin óskaði eftir gögnum um endurreikning tekjutengdra bóta kæranda árið 2004 sem ekki bárust með umbeðinni greinargerð Tryggingastofnunar. Þau gögn hafa ekki borist þrátt fyrir ítrekun þar að lútandi. Eina fyrirliggjandi gagn í kærumálinu um endurreikning og endurkröfu er bréf til kæranda dags. 1. apríl 2006 um tilhögun frádráttar frá bótum. Að mati nefndarinnar er málið eins og það liggur fyrir ekki tækt til úrskurðar og verður því með vísan til atvika kærumálsins að fella ákvörðun um endurkröfu úr gildi og vísa málinu til nýrrar og fyllri meðferðar hjá Tryggingastofnun.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu á hendur A vegna ofgreiddra bóta ársins 2004 er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar og fyllri meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta