Mál nr. 55/2001
Þriðjudaginn, 3. september 2002
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir, hdl., Jóhanna Jónasdóttir, læknir, og Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri.
Þann 29. október 2001 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 19. október 2001.
Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, einning að synjað væri um framlengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.
Með bréfi frá Tryggingastofnun ríkisins, dags. 17. ágúst 2001, var kæranda tilkynnt um synjun um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og með bréfi, dags. 23. júlí 2001, var kæranda synjað um framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi.
Í rökstuðningi með kæru segir:
"Sem sjálfstætt starfandi fræðimaður hef ég undanfarið unnið að fræðilegri útgáfu á fornaldarsögu (B sögu) og þ.a.l. unnið miklar rannsóknir á gömlum handritum, málfari og fleiru sem tengist bókmenntum fyrri alda. Útgáfa þessi er væntanleg á markað eftir nokkrar vikur. Auk þess hef ég unnið við frekari rannsóknir á sviði miðaldabókmennta og hef þegar birt greinar á því sviði, og aðrar væntanlegar í fagtímaritum næstu misseri. Þessa rannsóknarvinnu hef ég að mestu fjármagnað með styrkjum, sem sannanlega hafa verið uppistaða tekna minna síðastliðin ár. Stundum hef ég unnið "launaða" vinnu, svo sem stundakennslu við Háskóla Íslands, prófarkalestur og aðra launaða fræðivinnu meðfram eigin rannsóknum, en síðustu 12 mánuði fyrir umsókn mína um fæðingarorlof (dags. 19. júní sl.) hafa styrkirnir (flestir frá RANNÍS) verið aðaltekjulind mín. Við rannsóknir mínar hef ég unnið fullan vinnudag, frá kl. 9-17, með vinnuaðstöðu á D.
Þar sem tekjur mínar síðustu ár hafa verið óstöðugar (ýmist styrkir, misháir, eða launuð vinna afmörkuð tímabil) hefur framtal skatta verið með þeim hætti að staðgreiðsla hefur verið greidd af launaðri vinnu, en styrkir og tekjur fyrir smærri verkefni hafa ávallt verið talin fram í febrúar ár hvert og skattur greiddur samkvæmt álagningu í ágúst. Af styrkjum hafa því ávallt verið greiddir skattar (greiddir eftir á). Ekki hefur verið greitt af styrkjum þessum tryggingagjald, samkvæmt ráðleggingu endurskoðanda og ráðgjafa hjá RSK, enda telur RSK að hér sé ekki um eiginlegan atvinnurekstur að ræða. Skattframtöl mín eru því gerð í samræmi við reglur RSK og samkvæmt leiðbeiningum frá þeim.
Síðastliðið vor hafði ég samband við ráðgjafa Tryggingastofnunar ríkisins, skýrði frá eðli tekna minna og ítrekaði að staðgreiðsluskrá RSK myndi ekki gefa rétta mynd af þeim, þar sem skattar yrðu greiddir eftir á. Mér var í mun að ganga sem best frá umsókn um fæðingarorlof og leitaði þess vegna ráðgjafar um þessi mál. Ráðgjafinn sannfærði mig um að nóg væri að skrifa bréf með umsókn minni, þar sem ég greindi frá þessum tekjum mínum og sendi þessu til staðfestinga ljósrit af skjölum og reikningum sem sönnuðu tekjur mínar (styrkina) umrætt tímabil.
Í STUTTU MÁLI: Ég vinn fullan vinnudag við fræðistörf, varðveislu menningarverðmæta. Þessi fræðistörf mín hafa hlotið ýmsa opinbera viðurkenningu, sem m.a. má sjá af því að:
a) meginverkefni mitt, B saga, hefur verið tekið til útgáfu hjá D.
b) til verkefna minna hef ég notið ýmissa styrkja (sjá gögn sem fylgdu með umsókn um fæðingarorlof). Um styrkina er alla jafna mikil samkeppni.
c) meginverkefni mitt hlaut viðurkenningu frá verðlaunanefnd E sl. ár.
Verk mín eru þ.a.l. þörf og í þágu íslenskrar menningar. Laun mín felast að mestu leyti í styrkjum. Ég greiði af þeim skatt og ætti þ.a.l. að eiga fullan rétt á félagslegri aðstoð ríkisins, svo sem fæðingarorlofi.
Samkvæmt reglum um fæðingarorlof skulu greiðslur miðast við a) staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK eða b) greitt tryggingagjald. Mér þykir augljóst að hér vanti: c) eftir á greiddan skatt, samkvæmt reikningum og öðrum gögnum sem sanna tekjur.
Væntanlegur fæðingardagur barns míns var 3. ágúst, en það fæddist 14. ágúst. Nokkrum dögum áður hafði ég samband við TR til að athuga framgang umsóknar minnar og hvort ég mætti ekki fara að vænta tilkynningar um greiðslur, ásamt upplýsingum um upphæð þeirra. Þá var mér tjáð að ég fengi ekki fæðingarorlof, þar sem ég uppfyllti ekki skilyrði a) og b) hér að framan. Þetta var staðfest með bréfi frá 17. ágúst, þar sem segir: "Ekki er í lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 að finna heimild að taka tillit til styrkveitingar eins og farið er fram á í umsókn þinni." Þetta má skilja sem svo að TR hafi ákveðið að lögin skuli túlkuð á þann hátt að það sem ekki fellur undir þau sé bannað, en ég leyfi mér að benda á þann túlkunarmöguleika að það sem hvergi er bannað (þ.e. "c"-liður) megi heimila, a.m.k. undir vissum kringumstæðum.
Á sömu forsendum var umsókn minni um framlengingu á fæðingarorlofi hafnað (skv. bréfi frá 23. júlí), en þar sem ég var óvinnufær vegna grindargliðnunar sótti ég um að fæðingarorlof mitt yrði framlengt um mánuð. Með umsókninni fylgdi vottorð frá lækni á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur..."
Með bréfi, dags. 29. október 2001, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.
Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 24. janúar 2002. Í greinargerðinni segir:
"A kærir synjun á að styrkveitingar sem hún hefur vegna fræðistarfa sinna voru ekki lagðar að jöfnu við laun og að henni var þess vegna synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og einnig lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu.
Með umsókn dags. 19. júní 2001 sótti hún um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 3. ágúst vegna væntanlegrar fæðingar þann sama dag. Með umsókninni fylgdi bréf hennar með sömu dagsetningu þar sem hún [...] tilkynnti sem sjálfstætt starfandi einstaklingur um töku fæðingarorlofs frá 3. ágúst 2001 til 3. febrúar 2002 en staða hennar væri sú að hún starfi sem bókmenntafræðingur og hafi að mestu leyti tekjur af styrkjum en auk þess taki hún að sér smærri verkefni sem hún fái borgað fyrir. Í framhaldi af því gerði hún grein fyrir hvernig tekjuöflun sinni sl. 12 mánuði sem falist hefði í að hluta í launaðri vinnu, en einnig í ritlaunum og styrkjum.
A var með bréfi dags. 17. ágúst synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þar sem ekki væri í lögunum að finna heimild til að taka tillit til styrkveitinga eins og farið væri fram á í umsókn hennar. Þess í stað yrði henni greiddur fæðingarstyrkur frá 1. ágúst.
Í 1. mgr. 13. gr. kemur fram að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil og í 3. mgr. segir að mánaðarleg greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris skal nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.
Í kæru sinni greinir A frá því að ekki hafi verið greitt tryggingagjald af styrkjum hennar, samkvæmt ráðleggingu endurskoðanda og ráðgjafa hjá RSK, enda telji RSK að hér sé ekki um eiginlegan atvinnurekstur að ræða. Það er því ljóst að styrkir þessir verða ekki lagðir að jöfnu við reiknað endurgjald sem greitt hefur verið tryggingagjald af og þar sem ekki er í lögunum að finna sérstaka heimild til að taka tillit til slíkra styrkveitinga á hún ekki rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Með læknisvottorði dags. 13. júlí sótti A um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu. Óskað var eftir því með bréfi dags. 23. júlí að hún framvísaði staðfestingu frá atvinnurekanda um hvenær hún hafi látið af störfum og hvenær laun féllu niður. Engin slík staðfesting hefur borist og hefur því ekki verið hægt að taka afstöðu til umsóknar hennar. Vegna þess að henni hefur verið synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á hún ekki rétt á slíkri lengingu en í lögunum er ekki kveðið á um heimild til lengingar á greiðslu fæðingarstyrks vegna veikinda móður á meðgöngu ."
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. janúar 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.
Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 8. febrúar 2002, þar segir m.a.:
"a) Í greinargerð stendur: A var með bréfi dags. 17. ágúst synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki það skilyrði 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði í starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þar sem ekki væri í lögunum að finna heimild til að taka tillit til styrkveitinga eins og farið væri fram á í umsókn hennar.
Í synjun TR felst reglan: "það sem er ekki leyft er bannað", í stað þess sem eðlilegra er: "það sem er ekki bannað er leyft."
Í svari TR er heldur ekkert tillit tekið til þess að ég vann vinnu fram í 8. mánuð meðgöngunnar og aflaði tekna. Tekjurnar voru ýmis laun, ritlaun og styrkir og ég vann ýmist að eigin verkum eða fyrir aðra. Tekjur mínar voru talsverðar og þar sem ég hafði gert ráð fyrir að fá u.þ.b. 80% meðaltalstekna síðustu 12 mánaða fyrir umsókn um fæðingarorlof sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði varð ég og fjölskylda mín fyrir fjárhagslegu áfalli við synjun Tr, sérstaklega þar sem það er af og frá að eiginmaður minn sé hátekjumaður. Áfallið var einnig mun meira vegna þess að starfsmaður TR sem ég talaði við fyrst gaf mér fyllstu ástæðu til bjartsýni á að allar tekjur mínar yrðu metnar þegar að greiðslum kæmi.
b) í greinargerð TR stendur:
"Með læknisvottorði dags. 13. júlí sótti A um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu. Óskað var eftir því með bréfi dags. 23. júlí að hún framvísaði staðfestingu frá atvinnurekanda um hvenær hún hafi látið af störfum og hvenær laun féllu niður. Engin slík staðfesting hefur borist og hefur því ekki verið hægt að taka afstöðu til umsóknar hennar"
Þar sem ég var ekki í launaðri vinnu hjá öðrum atvinnurekanda/vinnuveitanda gat ég ekki sent inn staðfestingu. Ég sjálf búin að senda inn umsókn og sem eigin atvinnurekandi var ég búin að senda inn staðfestinguna, þ.e.a.s. hún fólst í umsókninni sjálfri. Hér er rétt að staldra við og spyrja: Fá einyrkjar aldrei slíka lengingu? Hvað með konu sem er bóndi? Ekki getur hún sent inn staðfestingu atvinnurekanda, eða hvað? Ná lögin ekki yfir stóran hluta íslenskra kvenna á barneignaaldri?"
Með bréfi, dags. 16. apríl 2002 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir afriti af skattframtölum kæranda fyrir árin 2001 og 2002 og var orðið við þeirri beiðni. Nefndin óskaði síðan eftir greinargerð ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 7. júní 2002.
Greinargerð ríkisskattstjóra er dags. 12. júní 2002. Í greinargerð segir:
"...Stofn tryggingagjalds er samkvæmt 6. grein laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, sbr. 44. gr. laga nr. 111/1992, allar tegundir launa eða þóknana fyrir starf, hverju nafni sem nefnist, sem skattskyld eru skv. 1. tölul. A-liðar 7.gr. laga nr. 75/1981. Ekki skiptir máli í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum, vöruúttekt eða vinnuskiptum. Til stofns telst ennfremur endurgjald sem ber að reikna manni sem vinnur við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.
Launatekjum er í skattlegum skilningi gerð skil í tilvitnuðum 1. tölulið A-liðar laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Þar eru nefndar til sögunnar allar tegundir launa og starfstengdra greiðslna, ökutækjagreiðslur, dagpeningar, hlunnindi o.fl. Mynda þessar greiðslur stofn til tryggingagjalds sbr. framansagt.
Styrkir og styrkfé vegna fræðistarfa hvers konar telst hins vegar til skattskyldra tekna á grundvelli 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
Þessar tekjur sem slíkar falla því ekki að hugtakinu laun í skilningi skattalaga og mynda ekki tryggingagjaldstofn.
...Fræðimönnum og vísindamönnum getur verið skylt að reikna sér endurgjald og greiða af slíku endurgjaldi tryggingagjald.
Styrkir geta þannig verið þess eðlis að þeir falli að tekjuöflun manns í sjálfstæðum rekstri. Ræðst það af umfangi þeirrar starfsemi sem styrkur er veittur til. Til dæmis hvort styrkþegi greiði öðrum mönnum vinnulaun eða verktakagreiðslur, hvort húsnæðis- og tækjakostnaður sé verulegur vegna starfseminnar og hvort styrkþeginn teljist að öðru leyti og í almennum skilningi vera með sjálfstæðan rekstur.
Séu þessir þættir fyrir hendi ber styrkþeganum að reikna sér endurgjald af starfseminni.
Ríkisskattstjóri hefur ekki sett sérstakar reglur um reiknað endurgjald hjá styrkþegum enda falla styrkirnir sem fyrr segir að almennum rekstrartekjum ef svo ber undir og skilyrðum þar um er fyrir að fara. Slíkt er þó ekki mjög algengt...
Án þess að afstaða sé tekin til þess ágreiningamáls sem tilgreint er í bréfi yðar nú skal hér á það bent að í samræmi við framanritað ber ekki að greiða tryggingagjald af styrkjum sem veittir eru vegna fræðistarfa nema þeir séu frá launagreiðandanum og í tengslum við starf launamanns í hans þágu.
Styrkir í sjálfstæðri starfsemi mynda sem slíkir ekki stofn til tryggingagjalds."
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og synjun á framlengingu greiðslna í fæðingarorlofi.
Mál þetta hefur dregist vegna gagnaöflunar og mikilla anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eiga við um foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. ffl. öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.
Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 7. gr. ffl. er starfsmaður samkvæmt lögunum hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skil á tryggingagjaldi.
Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til starfsmanns í fæðingarorlofi sem er í launuðu starfi í annarra þjónustu skal nema 80% af meðaltali heildarlauna, þegar foreldri er sjálfstætt starfandi, skal miða við 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af. Í báðum tilvikum skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 13. gr. ffl. og 2. og 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.
Kærandi ól barn 14. ágúst 2001. Réttur hennar til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er bundinn því skilyrði að hún hafi verið í samfelldu starf í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Þær greiðslur sem kærandi fékk sem launþegi á framangreindu sex mánaða tímabili, veita henni ekki rétt til greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði þar sem ekki verður litið svo á að hún hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði í annarra þjónustu, sbr. 2. mgr. 7. gr. ffl. og 4. gr. reglugerðarinnar, með hliðsjón af þeim greiðslum.
Þá kemur til skoðunar hvort kærandi hafi átt rétt til fæðingarorlofs sem sjálfstætt starfandi foreldri, sbr. skilgreiningu 3. mgr. 7. gr. ffl. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi ekki og var ekki gert að greiða tryggingagjald af þeim greiðslum sem hún fékk sem styrki vegna fræðistarfa. Þar af leiðandi fellur hún ekki undir framangreinda skilgreiningu laganna. Með hliðsjón af því hefur hún ekki öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi, sem sjálfstætt starfandi foreldri.
Kærandi hafði óskað eftir framlengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda á meðgöngu. Réttur til framlengingar á greiðslum í fæðingarorlofi kemur ekki til álita þar sem slíkur réttur stofnast eingöngu þegar foreldri uppfyllir skilyrði þess að fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 17. gr. ffl.
Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði né rétt til framlengingar fæðingarorlofs og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Guðný Björnsdóttir, hdl.
Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri
Jóhanna Jónasdóttir, læknir