Mál nr. 373/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 373/2023
Miðvikudaginn 13. desember 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 13. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. júlí 2023 um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn 12. júlí 2023 sótti kærandi um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. ágúst 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júlí 2023, var umsókninni synjað með þeim rökum að samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá sé aðeins um eina íbúð að ræða en fjórir einstaklingar séu skráðir með lögheimili þar samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. júlí 2023. Með bréfi, dags. 2. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2023, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin hafi ákveðið að rannsaka málið frekar og afla nýrra gagna og því væri óskað eftir frávísun málsins. Með bréfi, dags. 22. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar ríkisins. Í tölvupósti kæranda 21. september 2023 kemur fram að hann ætli ekki að leggja fram umbeðin gögn. Með bréfi, dags. 25. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð stofnunarinnar vegna kærðrar ákvörðunar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dag. 30. október 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærður sé úrskurður Tryggingastofnunar ríkisins um að hafna beiðni kæranda um heimilisuppbót.
Eins og komið hafi fram í skýringum með umsókn hafi kærandi neyðst til að skrá sig til lögheimilis hjá dóttir sinni í B en þar hafi hann í rauninni aldrei átt heima.
Undanfarin þrjú ár hafi kærandi búið í frístundahúsi sínu að D. Þjóðskrá hafi neitað honum um lögheimilisskráningu þar sem það sé svokallað frístundahús. Persónulega viti kærandi af einstaklingi í sömu stöðu og hann sé í og sá einstaklingur hafi með leiðindum haft betur gagnvart Tryggingastofnun í nákvæmlega svona máli.
Í athugasemdum kæranda frá 21. september 2023 kemur fram að hann hafi sent bréf til Tryggingastofnunar sem hann hafi haldið að yrði framsent nefndinni. Þar hafi kæranda svarað kröfum Tryggingastofnunar sem honum finnist óaðgengilegar.
Í bréfinu hafi í fyrsta lagi komið fram að það séu frekar ótrúlegar kröfur að kærandi eigi að skrá sig heimilislausan í þjóðskrá til að fá þá uppbót á ellilífeyri sem hann hafi talið sig eiga rétt á. Kærandi myndi þá hvergi vera með lögheimili, sem trúlega myndi skerða ýmis réttindi hans. Í öðru lagi segi að kærandi hafi engin afskipti haft af prestum og þurfi trúlega ekki þeirra þjónustu fyrr en yfir ljúki. Í þriðja lagi sé kærandi frekar heilsuhraustur og hafi ekki haft not fyrir félagsþjónustu sveitarfélags enn sem komið sé og efist um að fá neina aðstoð þar að sinni. Í fjórða lagi séu einu afskipti lækna þau að hann hafi veikst síðastliðinn vetur og hafi þá verið sóttur af sjúkraflutningum frá E í D þar sem hann búi.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. ágúst 2023, kemur fram að kærð sé ákvörðun um að synja kæranda um heimilisuppbót.
Kærandi hafi tekið fram í kæru að hann búi ekki hjá dóttur sinni þar sem hann sé skráður með lögheimili, heldur í frístundahúsi sínu að D og hafi gert undanfarin þrjú ár. Tryggingastofnun telji því að ástæða sé til að rannsaka málið nánar og óska eftir gögnum frá kæranda varðandi þetta.
Þar sem Tryggingastofnun hafi þá tekið málið upp að nýju til nánari rannsóknar óskaði stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísaði fyrirliggjandi kæru frá.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. október 2023, kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um heimilisuppbót. Með greinargerð stofnunarinnar, dags. 18. ágúst 2023, hafi verið óskað eftir frávísun málsins þar sem stofnunin hafði tekið málið upp að nýju og hafi óskað eftir nánari upplýsingum frá kæranda til að meta rétt hans til heimilisuppbótar. Engin gögn hafi borist frá kæranda og hafi úrskurðarnefndin óskað eftir efnislegri greinargerð vegna málsins.
Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri komi fram að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.
Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð segi að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Í 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur.
Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um heimilisuppbót með umsókn, dags. 12. júlí 2023, og hafi óskaði eftir greiðslum tvö ár aftur í tímann.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. júlí 2023, hafi kæranda verið synjað um heimilisuppbót þar sem talið hafi verið að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum. Í bréfinu hafi komið fram að samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá væri aðeins um eina íbúð að ræða en fjórir einstaklingar væru skráðir með lögheimili þar samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá.
Í kæru komi fram að kærandi búi ekki hjá dóttur sinni í B, þar sem hann sé skráður með lögheimili, heldur í frístundahúsi sínu að D og hafi gert undanfarin þrjú ár. Með hliðsjón af þessum upplýsingum hafi Tryggingastofnun haft ástæðu til að rannsaka málið nánar og óska eftir gögnum frá kæranda til að meta rétt hans til greiðslna heimilisuppbótar. Með bréfi, dags. 18. ágúst 2023, hafi Tryggingastofnun óskað eftir því að kærandi sendi inn staðfestingu opinbers starfsmanns, eins og til dæmis læknis, prests, félagsráðgjafa eða frá starfsmanni félagsþjónustu sveitarfélagsins, á því hvar hann raunverulega búi og að hann sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra. Engin gögn hafa borist frá kæranda varðandi þetta.
Í málinu sé kærandi skráður samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá til lögheimilis hjá dóttur sinni í B.
Eins og segi í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri teljist einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja framkominni umsókn kæranda um heimilisuppbót sé byggð á þeim grunni að um fjárhagslegt hagræði sé að ræða af sambýli feðginanna að skráðu lögheimili þeirra í B.
Samkvæmt 46. gr. laga um almannatryggingar hvíli sú rannsóknarskylda á Tryggingastofnun að stofnunin skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt sé tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Einnig sé rannsóknarregla stjórnvalds sérstaklega tilgreind í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í 47. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um upplýsingaskyldu umsækjanda og greiðsluþega og sé þar tiltekið sérstaklega að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun í máli umsækjanda.
Eins og framangreind ákvæði kveði á um þá sé aðila rétt og skylt að veita þær upplýsingar sem stofnuninni sé nauðsynlegt að fá svo unnt sé að taka ákvörðun í máli viðkomandi. Þegar aðili sæki um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvaldi geti stjórnvald beint þeim tilmælum til hans að hann veiti upplýsingar og leggi fram þau gögn sem nauðsynleg séu og með sanngirni megi ætla að hann geti lagt fram án þess að það íþyngi honum um of. Verði hann ekki við þeim tilmælum verði hann að bera hallann af því.
Þar sem kærandi haldi því fram að hann búi ekki þar sem hann sé skráður með lögheimili, heldur að D, verði hann að útvega staðfestingu á að hann búi þar og sé þar einn um heimilisrekstur, sbr. bréf, dags. 18. ágúst 2023. Slík staðfesting sé nauðsynleg svo Tryggingastofnun geti tekið efnislega rétta ákvörðun um rétt kæranda til heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 13. gr. laganna og 47. gr. laga um almannatryggingar. Þar sem kærandi hafi ekki útvegað slíka staðfestingu sem varpað geti ljósi á málið verði kærandi að bera hallann af því.
Tryggingastofnun standi því við ákvörðun um synjun heimilisuppbótar til kæranda sem byggist á skráningu kæranda í þjóðskrá og fari fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 13. júlí 2023 um synjun heimilisuppbótar til kæranda verði staðfest fyrir nefndinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur heimilisuppbótar.
Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1200/2018, með síðari breytingum, var sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð þar sem segir:
„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan.“
Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð skal beita IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Í 46. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er fjallað um að Tryggingastofnun skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega gagnvart Tryggingastofnun ríkisins er fjallað um í 47. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að veita upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt o.fl. í máli viðkomandi.
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð að vera uppfyllt. Umsókn kæranda frá 12. júlí 2023 um heimilisuppbót var synjað á þeim grundvelli að samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá væri einungis um eina íbúð að ræða þar sem fjórir einstaklingar væru skráðir þar með lögheimili samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Undir rekstri málsins var kæranda gefinn kostur á að leggja fram staðfestingu þess efnis að hann væri skráður „Ótilgreindur“ í þjóðskrá auk staðfestingar opinbers starfsmanns, til dæmis læknis, prests, félagsráðgjafa eða starfsmanni félagsþjónustu sveitarfélagsins, þar sem fram kæmi hvar hann raunverulega byggi og að hann væri einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra. Í svari kæranda segir að hann ætli ekki að skrá sig heimilislausan í þjóðskrá þar sem að það myndi skerða ýmis réttindi hans, hann hafi ekki haft nein afskipti af prestum eða félagsþjónustu og takmörkuð afskipti af heilbrigðisþjónustu.
Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi ásamt fimm öðrum einstaklingum með skráð lögheimili að F. Í umsókn kæranda um heimilisuppbót kemur fram að hann hafi í þrjú ár búið í sumarhúsi að D. Fyrir liggur að í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. ágúst 2023 var kæranda gefinn kostur á að leggja fram gögn sem staðfesti að kærandi byggi í sumarhúsi sínu að D. Kærandi lagði ekki fram umbeðin gögn. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu hvorki fullnægjandi til þess að sýna fram á að kærandi sé ekki búsettur að F né að hann búi einn og sé einn um heimilisrekstur. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá er því staðfest.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að hann geti óskað endurskoðunar á máli sínu leggi hann fram gögn því til stuðnings að hann búi að D.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um heimilisuppbót, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir