Nr. 273/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 273/2018
Fimmtudaginn 25. október 2018
A
gegn
Íbúðalánasjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 30. júlí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 31. maí 2018, um að synja beiðni hans um greiðslu húsnæðisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 19. september 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. september 2017, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknarinnar væri frestað og óskað eftir gögnum/upplýsingum um tekjur og/eða eignir heimilismanna. Tekið var fram að gögnin þyrftu að berast innan 15 virkra daga frá dagsetningu bréfsins, að öðrum kosti myndi ákvörðun stofnunarinnar verða byggð á fyrirliggjandi gögnum. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2017, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði endurskoðað rétt hans til húsnæðisbóta á grundvelli nýrra upplýsinga. Greiðsla húsnæðisbóta næmi 11.040 kr. á mánuði að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna í leiguhúsnæðinu. Kærandi fékk greiddar húsnæðisbætur 1. nóvember 2017 miðað við einn heimilismann fyrir leigutímabilið september til október 2017.
Þann 31. október 2017 gerði kærandi breytingar á umsókn sinni og bætti við heimilismanni. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. nóvember 2017, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknarinnar væri frestað þar sem ekki væru allir heimilismenn skráðir með lögheimili í leiguhúsnæðinu. Til að unnt væri að meta rétt hans til húsnæðisbóta var óskað eftir staðfestingu á búferlaflutningi frá Þjóðskrá Íslands eða staðfestingu á því að tilgreindar undanþágur ættu við í málinu. Sú beiðni var ítrekuð með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. desember 2017. Þann 1. janúar 2018 tók Íbúðalánasjóður við málinu, sbr. reglugerð nr. 911/2017 um breytingu á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 26. janúar 2018, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að heimilismaður væri ekki með skráð lögheimili í hinu leigða húsnæði.
Kærandi sótti á ný um húsnæðisbætur með umsókn, dags. 23. mars 2018, og var sú umsókn samþykkt 12. apríl 2018. Með tölvupósti til Íbúðalánasjóðs 25. apríl 2018 gerði kærandi grein fyrir ástæðu þess að hann hafi ekki haft samband við stofnunina og óskaði eftir greiðslu húsnæðisbóta frá upphafi leigutímans eða byrjun september 2017. Þeirri beiðni kæranda var hafnað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 31. maí 2018, á þeirri forsendu að sjóðurinn hefði ekki heimild til að veita undanþágu frá þeim skilyrðum sem kveðið væri á um í lögum nr. 75/2016 um húsnæðisbætur.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 30. júlí 2018. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 24. ágúst 2018, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. september 2018. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi leigt húsnæði frá 1. september 2017 til 31. maí 2018 og verið með þinglýstan húsaleigusamning. Kærandi hafi sótt um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun í september 2017 og starfsmaður þar hafi tjáð honum að umsóknin væri klár, það yrði hringt ef eitthvað vantaði. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að hafa lögheimili í leiguhúsnæðinu og ekki lesið tölvupóstana með þeim upplýsingum, enda hafi þeir verið „no reply“ póstar. Í mars 2018 hafi kærandi haft samband til að athuga með stöðu umsóknarinnar og þá fengið þær upplýsingar að fresturinn til að breyta um lögheimili væri liðinn. Kærandi gerir athugasemd við að ekki hafi verið hringt í hann áður en fresturinn rann út, þar sem hann hafi skilið símanúmerið sitt eftir. Um misskilning hafi verið að ræða sem kærandi óskar eftir að úrskurðarnefndin leiðrétti og hjálpi honum að fá réttar húsnæðisbætur.
III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að sjóðnum sé óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá þeim almanaksmánuði sem umsókn hafi verið móttekin, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Kæranda hafi verið synjað á þeim grundvelli að Íbúðalánasjóður hefði ekki lagaheimild til þess að greiða húsnæðisbætur fyrir það tímabil sem óskað hafi verið eftir.
Íbúðalánasjóður vísar til þess að í III. kafla laga nr. 75/2016 sé fjallað um skilyrði sem umsækjandi og heimilismenn verði að uppfylla til að eiga rétt á húsnæðisbótum. Eitt þeirra sé að umsækjandi, og aðrir þeir sem hann tilgreini sem heimilismenn í umsókn, séu búsettir í leiguhúsnæðinu og eigi þar skráð lögheimili, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. laganna. Kæranda hafi verið sent frestunar- og ítrekunarbréf áður en umsókn hafi verið synjað þar sem honum hafi verið tilkynnt að heimilismenn væru ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu. Einnig hafi komið fram að til að unnt væri að afgreiða umsóknina þyrftu kærandi og heimilismaður hans að senda staðfestingu á búferlaflutningum frá Þjóðskrá.
Í 3. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 komi fram að Íbúðalánasjóður hafi heimild til rafrænnar málsmeðferðar þegar aðili hafi að fyrra bragði notað þann búnað til rafrænna samskipta, sbr. IX. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnvaldsákvörðun eða önnur gögn á rafrænu formi teljist almennt birt aðila þegar hann eigi þess kost að kynna sér efni þeirra og falli það í ábyrgð aðila máls að vél- og hugbúnaður hans fullnægi þeim þörfum sem gerðar séu til hans, sbr. 1. mgr. 35. gr., svo hann geti kynnt sér efni stjórnvaldsákvörðunar eða annarra gagna sem stjórnvald sendi honum á rafrænu formi, sbr. 1. mgr. 39. gr. stjórnsýslulaga. Þrátt fyrir að kærandi haldi því fram að hann hafi ekki verið upplýstur um framangreind bréf þá sé það alfarið á hans ábyrgð að tryggja að hann geti kynnt sér það efni sem Íbúðalánasjóður sendi honum í gegnum „Mínar síður“ á husbot.is eftir að umsókn um húsnæðisbætur sé móttekin. Jafnframt bendir sjóðurinn á að allar upplýsingar um rétt til húsnæðisbóta séu aðgengilegar á vefsíðunni husbot.is og hefði kærandi getað kynnt sér þær upplýsingar á sama tíma og hann hafi sótt um húsnæðisbætur í vefsíðunni.
Íbúðalánasjóður telur að réttilega hafi verið staðið að ákvarðanatöku í máli kæranda og að hann eigi ekki rétt á afturvirkum greiðslum húsnæðisbóta, sbr. 2. mgr. 21. gr. laganna. Íbúðalánasjóður krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta. Kærandi fékk greiddar húsnæðisbætur 1. nóvember 2017 miðað við einn heimilismann en bætti við heimilismanni á umsókn sína 31. október 2017. Í kjölfarið var umsókn kæranda frestað þar sem kærandi og heimilismaður hans voru ekki með skráð lögheimili í leiguhúsnæðinu. Óskað var eftir staðfestingu á búferlaflutningum frá Þjóðskrá Íslands eða staðfestingu á því að tilgreindar undanþágur ættu við í málinu. Þar sem kærandi brást ekki við þeirri beiðni var umsókn hans synjað 26. janúar 2018.
Með tölvupósti til Íbúðalánasjóðs 25. apríl 2018 gerði kærandi grein fyrir ástæðu þess að hann hafi ekki haft samband við sjóðinn og óskaði eftir greiðslu húsnæðisbóta frá upphafi leigutímans eða í byrjun september 2017. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að í þeirri ósk kæranda hafi falist beiðni um endurupptöku ákvörðunar frá 26. janúar 2018 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekki beiðni um afturvirkar greiðslur frá síðari umsókninni í mars 2018.
Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Af ákvæði þessu leiðir að aðili máls á lögvarinn rétt til að mál hans verði tekið til meðferðar á ný ef framangreind skilyrði eru fyrir hendi.
Í 3. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur er kveðið á um heimild Íbúðalánasjóðs til rafrænnar málsmeðferðar. Þar segir í 1. mgr. að Íbúðalánasjóður skuli bjóða umsækjendum upp á rafræna miðlun upplýsinga við meðferð máls samkvæmt lögum um húsnæðisbætur og reglugerðinni. Um rafræna málsmeðferð samkvæmt lögum um húsnæðisbætur og reglugerðinni gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga, sbr. einkum IX. kafla laganna, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1200/2016.
Í IX. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um rafræna meðferð stjórnsýslumála. Þar segir meðal annars í 1. mgr. 35. gr. að stjórnvald ákveði hvort boðið verði upp á þann valkost að nota rafræna miðlun upplýsinga við meðferð máls. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að stjórnvald, sem ákveður að nýta heimild samkvæmt 1. mgr., skuli nota rafræna miðlun upplýsinga við meðferð máls óski aðili þess sérstaklega. Hið sama gildi þegar aðili hafi að fyrra bragði notað þann búnað til rafrænna samskipta við stjórnvald sem það hefur auglýst á vefsíðu sinni að standi til boða í slíkum samskiptum. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga nr. 51/2003 um breytingu á stjórnsýslulögum, þar sem lagt var til að bæta við kafla um rafræna meðferð stjórnsýslumála, kemur fram að aðila sé ekki skylt að taka þátt í rafrænni meðferð. Þá segir í almennum athugasemdum við frumvarpið að af ákvæði 1. mgr. 6. gr. leiði að stjórnvöld verði almennt að ganga úr skugga um hvaða tölvupóstfang aðili noti í samskiptum við stjórnvald og gera honum grein fyrir því að hann megi búast við því að gögn verði send honum á það póstfang og á ákveðnu formi.
Íbúðalánasjóður hefur vísað til þess að þar sem kærandi hafi af fyrra bragði haft rafræn samskipti við sjóðinn með umsókn á vefsíðunni husbot.is hafi honum verið svarað með rafrænum hætti og öll bréf send inn á lokað vefsvæði. Það sé kæranda að tryggja að hann hafi aðgang að fullnægjandi tölvubúnaði til að geta kynnt sér það efni sem Íbúðalánasjóður hafi sent honum í kjölfar umsóknar um húsnæðisbætur, sbr. 2. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga.
Úrskurðarnefndin aflaði upplýsinga frá Íbúðalánasjóði um með hvaða hætti málsmeðferð færi fram hjá stofnuninni í kjölfar umsóknar um húsnæðisbætur á vefsíðunni husbot.is. Samkvæmt þeim upplýsingum eru umsækjendur ekki upplýstir sérstaklega um að samskipti við stofnunina fari fram með rafrænum hætti né eru þeir upplýstir um að bréf sjóðsins berist eingöngu rafrænt. Samskipti séu með þeim hætti að þegar nýtt bréf sé birt á vefsvæði umsækjenda fái þeir alltaf tilkynningu í tölvupósti þess efnis og geti Íbúðalánasjóður séð hvort og hvenær umsækjendur opna bréfin. Þá kom fram að Íbúðalánasjóður hafði upplýsingar um að kærandi hafði ekki opnað bréf sjóðsins frá 31. október og 21. desember 2017, sem birt var á vefsvæðinu, þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum/gögnum til þess að unnt væri að meta rétt hans til húsnæðisbóta.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar Íbúðalánasjóði að tryggja það að kærandi væri meðvitaður um að umsókn hans væri ófullnægjandi og að hann hefði raunhæfan möguleika á að bæta þar úr. Í málinu liggur fyrir að kærandi óskaði ekki sérstaklega eftir rafrænum samskiptum heldur var það mat stjórnvaldsins að leiða mætti af því að hann lagði fram umsókn á vefsíðunni husbot.is að það væri hans ósk, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 35. gr. stjórnsýslulaga. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála ber stjórnvaldi í slíkum tilfellum, þ.e. þegar sótt er um rafrænt, að upplýsa aðila um að málsmeðferðin verði framvegis með rafrænum hætti, enda ekki hægt að álykta sem svo að aðilum sé það ljóst að öll samskipti verði framvegis rafræn þrátt fyrir að umsókn sé lögð fram með þeim hætti.
Þar sem stofnunin sá ekki til þess að upplýsa kæranda með fullnægjandi hætti um að gögn skorti í máli hans er það mat úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið rannsakað nægjanlega áður en ákvörðun um synjun var tekin. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefndin að skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga sé uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til Íbúðalánasjóðs til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 31. maí 2018, um að synja beiðni A, um greiðslu húsnæðisbóta er felld úr gildi. Málinu er vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson