Mál nr. 23/2001
Þriðjudaginn, 30. apríl 2002
A
gegn
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri.
Þann 6. nóvember 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 1. nóvember 2001.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.
Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 23. mars 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:
"Eins og fram kemur á skattframtali eru dagpeningar frá B meira en tvöföld tilfærð laun. Umbjóðanda mínum má því ekki refsa fyrir að flugfélagið D geri slíka samninga. Þessi tilhögun er einungis gerð til þess að skattlegt hagræði náist. Að sjálfsögðu eru dagpeningar engin laun og ekki í valdi kæranda hvernig þessi mál eru fram sett.
Hið ótrúlega er að þessar flugfreyjur eru ráðnar af erlendu félagi sem skráð er í Nýja Sjálandi og greiðir engin tryggingagjöld til samfélagsins hér."
Með bréfi, dags. 6. nóvember 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 30. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:
"Í kæru er farið fram á endurskoðun á fæðingarorlofi og því til stuðnings er framvísað skattframtali 2001 þar sem auk þeirra launa sem útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði byggðist á eru talin fram laun greidd af erlendu fyrirtæki og dagpeningar sem frádráttur færður á móti.
Rökstuðningur fyrir kæru er á þá leiða að dagpeningar frá erlenda fyrirtækinu séu meira en tvöföld tilfærð laun, ekki megi refsa kæranda fyrir að íslenska fyrirtækið geri slíka samninga, þessi tilhögun sé einungis gerð til þess að skattlegt hagræði náist og ekki sé í valdi kæranda hvernig þessi mál séu fram sett.
Samkvæmt 1.-2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs og skal mánaðarleg greiðsla nema 80% af meðaltali heildarlauna á 12 mánaða samfelldu tímabili sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.
Í 3. mgr. 15. gr. laganna er kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá skattyfirvalda. Ef foreldri telur upplýsingar úr viðkomandi skrám ekki rétt skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.
Útreikningur á greiðslum til kæranda byggðist í samræmi við ákvæði 13. og 15. gr. á þeim launum sem greidd voru hér á landi á árinu 2000 samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK en greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hófust 1. mars 2001. Ekki er heimilt að taka til greina laun eða dagpeningar á erlendum vinnumarkaði og það breytir ekki þeirri niðurstöðu að það sé ekki á valdi kæranda að launagreiðslur fari fram með þeim hætti."
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 4. febrúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Bréf dags. 17. febrúar barst til nefndarinnar vegna málsins, þar segir m.a.:
"Hér er um að ræða unga konu sem vissulega stóð í þeirri trú að hún með starfi sínu hjá D flugfélaginu ætti fullan rétt til fæðingarorlofs sem ekki virðist raunin á."
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi útreikning á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram að miða skuli við almanaksmánuði, þegar það kemur til athugunar hvert framangreint tólf mánaða viðmiðunartímabilið er.
Þegar meta skal hvað skuli telja til launa kæranda samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., verður að líta til 6. og 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald (tgl.). Kærandi fær laun og dagpeningagreiðslur frá erlendu félagi, E, þar sem um er að ræða laun og dagpeningagreiðslur frá erlendum aðila teljast slíkar greiðslur ekki til gjaldstofns samkvæmt 6. gr tgl., sbr. 5. tölul. 1. mgr. 7. gr. tgl. Framangreindar greiðslur geta því ekki talist til launa samkvæmt 2. mgr. 13. gr ffl., sem tekin yrðu sem heildarlaun við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Guðný Björnsdóttir, hdl.
Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri
Jóhanna Jónasdóttir, læknir