Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 653/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 653/2021

Mánudaginn 21. mars 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 3. desember 2021, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2021 vegna umgengni hennar við D, E og F.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Börnin D, E og F eru á aldrinum X til X ára. Kærandi er kynmóðir barnanna.

Kærandi var svipt forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms G þann 29. janúar 2021. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með dómi 18. júní 2021.

Mál barnanna var tekið fyrir á fundi Barnaverndarnefndar B þann 10. nóvember 2021. Fyrir fundinn lá afstaða starfsmanna Barnaverndar B sem lögðu til að umgengni kæranda við börnin yrði tvisvar á ári, þrjár klukkustundir í senn í apríl og október, undir eftirliti og í húsnæði á vegum barnaverndar.

Kærandi féllst ekki á tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að móðir A skuli njóta umgengni við börnin D, E og F tvisvar á ári í þrjár klukkustundir í senn. Umgengni skal fara fram í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna. Umgengni skal að jafnaði fara fram í apríl og október ár hvert.“

Lögmaður kæranda lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. desember 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. desember 2021, var óskað eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 22. desember 2021, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2022, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að hún hafi umgengni við börn sín tvisvar sinnum í mánuði sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum barnanna, í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna.

Til vara krefst kærandi þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að hún hafi umgengni við syni sína, E og F, tvisvar sinnum í mánuði sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum þeirra, í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna, og umgengni við dóttur sína D tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna.

Kærandi telur að ekki séu rök fyrir því að synja henni um aukna umgengni við börn sín. Kröfur sínar styður kærandi að meginstefnu til við eftirfarandi málsástæður:

Friðhelgi einkalífs og velferð barna

Kærandi vísar til þess að allir eigi stjórnarskrárvarinn rétt til friðhelgis einkalífs, fjölskyldu og heimilis sem ekki verðir skertur nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá er vísað til 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að börnum skuli í lögum tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Nefnt ákvæði á sér mrðal annars stoð í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 19/2013. Þar segir í 1. mgr. 3. gr. að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld og löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Í 1. mgr. 9. gr. samningsins segir að barn skuli ekki skilið frá foreldrum sínum, nema aðskilnaðurinn sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins og ákvörðun þar um sé tekin af lögbæru stjórnvaldi en slík ákvörðun sé háð endurskoðun dómstóla.

Það sem er barni fyrir bestu

Kærandi byggir á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og ákvæðum barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. barnalaga á hvert barn rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram fyrrgreind regla um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess. Í 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram það meginmarkmið laganna og tilgangur barnaverndarstarfs að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð. Leitast skal við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga kemur fram að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu og að hagsmunir barna skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda.

Kærandi byggir á því að fyrst og fremst beri að líta til þess hvaða hagsmuni börnin hafi af umgengni við kæranda. Við mat á því hvað sé barni fyrir bestu verður meðal annars að líta til þarfa barnanna, líkt og kemur fram í Handbók – Barnalögin 76/2003, með síðari breytingum, eftir H (bls. 12). Kærandi byggir á því að það séu augljósir hagsmunir barnanna að viðhalda tengslum við móður sína, þrátt fyrir að hún fari ekki með forsjá þeirra. Á það einkum við um yngri drengina tvo sem hafa sýnt skýran vilja og þörf fyrir viðhalda tengslum við móður sína.

Réttur barns til þess að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þess

Kærandi byggir á 3. mgr. 1. gr. barnalaga þess efnis að barn eigi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem það varða og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Kærandi vísar til þess að F hafi sagt að það sé gaman að hitta mömmu og hann hafi augljósa þörf og vilja til að umgangast móður sína meira. Í talsmannsskýrslu hans, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði, kemur einnig fram að hann vilji tala oftar við móður sína á Skype ásamt því að það yrði gaman að gista eina nótt hjá henni. Í talsmannsskýrslu E, sem vísað er til í hinum kærða úrskurði, kemur fram að hann vilji hitta móður sínar oftar en tvisvar sinnum á ári. Af framangreindu er ljóst að E og F hafi hug á meiri umgengni við móður sína en hinn kærði úrskurður kveður á um.

Réttur barns til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra

Kærandi byggir á 1. mgr. 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem fram kemur að barn skuli, eftir því sem unnt er, eiga rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. Þá er jafnframt mælt fyrir um það í 8. gr. samningsins að aðildarríki skuldbindi sig til þess að virða rétt barns til að viðhalda því sem auðkennir það sem einstakling, þar með töldu fjölskyldutengslum eins og viðurkennt er með lögum, án ólögmætra afskipta. Réttur barns til að þekkja uppruna sinn hefur einnig verið talinn felast í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem kveður á um réttinn til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu.

Í ljósi framangreinds telur kærandi að of langt sé gengið með því að takmarka umgengni kæranda við börn sín við tvö skipti á ári. Svo veruleg takmörkun á umgengni kemur í veg fyrir að  börn kæranda geti í raun notið réttar síns til að þekkja foreldri sitt og njóta umönnunar þess. Á það sérstaklega við um yngri drengina tvo, sem séu X og X ára gamlir. Svo takmörkuð samskipti snemma á lífsleiðinni séu til þess fallin að koma í veg fyrir að drengirnir geti í raun þekkt móður sína.

Umgengnisréttur

Kærandi byggir á gagnkvæmum umgengnisrétti barns og foreldris sem kveðið er á um í 46. gr. barnalaga. Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sitt sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess, sbr. 1. mgr. 46. gr. barnalaga. Að sama skapi á foreldri, sem barn býr ekki hjá, í senn rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnalaga. Kærandi vísar til 70. gr. barnaverndarlaga þar sem kemur fram að eftir að foreldri hefur afsalað sér umsjá eða forsjá eða verið svipt umsjá eða forsjá barns samkvæmt ákvæðum laganna eigi barn rétt á umgengni við foreldra eða aðra sem eru því nákomnir, enda samrýmist það hagsmunum þess. Í sama ákvæði kemur fram að um umgengni fari í öllum tilvikum samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga, óháð því hver taki við umsjá eða forsjá barns. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Þá eiga foreldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps sem varð að barnaverndarlögum segir jafnframt að ef neita eigi um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verði að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins. Í hinum kærða úrskurði er umgengnisréttur kæranda takmarkaður verulega, án þess að sýnt sé fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnanna. Kærandi byggir á því að þvert á móti séu það mikilvægir hagsmunir barnanna að njóta aukinnar umgengni við móður sína, sbr. framangreindar röksemdir um gagnkvæman umgengnisrétt og það sem sé barni fyrir bestu.

Meðalhóf

Kærandi vísar til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segir að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og aðeins skuli beitt íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verður ekki náð með öðru og vægara móti. Af ákvæðunum leiðir að úrskurður um umgengni verði að vera til þess fallinn að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt í hófi. Kærandi telur hinn kærða úrskurð brjóta í bága við framangreinda meðalhófsreglu barnaverndarlaga sem og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 38. gr. barnaverndarlaga. Í þessu tilfelli er markmiðið einkum að gera það sem er börnunum fyrir bestu, auk þess að framfylgja gagnkvæmum rétti foreldris og barns til umgengni. Kærandi byggir á því að svo veruleg takmörkun á umgengni svo sem kveðið er á um í hinum kærða úrskurði, hafi ekki falið í sér nægilega hófsama beitingu á umræddu úrræði.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að kærður sé úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2021 um umgengni kæranda við börn hennar þrjú sem séu í varanlegu fóstri á vegum Barnaverndarnefndar B eftir að kærandi var svipt forsjá þeirra með dómi Landsréttar 18. júní 2021. Synir kæranda dvelja á sama fósturheimili en stúlkan er vistuð á öðru heimili.

Af hálfu Barnaverndarnefndar B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Vísað sé til málsatvika eins og þeim hafi verið lýst í hinum kærða úrskurði sem og forsendna hans. Þar komi fram að umgengni hafi farið fram undir eftirliti frá því að börnin voru fjarlægð af heimili kæranda í febrúar 2020 eftir að synir hennar greindu frá því að þeir væru beittir líkamlegum refsingum. Vísað sé til skýrslna eftirlitsaðila með umgengni en þær nýjustu séu raktar í greinargerð starfsmanna nefndarinnar sem lögð hafi verið til grundvallar hinum kærða úrskurði. Kærandi nær ekki að skapa góða stund á meðan umgengnin fer fram og er oft ekki tilbúin til að fylgja leiðbeiningum eða þiggja aðstoð eftirlitsaðila. Nokkuð hefur borið á því að hún og/eða börnin eyði umgengnistíma sínum í skjátæki í stað þess að eiga í samskiptum eða leik. Kærandi hafi ekki tekið vel í leiðbeiningar um að nota tímann sem hún hefur með börnunum á annan hátt.

Þá sé vísað til þess að rætt hafi verið við öll börnin og afstaða þeirra til umgengni fengin. Jafnframt hafi verið leitað eftir afstöðu fósturforeldra. Í talsmannsskýrslu D komi fram að hún gerir ekki kröfur um meiri umgengni við móður eða að samtöl verði oftar en þau séu. Hún vilji ekki fasta umgengni og vilji helst að umgengnin fari fram þegar það er ekkert um að vera í skólanum. Hins vegar hafi hún áhuga á að hitta bræður sína oftar heima hjá henni eða heima hjá bræðrum sínum.

Í talsmannsskýrslu E komi fram að honum finnist fínt að hitta móður sína en hann geti ekki búið hjá henni þar sem hún beiti ofbeldi og geti ekki hætt því. Hann sagðist hitta hana tvisvar á ári núna, en myndi vilja hitta hana fjórum sinnum á ári. Honum þætti í lagi að móðir myndi koma til skiptis til þeirra við ferðirnar sem þeir fara suður.

Í talsmannsskýrslu F komi fram að hann vilji tala við móður sína oftar á Skype ásamt því að það yrði gaman að gista í eina nótt hjá henni. F sagði að hann mætti ekki búa hjá móður sinni því að hún lemji, en hann myndi heldur ekki vilja búa hjá henni þótt það væri í boði. Aðspurður um umgengni við föður og föðurömmu sagðist hann vilja hitta þau oftar því að þau væru góð. F sagði að D byggi á öðru heimili og óskaði þess að hún myndi koma og búa hjá þeim.

Ekkert barnanna hafi tjáð sig þannig að þau óski eftir að vera í miklum samskiptum við móður sína eins og staðan er í dag. Börnin bjuggu við erfiðar aðstæður hjá móður og séu að upplifa í fyrsta sinn að búa við umhyggju og hlýju. Stúlkan hafi ekki búið hjá móður nema lítinn hluta lífs síns en hún sé að mestu alin upp í heimalandi móður þar sem hún upplifði alvarleg áföll.  Hún sé í mikilli þörf fyrir að mynd sterk og örugg tengsl við fósturforeldra sína. 

Það sé mat fósturforeldra E og F að umgengni við móður reynist drengjunum erfið, sérstaklega fyrir E. E hafi átt erfitt með svefn í aðdraganda umgengni og talar um að vera hræddur við að hitta móður sína. Að mati fósturforeldra sé umgengni ekki að nýtast bræðrunum vel þar sem umgengi fer að miklu leyti í það að spila tölvuleiki í stað samveru með móður.

Það sé mat fósturforeldra D að það sé henni fyrir bestu að vera í sem minnstum samskiptum við móður sína. Að mati fósturforeldra á umgengni að vera á forsendum D og því eigi ekki að festa fjölda skipta. 

Barnaverndarnefnd telji að það samrýmist ekki hagsmunum stúlkunnar eða bræðra hennar að verða við kröfu móður um umgengni tvisvar í mánuði. Það sé beinlínis andstætt markmiðum sem stefnt sé að með varanlegu fóstri. Í ljósi þess og með vísan til málavaxta, afstöðu barnanna og fósturforeldra hafi [tillaga] starfsmanna að tilhögun umgengni verið samþykkt, enda þykir ljóst að starfsmenn og yfirsetuaðilar hafa verið sveigjanleg og komið til móts við óskir móður um að fá að fara út með börnin, sækja heim söfn, heimsækja leikvelli og annað. 

Við ákvörðun sína hafi nefndin horft til viljaafstöðu barnanna, umsagnar fósturforeldra og þess markmiðs sem stefnt skal að í varanlegu fóstri sem er að börnin aðlagist fósturheimili sínu sem best og tengist fósturfjölskyldu sinni. Umgengni þarf að þjóna hagsmunum barnanna, sbr. 2., 3. og 4. mgr. 74.gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Umgengni í varanlegu fóstri sé í þeim tilgangi að barn þekki uppruna sinn en ekki í þeim tilgangi að viðhalda eða mynda ný tengsl.

 

IV. Afstaða barna

Börnunum voru skipaðir talsmenn sem tóku viðtöl við þau 28. október 2021.

Í skýrslu talsmanns vegna stúlkunnar D kemur fram að talsmaður hafi rætt við hana á fósturheimili. Í samantekt talsmanns kemur fram að stúlkan geri hvorki kröfur um meiri umgengni við móður né að viðtöl séu oftar en þau eru. Henni finnst þetta alveg nóg og gerir ekki kröfur um meira. Hins vegar hafi stúlkan áhuga á því að hitta bræður sína oftar og vera í meiri umgengni við þá, en án móður og helst heima hjá henni eða heima hjá bræðrum sínum. Þá kemur fram í skýrslunni að stúlkan vilji ekki fasta umgengni, vilji helst að umgengnin fari fram þegar ekkert sé um að vera í skólanum eða tengt hinum börnunum. Upplifun talsmanns sé sú að stúlkan sé mjög sátt og hamingjusöm á fósturheimilinu og þar sé vel hugsað um hana.

Í skýrslu talsmanns vegna drengsins E kemur fram að rætt hafi verið við hann fósturheimili. Við eftirgrennslan talsmanns um afstöðu drengsins til umgengni kom fram að hann vildi hitta móður sína tvisvar til fjórum sinnum á ári. Þá þætti honum í lagi að móðir kæmi að hitta sig á fósturheimilinu til skiptis við þegar hann færi að hitta hana. Hann sagðist sakna hennar en vissi ekki alveg af hverju. Einnig sagðist drengurinn ekki tala oft við hana í síma eða á Skype en það væri allt í lagi og honum liði vel með að tala við móður. Það væri erfiðara að fara frá henni þegar hann hitti hana.

Í skýrslu talsmanns vegna drengsins F kemur fram að rætt hafi verið við hann á fósturheimili en drengirnir eru vistaðir á sama fósturheimili. Við eftirgrennslan talsmanns um afstöðu drengsins til umgengni kom fram hann vildi gista eina nótt hjá móður og taldi að kannski yrði það gaman. Drengurinn sagðist gjarnan vilja tala meira við móður á Skype.

 


 

V. Afstaða fósturforeldra

Barnaverndarnefndin aflaði afstöðu fósturforeldra til umgengni kæranda við börnin.

Í umsögn fósturforeldra stúlkunnar kemur fram að fósturforeldrar telja að stúlkunni sé fyrir bestu að vera í sem minnstum samskiptum við móður sína. Þau telji að stúlkan eigi einungis að hitta hana þegar hún sé tilbúin til þess og þá algerlega á sínum forsendum.

Í umsögn fósturforeldra drengjanna kemur fram að í umgengni hafi E verið skammaður fyrir að segja frá því sem varð til þess að drengirnir voru teknir frá móður sinni. Þá hafi E vægast sagt liðið illa yfir fyrirhugaðri umgengni við móður sína og átt erfitt með að sofa. Það sé álit fósturforeldra að umgengni sé ekki að gera mikið fyrir drengina. Í umgengni virðist þeir spila tölvuleiki en spjalla ekki eða leika við móður. Þá hafi verið fleiri en móðir í umgengni.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan D er X ára gömul, drengurinn E er X ára gamall og drengurinn F er X ára gamall. Kærandi var svipt forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms G þann 29. janúar 2021. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með dómi 18. júní 2021.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að ekkert barnanna hafi tjáð sig þannig að þau óski eftir að vera í miklum samskiptum við kæranda eins og staðan væri í dag. Börnin hafi búið við erfiðar aðstæður hjá kæranda og séu að upplifa í fyrsta sinn að búa við umhyggju og hlýju. Stúlkan hafi ekki búið hjá kæranda nema lítinn hluta lífs síns en hún sé að mestu alin upp í heimalandi kæranda þar sem hún upplifði alvarleg áföll. Hún sé í mikilli þörf fyrir að mynda sterk og örugg tengsl við fósturforeldra sína. Nefndin telji að það samrýmist ekki hagsmunum stúlkunnar eða bræðra hennar að verða við kröfu kæranda um umgengni tvisvar í mánuði. Það sé beinlínis andstætt þeim markmiðum sem stefnt sé að með varanlegu fóstri.

Kærandi, sem er kynmóðir barnanna, krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að hún hafi umgengni við börn sín tvisvar sinnum í mánuði sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum barnanna, í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna. Til vara krefst kærandi þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og breytt á þá leið að hún hafi umgengni við syni sína tvisvar sinnum í mánuði sem og á stórhátíðisdögum, þar með talið á jólum og á afmælum drengjanna, í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna, og umgengni við dóttur sína tvisvar sinnum á ári í þrjár klukkustundir í senn, í húsnæði á vegum barnaverndar og undir eftirliti starfsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengisréttarins eða framkvæmd hans.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem börnin er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni þeirra við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum þeirra best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Varðandi kröfu kæranda til frekari umgengni við börnin verður að líta til þess hverjir eru hagsmunir þeirra af því að njóta frekari umgengni við kæranda. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að haga umgengni barnanna við kæranda með hliðsjón af því að ekki er verið að reyna styrkja tengsl þeirra enn frekar. Hagsmunir barnanna eru best varðir með því að ró skapist í kringum þau og þau fái sem mestan frið til að aðlagast fósturfjölskyldum sínum. Börnin, sem er í varanlegu fóstri, eiga rétt á að þekkja uppruna sinn og álítur úrskurðarnefndin að því sé fullnægt með þeirri umgengni sem mælt er fyrir um í hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B. Hvað varðar afstöðu drengjanna til frekari umgengni við kæranda ber að líta til þess að vegna fyrri tengsla þeirra við hana, aldur þeirra og þroska, er ekki raunhæft að ætlast til að þeir hafi skýra mynd af því hvað þjóni þörfum þeirra best miðað við núverandi aðstæður. Samkvæmt framansögðu telur úrskurðarnefndin að fullnægjandi rök séu fyrir því að það séu ekki hagsmunir barnanna að styrkja tengsl þeirra við kæranda með frekari umgengni.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem eigi að leggja til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barna í fóstri við foreldra og nákomna er ákveðin. Í því felst að úrskurðarnefndin telur ekki rök fyrir því að meðalhófsreglan hafi verið brotin.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 10. nóvember 2021 um umgengni D, E, og F, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta