Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 318/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 318/2019

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 5. ágúst 2019, kærði A, X, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. júlí 2019, á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 18. júní 2019, var kæranda tilkynnt að hann uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir varanlegum örorkulífeyrisgreiðslum frá 1. september 2018. Með bréfi, dags. 12. júlí 2019, kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi búseta kæranda á Íslandi varað í 24,76 ár og að 40 ára búseta á aldursbilinu 16-67 ára veiti fullar bætur. Vegna búsetuskerðingar yrðu bæturnar til kæranda 65,70%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 6. september 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé ekki sáttur við hversu lítið hann fái í örorkubætur frá Íslandi. Kærandi sé fæddur X og hafi flutt af landi brott X og mánaðarlegar greiðslur hans séu einungis 65.817 kr. en eiginkona hans, sem sé fædd X og hafi flutt með honum út X, fái 185.000 kr. greiddar á mánuði. Kærandi skilji ekki hvernig þetta geti staðist.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærðar séu örorkugreiðslur stofnunarinnar. Kærandi uppfylli skilyrði til greiðslu örorkubóta og hafi verið á greiðslum síðan X 2018.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylli tiltekin skilyrði. Þar segi:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, eru á aldrinum 18-67 ára og

a) hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b) eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Í 58. gr. laga um almannatryggingar um útflutning og skörun bóta, komi eftirfarandi fram:

„Greiða skal bótaþegum, búsettum í þeim ríkjum sem ríkisstjórn gerir samninga við eða ráðherra hefur samið við með stoð í 68. gr., bætur í samræmi við nánari ákvæði samninganna. 
Ráðherra getur með reglugerð  ákveðið að frá bótum, sem bótaþegi á rétt á hér á landi, dragist bætur sem hann fær samkvæmt erlendri löggjöf fyrir sama tímabil og bætur eru greiddar fyrir hér á landi.“

Í 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins um samræmingu almannatryggingakerfa nr. 883/2004 sbr. framkvæmdareglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa nr. 987/2009 komi eftirfarandi fram:

„t) „tryggingatímabil“ iðgjaldatímabil eða starfstímabil launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings, eins og það er skilgreint eða viðurkennt sem tryggingatímabil samkvæmt þeirri löggjöf sem í gildi var þegar þeim var lokið eða var talið lokið, og að auki öll tímabil sem farið er með sem slík ef þau eru í téðri löggjöf talin jafngilda tryggingatímabilum.

[…]

v) „búsetutímabil“: tímabil sem eru skilgreind eða viðurkennd í þeirri löggjöf sem þeim var lokið eða talið vera lokið eftir.“

Í 6. gr. segi um söfnun tímabila:

„Ef ekki er kveðið á um annað í þessari reglugerð skal þar til bær stofnun aðildarríkis, þar sem í löggjöf er kveðið á um:

— að það að öðlast rétt til bóta, halda bótarétti, lengd bótatímabils eða endurheimt bótaréttar,

— að gildissvið löggjafar,

eða

—að aðgangur að eða undanþága frá skyldutryggingu, frjálsum viðvarandi tryggingum eða frjálsum tryggingum, sé bundið því skilyrði að tryggingatímabilum, starfstímabilum launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabilum sé lokið, taka tillit til, að því marki sem nauðsynlegt er, tryggingatímabila, starfstímabila launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabila, sem er lokið samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis, eins og þeim hafi verið lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það sjálft beitir.“

Mál þetta varði greiðslur örorkubóta Tryggingastofnunar sem kærandi telji vera of lágar og ekki réttar í samanburði við greiðslur sem maki hans fái frá Tryggingastofnun.

Kærandi sé metinn til 75% örorku og hafi upphafstími örorku verið ákvarðaður frá 1. september 2018, sbr. bréf, dags. 18. júní 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. júlí 2019, hafi kærandi verið upplýstur um að hann uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslum og varanlegu örorkumati frá 1. september 2019 og sé varanlegt. (Prentvilla hafi verið í ártali í bréfinu varðandi upphafstíma örorku sem hafi átt að vera 2018, útreikningur sé hins vegar réttur og taki mið af upphafstíma frá 1. september 2018). Í því bréfi hafi kæranda einnig verið tilkynnt um að réttur til örorkubóta miðist við lengd búsetu á Íslandi frá 16 ára aldri fram að fyrsta örorkumati. Þá hafi kæranda verið tilkynnt um að búseta á Íslandi samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá nái einungis 24,76 árum og að vegna búsetuskerðingar verði bætur hans einungis 65,70%. Að auki hafi verið upplýsingar um að greiðslur til kæranda taki mið af tekjuupplýsingum frá lífeyrisþega og séu reiknaðar út miðað við tekjur á ársgrundvelli.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi flutt lögheimili sitt til X […] X og taki útreikningur mið af því, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar, og reiknist búseta til réttinda 24,76 ár.

Kærandi hafi bæði haft búsetu á Íslandi og X og þá sé horft til EES-samningsins og EB reglugerðar nr. 883/2004, sbr. framkvæmdareglugerð nr. 987/2009 varðandi útreikning á örorkulífeyri, sbr. söfnun trygginga- og búsetutímabila.

Í málinu liggi fyrir úrskurður frá X þar sem kærandi hafi fengið úrskurð um örorkulífeyrisgreiðslur frá X sem nemi 23/40 af fullum lífeyri í X, sem geri […] á mánuði, sbr. bréf frá X, dagsettu í X 2019, auk vottorða […].

Við mat á tryggingatímabilum kæranda hafi verið farið eftir þeim gögnum sem hafi legið fyrir í málinu sem séu meðal annars frá X varðandi úrskurð um örorkugreiðslur auk annara E vottorða frá X og upplýsinga frá Þjóðskrá.

Niðurstaðan sé sú að Tryggingastofnun reikni út búsetu- og tryggingatímabil til réttinda og fái staðfestar búsetuupplýsingar frá Þjóðskrá við vinnslu mála, sem hafi svo áhrif á reiknuð búseturéttindi kæranda.

Tryggingastofnun hafi farið yfir búsetuútreikning og tryggingatímabil kæranda og telji hann byggðan á réttum forsendum og réttum upplýsingum. Kærandi hafi fengið blandaðan lífeyri bæði frá Íslandi og frá X, sbr. úrskurð frá X og úrskurð um örorkumat hjá Tryggingastofnun. Reiknuð réttindi taki síðan mið af búsetulengd kæranda en kærandi hafi 24,76 búsetuár hér á landi.

Varðandi samanburð við maka kæranda með tilliti til hærri örorkugreiðslna sé upphafstími örorku kæranda miðaður við 64 ára aldur þegar kærandi sé fyrst metinn til örorku hjá Tryggingastofnun. Til samanburðar vék Tryggingastofnun að útreikningi bóta eiginkonu kæranda.

Samkvæmt ofangreindu telji Tryggingastofnun að örorkubætur kæranda vera byggðar á réttum forsendum og vera rétt reiknaðar út miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. júní 2019, á umsókn kæranda um örorkulífeyri. Af kæru verður ráðið að kærandi sé ósáttur við hversu lágar örorkulífeyrisgreiðslur hann fær frá Tryggingastofnun. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að greiðslur til kæranda séu skertar, annars vegar vegna búsetu í X og hins vegar vegna tekna. Úrskurðarnefndin mun því taka framangreind ágreiningsefni til skoðunar.

A. Búsetuhlutfall

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum. Ákvæði 4. mgr. 18. gr. laganna hljóðar svo:

„Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögum þessum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Í þeim má meðal annars veita undanþágur frá ákvæðum laganna og heimila takmarkanir á beitingu þeirra. Þá segir meðal annars svo í 2. mgr. 68. gr. laganna:

„Í samningum skv. 1. mgr. má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- eða tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita.“

Í 71. gr. sömu laga segir:

„Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð almannatryggingareglur Evrópusambandsins eins og þær eru felldar inn í viðauka VI við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 frá 1. júlí 2011 sem fellir undir samninginn reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004, um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum, og nr. 987/2009 um framkvæmd hennar.“

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa var innleidd í íslenskan rétt með 1. gr. reglugerðar nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Í 1. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar segir að þegar lögð hafi verið fram beiðni um úthlutun bóta skuli allar til þess bærar stofnanir ákvarða rétt til bóta samkvæmt sérhverri þeirri löggjöf í aðildarríkjunum sem viðkomandi einstaklingur hefur heyrt undir, nema viðkomandi einstaklingur fari sérstaklega fram á frestun bóta vegna elli samkvæmt löggjöf eins eða fleiri aðildarríkja. Í 2. mgr. segir að ef hlutaðeigandi einstaklingur fullnægir ekki eða fullnægir ekki lengur skilyrðum sérhverrar þeirrar löggjafar í aðildarríkjunum sem hann hefur heyrt undir skuli stofnanir, sem beita löggjöf þar sem skilyrði eru uppfyllt, ekki taka tillit til tímabila, sem lokið er samkvæmt löggjöf þar sem skilyrði hafa ekki verið uppfyllt eða eru ekki lengur uppfyllt, við útreikninginn í samræmi við a-lið og b-lið 1. mgr. 52. gr., ef það hefur í för með sér lægri bótafjárhæð.

Í 1. mgr. 52. gr. segir eftirfarandi:

„Þar til bær stofnun reiknar fjárhæð þeirra bóta sem skulu greiddar:

a)    samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir því aðeins að skilyrðum fyrir bótarétti hafi verið fullnægt eingöngu samkvæmt landslögum (sjálfstæðar bætur)

b)    með því að reikna út fræðilega fjárhæð og síðan raunverulega fjárhæð (hlutfallslegar bætur) á eftirfarandi hátt:

i      fræðileg fjárhæð bóta jafngildir þeim bótum sem viðkomandi gæti krafist ef öllum trygginga- og/eða búsetutímabilum, sem hann hefur lokið samkvæmt löggjöf hinna aðildarríkjanna, hefði verið lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem stofnunin starfar eftir á þeim degi þegar bótum er úthlutað. Ef fjárhæðin er, samkvæmt þeirri löggjöf, óháð lengd lokinna tímabila skal litið svo á að hún sé fræðilega fjárhæðin,

ii     þar til bær stofnun skal síðan ákvarða raunverulega fjárhæð hlutfallslegu bótanna með því að reikna af fræðilegri fjárhæð hlutfallið milli lengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöfinni sem hún starfar eftir og heildarlengdar tímabila sem lokið var áður en áhættan kom fram samkvæmt löggjöf allra hlutaðeigandi aðildarríkja.“

Samkvæmt framangreindu koma fullar greiðslur örorkulífeyris aðeins til álita þegar um búsetu á Íslandi í að minnsta kosti 40 almanaksár er að ræða frá 16 til 67 ára aldurs. Ef um skemmri búsetu er að ræða greiðist örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Aðferðin við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega kemur ekki skýrt fram í lögum. Í framkvæmd hefur útreikningurinn, í tilviki örorkulífeyrisþega sem hafa jafnframt áunnið sér lífeyrisréttindi í öðrum aðildarríkjum EES, tekið mið af því hversu lengi viðkomandi hefur hlutfallslega búið á Íslandi frá 16 ára aldri fram að upphafi örorkumats. Síðan hefur búsetutíminn frá upphafi örorkumats fram að 67 ára aldri verið framreiknaður í sama hlutfalli. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við framangreinda framkvæmd ef fyrir liggur að örorkulífeyrisþeginn fær jafnframt bætur frá öðru EES aðildarríki, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016.

Fyrir liggur að kærandi þiggur örorkulífeyrisgreiðslur frá Danmörku. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá var kærandi með skráð lögheimili á Íslandi til X X en eftir þann tíma hefur hann búið í X. Kærandi hefur ekki gert athugasemd við framangreinda lögheimilisskráningu. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins er samanlagður búsetutími kæranda á Íslandi eftir 16 ára aldur 24 ár, 9 mánuðir og 2 dagar. Framreiknaður búsetutími kæranda á Íslandi frá upphafi örorkumats til 67 ára aldurs er samtals 1,52 ár. Samanlagt eru búsetuár kæranda hérlendis 26,28 ár. Þar sem full réttindi til örorkulífeyris og tekjutryggingar miðast við 40 ára búsetu er búsetuhlutfall kæranda 65,70% samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur farið yfir útreikninga Tryggingastofnunar og gerir ekki athugasemdir við þá.

Með hliðsjón af framangreindu er fallist á þá niðurstöðu Tryggingastofnunar að greiðsluhlutfall örorkulífeyris til kæranda skuli vera 65,70%.

B. Aðrar skerðingar á lífeyrisgreiðslum

Samkvæmt gögnum málsins og upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins eru örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda jafnframt skertar um 15% vegna slysabóta sem kærandi fékk greiddar frá Tryggingastofnun á árinu 1992 og vegna íslenskra lífeyrissjóðsgreiðslna sem gert var grein fyrir í tekjuáætlun kæranda.

Hvað varðar slysabætur til kæranda þá var, samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins, þann 18. september 1992 tekin ákvörðun hjá stofnuninni að meta kæranda með 15% örorku vegna slyss sem hann varð fyrir X. Samkvæmt þágildandi 34. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar, var heimilt ef orkutap væri minna en 50% að greiða í einu lagi örorkubætur sem jafngildi lífeyri hlutaðeigandi um tiltekið árabil, sbr. núgildandi 4. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingu almannatrygginga. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er meginreglan sú að enginn geti samtímis notið nema einnar tegundar greiddra bóta samkvæmt þessu lögum og lögum um slysatryggingar almannatrygginga vegna sama atviks eða fyrir sama tímabil nema annað sé þar sérstaklega tekið fram. Kveðið var á um sambærilega meginreglu í 2. mgr. 51. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar. Þá segir í 4. mgr. 48. gr. laganna að hafi lífeyrisþegi fengið greiddan lífeyri samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga skuli taka tilliti til þess við útreikning örorkulífeyris vegna almennrar örorku fyrir sama tímabil. Með hliðsjón af framangreindu gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við þá framkvæmd stofnunarinnar að örorkulífeyrisgreiðslur til kæranda lækki um 15% vegna slysabóta sem hann fékk greiddar á árinu 1992.

Varðandi skerðingu á greiðslum kæranda vegna lífeyrissjóðstekna þá er í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla lífeyrissjóðstekjur undir 1. tölulið A-liðar 7. gr.

Á grundvelli 22. gr. laga um almannatryggingar skal greiða tekjutryggingu þeim sem fá örorkulífeyri. Skattskyldar tekjur samkvæmt 2. mgr. 16. gr. sömu laga sem fara yfir frítekjumark skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna sem umfram eru.

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum umfram frítekjumark skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við að fjárhæð greiðslna frá Tryggingastofnun til kæranda skerðist vegna íslenskra lífeyrissjóðstekna.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur farið yfir útreikninga Tryggingastofnunar á örorkulífeyrisgreiðslum til kæranda og gerir ekki athugasemdir við þá. Afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn kæranda er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. júlí 2019 á umsókn A, um örorkulífeyri er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta