Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2012.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

 

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 18. október 2012

í máli nr. 20/2012:

Fastus ehf.

gegn

Ríkiskaupum

 

Með bréfi, dags. 9. júlí 2012, kærði Fastus ehf. samkeppnisviðræður Ríkiskaupa nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að nefndin stöðvi þegar í stað samningsgerð og innkaupaferli á grundvelli samkeppnisviðræðna nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“ þar til til endanlega hefur verið skorið úr kæru. 

2. Að felld verði úr gildi fyrrgreind ákvörðun kærða um að hafna tilboði kæranda og vísa honum frá áframhaldandi þátttöku í ofangreindum samkeppnisviðræðum, sem og fyrrgreind ákvörðun kærða um að taka tilboði Medor ehf. (Siemens), og að lagt verði fyrir kærða að bjóða út á nýjan leik innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“. 

3. Að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda. 

4. Að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæru þessa uppi og rekstur kærumálsins fyrir nefndinni.“     

Kærða var kynnt kæran og önnur gögn kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir innkaupaferlinu og vali tilboðs. Með bréfi, dags. 20. júlí og 3. ágúst 2012, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá en til vara að öllum  kröfum kæranda yrði hafnað. Kærandi gerð athugasemdir við greinargerð kærða, með bréfi dags. 27. ágúst 2012. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2012, gerði Medor ehf. athugasemdir vegna málsins.  

Með ákvörðun, dags. 27. júlí 2012, stöðvaði kærunefnd útboðsmála samningsgerð kærða við Medor ehf. í kjölfar samkeppnisviðræðna nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

 I.

Í mars 2011 auglýsti kærði eftir þátttöku áhugasamra aðila til að taka þátt í samkeppnisviðræðum um kaup á fjárhagslega hagkvæmustu lausn á sviði tækjabúnaðar og rekstrarlausnum fyrir nýjar kjarna- og bráðarannsóknastofur Landspítala. Viðræðunum var skipt í þrjá áfanga.

            Fyrsti áfanginn var forval þar sem lýst var almennum kröfum til verkefnisins og ákveðið var hverjir kæmust áfram í annan áfangann, þ.e. sjálfar samkeppnisviðræðurnar. Kærandi var meðal þátttakenda í hinu kærða forvali og var valinn til áframhaldandi þátttöku.

            Í apríl 2011 hófst annar áfangi með því að þátttakendur fengu afhent aukin skýringargögn þar sem lýst var efnislega þeim kröfum sem kærði gerði til lausna þátttakenda. Í þessum gögnum komu fram kröfur til viðbótar við þær sem settar höfðu verið fram í fyrsta áfanga og því lýst hvernig þátttakendur áttu að setja fram lausnir sínar eftir gangi viðræðna. Annar áfangi fól í sér viðræður við alla eftirstandandi þáttakendur með það að markmiði að finna og skilgreina hagkvæmustu lausnir til að uppfylla þarfir kærða. Kærði kom á fót svokallaðri viðræðunefnd sem leiddi viðræður við þátttakendur og tekið var fram að nefndin myndi m.a. fara í vettvangsferðir til að kanna lausnir þátttakenda í fullri starfsemi. Í kafla 1.2.6. í skýringargögnum var fjallað nánar um valforsendur og skiptust þær í tvo aðalflokka. Annars vegar „verð“ sem gilti 40% og hins vegar „gæði og tæknilegir eiginleikar“ sem gilti 60%. Valforsendunni „gæði og tæknilegir eiginleikar“ var svo aftur skipt í þrjá matsþætti: A, B og C hluta. Hverjum þeirra var gefið ákveðið hlutfall með eftirfarandi hætti:

            A. Hluti: Clinical chemistry/immunoanalysers (30%)

B. Hluti: Pre and post analytical units (20%)

C. Hluti: Software (10%)

 

Innan hvers hluta voru svo nánar tilgreindar forsendur fyrir vali tilboða. Endanlegar valforsendur voru eftirfarandi, undirflokkum raðað eftir mikilvægi:

            „A. Clinical chemistry/immunoanalysers (30%)

Requirements for analytical capability

Analytical Methods

Sample tubes

Startup

Equipment operational efficiency

Maintenance

Reagents

Calibration

General issues concerning the analytical process

Delivery of supplies

Analysis Equipment; General description of equioment needed to perform the [sic]

Backup equipment

STAT

Calibrators

Re-runs

Quality Control

Data transmission by analyzing equipment connected to the LIS

Racks

 

B. Pre and post analytical units and Conveyer belt (20%)

Preanalytical Equipment

System for interconnecting preanalytical unit and analytical equipment

Input device

Regluar terms

Decapping/Cap-piercing

Output unit

Total capacity

Centrifugation

Capping

General

Aliquotting

Barcode labelling of secondary tubes

Miscellaneous

 

C. Software of analytical instruments and pre- and postanalytical unit conveyer belt management software (10%)

Integration Software (Middleware)

Software for preanalytical equipment

General

Instrument Software

Emergency Procedures

Network connectivity

Connectivity to LIS

Barcodes – FlexLab

Requirements for IT/Network“ 

Tilboðum með aðlöguðum lausnum þátttakenda var skilað hinn 6. janúar 2012 og í kjölfarið áttu sér stað viðræður frá 16. janúar til 19. janúar 2012. Hinn 9. febrúar 2012 skiluðu allir þátttakendur inn aðlöguðum lausnum á grundvelli þess sem komið hafði fram í viðræðunum fram að því. Kærði mat þær lausnir á grundvelli valforsendna og fækkaði eftir það þátttakendum úr fimm í þrjá. Kærandi var annar þeirra sem vísað var frá frekari þáttöku í ferlinu og var tilkynnt um það hinn 23. febrúar 2012. Kærði sendi svo bréf til kæranda, dags. 28. júní 2012, þar sem fram kom rökstuðningur fyrir höfnun tilboðs kæranda.

Í rökstuðningi kærða segir m.a. að í ljós hafi komið í viðræðunum að með tækjabúnaði kæranda hafi verið boðnar færri rannsóknartegundir en hjá öðrum þátttakendum og að fjórðung rannsóknartegunda hafi vantað í lausn kæranda. Við afmörkun lausna í viðræðunum hafi einnig komið fram að kæligeymsla fyrir sýni á færibandi yrði hagkvæm lausn fyrir kaupanda en slíkir kælar hafi verið í tilboðum allra þátttakenda annarra en kæranda. Af þessum ástæðum taldi viðræðunefndin augljóst að lausn kæranda myndi ekki uppfylla þarfir og kröfur kaupanda nægjanlega vel.

Endanleg niðurstaða kærða í hinum kærðu innkaupum var að velja tilboð Medor ehf./Siemens. 

II.

Kærandi telur að ekki hafi verið skilyrði til að nota samkeppnisviðræður samkvæmt 31. gr. laga um opinber innkaup. Kærandi segir að rökstuðningur kærða sé haldinn verulegum annmörkum enda lúti hann meðal annars að kröfum sem ekki eigi sér stoð í innkaupagögnum eða viðræðum aðila.

            Kærandi hafnar rökstuðningi kærða um að skort hafi á rannsóknartegundir. Kærandi segir að sér hafi ekki verið kleift að verðleggja umræddar rannsóknartegundir enda hafi vantað upplýsingar frá kærða um áskilinn mælingafjölda fyrir viðkomandi rannsóknir. Kærandi segir að tækjabúnaður hans ráði við 12 af þeim 24 rannsóknartegundum sem kærði telji að hafi vantað og að þær 12 sem eftir standi hafi allar fallið í „þarf“ flokk samkvæmt upptalningu viðræðugagna en ekki „skal“ flokk. Kærandi segist auk þess hafa boðist til að bæta við tæki, kærða að kostnaðarlausu, til að framkvæma þessar rannsóknir.

            Kærandi segir að enginn áskilnaður hafi verið gerður um sjálfvirka kæligeymslu í auglýsingu innkaupanna eða skýringargögnum og þannig hvergi tekið fram að þær væru ófrávíkjanlegt skilyrði.

            Kærandi segir að tilboð sitt hafi verið 173.554.148 krónum lægra en það tilboð sem kærði valdi. Viðbótarkostnaður vegna rannsóknartegunda sé hverfandi ef einhver, en a.m.k. fari fjarri því að hann sé um 60 milljón krónur eins og kærði segi í sínum rökstuðningi. Kærandi hafnar því að tilboð hans sé ekki samanburðarhæft við önnur tilboð enda hafi verið hægur vandi að bera þau saman með því að draga frá öðrum tilboðum kostnað af því að bæta við kæligeymslu og eftir atvikum 12-14 rannsóknartegundum. Hvað sem öðru líði geti framangreind atriði aldrei réttlætt að valið hafi verið tilboð sem var 173.554.148 krónum hærra en tilboð kæranda. 

III.

Kærði segir að sér hafi verið heimilt að leitast við að finna þær lausnir sem fullnægðu þörfum hans best, sbr. 31. gr. laga um opinber innkaup, og m.a. hafi honum verið heimilt að fækka lausnum í ferlinu. Kærði segir að kærandi misskilji rökstuðninginn enda verði ekki betur séð en að kærandi telji höfnun á tilboði hans hafa byggst á því að tilboðið hafi verið ógilt eða ekki uppfyllt lágmarkskröfur viðræðugagna. Hið rétta sé að fækkun lausna hafi verið byggð á valforsendum og lausn kæranda hafi verið talin uppfylla þarfir og kröfur kaupanda síður en lausnir annarra þátttakenda.

            Kærði segir að úrval boðinna rannsókna í tilboði kæranda hafi verið talsvert minna en hjá öðrum þátttakendum og ljóst að nauðsynlegt yrði að reka önnur tæki til að framkvæma þær rannsóknir sem upp á vanti. Þá segir kærði að við afmörkun lausna í samkeppnis­viðræðunum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að kæligeymsla fyrir sýni á færibandi væri hagkvæmur kostur fyrir kaupanda. Slíkir kælar hafi verið hluti af lausn allra þátttakenda nema kæranda. Kærði segir erfitt að meta þann viðbótarkostnað sem hlytist af því að taka tilboði kæranda og bæta við það tækjum til að uppfylla þarfir kaupanda. 

IV.

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun kærða um að hafna tilboði kæranda og vísa honum frá áframhaldandi þátttöku í hinum kærðu samkeppnisviðræðum. Þá krefst kærandi þess einnig að ákvörðun kærða um að taka tilboði Medor ehf. (Siemens) verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir kærða að bjóða út á nýjan leik innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

            Með úrskurði í dag í máli nr. 19/2012 hefur kærunefnd útboðsmála lagt fyrir kærða að

bjóða að nýju út innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu verða innkaupin boðin út að nýju og þannig er óljóst hvort skilyrði verða til skaðabótaskyldu kærða. Verður að svo búnu að hafna kröfu kæranda um að kærunefnd útboðsmála gefi álit sitt á skaðabótaskyldu.

            Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins og umfangi þess er rétt að kærði greiði kæranda kr. 400.000 vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.  

Úrskurðararorð:

Felld er úr gildi ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um að taka tilboði Medor ehf. (Siemens) í samkeppnisviðræðum nr. 14981 „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

 

Lagt er fyrir kærða, Ríkiskaup, að auglýsa að nýju innkaupin „Tækjabúnaður og rekstrarvara fyrir Kjarna- og bráðarannsóknastofu Landspítala“.

 

Kröfu kæranda, Fastus ehf., um að kærunefnd útboðsmála láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu kærða, Ríkiskaupa, er hafnað.

 

Kærði greiði kæranda kr. 400.000 í málskostnað.

 

 

 

Reykjavík, 18. október 2012.

Páll Sigurðsson

Auður Finnbogadóttir

Stanley Pálsson

                                                            

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                október 2012.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta