Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 19/2016

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 19/2016


Ár 2016, þriðjudaginn 23. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 8/2016; kæra A, dags. 2. febrúar 2016. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 

I.

 

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kæranda var birt ákvörðun um ákvarðaða leiðréttingarfjárhæð og ráðstöfun hennar 5. júní 2015. Ákvörðuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var 462.338 kr. og myndaði hún sérstakan persónuafslátt hjá kæranda, sbr. 12. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærandi samþykkti leiðréttingu samdægurs og var framkvæmd hennar jafnframt lokið sama dag.

Þann 24. júní 2015 sendi kærandi erindi til ríkisskattstjóra í gegnum tölvupóst og óskaði eftir að leiðréttingarfjárhæð hennar færi til greiðslu á láni hennar og eiginmanns hennar nr. 1. Ítrekaði hún erindið þann 20. ágúst 2015 og fékk þau svör frá ríkisskattstjóra að erindi sem hefðu borist eftir samþykki leiðréttingar yrðu afgreidd þegar afgreiðslu óbirtra mála yrði lokið.

Með erindi til úrskurðarnefndar, dags. 2. febrúar 2016, leitaði kærandi svara við því hver afdrif fyrra erindis hennar hefðu verið. Eftir að hún hafði verið upplýst um að mál hennar væri ekki til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni áframsendi kærandi erindi sín til ríkisskattstjóra til nefndarinnar og sendi frekari upplýsingar um málið. Staðfesti hún að líta ætti á erindi hennar sem kæru til nefndarinnar. Gerði hún sömu kröfur og hún hafði áður gert til ríkisskattstjóra.

Úrskurðarnefndin sendi tvö erindi til ríkisskattstjóra 4. og 8. febrúar 2016 um stöðu máls kæranda þar. Þann 8. febrúar 2016 upplýsti ríkisskattstjóri að litið væri á erindi kæranda til embættisins sem „athugasemd eftir samþykki“ sem enn væri til skoðunar.

 

II.

 

Ágreiningsefni máls þessa snýr að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014. Fyrir liggur að kærandi samþykkti ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun þann 5. júní 2015 en gerði síðan kröfu til ríkisskattstjóra um breytingu hennar 24. sama mánaðar. Að þessu athuguðu verður að telja að ríkisskattstjóra hafi verið rétt og skylt að líta á erindi kæranda sem beiðni um endurupptöku, enda bar erindið það með sér efni sínu samkvæmt, sbr. 2. mgr. 10. gr., 13. gr. laga nr. 35/2014 og 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var frá ríkisskattstjóra og bárust úrskurðarnefndinni þann 8. febrúar 2015 er ljóst að embættið gerði það. Jafnframt liggur fyrir að endurupptökubeiðni kæranda er enn þá óafgreidd hjá embættinu.

Við aðstæður sem þessar rofnaði kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar þann 25. júní 2015, en tekur að líða að nýju frá þeim tíma þegar niðurstaða ríkisskattstjóra um endurupptöku er tilkynnt kæranda, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt framansögðu og í samræmi við réttaráhrif endurupptökubeiðna er máli kæranda vísað frá úrskurðarnefndinni og gögn sem hafa borist úrskurðarnefnd framsend ríkisskattstjóra þar sem embættið hefur til meðferðar beiðni um endurupptöku.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 

            Kærunni er vísað frá úrskurðarnefndinni og gögn sem hafa borist nefndinni send ríkisskattstjóra.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta