Nr. 291/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 1. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 291/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU22060038
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 19. júní 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Bretlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. júní 2022, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Kærandi krefst þess í greinargerð sinni að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Af greinargerð kæranda, og í ljósi þess að mál hans hlaut efnismeðferð hjá Útlendingastofnun samkvæmt 29. gr. laga um útlendinga, má þó ráða að krafa kæranda sé sú að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubann hans verði fellt úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 27. maí 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 16. júní 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. sama dag, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var ofangreind ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 19. júní 2022. Hinn 30. júní 2022 barst kærunefnd tölvubréf frá Útlendingastofnun þess efnis að kærandi hafi verið fluttur til heimaríkis af stoðdeild Ríkislögreglustjóra. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 2. júlí 2022.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga. Kæranda var brottvísað frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann sé fæddur í alþýðuveldinu Kína. Kærandi hafi yfirgefið Kína árið 1999 og farið til Bretlands þar sem honum hafi verið veitt alþjóðleg vernd. Síðar hafi kærandi fengið breskan ríkisborgararétt. Kærandi hafi orðið fyrir gríðarlegum ofsóknum í Bretlandi, m.a. sökum þess að hann hafi verið í sambandi við múslimska konu frá Kosovo. Jafnframt hafi kærandi skrifað bók sem beri heitið [SLMK1][…] og sannað að doktorsgráða forseta Taívan, Tsai Ing-wen, væri fölsuð. Hann óttist því bæði Japana og Taívana. Þá hafi yfirvöld í Bretlandi einnig ofsótt hann. Fram kemur í greinargerð að kærandi sé fræðimaður og að hann sé menntaður í kínverskri tungu og bókmenntun, auk þess sem hann hafi lokið framhaldsnámi í hagfræði. Kærandi hafi birt fjöldann allan af greinum um málvísindi, heimspeki, hagfræði, lýðfræði, stjórnmál, landafræði og eðlisfræði. Þá hafi hann flutt mörg erindi á alþjóðlegum ráðstefnum, auk þess að hafa flutt fyrirlestra víðs vegar um heim. Kærandi hafi einnig skrifað mikið af bókum.
Kærandi hafi greint frá því að hafa kynnst konu frá Kosovo sem væri múslimi, en það hafi haft í för með sér að hann hafi sætt ofsóknum af hendi annarra múslima þar sem múslimar samþykki ekki að menn af öðrum trúarbrögðum en íslam séu í sambandi við múslimskar konur. Af þessum sökum hafi kærandi mátt sæta ofsóknum í Bretlandi. Það hafi verið stöðugur hávaði fyrir utan þá staði þar sem kærandi hafi dvalist hverju sinni og múslimarnir hafi gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til að brjóta kæranda niður í þeim tilgangi að koma honum inn á geðsjúkrahús. Það hafi haldið áfram eftir að kærandi hafi slitið sambandi við konuna. Eftir að kærandi hafi gefið út nokkrar bækur um Japan, m.a. bækurnar […], hafi hann verið ofsóttur um allan heim af japönskum stjórnvöldum. Kærandi kveði að japönsk stjórnvöld hafi búið til kjarnorku- og efnavopn. Jafnframt hafi japönsk stjórnvöld búið til kórónuvírusinn Covid-19 sem sé ekkert annað en efnavopn. Þá hafi kærandi fengið Covid-19 vírusinn átta sinnum.
Fram kemur í greinargerð að hann telji sig hafa náð að sanna að doktorsgráða forseta Taívan, Tsai-Ing-wen, sé fölsuð. Eftir að kærandi hafi opinberað þessa uppgötvun sína hafi hann mátt sæta verulegum ofsóknum af hálfu Taívana. Þá taki bresk stjórnvöld þátt í ofsóknunum, þ.m.t. bæjar- og heilbrigðisyfirvöld. Bæjaryfirvöld í Bretlandi hafi lagt gasleiðslur inn á dvalarstað hans í gegnum innstungur, auk þess sem reynt hafi verið að beita hann raflosti. Þá hafi læknar á geðsjúkrahúsum í Bretlandi sprautað kæranda með einhvers konar efnum. Eins hafi læknir stungið fingri í endaþarm hans sem hafi gert það að verkum að kærandi hafi fengið krabbamein. Vöðvarnir í endaþarmi kæranda séu auk þess orðnir slappir sem hafi í för með sér að hann þurfi oft að fara á salernið. Þetta hafi verið gert samkvæmt skipunum stjórnvalda en ekki að læknisráði.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ofsóknir vegna trúarbragða sinna, stjórnmálaskoðana og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi hafi ritað fjölda bóka sem virðist snúa að Japan og verði að telja að þessar bækur lýsi skoðunum hans, þ.m.t. stjórnmálaskoðunum hans. Bretland og Japan séu í nánum samskiptum, t.a.m. séu mikil viðskipti milli landanna tveggja og því mikilvægt fyrir bresk stjórnvöld að halda japönskum stjórnvöldum ánægðum. Í ljósi framangreinds telur kærandi ljóst að umsókn hans um alþjóðlega vernd sé ekki bersýnilega tilhæfulaus. Hann telur að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka málið mun betur, en það hafi liðið um tvær klukkustundir frá því að viðtali við hann hafi lokið og þar til lögregla hafi birt honum ákvörðunina. Telur kærandi að með þessu hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að endurkomubann hans til tveggja ára verði fellt úr gildi. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann eigi við andleg veikindi að stríða. Hafa verði í huga að umsókn hans um alþjóðlega vernd sé hugsanlega orsök andlegra veikinda hans. Menn sem glími við andleg veikindi séu almennt ekki ábyrgir gjörða sinna og verði því að telja að beiting endurkomubanns í máli kæranda sé alltof harkaleg aðgerð gagnvart veikum manni. Þá verði að hafa í huga að kærandi sé ríkisborgari Bretlands og því undanþeginn áritunarskyldu. Hann megi því dvelja í allt að 90 daga á Íslandi á 180 daga tímabili, sem hann hafi ekki gert.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað bresku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé breskur ríkisborgari.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Bretlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- ●2021 Country Reports on Human Rights Practices: United Kingdom (US Department of State, 12. apríl 2022);
- ●2021 Report on International Religious Freedom: United Kingdom (US Department of State, 2. júní 2022);
- ●Amnesty International Report 2021/22 – United Kingdom (Amnesty International, 29. mars 2022);
- ●Freedom in the World 2021 – United Kingdom (Freedom House, 3. mars 2021);
- International Health Care System Profiles – England (The Commonwealth Fund, 5. júní 2020);
- The World Factbook – United Kingdom (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 18. ágúst 2022);
- United Kingdom; health system review 2022 (The European Observatory on Health Systems and Policies, 11. maí 2022) og
- World Report 2022 – United Kingdom (Human Rights Watch, 13. janúar 2022).
Bretland er konungsveldi með þingbundinni stjórn og tæpar 68 milljónir íbúa. Bretland er eitt af stofnríkjum Sameinuðu þjóðanna og hefur setið í fastanefnd Öryggisráðsins frá stofnun þess hinn 24. október 1945. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1976. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1969 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1988. Þá fullgilti ríkið samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og viðauka við hann árið 2009.
Samkvæmt skýrslu The European Observatory on Health Systems and Policies eru réttindi sjúklinga sett fram í hinni svokölluðu stjórnarskrá heilbrigðisþjónustu í Englandi (e. NHS Constitution in England). Samkvæmt skýrslu The Commonwealth Fund er heilbrigðiskerfi Englands einkum fjármagnað með almennri skattlagningu. Enskir íbúar sem hafi rétt til dvalar í landinu eigi sjálfkrafa rétt á endurgjaldslausri opinberri heilbrigðisþjónustu í gegnum National Health Service (NHS). Meðal þess sem sé að fullu tryggt undir NHS sé geðheilbrigðisþjónustu. Vægir sjúkdómar, t.a.m. vægt þunglyndi og kvíði, séu almennt meðhöndlaðir af heimilislæknum. Ítarlegri meðferðir, þ. á m. innlagnir, séu veittar af sérhæfðum geðheilbrigðisstofnunum eða sjúkrahúsum.
Samkvæmt skýrslu Freedom House frá mars 2022 er trúfrelsi einstaklinga tryggt bæði í lögum og í framkvæmd. Þrátt fyrir það séu dæmi um að minnihlutahópar, einkum múslimar, sæti mismunun og áreiti. Í skýrslu Freedom House skorar Bretland 93 stig af 100 mögulegum í tengslum við stjórnmálaleg- og borgaraleg réttindi og er í 25. sæti yfir frjálsustu lönd heims, ásamt níu öðrum ríkjum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá apríl 2022 kemur fram að bresk stjórnvöld fari með skilvirka stjórn yfir löggæslu í landinu. Þá hafi stjórnvöld almennt skilvirka verkferla til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun á valdi.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að í Bretlandi eigi hann á hættu ofsóknir vegna trúarbragða, stjórnmálaskoðana og aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu breskra yfirvalda eða annarra aðila í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu.
Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er það mat kærunefndar að þeir ríkisborgarar Bretlands sem telja að á réttindum sínum sé brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn mála sinna. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík. Að mati kærunefndar hefur ekki verið sýnt fram á að aðstæður kæranda séu með þeim hætti að stjórnvöld í heimaríki hans skorti vilja eða getu til að veita honum viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.
Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi hefur greint frá því að hann glími við andleg og líkamleg veikindi. Þá hafi hann verið heimilislaus í Bretlandi. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða verði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þessum athugasemdum. Þá verður ekki annað séð af gögnum um heimaríki kæranda sem kærunefnd hefur yfirfarið við meðferð málsins en að kærandi hafi aðgang að endurgjaldslausri heilbrigðisþjónustu. Í gögnum um heimaríki kæranda kemur fram, líkt og að ofan er rakið, að allir ríkisborgarar hafi rétt á heilbrigðisþjónustu.
Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Það er því niðurstaða kærunefndar að aðstæður séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.
Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Kærandi telur þá að Útlendingastofnun hafi ekki fylgt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þegar ákvörðun í máli hans var tekin skömmu eftir viðtal. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Útlendingastofnun er heimilt á grundvelli 1. mgr. 48. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 775/2017, að taka ákvörðun án samhliða rökstuðnings en kærandi átti rétt á að fá eftirfarandi rökstuðning ákvörðunarinnar samkvæmt 2. mgr. 48. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við rekstur málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Þá horfir kærunefnd til þess að kærandi óskaði ekki eftir eftirfarandi rökstuðningi við ákvörðun Útlendingastofnunar en samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga getur aðili máls krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og ákvarðað endurkomubann, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Ástæða þess er að Útlendingastofnun mat umsókn kæranda bersýnilega tilhæfulausa í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga en ákvæðið veitir stjórnvöldum heimild til að fella niður frest sem að jafnaði er veittur útlendingi til að yfirgefa landið sjálfviljugur í kjölfar ákvörðunar um að yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar umsókn útlendings um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn.
Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Við túlkun ákvæðisins telur kærunefnd að líta verði til þess að orðið tilhæfulaus lýsir einhverju sem byggir ekki á staðreyndum eða á ekki við rök að styðjast. Þá leiðir af orðalagi ákvæðisins að tilhæfuleysi umsóknar þarf að vera bersýnilegt, þ.e. blasa við stjórnvaldi við skoðun málsins. Með vísan til orðalags ákvæðisins og til samræmis við ákvæði tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl telur kærunefnd að umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við þegar:
a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,
b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og
c) frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.
Kærandi byggir á því að hann hafi sætt ofsóknum af hálfu breskra og japanskra yfirvalda sökum þess að hann hafi verið í sambandi með múslimskri konu frá Kosovo og hafi skrifað bækur sem fjalli m.a. um að Japan hafi borið ábyrgð á hryðjuverkaárásinni á Tvíburaturnana 11. september 2001. Það er mat kærunefndar, að teknu tilliti til gagna um heimaríki kæranda og aðstæður hans þar, að það hafi frá upphafi málsmeðferðarinnar verið bersýnilegt að málsástæður hans vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kæranda væru ekki þess eðlis eða næðu því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti. Þá er einnig ljóst að frekara mat og gagnaöflun hafi ekki breytt ofangreindu mati.
Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd hafi verið bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, og heimilt hafi verið að veita kæranda ekki frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur.
Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga skal ekki ákveða brottvísun ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Gögn bera með sér að kærandi hafi komið hingað til lands 27. maí 2022 og sótt um alþjóðlega vernd sama dag. Kærandi kvaðst óttast ofsóknir í heimaríki sínu. Þá mótmælti hann hugsanlegri brottvísun og endurkomubanni. Þrátt fyrir mótmæli kæranda þá er það mat kærunefndar, með vísan til umfjöllunar kærunefndar um aðstæður í Bretlandi og fjarstæðukennda frásögn kæranda, að góð trú kæranda um réttmæti umsóknar hans um vernd vegi ekki nægilega þungt til að talið verði að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í máli hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 16. júní 2022 var kærandi spurður út í sérstök tengsl við Ísland eða önnur Schengen-ríki og kvaðst kærandi ekki hafa nein tengsl. Að framangreindu virtu verður ekki séð að brottvísun og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kæranda, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.
Er ákvörðun Útlendingastofnunar er varðar brottvísun og endurkomubann því staðfest.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Þorsteinn Gunnarsson, formaður