Mál nr. 31/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 31. október 2012
í máli nr. 31/2012:
Kynnisferðir ehf. og
VDL Bus & Coach B V
gegn
Reykjavíkurborg
fyrir hönd Strætó bs.
Með bréfi, dags. 17. október 2012, kæra Kynnisferðir ehf. og VDL Bus & Coach B V ákvörðun Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar að vísa frá tilboði þeirra í útboði „Strætó bs. Endurnýjun strætisvagna, nr. 12903“. Kærendur gera eftirfarandi kröfur:
1. Að innkaupaferli kærða í samningskaupum verði stöðvað þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru kærenda, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
2. Að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun kærða að vísa tilboði kærenda frá, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
3. Að kærunefnd útboðsmála leggi fyrir kærðu að auglýsa útboðið á nýjan leik, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kærendum, sbr. 2. mgr. 97. gr. og 101. gr. laga nr. 84/2007.
Í öllum tilvikum er þess krafist að kærunefnd útboðsmála ákveði að kærði greiði kærendum kostnað við að hafa kæru þessa uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis. Athugasemdir kærða bárust kærunefnd útboðsmála með bréfi, dags. 22. október 2012. Krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað og að kærunefnd úrskurði kærendur til greiðslu málskostnaðar á grundvelli síðari málsliðar 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.
I.
Innkaupaskrifstofa Reykjavíkurborgar, fyrir hönd Strætó bs., óskaði í ágúst 2012 eftir áhugasömum aðilum til þess að taka þátt í samningskaupaferli vegna endurnýjunar strætisvagna fyrir Strætó bs.
Samningskaupin voru auglýst á EES-svæðinu og átti innkaupaferlinu að ljúka með rammasamningi við einn til þrjá aðila til allt að sex ára með möguleika á framlengingu til allt að þriggja ára, til eins árs í senn. Heildarárafjöldi rammasamningsins getur því orðið níu ár.
Í kafla 1.2 samningskaupalýsingar er því lýst með hvaða hætti bjóðendur áttu að skila inn umsókn sinni. Í gr. 1.2.2 kemur fram hvaða gögn áttu að fylgja umsókn umsækjenda. Þar kemur meðal annars fram í kaflanum um reynslu að umsækjandi skyldi skila inn staðfestingu á því að hann hefði áður afhent sambærilega vagna og staðfestingu á því að hann hefði áður veitt sambærilega þjónustu (viðhalds- og varahlutaþjónustu). Þá átti umsækjandi að skila greinargerð um nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og/eða orkutækni í framleiðslu og framtíðarsýn framleiðanda.
Í gr. 1.2.7 samningskaupalýsingar er fjallað um hæfi umsækjanda. Þar kemur fram að mikilvægt sé að upplýsingarnar í gr. 1.2.2 séu greinargóðar og nákvæmar. Um kröfur til reynslu umsækjanda segir meðal annars að hann þurfi að hafa afhent sambærilega vagna, hafa þjónustað sambærilega vanga og að framleiðandi sé með í gangi nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og/eða orkutækni.
Í gr. 1.2.2. í samningskaupalýsingunni kemur fram að verkkaupi „áskilji“ sér rétt til að vísa umsókn umsækjanda frá sem ógildri ef umsækjandi skili ekki með umsókn sinni umbeðnum upplýsingum. Hvergi kemur fram hvers konar annmarkar á gagnaframlagningu muni leiða til fyrirvaralausrar ógildingar eða frávísunar tilboðs.
Kærendur stóðu sameiginlega að þátttökutilkynningu í umrætt verkefni. Kærandinn VDL Bus and Coach B V (hér eftir „VDL“) átti að vera framleiðandi strætisvagnanna, enda hafi fyrirtækið áralanga reynslu á því sviði og hefur byggt upp stórt net af eigin þjónustueiningum um alla Evrópu. Kærandinn Kynnisferðir átti hins vegar að vera þjónustuaðili framleiðandans. Þátttökutilkynningin var undirrituð af framkvæmdastjóra Kynnisferða og framkvæmdastjóra VDL. Með umræddri þátttökutilkynningu lögðu kærendur fram fjölda fylgiskjala, meðal annars staðfestingu á að umsækjandi hefði afhent sambærilega vagna, staðfestingu á því að framleiðandi/umsækjandi hefði veitt sambærilega þjónustu og greinargerð um nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og framtíðarsýn framleiðanda.
Með bréfi innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 2. október 2012, var tilkynnt um að kærendur hefðu ekki uppfyllt kröfur sem gerðar voru í samningskaupalýsingu. Þannig kom fram að gögnin hefðu ýmist verið óundirrituð eða sett fram einhliða af kærandanum Kynnisferðum án þess að frekari aðkoma kærandans VDL yrði ráðin af gögnunum. Eftirfarandi var talið ábótavant:
1. Staðfesting á að framleiðandi hafi afhent sambærilega vagna var talin ófullnægjandi, óundirrituð af framleiðanda.
2. Staðfesting á að framleiðandi hafi veitt sambærilega þjónustu ófullnægjandi, óundirrituð af framleiðanda/umsækjanda.
3. Ekki gerð grein fyrir nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og/eða orkutækni.
Kærandi telur að af bréfi kærða megi ráða að eini annmarkinn í fyrstu tveimur liðunum sé sá að undirritanir af hálfu kærandans VDL hafi skort á umrædd gögn. Það sem styður þá skýringu er að í bréfi Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar komi fram að gögn kæranda hafi „ýmist [verið] óundirrituð eða sett fram einhliða af Kynnisferðum án þess að frekari aðkoma VDL verði ráðin af gögnunum“. Af þessu má ráða að efnisinnihald umræddra gagna hafi ekki verið ábótavant, að mati kærða, heldur aðeins að gögnin væru óundirrituð af hálfu kærandans VDL.
Hvað þriðja liðinn snertir virðist kærði, að mati kærenda, telja að í umsókn kærenda hafi ekki verið gerð grein fyrir nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og/eða orkutækni framleiðanda.
II.
Kærendur byggja á því að sá samningur, sem kærðu buðu út, sé vörusamningur í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 84/2007, þar sem kærðu óskuðu eftir því að kaupa strætisvagna af bjóðendum með rammasamningi þar um. Jafnvel þótt samningurinn feli í sér tilfallandi þjónustu, það er viðhalds- og varahlutaþjónustu, teljist slíkur samningur almennt vera vörusamningur, sbr. 2. msl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 84/2007.
Kærendur byggja á því að tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu (svonefnd „veitutilskipun“) gildi ekki um framkvæmd umræddra samningskaupa, ólíkt því sem kærði haldi fram. Kærendur byggja á því að almennar reglur laga nr. 84/2007 gildi um innkaupin.
Þannig segi í 1. mgr. 5. gr. veitutilskipunarinnar að hún gildi um starfsemi í tengslum við framboð eða starfrækslu á „kerfum“ (samgöngukerfum) sem þjóna almenningi á sviði flutninga með járnbrautum, sjálfvirkum kerfum, sporvögnum, rafknúnum strætisvögnum, hópbifreiðum eða togbrautum. Í sama ákvæði tilskipunarinnar segir síðan að með „samgöngukerfum“ sé átt við það þegar þjónusta sé veitt samkvæmt rekstrarskilyrðum sem lögbær yfirvöld aðildarríkis setja varðandi þær leiðir sem þjónustan er veitt á, til dæmis um sætaframboð og ferðatíðni.
Samkvæmt framangreindu sé ljóst að veitutilskipunin gildi eingöngu þegar opinberir aðilar bjóða út samgöngukerfin sem slík, það er skipulag og rekstur á leiðum, sætaframboðum og ferðatíðni. Tilskipunin á því ekki við eins og í þeim innkaupum sem hér um ræðir, þar sem kærði leitar eftir samningum um að kaupa ákveðnar vörur sem tengjast umræddri þjónustu. Þannig séu hin kærðu samningskaup ekki útboð á samgöngukerfi heldur innkaup á strætisvögnum.
Þá sé nauðsynlegt að geta þess að tilskipunin gildi ekki um aðila sem veita almenningi flutningsþjónustu með hópbifreiðum þegar öðrum aðilum er almennt frjálst að veita slíka þjónustu, sbr. 2. mgr. 5. gr. veitutilskipunarinnar og 4. mgr. 2. gr. eldri veitutilskipunar nr. 93/38/EBE. Að íslenskum rétti gildir sú regla að allir sem hafa til þess almennt rekstrarleyfi geti sinnt fólksflutningum í atvinnuskyni, sbr. 4. gr. laga nr. 73/2001 um fólksflutninga og farmflutninga á landi. Af þeim sökum sé ljóst að kærði hafi ekki einkaleyfi á hópbifreiðaakstri og tekur því veitutilskipunin ekki til innkaupa fyrirtækisins.
Að lokum, hvað þetta snertir, sé nauðsynlegt að nefna að innkaup kærða á strætisvögnum hafa áður komið til kasta kærunefndar útboðsmála og hafi þá lögum um opinber innkaup verið beitt.
Kærendur leggja áherslu á að hið umþrætta útboð teljist vörusamningur í skilningi laga nr. 84/2007. Samkvæmt reglugerð nr. 615/2012 séu viðmiðunarfjárhæðir um útboðsskyldu á EES-svæðinu í tilviki vörusamninga 33.139.208 krónur. Kærendur hafa ekki upplýsingar um heildarverðmæti samningskaupanna en telja þó óhætt að fullyrða að útboðið nái að minnsta kosti framangreindri viðmiðunarfjárhæð. Um innkaup á allt að 85-90 strætisvögnum geti orðið að um að ræða og gera megi ráð fyrir að einn strætisvagn kosti að minnsta kosti um 28 til 35 milljónir króna. Heildarverðmæti umrædds rammasamnings sé því um 2,5 til 3 milljarðar króna, sbr. 29. gr. laga nr. 84/2007. Telja kærendur því ljóst að samningskaup kærða eigi undir lögsögu kærunefndar útboðsmála.
Kærendur gera þá kröfu að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli kærða. Kærendur byggja kröfu sína á 96. gr. laga nr. 84/2007. Telja þeir einsýnt að skilyrði ákvæðisins eigi við í þessu máli. Kærendur telja þannig að kærða hafi verið óheimilt að vísa tilboði þeirra frá.
Kærendur mótmæla því að undirritanir hafi vantað á nánar tiltekin gögn. Benda þeir á að hvergi komi fram í samningskaupalýsingu kærða að umrædd gögn þurfi að vera undirrituð. Þá sé ljóst að kærendur hafi staðið saman að umræddri þátttökutilkynningu og hafi framkvæmdastjóri kærandans VDL staðfest það skriflega. Sú tilhögun sé að fullu leyti í samræmi við lög nr. 84/2007. Þátttökutilkynning kærenda sé undirrituð af framkvæmdastjórum beggja félaganna og byggðu þeir sameiginlega á tæknilegri og fjárhagslegri getu fyrirtækjanna. Telja kærendur að kærða hafi þannig mátt vera ljóst að öll fylgigögn hafi stafað frá báðum aðilum. Ennfremur telja kærendur að jafnvel þótt talið yrði að nauðsynlegt hefði verið að báðir aðilar hefðu undirritað umrædd gögn hefði verið eðlilegt af hálfu kærða að gefa kærendum kost á að auka við framkomin gögn eða skýra þau, sbr. 53. gr. laga nr. 84/2007. Kærendur telja ljóst að umbeðnum gögnum hafi verið skilað, en kærði hafi hins vegar talið þá gagnaframlagningu ófullnægjandi. Vöntun á gögnum hafi ekki skýrt frávísun tilboðs kærenda heldur meintur annmarki á gagnaframlagningunni. Kærendur leggja áherslu á að kærða hafi verið óheimilt að vísa tilboði kærenda frá á þeim grundvelli að undirritun kærandans VDL hafi vantað á tvö skjöl. Telja kærendur að ekki hafi verið gætt meðalhófs í þessu sambandi í samræmi við meginreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.
Kærendur hafna því ennfremur sem röngu að ekki hafi verið gerð grein fyrir nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og/eða orkutækni. Með þátttökutilkynningu kærenda hafi fylgt skjal sem bar heitið „Greinargerð um nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og framtíðarsýn framleiðanda“. Þar sé að finna skjal frá alþjóðastofnun um almenningssamgöngur (e. UITP – International Association of Public Transport) þar sem framlag kærandans VDL til sjálfbærrar þróunar sé vottað.
Kærendur benda á að jafnvel þótt kærði hafi talið að umræddri greinargerð hafi verið ábótavant sé ljóst að hvergi komi fram í samningskaupalýsingu kærða hvaða efnisatriði hafi verið nauðsynlegt að kæmu fram í greinargerðinni. Ef kærðu hafi viljað ítarlegri og betri skil á þessum atriðum hefði það einfaldlega átt að koma fram í útboðsgögnum.
Að mati kærenda sé í raun ekkert því til fyrirstöðu að kaupandi krefjist allra þeirra gagna sem hann telur nauðsynlegt að afla. Aftur á móti sé ljóst að hann geti einungis vísað tilboði bjóðanda frá ef sú gagnaframlagning sé í ósamræmi við kröfur 47.-52. gr. laga nr. 84/2007, sbr. 71. gr. laganna. Þar sem ekki hvíli skylda á bjóðendum að leggja fram greinargerð um „nýsköpun og þróun á nýjum orkugjöfum og/eða orkutækni“, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna, hafi kærðu verið óheimilt að vísa tilboði kærenda frá á þeim grundvelli að þau gögn væru ófullnægjandi.
Kærendur telja nauðsynlegt, þótt ekki sé byggt á þeirri málsástæðu sérstaklega í þessu máli, að nefna að innkaupaferli kærða brjóti freklega í bága við V. kafla laga nr. 84/2007. Þannig sé meginreglan sú að beita eigi almennu eða lokuðu útboði við framkvæmd innkaupa og gildi það einnig um rammasamninga, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007. Í V. kafla sé þó að finna undantekningu frá þessu, sem verði að fylgja ströngum reglum. Þannig segi til dæmis í 1. mgr. 32. gr. laganna að einungis megi viðhafa samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu ef ekkert lögmætt tilboð berist í almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum, öll tilboð séu óaðgengileg eða þátttakendum eða bjóðendum sé vísað frá. Það sé því skilyrði fyrir samningskaupum að kaupandi hafi reynt önnur innkaupaferli til þrautar. Telja kærendur að þetta skilyrði sé ekki uppfyllt í málinu og hafi því kærða verið óheimilt að viðhafa samningskaup.
Kærendur telja augljóst með vísan til framangreinds að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 og því eigi að fallast á kröfu kærenda um stöðvun innkaupaferlis kærða.
III.
Kærði byggir kröfu sína um að kröfu kærenda um stöðvun á umræddu samningskaupaferli verði hafnað á því að hið kærða innkaupaferli hafi að öllu leyti verið í samræmi við þau lög og reglur sem um það gilda og að ákvörðun um að synja kærendum um frekari þátttöku í ferlinu hafi verið lögmæt. Þannig séu skilyrði 96. gr. laga nr. 84/2007 til stöðvunar hins kærða samningakaupaferlis ekki uppfyllt. Mat á hæfi kærenda til að taka þátt í samningskaupaferlinu hafi farið fram á grundvelli innsendra gagna með þátttökutilkynningu kærenda. Hafi það leitt í ljóst að hæfiskröfur samningskaupagagna, sem settar hafi verið fram í samræmi við skilyrði 54. gr. veitutilskipunarinnar, sbr. 7. gr. laga nr. 84/2007 og 1. gr. reglugerðar nr. 755/2007, hafi ekki verið uppfylltar. Telur kærði því í ljós leitt að kærða hafi verið óheimilt annað en að hafna frekari þátttöku kærenda í samningskaupaferlinu.
Kærði bendir á að frestur til að kæra ákvörðun kærða um að framkvæma samningskaupaferlið á grundvelli veitutilskipunarinnar hafi runnið út fjórum vikum eftir að kærendur hafi vitað eða mátt vita um ákvörðun sem hann telji að brjóti gegn réttindum sínum, sbr. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007. Kæra í þessu máli sé hins vegar dagsett 17. október 2007 eða tæpum tíu vikum eftir að kærendur hafi vitað eða mátt vita um ákvörðunina. Telur kærði því að í ljósi þess að kærufrestur hafi verið liðinn, hvað varðar þá ákvörðun að beita samningskaupum á grundvelli veitutilskipunarinnar, komi ekki til álita að stöðva umrætt ferli með vísun til þessara málsástæðna.
Engu að síður byggir kærandi á því að í samningskaupalýsingu komi fram að veitutilskipunin gildi um samningskaupin. Skýr lagaheimild sé til þess að byggja á umræddri tilskipun. Þá beri að líta til þess að fyrir liggi að innkaup kærða falli undir umrædda tilskipun enda sé kærði tilgreindur sem samningsstofnun á sviði flutninga í 8. viðbæti í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006. Þá telur kærði ljóst að innkaup á strætisvögnum falli undir starfrækslu á kerfi á sviði flutninga með strætisvögnum í skilningi 5. gr. veitutilskipunarinnar.
Kærði vekur athygli á því að engin skilyrði séu sett fram í veitutilskipuninni fyrir því að velja að beita samningskaupaaðferð við innkaupin. Þar sem tilkynnt hafi verið um ferlið í samræmi við 42. gr. veitutilskipunarinnar sé ljóst að ákvörðun kærða um að fara af stað með umþrætt innkaupaferli sé í fullu samræmi við þær reglur sem gildi um ferlið.
Kærði leggur áherslu á að ekki sé hægt að fallast á þær skýringar sem fram komi í kæru að með undirritun á þátttökutilkynningu hafi framleiðandinn jafnframt staðfest allar þær efnislegu upplýsingar sem sendar hafi verið inn með umsókn kæranda. Um hafi verið að ræða þrjú eyðublöð og ekkert þeirra hafi innihaldið efnislegar upplýsingar um það sem krafist hafi verið staðfestingar á í kafla 1.2.2 í samningskaupalýsingu. Ljóst sé að hvaða gögn sem er geti verið sett fyrir aftan hina undirrituðu þátttökutilkynningu og undirritun á hana verði þannig ekki talin koma í stað undirritunar á umkrafðar staðfestingar.
Kærði bendir á að vantað hafi gögn frá vélaframleiðendum, sem nefndir hafi verið í greinargerð kærenda, um nýsköpun og þróun og því ljóst að kærendur hafi ekki uppfyllt hæfiskröfur 1.2.7 í samningskaupalýsingu. Auk þess hafi skort að kynnt væri framtíðarsýn framleiðendanna sem kærendur hygðust vinna með við framleiðslu vagnanna. Ljóst hafi því verið af innsendum gögnum að ekki hafi verið til staðar stefna um rannsóknar- eða þróunarferli á sviði nýrra orkugjafa og/eða orkutækni eins og krafa hafi verið gerð um. Ekki verði talið heimilt að veita kærendum tækifæri til að leggja fram slíkar upplýsingar eftir að umsóknir hafi verið opnaðar því það hefði brotið gegn meginreglunni um jafnræði bjóðenda. Þá telur kærði að kröfur samningskaupagagna um hvað hafi átt að koma fram í umbeðnum staðfestingum og greinargerðum og á hvaða forsendum þær upplýsingar yrðu metnar hafi verið mjög skýrar og ítarlegar. Telur kærði að ljóst sé að kærendur hafi ekki uppfyllt umræddar hæfiskröfur og hafi því ekki verið heimilt að halda áfram í innkaupaferlinu, sbr. ákvæði 1.2.8 um að þeir umsækjendur sem uppfylltu skilyrði 1.2.7 um hæfi kæmust áfram í samningskaupunum.
Kærði bendir á að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 84/2007 nái gildissvið laganna aðeins til hins kærða innkaupaferlis að því er varði XIV. og XV. kafla laganna, þ.e. að því er varði valdssvið kærunefndar útboðsmála til að endurskoða ákvarðanir kærða í innkaupaferlinu og mögulega skaðabótakyldu. Af því leiði að það séu einungis ákvæði veitutilskipunarinnar og reglugerðar nr. 775/2007 sem komi til skoðunar í þessu máli.
Kærði telur það hafið yfir allan vafa að meiri en minni líkur séu á því að réttilega hafi verið staðið að vali á þátttakendum í umræddu samningskaupaferli og ekkert í málatilbúnaði kærenda gefi tilefni til að ætla að verulegar líkur séu á því að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007 eða reglum settum samkvæmt þeim. Telur kærði að miðað við fyrirliggjandi gögn og upplýsingar verði ekki talið að svo verulegar líkur liggi fyrir um brot gegn lögum um opinber innkaup að skilyrði séu til að taka kröfu kærenda um stöðvun til greina. Í þessu sambandi skuli haft í huga að stöðvun á umræddu ferli feli í sér alvarlegt inngrip og gera verði strangar kröfur til þess að verulegar líkur verði taldar á því að brotið hafi verið gegn lögum, þar sem slík ákvörðun yrði afar íþyngjandi fyrir kærða.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings, þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, telji nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum. Í ákvörðun kærunefndar útboðsmála í máli nr. 30/2012 frá 31. október 2012 tók nefndin til skoðunar hvort ástæða væri til að stöðva innkaupaferli í samningskaupum nr. 12903 „Strætó bs. – Endurnýjun strætisvagna“. Var það mat nefndarinnar í því máli að miðað við fyrirliggjandi gögn væru verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 84/2007 eða reglum settum samkvæmt þeim og stöðvaði því innkaupaferlið þar til endanlega hefur verið leyst úr ágreiningi aðila. Verður því að vísa til þeirrar ákvörðunar, þar sem innkaupaferlið sem um er deilt hefur þegar verið stöðvað.
Ákvörðunarorð:
Innkaupaferli Strætó bs. í samningskaupum nr. 12903 „Endurnýjun strætisvagna“ er stöðvað þar til endanleg niðurstaða kærunefndar útboðsmála liggur fyrir.
Reykjavík, 31. október 2012
Páll Sigurðsson,
Auður Finnbogadóttir,
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík,