Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2012

Miðvikudaginn 3. október 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 9/2012:

 

 

Kæra A og B

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 10. janúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 11. nóvember 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærendur kærðu endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C á D, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

 

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 11. nóvember 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C á D 22.900.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati var 25.190.000 kr. Við afgreiðslu á umsókn kærenda var aflað verðmats frá löggiltum fasteignasala, og var íbúðin metin á 26.500.000 kr. og 110% verðmat nam því 29.150.000 kr. Staða áhvílandi íbúðalána kærenda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 30.291.184 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 1.141.184 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærendur eiga tvær bifreiðir, annars vegar bifreiðina E sem metin er á 1.749.600 kr. en á henni hvílir lán að fjárhæð 2.150.540 kr. og veðrými á bifreiðinni því ekki til staðar og hins vegar bifreiðina F sem metin er á 350.000 kr. Til frádráttar niðurfærslu lána komu einnig stofnsjóðsbréf að fjárhæð 1.368.277 kr. Veðrými sem kemur til frádráttar vegna annarra eigna nam því samtals 1.317.337 kr.

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 12. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 1. febrúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 6. febrúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. apríl 2012, var kærendum tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

 

III. Sjónarmið kærenda

 

Kærendur taka fram að bifreið sem talin hafi verið til aðfararhæfra eigna þeirra sé í raun bifreið sonar þeirra. Þar sem betri skilmálar hafi verið á vátryggingum fyrir kærendur en son þeirra hafi þau ákveðið að skrá bifreiðina á nafn annars kærenda í stað sonar þeirra. Þá óska kærendur þess að farið verði yfir verðbréfaeign þeirra en hún sé til komin vegna líftryggingar þeirra sem tekin hafi verið í byrjun árs 2001. Líftryggingin hafi átt að vera nóg til að vega á móti skuldum kærenda svo börn þeirra erfðu ekki skuldirnar. Það sé hins vegar ekki svo í dag og myndi umrædd verðbréfaeign ekki ná yfir skuldir þeirra.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í umsögn Íbúðalánasjóðs kemur fram að farið hafi verið fram á verðmat í samræmi við ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Samkvæmt 2. mgr. beri að lækka niðurfærslu á veðkröfu sem svari veðrými í aðfararhæfri eign og hjá kærendum hafi sú eign verið í stofnsjóðsbréfum, sbr. niðurstöðu útreikninga.

 

 

V. Niðurstaða

 

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

 

Kærendur hafa mótmælt þeirri niðurstöðu Íbúðalánasjóðs að draga frá hugsanlegri niðurfærslu áhvílandi veðkrafna, aðfararhæfar eignir sem skráðar séu á þau. Hafa kærendur fært fram þau rök að bifreiðin F sé ekki eign þeirra heldur sonar þeirra, jafnvel þótt bifreiðin hafi verið skráð á nafn annars kærenda. Hafi það verið gert vegna möguleika á hagstæðari bifreiðatryggingum. Því endurspegli skráð eignarhald bifreiðarinnar ekki raunverulegt eignarhald hennar. Þá taka kærendur fram að stofnsjóðseign, sem vísað er til í endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, hafi í reynd verið hugsuð sem líftrygging, og hafi verið tekin til að vega upp á móti skuldum kærenda.

 

 

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnstæður. Í máli þessu hefur komið fram að auk fasteignar sinnar að C á D áttu kærendur tvær bifreiðir og stofnsjóðsbréf á þeim tíma er umsókn þeirra um niðurfærslu lána var afgreidd hjá Íbúðalánasjóði eins og rakið hefur verið.

 

Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Er hvergi að finna heimild til handa Íbúðalánasjóði um að taka tillit til aðdraganda eða ástæðna þess að eign er skráð á kærendur. Verður því að telja að Íbúðalánasjóði hafi verið rétt að lækka niðurfærslu veðlána sjóðsins vegna umræddrar bifreiðar.

 

Þá liggur fyrir að stofnsjóðsbréf kærenda voru dregin frá hugsanlegri niðurfærslu veðlána og var stuðst við mat þeirra í skattskýrslum kærenda. Líkt og áður segir hafa kærendur borið því við að stofnsjóðsbréfin hafi verið hugsuð sem líftrygging. Ekki verður séð að Íbúðalánasjóður hafi lagt mat á það hvort umrædd stofnsjóðsbréf féllu undir undantekningarreglu 47. gr. laga um aðför, nr. 90/1989, og þar með hvort þau teljist til aðfararhæfra eigna. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé nægilega rannsakað hvort stofnsjóðsbréfin teljist til aðfararhæfra eigna í skilningi laga nr. 29/2011.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum í 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að fella hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs úr gildi og leggja fyrir Íbúðalánasjóð taka mál kæranda aftur til efnislegrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um niðurfærslu lána A, og B, áhvílandi á íbúðinni að C á D, er felld úr gildi og vísað heim til nýrrar meðferðar.

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta